Sigurður var í meðal lagi hár maður vexti, og nettmenni, eins og bróðir hans; hann var ljósleitur á hár og hörund, með blágrá augu, beint nef og bartaskegg í vöngum, dálítið bólugrafinn var hann, en þó eigi svo mjög sem Páll eða Margrét systir þeirra. Sigurður var kvikur á fæti, málrómur hans var þýður og viðmót gott. Hann tók í nefnið og bauð það óspart öðrum. Því var sagt að „baukurinn væri alltaf á lofti“ hjá Sigurði á Kaðlastöðum.
Fyrstu vetrarvertíðina mína var ég hjá Páli Gíslasyni Thorarensen, sem „hálfdrættingur“ eða rétta sagt „beitustrákur“, en afabróðir minn, Guðmundur Þorgilsson þá nærri áttræður var tilsagnari Páls, sem ekki þótti rata nógu vel um fjörurnar og hinar mörgu og krókóttu „leiðir“ þar, né heldur að „velja sjó í brimi“. Næsta vor var ég svo talinn fullgildur háseti hjá Sigurði á Kaðlastöðum. Þar var og þá Vernharður gamli Jónsson á Efra Seli, háseti einnig, og var hann með réttu talinn góður sjómaður, einkum áramaður góður. Við bárum því jafnan hlut frá borði, ég og Vernharður. Vitanlega sá ég, jafnvel þá, að þetta var ekki sanngjarnt, að ég væri talinn jafnoki Vernharðar eða annarra háseta Sigurðar, en bæði var það, að það var venja og viðtekinn siður, að viðvaningar væru látnir róa fyrir fullum hluti, einkum á vorin og svo hitt, að faðir minn og Sigurður voru góðir vinir, en nú mátti segja , að ég yrði fyrir ofsóknum Vernharðar fyrir þessa sök, og þótt ég ætti það skilið að því leyti , að ég var ónytjungur og orkulítill, þótt ekki brysti mig vilja og kapp við þá vinnu sem aðra, þá átti faðir minn og síst móðir mín það skilið að Vernharður var svo illvígur í minn garð, sem hann var, því á Syðra Seli, hjá foreldrum mínum naut Vernharður ávalt alls góðs , hafði þar oft góða vinnu, því hann var afbragðs góður byggingamaður og mat fékk hann bæði mikinn og góðan, en það kom honum ávalt vel, svo fátækur sem hann var.
Loks kom að því, að foreldrar mínir voru komnir á fremsta hlunn með að láta mig hætta að stunda sjóinn hjá Sigurði og man ég það enn, eins og það hefði skeð í gær, hversu feginn ég varð því, er Sigurður kom upp að Syðra Seli og talað við föður minn um þetta. Hann kvað það rétt, að Vernharður væri mér „óhollur maður“ en sagði við föður minn, að lokum, og var ég þá viðstaddur: „Ég þekki hann Vernharð minn, en ég læt hvorki hann né aðra hafa formennskuna fyrir mig og sízt kemur það til greina, hvort ég hefi þennan dreng eða ekki á báti mínu“. Og við mig sagði Sigurður um leið og hann tók í hönd mér: „Vertu hughraust drengur minn, ég sé að þú ert viljugur og gerir jafnvel meira en þú getur og meira heimta ég ekki af neinum. Hinir piltarnir á bátnum hafa ekki kvartað undan þér og þú verður kyrr hjá mér þótt hann Vernharður gamli sé svona í þinn garð“. Þetta þótti mér svo vænt um að heyra að ég elskaði Sigurð eftir þetta og bar mikla virðingu fyrir honum alla tíð, enda var hann mér ávalt svo góður, sem væri hann faðir minn. Hann var líka að eðlisfari barngóður maður og vandaður í öllu sínu framferði, orðum og athöfnum.
Það var þetta vor eða hið næsta, því ég varð með Sigurði þrjú vor, eða þar til ég fór suður að Bollagörðum vorið 1882 – við lentum í barningi, ég réri á borð með Vernharði, en á hitt borðið réru þeir Hinrik Jónsson í Ranakoti (mágur Sigurðar) og Helgi Þorsteinsson. Hallaðist þá oft á okkur Vernharð og kenndi hann því mér hversu mikill liðlétting hann hafði á borði með sér. Hinrik var hinn bezti ræðari og sagði við mig: „komdu hérna á borðið mitt Jón litli, hann Helgi getur róið með Vernharði og við skulum þá sjá hvor betur má“. Sigurður brosti og sagði, að svo skyldi vera sem Hinrik vildi. Var nú komið kapp í báða Hinrik og Vernharð, sem nú tók að álasa Helga fyrir ónytjungsskapinn, en Hinrik sagði: „Þótt við séum ennþá orkumeiri en þessir liðléttingar, sem þú ert svo óánægður með, Vernharður minn, þá getur svo farið að þeir eigi alls kostar við okkur: Þeir eiga eftir að eflazt, en við linast með aldrinum; þeir gera eins og þeir geta, og við skulum nota þessa litlu krafta þeirra, en ekki draga úr þeim“. Við Hinrik höfðum síðan ávalt betur en þeir Vernharður og Helgi, og mér varð vel til Hinriks fyrir þessa hlýju og hughreystandi orð hans í minn garð, enda hætti Vernharður að amazt við mér upp frá því. Við urðum síðara góðir vinir og ég gat oft sýnt honum hjálp síðar, sem hann sagði sjálfur að sér hefði komið vel.
Annars var ég svo sjóveikur, að ég naut mín ekki til hálfs, en ég var ávalt viljugur og kappsamur og vandist því betur en ella að mínum litlu kröftum, enda kom mér mæta vel við alla þá, er ég var með á sjómennskuárum mínum, en það var allt árið um kring frá 1879 til 1902, að ég fluttist suður eða 23 vetra, vor- og haustvertíðir nema vor- og haustvertíðina síðustu.
Kona Sigurðar á Kalastöðum var Þóra Jónsdóttir, systir Hinriks í Ranakoti, Ólafar í Naustakoti (ömmu Sigurgeirs biskups) og Þorkell í Óseyrarnesi (afi Árna Fríkirkjuprests). Þóra var hin bezta kona, en nokkuð einföld og fjasmikil, þótt óheimsk væri. Börnin þeirra, Eyjólfur í Björgvin, Guðrún og Jónína voru öll hin beztu börn, en á æskuskeiði þegar þetta var.
Þar á Kaðlastaðaheimilinu var gömul kona ein, sem mér er bæði ljúft og skylt að minnast með virðingu og þakklæti. Það var „Maddama Sigríður“ Eiríksdóttir, systir Magnúsar Eiríkssonar kaupmanns og að því er mig minnir – kona Sigurjóns á Laxamýri. Sigríður hafði áður átt séra Gísla (Gíslason) prest að Kaldaðarnesi og síðar Brynjólf Björnsson Dannebrogsmann og meðhjálpara. Þau bjuggu að Borg í Hraunshverfi og var Sigríður nú einstæðings ekkja og bjó í litlu herbergi aftur af baðstofunni á Kaðlastöðum. Ekki vissi ég á hverju hún lifði, en aldrei sá ég hana svo, að hún eigi gæfi mér bita og sopa og að hún eigi sýndi mér meiri og móðurlegri umhyggju en nokkur önnur vandalaus manneskja. Henni þótti afar vænt um mig – ég held að hún hafi beinlínis elskað mig – og talaði oft við mig hughreystingar- og vinarorðum, hvenær sem hún sá mig eða vissi að mér leið illa, en það var á þessum vorvertíðarárum með Vernharði, einkum fyrsta vorið. „Maddama Sigríður“ var hið mesta valkvendi, bar aldur sinn vel, þótt nú væri hún háöldruð orðin og að síðustu hrum fyrir elli sakir hún var og af öllum elskuð og virt, einkum fyrir það hversu barngóð hún var og gjafmild af sínum litlu efnum. Hinn höfðinglegi svipur hennar og góðleikur gleymist mér aldrei. Hún átti ljósaskjótta hryssu eina, sem kölluð var „Maddama Skjóna“ og fylgdi ég henni oft á milli bæja en hún fór í söðli sínum á hryssu þessari. Ferðir þessar og fylgd mín var hið eina sem ég gat endurgoldið þessari góðu konu fyrir góðsemi hennar við mig.
Brynjólfi Björnssyni meðhjálpara, manni Maddömu Sigríðar man ég naumast, sízt neitt að ráði, en hann var snyrtimenni hinn mesti, hæglátur og stilltur til orðs og æðis. Þau bjuggu að Borg í Hraunshverfi og voru fremur fátæk. Hann andaðist 19. júní 1872, 47 ára að aldri og var ég þá á 7. ári, en Maddama Sigríður andaðist 10. maí 1885, 74 ára að aldri og átti þá heima að Kaðlastöðum. Sigurður á Kaðlastöðum andaðist 15. janúar 1899, 61 árs að aldri en Þóra kona hans 16. apríl 1901, 61 árs að aldri.