Jóhann Þorkelsson Mundakoti

Jóhann Þorkelsson Mundakoti

Jóhann Þorkelsson, bróðir Guðmundar á Gamlahrauni, faðir Guðrúnar, konu Jens Einarssonar hreppstjóra, en þau voru foreldrar Ragnars stórkaupmanns og útgefanda hinnar nýju Kambránssögu. Kona Jóhanns var Elín Símonardóttir frá Gamlahrauni, systur Þóru, konu Guðmundar, Ara á Stórahruni, Jóns á Selfossi, föður Símonar, Þorsteins og Símonar á Gamlahruni, Jarþrúðar og Sesselju, o.fr.

Jóhann var lengi við verslun Einars „borgara“ Jónssonar föður Sigfúsar og Ingibjargar, konu séra Bjarna Þórarinssonar. Jóhann var föngulegur maður, fríður sýnum, þrekvaxinn og tígulegur ásýndum, bjartur útlits og í öllu hinn mesti atgervismaður, bóndi góður og vel efnaður. Elín kona hans var merkiskona og vel metin voru þau bæði. Jóhann var einn meðal hinna mörgu góðu formanna, gætnu og grandvöru á Eyrarbakka, aflasæll vel og sjósóknari mikill, en lagði þau störf niður hin síðar ár, er hann varð verslunarmaður.

Hann var góðvinur Einars „borgara“ og naut hins besta trausts hans, sem annarra. Jóhann var glaður í lund eins og Guðmundur bróðir hans, en ekki eins hávær þegar hann hló!.

Á undan Jóhanni bjuggu þeir þar, Þorkell faðir hans Einarsson, Hannessonar frá Kaldaðarnesi, stuttur karl og skrítinn, og Jón Magnússon frá Simbakoti, faðir Ingibjargar í Nýjabæ, konu Magnúsar formanns Magnússonar. Var hann kallaður Jón „mari“ stór vexti, digur og gildur. Koma þeir e.t.v. síðar hér við sögu.

Close Menu