Gissur Bjarnason söðlasmiður bjó að Litlahrauni eftir Þórð gamla Guðmundsen sýslumann, sem bjó þar og sem ég man vel eftir sem búanda þar og konu hans, Jóhönnu f. Knudsen, svo af sonum þeirra, söngmönnum miklum, Þórði lækni, Oddgeiri presti, Sigurði sýslumanni og Þorgrími tungumálakennara.
Kona Gissurar var Kristín Gísladóttir frá Rauðabergi; þau voru foreldrar Valgerðar Gísladóttur að Mosfelli, hann stjúpi hennar en Kristín móðir. Gissur var bróðir þeirra Bjarna í Steinskoti og Ólafa þeirra tveggja, en áður eru nefndir.
Gissur var meðalmaður á hæð, þrekvaxinn, jarpur á hár og skegg, órakað. Hann var frændi Guðmundar Ísleifssonar á Háeyri, en eigi kom þeim ætíð vel saman. Báðir vildu ráða, en Gissur var hreinlyndar mildar en Guðmundur. Kristín var sköruleg kona eins og Valgerður dóttir hennar, hjálpfús og raungóð. Síðar átti Gissur Sigríði móðursystur Stefáns Stefánssonar fylgdarmanns og var hún einnig forkur mikill í búskapnum og hafa meiri ráð en bóndi hennar. Væri Gissur beðinn að lána úthald eða hest, svaraði hann; „Þú verður að eiga það við Sigríði“. Meðal barna þeirra voru Þorvaldur og Skúli. Fór annar þeirra til Ameríku en hinn fórst af fiskiskipi hér syðra.