Orgelharmóníum í kirkjum austanfjalls

Orgelharmóníum í kirkjum austanfjalls

 

 

Orgelharmóníum í kirkjum austanfjalls, söngmenn ofl.

eftir handriti Jóns Pálssonar

Eins og ég hefi að vikið á öðrum staði var orgel-Harmonium notað í fyrsta sinni í Stokkseyrarkirkju 4. júní 1876 og vígt af sóknarprestinum, séra Jóni Björnssyni, er það ár tók við prestsþjónustu austur þar.  Hljóðfæri þetta var fengið fyrir atbeina sóknarnefndar Stokkseyrarkirkju og milligöngu I.R.B. Lefoliis stórkaupmanns.  Sóknarnefndina skipuðu þá þessir menn: Guðmundur Thorgrímsen verslunarstjóri, Þorleifur Kolbeinsson kaupmaður á Stóru Háeyri, Grímur Gíslason í Óseyrarnesi (móðurbróðir minn), Páll Eyjólfsson bóndi í Íragerði (móðurafi Páls Ísólfssonar), en kona hans var Þorgerður Gísladóttir (móðursystir mín), og Páll Jónsson hreppstjóri á Syðra Seli (faðir minn).  Hinn 27. janúar 1876 skrifaði sóknarnefnd þessi  ávarp nokkurt til sóknarmanna og annarra er áhuga kynni að hafa fyrir því, að hljóðfæri væri keypt til kirkjunnar.  Á ég bréf þetta og söfnunarlista alla, og er þar gert ráð fyrir, að hljóðfærið muni kosta kr. 400.- en að lokinni söfuninni kom í ljós að 21 aura vantaði upp á þá upphæð, því loforð fengust fyrir kr. 399,98 aura, eins og söfnunarlistarnir sýna.  Þá getur og bréf þetta þess, að ungfrú Sylvía, dóttir Thorgrímsen muni kenna Bjarna Pálssyni (bróður mínum, sem þá var aðeins 17 ára að aldri) ókeypis að leika á hljóðfæri þetta, og að hann sé bæði fús til þess og mjög efnilegur.  Hljóðfærið sem Bjarni lærði á og vígt var 4. júní 1876, hafði flutzt til Eyrarbakka haustið áður, eða 1875, því hinn 14. október það ár, sat ég allan þann dag hjá Bjarna úti í “Húsinu” á Eyrarbakka við hlið hans, meðan hann var að æfa sig og þótti viðfangsefni hans að því sinni væru einföldustu æfingar, hlustaði ég svo hugfanginn á þær að ég vissi naumast í þennan heim né annan.

En að ávarp sóknarnefndarinnar kemur eigi fram fyrri en þremur mánuðum síðar, eða 27. janúar 1876, eins og áður er sagt, kom af því, að sóknarnefndin vildi sjá hvernig til tækist með organistann, enda mun hana hafa grunað, að nýjung þessari mundi eigi verða sem best tekið af öllum þorra sóknarmanna og átti hún þar kollgátuna í því efni, því andstæðan varð bæði mikil og megn: Mótstöðumennirnir töldu, “að með því að fá orgel í kirkjuna væru menn “að skemmta þeim gamla o.s.frv.”  rak þetta svo langt, að þeir sem meðmæltir voru og orgelkaupunum urðu að vitna til ritningarinnar um það (einkum síðasta sálmsins í Davíssðssálmum), að hljóðfærasláttur væri Guði þóknanlegur, en þar segir: “Lofið Guð í helgidómi hans,… Lofði hann með lúðurhljómi, lofið hann með hörpu og gígju! Lofið hann með bumbum og gleðidansi, lofið hann með strengleik og hjarðpípum. Lofið hann með hljómandi skálabumbum, lofið hann með hvellandi skálabumbum! Allt sem andardrátt hefur, lofi ????, Hallelúja”!”

Að vísu vissu menni eigi hvernig áhald þetta (orgelið) var “innréttað”, hvort það hefði nokkuð af þessum “hvellandi skálabumbum”, hörpum eða lúðrum og vildu þeir því eigi  að óreyndu falla frá hinni fyrri skoðun sinni, jafnvel þótt enga staðfestingu gæti þeir fengið fyrir henni með því að vitna í ritninguna eins og hinir gerðu.  Loks kom svo að því að allir þeir, er mesta andúð sýndu í máli þessu urðu bestu stuðningsmenn þess.  Hér var aldrei um marga menn að ræða, en þeir nutu sín vel meðan misklíð þessi stóð yfir, og voru all skelleggir með köflum.  Þetta mun sóknarnefndin hafa séð og viljað varast og því eigi hafist handa fyrr en séð var, að allt mundi vel fara.  Þeir, sem mest létu af hendi rakna við samskot þessi, gáfu 20 kr. aðrir 10 kr en enginn minna en sem svaraði einu ríkismarki, 33 aurum og þeir voru flestir af þessu sést að þátttakan hefur verið mikil og góður vilji almennur.  Árið áður kom orgel í Arnarbæliskirkju og var það fyrsta orgelið sem kom í kirkju í Árnessýslu og í sveitir austan fjalls.  Organsit þar var prestkonan sjálf, frú Guðrún Guðjohnsen, kona sér Jens Pálssonar.

Veturinn 1878-79 eignaðist Bjarni sál. bróðir minn lítið harmóníum, var það frá E.B.Wood í Boston.  Þá um veturinn var Einar Einarsson frá Laxárdal í Hrunamannahreppi (síðar organisti í Hafnarfirði) með orgelkríli þetta á heimili mínu að Syðra-Seli við nám sitt hjá Bjarna og hefði ég þá átt kost á því að læra á hljóðfæri þetta og njóta tilsagnar bróður míns, en áhuginn fyrir því var þá eigi orðinn svo mikill , að ég notaði mér þetta góða tækifæri til þessa.  Það var ekki fyrr en 1881, að ég, fyrir atbeina móður minnar og hjálp Bjarna bróður míns byrjaði hjá honum í því námi og árið eftir var ég orðinn svo “fær” að ég var látinn “spila í Stokkseyrarkirkju við og við, þegar Bjarni var að einhverju leyti forfallaður.  Loks kom svo að því að þegar hann féll frá 24. febr. 1887, varð ég að taka við því starfi eftir hann.  Hvenær “aftansöngvarnir” byrjuðu í Stokkseyrarkirkju man ég ekki, en það mun hafa verið nálægt 1880..  Voru þá alltaf sungin hin ágætu sálmalög (á gamlárskvöld), Nú sígur grund og bjarkablómi (eftir N.C.Gade) og Við sérstök takmörk tíða, eftir J.P. Schultz) en hið síðara nú komið inn í kirkjusöngvana, en hið síðara því miður ekki og er það sennilega vegna þess að það er hvergi til nema þríraddað.

Árið 1883, hinn 11. nóv. var hátíðarguðsþjónusta haldin í Stokkseyrarkirkju í minningu þess að þá voru liðin 400 ár frá fæðingu Martins Lúters og var messuupphafssálmurinn þá nr. 1 í sálmabókinni, “Vé allir trúum á einn Guð” og í lok guðsþjónustunnar sálmurinn nr. 420 (Vor Guð er borg á bjargi traust) er þá mun hafa verið í eldri sálmabók eða viðbæti og byrjað þannig: Óvinnanleg borg er vor guð, eða er það lagboðinn nú og hinn sem er verið hefir.

Þegar kirkja var reist á Eyrarbakka og vígð 14. des. 1890, var Stokkseyrarsókn skift í tvær kirkjusóknir, Stokkseyrar og Eyrarbakka.  Við kirkjuvígslu þessa voru 13 sálmar sungnir og var messuupphafssálmurinn nr. 595 í sálmabókinni, Ó maður, hvar er hlífðar skjól.  Hallgrímur biskup Sveinsson hélt vígsluræðuna, en sóknarpresturinn, séra Jón Björnsson var fyrir altari fyrri hluta guðsþjónustunnar og flutti hann einnig stólræðuna, en séra Sæmundur Jónsson prófastur í Hraungerði þjónaði fyrir altari síðari hluta þessara tilkomumiklu vígsluhátíðar.  Var það þá, að ég heyrði hina undurfögru söngrödd hans í síðasta sinni og man ég eigi til að ég hafi heyrt fegurri tóna (tenor) úr neins manns barka fyrr eða síðar; það voru flagelotte tónar hinir fegurstu, háir mjög og hreinskærir.  Fegustru og dýpstu bassatóna hef ég heyrt til þessara þriggja manna: Sigurðar Eiríkssonar regluboða, föður biskupsins, herra Sigurgeirs Sigurðssonar, Guðmundar Oddgeirssonar (d. í Buenos Eyrs 5. des. 1920) og Jóns Jónassonar Helgasonar organista.  Dýpstu  tónar þeirra hvers um sig náðust niður á kontra A – hreinir og fagrir.  Tveir hinir fyrrnefndu (S.E. og G.O.) sungu við vígsluathöfnina 14. des. 1890, hinni fyrri söng bassa, hinn síðari millirödd, þá aðeins 13 ára og mundu þeir hvor um sig hafa nægt hvor fyrir sína rödd: svo fyllandi voru raddir þeirra og hljómfagrar.

Úr því að ég var að minnast á raddmenn, einkum bassa, mætti benda á auk þeirra er hér eru áður nefndir, þá Litla hrauns feðga, Þórð gamla Guðumundsson kammerráð og sonur hans, Þórð lækni, er fór til Ameríku, og sér Oddgeiri prests í Vestmannaeyjum svo og Lambertsen og Jón Guðmundsson frá Hóli hér í Reykjavík.  Til þessara tveggja síðastnenfndu heyrði ég aðeins einu sinni hér í Dómkirkjunni við messugjörð og þótti mikið til koma; til hinna heyrði ég oft og fannst mikið um.

Jú, á síðari árum var Sigurður Hjörleifsson múrar lengi aðstoðarmaður minn hér við Fríkirkjuna og er það enn hjá Páli Ísólfssyni.  hefir Sigurður mikinn bassaróm og góðan.

Sennilega er hér nú í uppsiglingu söngmaður góður, þar sem er Guðmundur Jónsson, kaupmanns Þorvarðarsonar.  Hefi ég aðeins heyrt hann í útvarpinu og svo í Jóhannesarpassíunni.  Rödd Guðmundar er feikna mikil, eigi einungis á djúpu tónunum, hefur og á háum.  Þegar hann syngur í kórum, er það eins og höfuðregistur í orgeli bætist við, t.d. bordun eða ..trompet, svo fyllandi er röddin og samþýðleg öðrum röddum.  Þannig er og rödd Gísla Guðmundssonar bókbindara, sem ávalt hagar henni svo, að hún skeri sig aldrei úr, en fyllir svo upp í raddir annarra, hversu margir sem syngja, eins og væri að Graudjenrödd í orgeli sem þá komi til greina.

Vitanlega gæti ég haldið þannig áfram að minnast fjölda ágætra söngmanna, sem ég hefi heyrt og meðal kvenna þá einna helst þessar:  “Hólssystra” þ.e. Jónu og Halldóru Þórðardætra frá Hóli, systra Símonar á Hóli, Margrétar Halldórsdóttur trésmiðs Gíslasonar, sem Jón Jónasson Helgasonar sagði um að hann hefði aldrei heyrt jafn milda og fagra millirödd sungna sem af henni.  Þá voru þar frú E. Nielsen á Eyrarbakka, Guðmunda dóttir hennar, frú Kristín Blöndal, kona Ásgeirs á Eyrarbakka, Elín Sigurðardóttir, kona Kristjáns Jóhannessonar, Ásta og Halldóra, dætur Guðmundar bóksala á Eyrarbakka, hver um sig ágætar söngkonur, svo Eygló Gísladóttir, Finnssonar, Sigríður Ástbjarnardóttir, kona Sigurjóns á Álafossi, Sigríður, dóttir Þorsteins Jónssonar járnsmiðs og Sigríður, dóttir Jóns Þórðarsonar ólst meðal hina bestu söngkvenna, að ógleymdri frú Elísabetu Jónsdóttur frá Grenjaðarstað og Vilborgu systur hennar.

Svo ég hverfi aftur að kirkjuhljóðfærunum get ég upplýst, að orgelharmóníum, mjög vandað kom í Stóra Núpskirkju árið 1909, útvegaði ég það frá M. Höringel í Leipzig-Leutzals og er það enn við lýði.  Hljóðfæri frá verksmiðju þessari útvegaði ég í margar kirkjur landsins, en hvort hljóðfæri þetta, í Stóra Núpskirkju var hið fyrst er þangað kom, veit ég ekki, ætle ég líklega að hljóðfæri hafi verið komið þangað áður, en árið 1886 var þar ekkert hljóðfæri, enda komu nokkrir hreppamenn það ár til Bjarna sál. bróður míns til þess að læra að syngja lögin við sálmana úr sálmabók þeirri er þá var að koma út eða komin út.  Voru piltar þessir úr sóknum séra Valdemars Briem á stóra Núps- og Hrepphólasóknum, 9 eða 10 að tölu.  Eigi man ég til að aðrir voru úr Hrunasókn, en 1 eða 2 og úr Biskupstungum enginn.

Hvenær hljóðfæri kom í Torfastaðakirkju veit ég ekki, en sumaið 1889, þegar ég var kaupamaður á Vatnsleysu og eins 1890 var það komið, því ég spilaði á það bæði þessi sumur við messugerðir hjá séra Magnúsi Helgasyni.

Leave a Reply

Close Menu