133-Bindindisfélög
Bindindisfélagið í skemtiferð í Ásgautsstaðaeyju 1897 eða 1898. Fremsta röð (sitjandi): Soffía Einarsdóttir frá Götuhúsum, kona Sæmundur Steindórssonar steinsmiðs; Sesselja Magnúsdóttir frá Eyrarbakka; Kristjana Jónsdóttir frá Grímsfjósum; Margrét Júníusdóttir frá Syðra-Seli; Kristrún Magnúsdóttir, Teitssonar; Guðný Benediktsdóttir frá Íragerði; Valgerður Gísladóttir frá Ásgautsstöðum; Vilborg Sturlaugsdóttir frá Starkaðarhúsum; Valgerður Guðmundsdóttir frá Stardal, – Önnur röð: Gísli Pálsson Hoftúni; Guðrún Þórðardóttir, kona Gísla, Vigfúsína Vigfúsdóttir frá Stokkseyrarseli; Valgerður Hinriksdóttir frá Ranakoti; Ólöf Sigurðardóttir frá Hraukhlöðu (var vk. í Ranakoti); Guðrún Sigurðardóttir Beinateig; Halldóra Ingimundardóttir í Sæborg; Þuríður Grímsdóttir frá Nýborg; – Aftasta röð: Jón Gíslason smiður í Meðalholtum; Sæmundur Friðriksson Hól; Páll Bjarnason kennari; Guðmundur Ólafsson Brekku, síðar í Austurhlíð í Rvík; Símon Jónsson Móhúsum; Júlíus Gíslason Ásgautsstöðum; Ásgrímur Jónsson Móhúsum; Guðmundur Vernharðsson kennari; Eyjólfur Sigurðsson Björgvin; Guðjón Þorkelsson frá Gamla-Hrauni; Vilhjálmur Einarsson Gerðum; Guðmundur Guðmundsson frá Ragnheiðarstöðum; Páll Jóníusson Syðra-Seli; Andrés Jónsson frá MIðhúsum; Jóhann Tómasson frá Brún, síðar í Hafnarfirði og Jón Kristjánsson, Teitssonar.

133-Bindindisfélög

Allt frá því, er sterkir drykkir tóku að flytjast hingað til lands á 16. öld, lá drykkjuskapur hér mjög í landi og tíðkaðist jafnt hjá háum sem lágum. Er af því mikil saga, sem of langt er að rekja hér. Á fyrra hluta 18. aldar heyrast fyrst raddir um það, að nauðsyn beri til að reisa rönd við þessum þjóðarlesti, og hafði þar forustu hinn reglusami og stjórnsami kirkjuhöfðingi Jón Árnason Skálholtsbiskup (1722-1743), sem telja má með réttu fyrsta bindindisfrömuð landsins. Ritaði hann stjórninni tvívegis skörulegar tillögur um að hefta innflutning brennivíns og tóbaks. Þær tillögur báru engan árangur, því að stiftamtmenn og kaupmenn lögðust á móti. Brennivín var vörutegund, sem alltaf gekk út, og kaupmenn sáu um, að það þryti í síðasta lagi, þótt oft yrði skortur á nauðsynjavörum. Eyrarbakkaverzlun var í þessu efni engin undantekning. Þvert á móti lögðu kaupmenn þar um langan aldur sérstaka áherzlu á að hafa gott brennivín á boðstólum, og tókst það svo vel, að Bakkabrennivínið var landfrægt fyrir gæði. Enn í dag lokkar það öldungum vatn í munn, er þeir minnast á það.

Það var ekki að furða, þótt aðsitjendur þessarar brennivínslindar svöluðu þar tíðum þorsta sínum, enda þótti slíkt varla tiltökumál. Einkum var áfengi mjög um hönd haft til mannfagnaðar í brúðkaupsveizlum, erfidrykkjum og lestaferðum, að ekki sé talað um réttirnar. Brennivínsdrykkja setti því mikinn svip á samkvæmislífið og oft svo, að ofboðslegt var. Alkunn er sagan af brúðgumanum á Stokkseyri, sem gætti svo lítt hófs í veizlunni, að það varð að binda hann, áður en kom að steikinni. Ekki er að efa, að fásinni og tilbreytingarleysi í skemmtanalífinu átti mikinn þátt í hinni menningarlausu meðferð áfengis, sem oft átti sér stað. Þess ber þó að geta, að þeir voru ekki margir, sem neyttu áfengis að staðaldri eða væru dagdrekkar. Allur þorri manna var tækifærisdrykkjumenn og drukku þá gjarnan illa. Fátítt var á þeim tímum, að konur neyttu víns að neinu ráði.

Þó að brennivín mætti teljast mjög ódýrt fyrrum í samanburði við okurverð það, sem nú er, var fátæktin á hinn bóginn svo almenn, að fáir gátu leyft sér vinkaup. En í slíkt var vitanlega ekki horft, ef því var að skipta. Gengu ýmsir nærri sér í því efni, eins og t. d. Eyrbekkingur sá, er veðsetti sturla sinn fyrir brennivínsflösku, er annað var ekki tiltækt. Hörmulegast var það, er fátækir daglaunamenn, og þar á meðal fjölskyldufeður, vörðu litlum og stopulum launum sínum til brennivínskaupa á leið úr vinnunni og komu heim að kvöldi fúlir og félausir. Vissulega var ástandið í þessum efnum þjóð og einstaklingum til vansa og tjóns og olli alvarlega hugsandi mönnum áhyggjum. Almenningsálitið þurfti að breytast, snúast gegn ofnautn áfengis og fordæma hana, en stuðla að bindindi og hófsemi.

Árið 1884 barst bindindishreyfing góðtemplara hingað til lands, og var fyrsta stúkan stofnuð á Akureyri á því ári. Hreyfing þessi eignaðist brátt nokkra ötula forvígismenn, sem unnu kappsamlega að útbreiðslu hennar, en undirtektir almennings voru víða daufar. Í Stokkseyrarhreppi eignaðist bindindishugsjónin ótrauða málsvara þar, sem Selsbræður voru undir forustu Bjarna í Götu. Ýmiss konar félagsstarfsemi hans, svo sem söngfélag, málfundir og leiksýningar, miðaði að því að beina hug unglinga og æskumanna inn á nýjar brautir og sjá þeim fyrir hollara og fjölbreyttara félagslífi en áður hafði tíðkazt. Í samræmi við það tók Bjarni sér fyrir hendur að stofna félag, sem hafði það ákveðna markmið að vinna gegn áfengisnautn og efla bindindi í hreppnum, og mun góðtemplarahreyfingin hafa flýtt fyrir því.

Sunnudaginn 4. okt. 1885 kvaddi Bjarni Pálsson nokkra unga menn á fund í barnaskólanum og stofnaði fyrsta bindindisfélagið austanfjalls. Aðalstofnendur félagsskaparins voru Selsbræður allir sjö: Jón eldri, Bjarni, Pálmar, Júníus, Jón yngri, Gísli og Ísólfur, auk nokkurra fleiri, en af þessu hlaut hið nýstofnaða félag nafn og var kallað „Bræðrafélagið“. Á fundinum lét Bjarni þess getið, að hann hefði hugsað sér að mynda síðar úr því góðtemplarafélag. Eftir messu þennan sama sunnudag gengu þeir bræður allir ásamt öðrum félagsmönnum út á Eyrarbakka og héldu fund í barnaskólanum þar. Stofnuðu þeir þar annað félag, sem hlaut einnig nafnið „Bræðrafélag“, með um 20 ungum mönnum. Meðal þeirra var vinur Bjarna, Sigurður Eiríksson, síðar regluboði og einn af ótrauðustu baráttumönnum góðtemplarareglunnar. Á báðum stöðunum sættu félög þessi nokkurri andspyrnu, einkum á Eyrarbakka, enda var jarðvegur fyrir starfsemi þeirra lítt ruddur. Þó naut félagsskapurinn fulltingis nokkurra góðra manna, þar á meðal sóknarprestsins, síra Jóns Björnssonar, sem studdi þá bræður með ráðum og dáð. Þrátt fyrir nokkurt andóf dafnaði „Bræðrafélagið“ á Stokkseyri vel og starfaði ötullega, vakti menn til umhugsunar og undirbjó jarðveginn fyrir frekari bindindisstarfsemi.

Sumarið eftir var „Bræðrafélagið“ lagt niður og í þess stað stofnuð fyrsta góðtemplarastúkan á Stokkseyri, eins og Bjarni Pálsson hafði gert ráð fyrir. Stúka þessi hét „Lukkuvon“ nr. 20 og var stofnuð 13. júní 1886 af Ólafi Rósenkranz leikfimiskermara, síðar háskólaritara. Var Bjarni síðan umboðsmaður stúkunnar, meðan hans naut við. Þess skal getið, að „Bræðrafélagið“ á Eyrarbakka starfaði í nokkur ár undir stjórn Sigurðar Eiríkssonar, eftir að góðtemplarareglan kom til sögunnar, kom sér upp húsi og vann bindindinu mikið gagn.

Á fyrstu árum góðtemplarareglunnar hér á landi var mikið kapp lagt á að stofna stúkur, jafnvel fleiri en eina á sama stað. Hinn 23. febrúar 1889 var stofnuð önnur stúka á Stokkseyri, ,,Hamingjan“ nr. 62, af Sigurði Eiríkssyni regluboða, og var „Lukkuvon“ sameinuð henni nokkru síðar. Stúka þessi starfaði af miklum dugnaði í mörg ár. Hún kom sér upp allrúmgóðu samkomuhúsi, góðtemplarahúsinu, skammt frá Vinaminni. Grímur í Nesi gaf stúkunni lóð undir húsið, og mun það hafa verið byggt 1898, eftir því sem næst verður komizt. Þar hafði stúkan síðan fundi sína og samkomur, en áður höfðu þær verið í Götuskólanum. Helztu starfsmenn stúkunnar voru Selsbræður. Var Júníus Pálsson umboðsmaður stórtemplars, fulltrúi á stórstúkuþingum allt til 1901 og átti lengi sæti í stjórn stórstúkunnar. Á stórstúkuþingunum 1899 og 1901 var Gísli Pálsson fulltrúi ásamt Júníusi, en síðan tók Ísólfur Pálsson, bróðir þeirra, við á þingunum 1903-1909. Eftir það sendi stúkan á Stokkseyri ekki fulltrúa á stórstúkuþing. Er sýnt, að um þær mundir fer verulega að draga úr starfsemi hennar, því að í þingtíðindum stórstúkunnar er skýrt svo frá, að sumarið 1911 hafi Sigurður Eiríksson regluboði endurvakið stúkuna. sem hafði „þá legið niðri um tíma“. Sú endurvakning varð ekki langær, því að litlu síðar sofnaði stúkan fyrir fullt og allt. Seldi hún góðtemplarahúsið Verkalýðsfélaginu „Bjarma“ árið 1912, að því er talið er, og er ekki líklegt, að hún hafi starfað neitt að ráði eftir það. Í þingtíðindum stórstúkunnar 1915 er skýrt frá því, að „Lukkuvon-Hamingjan“ sé fallin eða hætt störfum, en fyrir hve löngu er ekki getið.

Það er á tímabilinu 1885-1910 eða þar um bil, sem „Bræðrafélagið“ og stúkurnar starfa með fullu fjöri á Stokkseyri. Á þessum aldarfjórðungi voru þær lengstum einu starfandi menningarfélögin á staðnum og brautryðjendur í félagslífinu. Stúkan hélt tíðum fundi og samkomur, sem fóru fram með reglu og góðri skipan og báru allt annan svip en áður hafði tíðkazt á mannamótum. Einkum lifnaði yfir félagslífi öllu, eftir að góðtemplarahúsið var reist. Tókust þá upp leiksýningar, sem legið höfðu niðri síðan á dögum Bjarna Pálssonar, og var þeirri starfsemi haldið uppi af miklum áhuga á hverjum vetri. Drykkjuskapur og slark hvarf nálega með öllu, og það þótti ekki lengur sæmandi að vera víndrukkinn á almannafæri. Meðal annars fekk stúkan því til leiðar komið við kaupmenn á Stokkseyri, að hætt var að selja mönnum brennivín í staupatali yfir búðarborðið. Hún skapaði í mörgum greinum nýjan brag á samskiptum manna og opinberri framkomu, menningarsnið, sem hafði varanleg áhrif og enn býr að. ,,Stúkan er eitt hið bezta, sem hér hefir komið,“ sagði mér gamall Stokkseyringur, – ,,ekki aðeins málefnisins vegna, heldur félagslífsins almennt“.

Eins og áður er sagt, voru það Selsbræður, sem höfðu frá upphafi forustuna í bindindismálum. Voru þeir mjög samtaka, meðan allra þeirra naut við, en síðan tók hver af öðrum forustuna, eftir því sem þörfin kallaði. Nutu þeir snemma trausts og álits sveitunga sinna og þóttu afbragð ungra manna. Eru til marks um það ummæli samtíðarmanns þeirra af eldri kynslóðinni, Bjarna Guðmundssonar ættfræðings, 1891. Í tilefni af því, að Pálmar Pálsson var þá nýorðinn bóndi á Stokkseyri, segir Bjarni, að hann sé „hægur maður og stilltur í umgengni, reglusamur og góður félagi sem bræður hans, sem nú eru í mestu áliti af ungum mönnum jafnvel yfir heilan Stokkseyrarhrepp, allir vel greindir og mestu sómamenn af þeim, sem nú eru uppi á dögum, að siðferði góðu og framförum í félagsskap“.[note] Lbs. 2722 4to, bls. 1755-1756.[/note] Það er kunnara en frá þurfi að segja, að þeir bræður reyndust allir hinir nýtustu menn, hver í sínu starfi og ættbyggð sinni til sæmdar.

Með því að ekki er annar staður hentari, skal hér skýra frá skemmtunum, sem fram fóru á Stokkseyri á þessu tímabili og stúkurnar áttu meiri eða minni þátt í, en það voru blysfarir og álfabrennur. Skömmu eftir 1880 var að sögn Þórdísar í Móhúsum mikil blysför haldin á Hólsbakka fram undan Sandfelli. Engin brenna var, en gengið í skrúðgöngu og sungið og veifað blysum. Seinna voru álfabrennur haldnar á hverju ári um mörg ár á bökkunum fyrir vestan Kalastaði. Voru menn þá með grímur og í afkáralegum búningum. Að sögn Jóns Pálssonar voru stórfelldar brennur haldnar fyrir aldamót á Stokkseyri og Eyrarbakka um áramótin og á þrettándanum, en hann lýsir þeim ekki nánar.[note]Suðurland, 6. jan. 1912.[/note] Ingvar á Skipum segir, að Magnús Teitsson hafi ort tvö kvæði til að syngja við álfabrennur, annað handa fullorðnum, en hitt handa unglingum. Kvæðið handa fullorðnum byrjaði svo:

Nú um vetrar koldimmt kvöld
kveikja álfar ljós.
Kveðum okkar kvæði,
kælum hal og drós.
Hreykjum hátt vorri stöng,
heyra látum þjóð.
Aldrei hafa álfar sungið
eins fögur ljóð.

En kvæðið handa unglingunum hófst þannig:

Nú skal sýna lítinn leik,
ljósa berum fjöld.
Allir ungir álfar
eiga að dansa í kvöld.
Inni í hól, inni í stein
okkur skjól er léð.
Enginn hefir mennskur maður
musterið séð.

Nálægt aldamótum var Ísólfur Pálsson álfakóngur við eina slíka álfabrennu, en Sigurður Adólfsson álfadrottning, og gengu þeir í fararbroddi skrautbúnir. Aftastir voru þeir Sigurður Bjarnason í Sjónarhól og Guðmundur Bjarnason í Stardal, klæddir skinnum og afkáralega búnir. Brennan fór fram á bakkanum hjá Íragerði eða þar fyrir vestan. Þessi siður hélzt enn 1912 eða lengur. Í frétt í Suðurlandi frá þeim tíma segir: ,,Álfar héldu blysfarir og brennu og dansað á eftir 5. janúar. Þótti mörgum lítið til koma og kölluðu slíkt hégóma einn. Sams konar blysför og brenna var og á Stokkseyri.“[note] Suðurland, 6. jan. 1912.[/note] Eftir að hinar gömlu stúkur lögðust niður, var engin stúka starfandi á Stokkseyri í langan tíma. Á síðari tímum hafa þó verið gerðar tilraunir til að vekja upp þessa starfsemi á ný, en lítinn árangur borið. Hinn 19. maí 1939 stofnaði Guðgeir Jónsson bókbindari stúkuna „Breiðablik“ nr. 257, og starfaði hún eitthvað fyrst í stað eða meðan Gísli Pálsson lifði, en 1947 eða fyrr hætti hún störfum. Árið 1956 stofnaði Gizur Pálsson rafvirkjameistari stúkuna „Sigurvon“ nr. 274, og starfaði hún stutt og með litlu lífi. Er nú annar og minni grundvöllur undir þessari starfsemi en í öndverðu var, og mega allir vel við það una.

Þess skal getið, að síra Árelíus Níelsson hafði á prestsskaparárum sínum á Stokkseyri barnastúku, sem starfaði af miklu fjöri, en hann var snillingur í því að vekja áhuga barna. Hélt hann fundi hálfsmánaðarlega, undirbjó þá vel, lét 10 börn búa sig undir að annast efni næsta fundar, leikrit, upplestur, söng o. fl. Á sumardaginn fyrsta var haldinn sumarfagnaður mikill, og höfðu börnin verið að undirbúa hann allt frá jólum.

Leave a Reply

Close Menu