Þórður kammerráð hafði hátt enni, loðnar augnabrúnar, fremur langt nef, beint og óbogið, augun voru bláleit og barta hafði hann hvíta, en var rakaður á vörum og höku og undir höku; fremur var hann munnvíður og huldi neðrivör hina efri nokkuð eða svo leit út, sem hann biti saman vörum nokkuð íbyggilega en brosleitur var hann jafnan og bauð af sér bezta þokka, enda var hann með afbrigðum barn góður, laus við allan rembing og hroka Hann var með hvítt hár og ósköllóttur, fyrirmannalegur og fríður sýnum.
Fegri, dýpri og meiri bassarödd hafi ég aldrei heyrt úr barka neins manns. Þegar hann söng í Stokkseyrarkirkju fannst mér gólf og veggir titra eins og væri það 16 fóta eða jafnvel 32 feta Subbass í orgeli, sem hann söng, svo mjúkt og hreint að röddin yfirgnæfði, þótt einsömul væri raddir margra manna annara, t.d. tenórraddir. Synir hans, Þórður læknir, séra Oddgeir, Þorgrímur og Sigurður voru allri einnig hinir beztu söngmenn og var séra Oddgeir líkastur föður sinum með mýkt raddarinnar en Þórður enn dýpri en grófari: Rödd hans var eins og opnað væri Bordun í orgel eða Pedal-Trompet! Svo mögnuð var rödd hans en fremur óþægileg sökum hins mikla styrkleiks, sem á henni var og beitti hann henni þó eigi illa.
Þegar séra Oddgeir giftist, var brúðkaup hans haldið að Litla Hrauni; það var að vísu lygnt og gott veður um kvöldið, en söngur þeirra bræðra var og svo Sigurðar Thorarensen frá Ásgautsstöðum heyrðist glögglega alla leið austur að Seli og er það þó um kílómeters vegalengd.
Jóhanna Lárusdóttir Knudsen, kona kammerráðsins andaðist 17. des. 1883, en Þórður Guðmundson andaðist 19. ágúst 1892 í Reykjavík.
Hans gamli Hansson, sem síðar var á Efra Seli, var um tíma vinnumaður á Litla Hrauni, ásamt konu sinni Sigríði Jónsdóttur frá Seljatungu og börnum þeirra Hannesi, Jóni og Jóhönnu.
Fyrir nokkrum árum tók maður nokkur, Sigurður Benediktsson hét hann víst, sér fyrir hendur að rita æfisögu Hannesar Hannessonar „matros“ og ber hann frú Jóhönnu illa söguna: Segir að hún hafi verð vond við Hannes, hörð við hann og kvalið hann. Frásögn þessari hefi ég mótmælt, enda vissi ég að hún var mjög orðum aukin frá því sem Hannes hefir oft sagt mér áður, en nú verið búinn að gleyma, nærri áttræður að aldri, þegar á hann hefur verið gengið með að segja sögu sína ekki sem bezta frá uppvaxtarárunum heldur sem allra reyfaralegasta til þess eins að hún yrði sem sögulegust, án þess að vera sönn. Litla Hrauns heimilið fékk orð fyrir alt… [textinn endar hér]