Júníus Pálsson Syðra-Seli

Júníus Pálsson Syðra-Seli

Hann var, eins og allir þeir formenn, er ég hefi nefnt hér að framan, snillingur stjórnari í brimi og vondum sjó, fljótur til og fylginn sér, en sérstaklega var hann athugull um allt það er hann átti í vændum. Hann og aðrir þvílíkir menn, fara jafnan þannig að, sem hershöfðingjar í væntanlegur styrjöldum að áforma sem flest fyrirfram og allt það sem unnt er að áforma, en framkvæma það allt síðan eftir því.

Júníus var kvæntur Sigríði Jónsdóttur, Adólfssonar frá Grímsfjósum og lifir hún mann sinn, ásamt uppkomnum börnum þeirra, Bjarna bónda og hreppsnefndarmanni að Syðra Seli, Jóni skipstjóra í Reykjavík og þrem dætrum er heima eru.

Júníus var merkilegur maður sem naut meðfæddra gáfna sinna og hæfileika með aðdáun allra þeirra, er honum kynntust. Hann var sýslunefndarmaður Árnessýslu um langt skeið, gangnaforingi um fjölda mörg ár og fjármaður flestum mönnum fremri þar eystra. Hann mundi og vissi rétt fjármark hvers einasta bónda í sýslunni og jafnvel fjölda manna í Rangárvallasýslu auk margra einstakra manna í báðum þeim sýslum. Hann þekkti næstu hverja kind á svip hennar. Árlega fór hann um alla sýsluna til þess að vana dýr, einkum hesta og lánaðist það óvenjulega vel og án slysa nema fyrir sjálfan hann. Þá er hann varð fyrir áverkum ólmra hesta.

Júníus var heilsulinur alla æfi og bjó því hversu erfið honum var fjárgæslan í æsku, en hann stundaði hana af lífi og sál. Hann var mjög gefinn fyrir dulræna hluti og athuganir, enda gæddur þeim gáfum flestum öðrum fremri. Hann sagði oft fyrir um óorðna hluti og sá ýmislegt það fyrirfram, er í vændu var og dreymdi einkennilega drauma.

Eftir á þóttist ég sjá það, að Júníus muni ekki hafa búist við neinum gleðitíðindum 24. febr. 1887 þá er Bjarni sál. bróðir minn, faðir okkar og tveir bræðrungar (Meðalholtsbræður) svo og þrír aðrir  ungir og efnilegir menn lágu til laga við Stokkseyrarsund, ef þeir yrðu að leggja frá sundinu og leita nauðhafnar annarsstaðar þann dag – því þá voru þeir Jón sál. Grímsson á Stokkseyri og Júníus komnir á fremsta hlunn og fara fram í sundið og reyna að freista þess að bjarga Bjarna og skipshöfn hans, en var aftrað svo frá því, að þeir yfirgáfu það, enda lagði Bjarni þá samtímis frá sundinu til Þorlákshafnar, og drukknaði ásamt öllum þessum efnilegu piltum  og vinum okkar. Þótt Júníus væri flestum mönnum öðrum stilltari og rólegri, jafnvel á hverju sem gekk, var hann þessa stundina svo órólegur og æðisgenginn um það að fá að komast út til þeirra, að ég og aðrir sem þarna voru staddir héldum að hann væri genginn frá vitinu, enda bæði var það, að sundið var skarpófært eftir að Bjarni kom að því og á meðan hann lá til laga við það, að enginn tiltök voru til þess að bjarga þeim, sem og hitt, að úrtölurnar komu úr öllum áttum, en men sögðu: „þeir leggja til Hafnar (þ.e. Þorlákshafnar) og þar er lendandi sjór, ef hann versnar ekki úr þessu, enda sást brátt úr landi, að Bjarni var að leggja af stað frá sundinu, fyrstur þeirra tveggja er þar lágu til laga með honum og úti fyrir voru, það það voru þeir Einar Jónsson frá Aldarminni og Magnús Þorsteinsson frá kolsholtshelli, en báðir lögðu af stað á eftir Bjarna og sigldu framhjá honum síðar um daginn og lentu í Þorlákshöfn löngu áður en slysið varð, a.m.k. annar þeirra (Einar) en létu þess eigi getið við neinn þar í Þorlákshöfn að Bjarni væri á leiðinni, á seglalausum báti sínum, sem alls óvana unglinga að berjast við að ná þar lendingu í sterkviðris norðan roki, ágjöf og flatskellu alla leið austan frá Stokkseyri. Því urðu menn vanbúnari en ella, að veita bátunum athygli og bjargráð, er þangað kom, enda sýndu hinir „fræknu sjómenn“  þar enga tilraun í þá átt.

Að þessu öllu athuguðu, er ekki að vita, enn mun meira slys hefði orðið ef þeir Jón Grímsson og Júníus hefðu freistað að komast út úr sundinu. Hér hefur, sem oftar, farið margt öðruvísi en ætlað var, ekki verið gætt þess, sem þó lá beinast við: Í fyrsta lagi, að annaðhvort skipið sem sigldi á eftir Bjarna og framhjá honum, tæki mennina dauðþreytta og örmagna úr bátnum í skip sitt. Í öru lagi, að einhver hinna mörgu góðu formanna í Þorlákshöfn hefðu sett út skip sitt, og náð mönnunum áður en þeir lögðu í Norðurvörina og í þriðja lagi, að Jón á Hlíðarenda var farinn heim til sín þennan dag, einum klukkutíma áður en Bjarni kom út eftir, en Jón hefði áreiðanlega  ekki farið heim, hefði hann vitað að um svo illa staddan bát á leiðinni, heldur beðið eftir því að hann kæmi og hann hefði áreiðanlega sett út skip sitt til þess að bjarga hverjum sem var, og eigi síst hefði hann vitað að þarna var bróðir hans og Bjarni í Götu sem hjálpar þurfi við , enn allir þögðu um það.

Sennilega hefði Júníus grunað eitthvað um það, hvernig fara mundi því hann taldi engin líkindi til að betur tækist að lenda í Þorlákshöfn en annarsstaðar; hann vissi hversu erfitt var að komst þangað í þvílíku veðri og það sem svona lítilfjörlega skipshöfn á smábáti. En það er eins og allt hafi stefnt að því sem varð og að það skyldi fara svona. Fregnin um slysið deginum eftir þarf ég ekki að lýsa, enda hefi ég sennilega , þótt ég muni það eigi nú, gjört það á öðrum stað. Ég geri ráð fyrir að hún gleymist aldrei neinum þeim, er nokkuð þekktu til Bjarna og þeirra er með honum fórust. Júníus var ágætur ræðumaður, rökfastur og skýr, orðavalið óvenjulega kjarnyrt og framsaga þess góð, málrómurinn þýður og áherslur eðlilegar; þar var aldrei um æsingar eða illyrði að ræða, heldur málefnið sjálft furðu vel athugað af ólærðum manni til eins og hann var. Því var það sunnudaginn 4. október 1885 er við bræðurnir, ásamt fleirum ungum mönnum á Stokkseyri höfðum stofnað hið fyrsta bindindisfélag austur þar, „Bræðrafélagið“ og fóru út á Eyrarbakk í þeim erindum síðari hluta dagsins og mættum mikilli mótspyrnu og skilningsleysi á fundinum, að Júníus „bað um orðið“ og hélt þá ræðu yfir fundarmönnum sem lengi var skírskotað til sem einnar hinnar bestu og mest sannfærandi ræðu er menn höfðu heyrt flutta, bæði fyrr og síðar um bindindismálið, enda hafði ræða hans þau áhrif á áheyrendur, að þeir hreyfðu engum andmælum, en gengu flestir í félagið að fundinum loknum.

Ég heyrði marga menn segja það eftir að fundinum lauk, að þeir hefðu ekki átt von á að Júníus væri neinn ræðumaður og síst svo, sem hann sýndi með þessari ræðu sinni. Margir sögðu einnig „Dæmalaust er hann Júníus frá Seli góður ræðumaður. Sá getur komið fyrir sig orði, þótt hægfara sé“.

Júníus varð líka liðtækur starfsmaður í félaginu og þótti okkur, sem ekki gátum komið upp einu orði, mikið í það varið að geta teflt honum fram til andsvara og málsvarnar, hvenær sem að okkur var ráðist, en það var æði oft, og einkum með illkynjuðum aðdróttunum, mikilli frekju og mesta misskilningi, því Bakkus hafði ráðið þarna ríkjum frá alda öðli og ætlaði sér að gera það um alla eilífð. Vald hans og tign fór nú að minka mjög eftir þetta, og það svo, að eim sem best og lengst höfðu þjónað honum og þóst miklir af, sneru algjörlega við honum bakinu og þótti nú skömm að því en engin vegtylla, að hafa sýnt honum hollustu áður.

Þeir Bjarni og Júníus voru lífið og sálin í þessum félagsskap og G. T stúkunni Lukkuvon nr. 20, er stofnuð var næsta vor eða 13. júní 1880. Átta mánuðum síðar félli Bjarni frá og var þá við því búið, að við hinir legðum upp árar og hættum öllum tökum á því, að halda félagsstarfseminni uppi, en þá barst okkur ný og óvænt hjálp.

Móðir okkar, þá nærri sextugu, hafði aldri gefið sig neitt að þessum málum – hún hafði jafnan öðrum störfum að gegna – en hún vissi hvað við höfðum gjört og henni þótti það eigi sæma minningu Bjarna að við létum af þessum störfum. Hún gekk því sjálfviljug í stúkuna. Síðan var hún spurð  um það, hví hún, á gamalsaldri tæki upp á þessu og svarði hún: „Þess er varla að vænta, að ég gjöri mikið gagn í Goodtemplarastúkunni, en ég er viss um, að meðan drengirnir mínir sjá mig sitja á fundum með þeim, muni þeir minnast hins fráfallna foringja síns og bróður og halda áfram starfi því, er hann vann svo vel að með þeim án þess að gefast upp“.

Hún sótti hvern fund meðan heilsa hennar leyfði, og það eitt út af fyrir sig varð nægileg hvöt fyrir okkur sonu hennar og aðra, að „halda áfram starfi án þess að gefast upp“. Við sáum, að hún fylgdist með öllum okkar gjörðum af lífi og sál, og við sáum í anda „hinn fráfallna foringja okkar og bróður“ þar sem við sáum hana, enda höfðu þau verið lík hvort öðru í sjón og í reynd að mörgu leyti. Við gleymdum ekki Bjarna á meðan!

Júníus „fór til fjalls“ á hverju ári með föður okkar frá því um tekt ára fyrr og varð síðan gangnaforingi (fjallkóngur) í hans stað um fjöldamörg ár eftir að hann lét af því starfi. Júníus fór árlega inn í Arnarfell – en það er hálfs mánaðar fjallganga – og þar voru mestu gleðidagar hans í lífinu, að ferðast um afréttinn til að safna fé.

Margt mætti fleira gott og merkilegt segja frá þessum mæta manni, sem í senn var bæði góður maður, vitur og velviljaður. Hann andaðist rúmu ári síðar en Pálmar, eða 12. apríl 1932 á 70. aldursári eins og hann.

Close Menu