Hannes Hannesson Stéttum

Hannes Hannesson á Stéttum var meðalmaður á hæð, gildur nokkuð og fremur luralegur, með hátt nef, gráleit augu, ljósleitur á hár og hörund. [Kona hans var Guðleif? systir Eiríks smiðs í Móhúsum – Þessi texti er yfirstrikaður í handritinu].

Bæði voru hjón þessi fátæk, en nægjusöm og þrifin, vinnusöm og þrifin. Börn þeirra: Sveinn og Guðleifur, voru á líkum aldri sem ég, en Jóhann og Hennesína yngri. Líktust þau öll foreldrum sínum að dugnaði og ráðdeild með sín litlu efni.

Fæst af þessu fólki, sem ég hefi minnst á hér að framan mun hafa þegið sveitastyrk, nema þeir Aron og Friðrik bróðir hans og svo Jóhannes á Mið-Kekki, enda var það eigi að undra, þar sem þeir bjuggu sinn á hverju óreglukotinu gátu 14, 16 og jafnvel 18 börn (Jóhannes að því er mig minnir – )

Mig hefir oft furðað á því að fólk þetta skyldi lifa af allar þær þrengingar sem fátæktinni og fjölberninu fylgja, en það varðist eins lengi og mögulegt var, en að svo tókst til, má meðfram þakka það dugnaði þessa fólks, alls, ástundunarsemi, sparsemi og nýtni, en hins vegar því, að sjórinn færði því oft björg í bú.

Á þeim dögum var hvorki um „dýrtíðarvinnu“ né „bæjarvinnu“ að ræða, engar atvinnunefndir, né það orðið við neinn, að „útvega“ neinum „vinnu“ og því síður um nein „verkföll“ væri að ræða, né heldur að selja vinnu sína svo dýru verði, að enginn geti tekið þessa menn í vinnu vegna þess hve háar kaupkröfur þeir gerðu. Þó viss ég ekki til að neinn krefðist þess af öðrum, sem honum var skylt að gera sjálfum. Kona Hannesar var Kristbjörg Gottsveinsdóttir.

Þrátt fyrir allt þetta lifðu menn sæmilega ánægðir; sumir söfnuðu jafnvel svo miklu fé, að þeir áttu a.m.k. fyrir útför sinni. En hvernig er þetta nú? Óánægja, kröfur, en engin vinna. Þar af leiðandi enn meiri eymd og vesældómur svo, að nú eru skuldirnar, kreppulánin, óskilvísin og óreiðan svo mikil, að menn hafa „lagt upp allar árar“ og látið „hlaupa með“ – sig í gönur!

Hannes á Stéttum andaðist 19. ágúst 1879, 43 ára eða 16 dögum síðar en Sæmundur, nágranni hans.

Óráðsmennskan til þeirrar ógæfu fyrir þjóðina, sem þessir herra, andlauningarnir virðast hafa frá upphafi ætlast til að fyrir henni lægi: að engin takmörkun skyldi komast á, heldur hitt, að þjóðin félli aftur í fyrra forað. Fyrir nál. 100 árum, eða um 1840 kostaði brennivínspotturinn 9 skildina (18 aura) og þeir sem seldu vín hingað til landsins (mest Danir), fengu 5-6 skildinga uppbót á hverjum potti víns sem hingað fluttist. Þetta var nú hjálpin þá! Og hvernig er hún nú? Hún er, sem ég hefi lýst hér að framan: Sírennandi árstraumur víns, leyfið til þriggja ára byrgðanna fyrir vínsölukaupmenn, konsúlabrennivínið, læknabrennivínið, Spánarvínin, bruggið og smyglið og síðast en ekki síst þetta: að banna mönnum, bindindismönnum og templurum er gefin sök á því, að bannið reyndist eigi einhlýtt né öruggt.

Það skyldi þó eigi vera að þessar og þvílíkar rakalausar staðhæfingar og sleggjudómar eigi ekki eitthvað skylt við stríðsfregnirnar sem hingað berast um þessar mundir, þar sem annar stríðsaðilinn kennir hinum um að stríðið braust út.

Close Menu