066-Lifrarbræðsla

Það var venja fyrrum, að lifur úr fiski þeim, er aflaðist, var sett í kagga eða tunnur jafnóðum og látin moltna þar og renna. Fengu menn þannig sjálfrunnið lýsi, og höfðu sumir þann sið að láta ausu liggja hendi nær og taka daglega sopa af þessum kjarnadrykk sér til krafta. Þessi aðferð til lýsisgerðar var einföld og handhæg, svo sem mest mátti verða, en sá ljóður var á henni, að lifrin nýttist mjög illa, rann hvergi nærri til hlítar og eftir sat mikill grútur. Hann var síðan bræddur og að því unnið á vorin fram undir Jónsmessu eða lengur. Ekki veit eg, hvenær farið var að vinna að grútarbræðslu á Stokkseyri, en víst er, að það var löngu fyrir aldamót,[note] Sbr. Austantórur I, 128-129.[/note] en talið er, að regluleg lifrarbræðsla hafi ekki byrjað þar fyrr en um 1905. Á vertíðinni það ár og lengur vann norskur kunnáttumaður, Förland að nafni, að lifrarbræðslu á Stokkseyri og lærðu menn af honum. Síðan höfðu ýmsir bræðsluna á hendi bæði fyrir Kaupfélagið „Ingólf“ og fleiri kaupendur lifrarinnar eða allt þangað til Böðvar Tómasson útgerðarmaður hóf lifrarbræðslu sína árið 1919 eða fyrir fjórum áratugum. Fyrstu árin buðu tveir menn í lifur á móti Böðvari í tvær vertíðir. Annar var frá Gunnari Ólafssyni í Vestmannaeyjum, en hinn maðurinn var Óskar Halldórsson útgerðarmaður. Þeir hættu báðir, en Óskar fekk slatta af tveimur bátum í eina vertíð. Lifrarmagnið var raunar ekki til skiptanna, ef ekki átti að verða tap á bræðslunni. Verðið á lifrinni var þá aðeins 10 aurar fyrir lítrann. Hefir Böðvar rekið þessa starfsemi á Stokkseyri óslitið síðan. Til viðbótar hefir hann oft keypt lifur af Eyrarbakkabátum, þar sem magnið er of lítið til þess að bræða í tveimur stöðum, nema tap verði af. Í síðustu tvær vertíðir (1958-59) hefir hann sótt lifrina til Eyrarbakka og þá verið nægilegt að gera við bræðsluna fyrir 1-2 menn. Sami maðurinn hefir nú unnið við bræðslu hjá Böðvari í 18 vertíðir.

Eftirfarandi yfirlit um tölu vélbáta, lifrarmagn og lifrarverð á árunum 1928-1930 og 1940-1959 hefir Böðvar Tómasson látið mér í té. Veitir það nokkurn fróðleik um aflann yfirleitt, en því miður munu skýrslur glataðar frá öðrum árum.

Vélbátar, liframagn og lifrarverð

ÁrTala vélbátaLifrarmagn (lítrar)Verð á lítra
19289584000.20
19299237070.15
19309607220.15
19407480800.30
19417524361.40
19425317741.50
1943519191
19445511200.94
19455424381.18
19466483511.25
1947558758
19485485271.20
1949542956
19504699231.30
19514997261.90
19525130615
19535661351.23
19545966321.23
19554926551.28
19565825161.33
19573848861.28
1958390030
1959369130

Í sambandi við yfirlit þetta gerir Böðvar Tómasson m. a. þessar athugasemdir: 1928 var kölluð sæmileg vertíð á Stokkseyri. 1929 voru gæftir mjög vondar, og menn komust sjaldan á sjó. 1930 var með beztu vertíðum og mestur fiskimaður Ingimundur Jónsson eins og oftar. 1942 var mjög vont að fá menn á bátana vegna flugvallarvinnu í Kaldaðarnesi. Þetta ár varð 9.166 kr. tap á lifrinni, og kom það til af því, að mjög erfitt var að fá tunnur undir lýsi nema gamlar olíutunnur úr tré, sem láku öllu lýsinu á hafnarbakkanum í Reykjavík, áður en það seldist. Verð var þá lágt. 1943 var sambræðsla og fengu eigendur lifrarinnar það, sem hún gerði, og borguðu bræðslu á henni 12 aura á lítrann. 1947 var talin góð vertíð. 1950 fiskaðist mjög vel á Stokkseyri, en skýringin á hinu mikla lifrarmagni 1952 er sú, að þá tók að fiskast miklu betur, þegar bátarnir stækkuðu og menn fóru að stórauka veiðarfærin.

Leave a Reply