Magnús Ormsson Skúmsstöðum

Magnús Ormsson Skúmsstöðum

Smiðja Magnúsar var þar á hlaðinu, nokkuð vestar en Eyrarbakkakirkja stendur nú. Svo mátti segja að Magnús væri nætur sem daga í smiðju sinni; hann var smiður góður, sívinnandi og sjósóknarmaður mikill á vetrarvertíðum, en eigi var hann neitt sérstaklega aflasæll; hinsvegar var hann með betri formönnum talinn, bæði að því er að glöggskygni á veðri og sjávarlagi laut. Magnús Ormsson varmeðalmaður að vexti, gildur og samanrekinn, með hátt enni, fremur smá augu og þungar brúar, nefið var nokkuð langt, beint og í gildara lagi, hann hafði víðan munn og var alskeggjaður, á fyrri árum með jarpt skegg og hár en síðan grátt og nærri sköllótt efst á enni. Sérstaklega hafði Magnús holdugar kinnar og rauðar, nefið var einnig rauðleitt og var þetta ættareinkenni. Magnús var stilltur maður, glaðlegur í viðmóti og dálítið kýminn, án allrar græsku þó. Hann var framúrskarandi áreiðanlegur og vandaður maður, snyrtilega búinn og hinn geðfeldasti maður að sjá og reyna.

Gróa í Góubæ var ein hin indælasta og skemmtilegasta öldruð kona. Sennilega hefir hún verið fríð sýnum á yngri árum, en hún með krukkur á enni og kinnum. Ennið var hátt og hárið mikið, augun  smá og brýr þungar, nefnið beint og nokkuð gilt; Gróa var munnfríð og tók neðri vör hennar allmikið hinni efri fram (hafði „skeifu“) og fór það henni vel.Þótt Gróa sýndist vera alvarleg og nærri því stúrin, var brosið og sólskinið allt á andliti hennar eins og leiftur er brá fyrir áður en nokkuð varði, enda var hún glaðsinna mjög og góð kona, svo góð að öllum eim er hana höfðu séð einu sinni var það nóg til þess að þykja vænt um hana og þau hjón bæði.

Börn þeirra Magnúsar og Gróu líktust þeim öll mjög og voru þau þessi: Magnús sjómaður, nú (1940) búandi í Grímsstaðakoti, Fálkagötu 22. Hann er kvongaður Vigdísi Steindórsdóttur frá Stóru Sandvík. Helgi járnsmiður hér í Reykjavík, er jafnframt var vélstjóri (nú dáinn – 1918),er kvongaðist Sigríði Oddsdóttur Oddssonar gullsmiðs á Eyrarbakka. Guðlaug, er giftist Sveinbirni Erlendssyni og bjuggu þau hér að Eskihlið.  Sesselja er giftist Sigurði Ísleifssyni trésmið frá Barkastöðum og Hannes vélstjóri hér í Reykjavík, er kvongaður Helgu Guðbjarnardóttur, Eysteinssonar. Sonur þeirra er Haraldur bankabókari í Landsbankanum, er nýlega hefir lokið prófi við háskólann í Höfn í viðskiftafræði (hagfræði).

Þau Magnús og Gróa voru jafnan fremur fátæk, en með iðni, nýtni og sparsemi komust þau jafnan svo vel af, að þau voru ávalt veitandi en aldrei þiggjandi. Bæði voru þau staðföst í lund, róleg og afskiftalítil um aðgjörðir annarra og aldrei heyrði ég styggðar yrði af þeirra vörum, né eftir þeim haft.

Ýmislegt mætti um þau segja er staðfesta mundi þessa umsögn mína um þau og þá lýsa þeim betur, en ég get gert, einkum því, hversu frásneidd þau voru öllu glysi, tilgerð og tepruskap, en þetta var jafnframt einkenni flestra þeirra manna og kvenna er ég þekti þar eystra á Stokkseyri og Eyrarbakka, nú fyrir nærri 60 árum síðan.

Einhverju sinni var Magnús uppi á smiðjuþaki sínu og negldi járnplötur á þakið; voru þá börn nokkur þar að leikjum undir smiðjuveggnum og kölluðu þau hvort annað gælunöfnum eim, er þau höfðu valið hvert öðru eða voru nefnd heima hjá sér. Magnús hætti að nefna um stund og lagði eyri við því er börnin sögðu. Segir hann þá við mann einn, er þar bar að og sagði: „Hvað heita þau annars, þessi blessuð börn? Þetta er ljótu skrípanöfnin: Búlla, Dúlla, Silla, Salla, Kalli, Valli, Palli og Alli! Ekki vantar elllin. En hver veit annars hvað þau heita eða mundu heita, ef rétt væri„ og þarna kemur enn eitt nýja nafni, Búdda! jæja, það er líklega átrúnaðaguðinn þeirra allra“.

Close Menu