134-Lestrarfélag Stokkseyrar

Ekki hefir tekizt að uppgötva með vissu, hvenær Lestrarfélag Stokkseyrar var stofnað eða hverjir áttu frumkvæði að því. Þórdís Bjarnadóttir í Móhúsum taldi, að það mundi að líkindum hafa verið stofnað um eða rétt fyrir aldamótin. Arnheiður Jónsdóttir frá Stokkseyri hyggur, að Jóhann V. Daníelsson, síðar kaupmaður á Eyrarbakka, muni hafa beitt sér fyrir því. Getur þetta hvort tveggja farið saman, því að Jóhann var búsettur á Stokkseyri í nokkur ár fyrir og eftir aldamótin, og kunnugt er, að hann var áhugamaður um menningar- og framfaramál. Þetta fær einnig stuðning af fundargerð Málfundafélagsins á Stokkseyri eða Talfélagsins 15. febrúar 1903, en þar hefi eg séð lestrarfélagsins fyrst getið. Meðal mála, sem voru á dagskrá fundarins, var það, hvort Talfélagið gæti styrkt lestrarfélagið á Stokkseyri. Framsögumaður var Jóhann V. Daníelsson, og benti hann á dæmi þess, að lestrarfélög væru styrkt af sveitarsjóðum „og eins gæti sveitar- eða sýslusjóður styrkt lestrarfélagið hér“. f málinu töluðu enn fremur þeir Helgi Jónsson og Gísli Pálsson, og kvaðst Gísli ekki búast við því, að styrkur fengist úr sýslusjóði, því að hann hefði styrkt lestrarfélög áður og ekki fundizt koma að tilætluðum notum. Af þessu er sýnt: að lestrarfélagið hefir um þessar mundir verið búið að starfa um nokkurn tíma og átt erfitt uppdráttar, að það hefir ekki verið stofnað af hreppnum eða notið styrks af honum framan af, og að Jóhann V. Daníelsson hefir látið sér öðrum fremur annt um það. Styður þetta ætlun Arnheiðar um þátt Jóhanns í stofnun lestrarfélagsins, en vera má, að einhverjir kunni betri skil á þessu, þótt mér hafi ekki tekizt að hitta á þá.

Eftir að Ungmennafélag Stokkseyrar var stofnað 1908, mun það fljótlega hafa tekið að sér lestrarfélagið og orðið eigandi þess að nokkru eða öllu leyti. En þar sem gerðabækur ungmennafélagsins eru glataðar allt fram til desembermánaðar 1915, er lítið um lestrarfélagið kunnugt á þessum árum. Ekki er heldur kunnugt um stuðning hreppsins við félagið, því að gerðabækur hreppsnefndar eru einnig glataðar fram til ársbyrjunar 1916. Er fyrst getið um styrk frá hreppnum árið 1919, og nam hann 25 krónum. Á fundi í Verkalýðsfélaginu „Bjarma“ 2. nóv. 1922 skýrði Sigurður Heiðdal skólastjóri frá því, að hreppurinn hefði lagt lestrarfélaginu smáupphæð undanfarin ár, en lítið verið keypt af nýjum bókum; mundi lestrarfélagið þá eiga um 20 kr. í sjóði. Það virðist auðsætt af öllu, að lestrarfélagið hafi jafnan á þessu tímabili átt mjög örðugt uppdráttar og lítið að starfsemi þess kveðið. Það er t. d. athyglisvert, að enginn þeirra mörgu ágætismanna, sem skrifa greinar í 50 ára afmælisrit Ungmennafélags Stokkseyrar, minnist með einu orði á starfsemi lestrarfélagsins, aðeins einn getur þess, að það hafi verið stofnað fyrir aldamót ásamt fleiri félagssamtökum, er til menningar horfðu. Samt sem áður var lestrarfélagið alltaf tórandi. Var það í varðveizlu einstakra manna, sem önnuðust útlán og hirðu bókanna á hverjum tíma.

Árið 1919 varð Sigurður Heiðdal skólastjóri á Stokkseyri. Þegar Sigurður kom að skólanum, var þar engin bók til, og lét hann það verða sitt fyrsta verk að koma upp barnabókasafni við skólann. Lagði kvenfélagið fram nokkurn styrk til þess þegar á fyrsta ári, og einnig tókst Sigurði að útvega framlag frá hreppnum. Barnabókasafnið tók skjótum vexti undir handleiðslu Sigurðar og eignaðist allmikinn bókakost auk barnabóka, og færðu menn sér það í nyt með því að fá þar lánaðar bækur. Myndaðist þannig um skeið nokkur samkeppni milli skólabókasafnsins og gamla lestrarfélagsins. Seint á árinu 1922 sóttu bæði bókasöfnin um styrk til Verkalýðsfélagsins „Bjarma“. Í tilefni af umsókn ungmennafélagsins samþykkti „Bjarmi“ að leggja fram úr sjóði sínum 100 kr. ,,til styrktar Lestrarfélagi Stokkseyrar gegn því, að kr. 200 komi annars staðar frá, og sömuleiðis, að Ungmennafélag Stokkseyrar afsali sér öllum rétti til þess og lestrarfélögin renni bæði í eitt og verði undir sömu stjórn og Barnabókasafnið er nú.“ En í tilefni af umsókn Sigurðar Heiðdals gerði „Bjarmi“ svofellda samþykkt: ,,Verkalýðsfélagið „Bjarmi“ styrki Barnabókasafnið með kr. 100, ef Ungmennafélag Stokkseyrar afsalar sér rétti þeim, er það á á styrk þeim, er „Bjarmi“ veitti til styrktar bókasafni hreppsins, þar eð ungmennafélagið fullnægir ekki þeim skilyrðum, er „Bjarmi“ setti fyrir styrkveitingunni, og skal ungmennafélagið svara því eftir viku. En ef styrkur er veittur til Barnabókasafnsins, skal hann bundinn því, að safnið verði opnað til almennings nota.“

Togstreitan milli safnanna leystist litlu síðar á eðlilegan og friðsamlegan hátt með sameiningu þeirra. Var gerður um það samningur 16. febrúar 1923 milli skólastjóra barnaskólans, Sigurðar Heiðdals, annars vegar og stjórnar Ungmennafélags Stokkseyrar hins vegar. Þar kveður á um sameiningu Barnaskólasafnsins og Lestrarfélags Stokkseyrar, svo og um fjárframlag ungmennafélagsins til safnsins framvegis, en hreppurinn og ungmennafélagið eru eigendur þess. Ákveðið var, að stjórn bókasafnsins skyldi skipuð þremur mönnum, skólastjóra barnaskólans, einum manni frá ungmennafélaginu og einum, sem kosinn er af hreppsnefnd. Þessi skipan hefir haldizt síðan. Er safnið geymt í skólahúsinu, en skólastjóri eða kennari sér um það, annast útlán og skrásetningu bókanna. Árið 1949 kaus hreppsnefnd þrjá menn, Ásgeir Eiríksson, Björgvin Sigurðsson og Sigurgrím Jónsson, til þess að gera starfsskrá fyrir safnið ásamt fulltrúum frá ungmennafélaginu.

Í ágústmánuði 1959 voru skrásettar og útlánshæfar bækur í safninu sem hér segir: Frumsamdar bækur á íslenzku 735 bindi, þýddar bækur á íslenzku 735 bindi og bækur á erlendum málum 30 bindi eða samtals 1500 bindi. Auk þess á safnið nokkuð af tímaritum og óbundnum bókum. Árið 1958 voru lánuð út 476 bindi.

(Auk þess, sem til er vitnað, er hér stuðzt við upplýsingar frá Baldri Teitssyni símastjóra á Stokkseyri).

Leave a Reply