Minnistæður róður
Dagurinn 13. apríl 1926 er mörgum Stokkseyringi minnistæður. En einkum er nóttin eftir, aðfaranótt hins 14., í fersku minni, því að hún varð flestum vökunótt, blandin ugg og kvíða. Þá lágu úti 6 bátar frá Stokkseyri með samtals 48 manna áhöfn í hamslausu veðri og stórsjó, en fólk í landi var milli vonar og ótta um afdrif þeirra. Um þennan atburð hefir Sigurður Heiðdal, sem þá var skólastjóri á Stokkseyri, ritað skilgóða frásögn, og er það, sem hér segir byggt á henni, sumpart orðrétt, en sumpart nokkuð stytt.[note]Brim og boðar II, Rvík 1952, bls. 211-219.[/note]
Þennan morgun klukkan 4-5 reru 6 bátar frá Stokkseyri vestur á svonefndar Háaleitisforir, sem eru hér um bil miðja vega milli Þorlákshafnar og Selvogs. Voru þeir að vitja um þorskanet, sem þeir áttu vestur þar. Vindur var strekkingshvass af norðaustri, en vindlegt mjög til austurfjalla, en ekki brim. Talin er leið þessi í mesta lagi tveggja stunda ferð í logni slíkum bátum sem hér um ræðir. Ferðin vestur gekk mjög vel, enda var undan vindi og straumi að fara. Skamma stund höfðu þeir verið við netadráttinn, er hvessa tók mjög skyndilega á suðaustan, og jafnframt setti í kviku mikla, sem stækkaði óðum. Urðu þeir brátt að hætta við að draga netin og lögðu af stað heimleiðis til Stokkseyrar. Bátar þessir voru:
„Aldan“, formaður Þórarinn Guðmundsson,
„Baldur“, formaður Bjarni Sigurðsson,
„Íslendingur“, formaður Ingimundur Jónsson,
„Stakkur“, formaður Kristmann Gíslason,
„Svanur“, formaður Friðrik Sigurðsson og
„Sylla“, formaður Jón Sturlaugsson.
Stærð bátanna var frá 9-12 smálestir og vélar í þeim um 15-20 hestafla. Áhöfn hvers báts var 8 menn. Þess skal getið, að auk Stokkseyrarbátanna voru þrír bátar frá Eyrarbakka, sem áttu net á sömu slóðum og lentu í veðrinu.
Heima á Stokkseyri fór veður Ört versnandi, er kom fram á daginn. Um hádegi var talið ólendandi, og enn sást ekki til neins bátsins, enda dimmdi nú óðum í lofti af mistri og skýjasorta. Um klukkan 4 sáu menn einhverjum bátum bregða fyrir stöku sinnum uppi á öldutoppum úti á hafinu. Var nú útlitið ekki glæsilegt. Veður og sjór fór síversnandi. Hvergi var hægt að leita afdreps nema í Vestmannaeyjum eða að hleypa vestur um Reykjanes. Gerðust menn nú mjög uggandi um mennina á sjónum, því að vita mátti, að mjög harðsótt yrði að brjótast til Vestmannaeyja á móti slíku veðri í náttmyrkri og stórsjó og engu meiri von um björgun, þótt reynt yrði að komast vestur fyrir Reykjanes.
Það hefir verið sagt, að meira hugrekki þurfi til að bíða heima en að fara út í stríðið til að berjast. Hvað sem um það kann að vera, er víst, að mjög reyndi á andlegt þrek og þolgæði fólksins í landi á Stokkseyri þetta kvöld. Stormurinn hvein og lamdi og hristi húsin, og brimið kvað undir sínu drynjandi og hvæsandi öskri, og í náttmyrkrinu glórði í ógnandi skýjaþykknið. Það var sízt að undra, þótt mörgum liði illa, er þeir hugsuðu til bátanna með ástvinunum innanborðs einhvers staðar úti á reginhafi. En þeir, sem í landi voru, lögðu þó ekki hendur í skaut eða biðu aðgerðarlausir með víli og voli þess, er verða vildi. Þvert á móti leituðu menn eins hugar allra þeirra úrræða, sem tiltæk voru og verða máttu til bjargar. Ef það hefði verið látið undir höfuð leggjast, er hætt við, að verr hefði farið og minningar þessarar nætur verið beiskari.
Í byrjun febrúar þetta ár hafði loftskeytastöðin á Melunum tekið til starfa.
Datt mönnum nú það snjallræði í hug að leita til hennar og biðja hana að ná sambandi við einhverja togara og fara fram á við þá að koma bátunum til hjálpar. Eftir nokkurn tíma komu þær fréttir, að tveir togarar væru á leið utan af hafi til að líta eftir bátunum. Nokkru seinna sást ljósum af skipum bregða fyrir úti fyrir Stokkseyri. Togararnir, sem komu til hjálpar, voru „Belgaum“, og var skipstjóri á honum Aðalsteinn Pálsson, og „Hannes ráðherra“, en skipstjóri á honum var Guðmundur Markússon.
Þótt menn vissu, að togararnir hefðu komið á vettvang, var enn óvíst, hvort þeir fyndu bátana. Síminn á Stokkseyri var opinn alla nóttina og oft mannkvæmt hjá símstjóranum, Guðrúnu Sigurðardóttur, og föður hennar, Sigurði Einarssyni, sem bæði sýndu mikinn dugnað við að koma framangreindum samböndum á um símann og loftskeytastöðina. Einhvern tíma um kvöldið fréttist, að togararnir hefðu fundið alla Stokkseyrarbátana og leiðbeindu þeim úti á hafinu. Eigi að síður var mönnum ljóst, að hættan var ekki liðin hjá, því að veðrið hélzt enn og hafrótið var afskaplegt.
Nú víkur sögunni til þess, er á sjónum gerðist. Eins og áður er sagt, urðu bátarnir að hætta við að draga netin um morguninn, því að alltaf hvessti og sjór óx, og lögðu þeir þá af stað heimleiðis. Þegar komið var austur á móts við Hafnarnes, var komið hvassviðri og stórsjór. Um klukkan 4 síðdegis komu bátarnir austur að Stokkseyrarsundi eftir 8 stunda barning, sem var annars tveggja tíma ferð í logni. Var með öllu ólendandi á Stokkseyri, þótt háflæði væri, en mjög er sjaldgæft, að hvergi sjáist skarð í brimgarðinn um stórstraumsflóð. Var nú ekki um annað að gera en halda bátunum frá landinu, og var ekki meira en svo, að þeim tækist að andæfa, þótt vélin væri í fullum gangi. Ekki vissu bátshafnirnar, er þær komu að sundinu, hvort menn í landi hefðu gert nokkrar ráðstafanir þeirra vegna.
Þegar bátarnir höfðu legið nokkra stund fram undan Stokkseyri og farið var að skyggja, komu tveir togarar, „Belgaum“ og „Hannes ráðherra“, til þeirra. Um þær mundir, sem þeir fengu kallið um að koma bátunum til hjálpar, voru þeir staddir vestur á Selvogsbanka. Þeir voru hættir að toga vegna ofviðris og höfðu gengið frá öllu á þilfari. Brugðu þeir skjótt við, og er þeir komu á vettvang, reyndu þeir að hafa tal af mönnum á bátunum, en veðurofsinn var svo mikill, að þess var enginn kostur. Var nú samkvæmt bendingum frá togurunum haldið til hafs. Fylgdu bátarnir eftir og létu ljós togaranna leiðbeina sér. Hins vegar höfðu bátarnir engin ljós sjálfir, því að engin leið var að halda olíuljósi lifandi í þessu hafróti, en um önnur ljós á bátunum var ekki að ræða. Mikillar varúðar varð að gæta til þess að komast hjá árekstrum milli bátanna. Jók það einnig hættuna, að einn báturinn, „Svanur“, sem hafði orðið fyrir vélarbilun, var dreginn af öðrum togaranum þarna í myrkrinu.
Eins og nærri má geta, gekk á ýmsu fyrir bátunum í veðurofsanum um nóttina. Upp úr miðnætti tók að lægja storminn. Strax í birtingu um morguninn lagði „Hannes ráðherra“ af stað til Vestmannaeyja með vélbátinn „Svan“ í eftirdragi, og með fylgdu bátarnir „Stakkur“ og Sylla“. Þegar formennirnir á hinum bátunum höfðu gengið úr skugga um það, að enn var haugabrim við land, héldu þeir allir þrír til Vestmannaeyja í fylgd með „Belgaum“, sem varð að draga „Íslendinginn“, vegna þess að hann var orðinn uppiskroppa með olíu. Skildi „Belgaum“ ekki við þá fyrr en inni á Vestmannaeyjahöfn. Hafði þá róðurinn tekið 36 klukkutíma hjá þeim, sem síðastir komu á land í Vestmannaeyjum. Í Eyjum var hrakningsmönnum tekið með kostum og kynjum, eins og bræðrum úr helju heimtum.
Á fjórða degi frá því, að bátarnir lögðu af stað í þennan eftirminnilega róður, heldu þeir frá Vestmannaeyjum heim á leið. Var þá norðanhvassviðri. Þegar til Stokkseyrar kom, var þar svo mikið brim, að einum báti aðeins, „Baldri“, tókst að skjótast inn um sundið. Hinir bátarnir héldu til Þorlákshafnar og biðu þar um nóttina. Morguninn eftir var loks orðið svo brimlítið, að þeir gátu lent á Stokkseyri.
Af Eyrarbakkabátunum þremur er það að segja, að einn komst til Vestmannaeyja með hjálp togara, annar til Reykjavíkur á sama hátt, en hinn þriðji slitnaði aftan úr togara úti fyrir Grindavík og týndist, en togarinn hafði tekið skipshöfnina um borð og flutti hana til Reykjavíkur. Það kraftaverk hafði gerzt, að allir sjómennirnir frá Stokkseyri og Eyrarbakka, 72 að tölu, náðu heilir til hafnar.
Hjálpsemi og drengileg viðbrögð skipstjóranna Aðalsteins Pálssonar og Guðmundar Markússonar voru rómuð mjög að verðleikum. Sendu eigendur bátanna á Stokkseyri hvorum þeirra í þakklætisskyni fagran silfurbikar með nöfnum þeirra og áletrun, sem minnti á þennan atburð. Almennur hreppsfundur, sem haldinn var nokkru síðar, samþykkti að greiða úr hreppssjóði síma- og loftskeytakostnað, sem leiddi af því, að símanum var haldið í sambandi við loftskeytastöðina nóttina, sem bátarnir lentu í hrakningunum.
Mér þykir vel við eiga að ljúka þessum frásögnum um sjómennskuna á Stokkseyri með hinum athyglisverðu niðurlagsorðum Sigurðar Heiðdals í greininni „Brim á Stokkseyri“, sem áður er til vitnað, en hann segir svo: „Höfuðatvinnuvegir okkar Íslendinga eru þannig, að þeir hafa löngum útheimt kjark og þrautseigju, t. d. sjósókn í ýmsum veðrum á vetrum, fjárgæzla og fjallgöngur. En atvinnugreinin, sem eg hygg, að geri mestar kröfur til viljaþreks og áræðis samfara útsjónarsemi og snarræði og er oft barátta upp á líf og dauða – það er glíman við brimsundin.“