016-Landnám og löghreppar

En hver var grundvöllur hreppaskiptingar eða á hverju byggðist hún? Þegar þess er gætt, að takmörk hreppa og fornra landnáma fara víðast hvar mjög náið saman, virðist svarið ótvírætt vera þetta: Hrepparnir eru orðnir til upp úr landnámunum. Þetta hefir orðið með þeim hætti, að afkomendur landnámsmanna, sifjaliðs þeirra og venzlafólks, er fylgdi þeim út hingað og settist að í landnámi þeirra, hafa myndað framfærslusvæði, er til þess kom, að hjálpa þurfti fátækum ættingjum og náungum frá því að fara á vonarvöl. Þannig hafa hrepparnir á Íslandi tekið að sér og sumpart leyst af hólmi hina eldfornu ættaframfærslu germanskra þjóða.

Lítum á, hversu hreppaskiptingu hagar til um Flóann. Í Landnámu eru hreppar og landnám þar um slóðir í tveimur dæmum talin eitt og hið sama. Þar er sagt berum orðum, að Þórir Ásason hersis hafi numið Kaldnesingahrepp og búið að Selfossi, en þeir bræður Hróðgeir hinn spaki í Hraungerði og Oddgeir í Oddgeirshólum hafi numið Hraungerðingahrepp. Um aðra hreppa Flóans kemur í ljós, að Villingaholtshreppur samsvarar landnámi þriggja manna, Þórarins úr Alviðru, Önundar bílds og Özurar hvíta, Gaulverjabæjarhreppur landnámi Lofts hins gamla og Stokkseyrarhreppur landnámi Hásteins Atlasonar. Svipað verður uppi á teningnum víða annars staðar á landinu, þar sem hreppar og landnám hafa verið borin saman.

Eins og fram kemur af því, sem nú var sagt, höfðu hreppar ákveðin staðarleg takmörk. Ef menn vildu flytjast búferlum úr einum hreppi í annan, urðu þeir að fá byggðarleyfi hreppsmanna í hinum nýja hreppi. Ekki er heldur gert ráð fyrir annarri breytingu á hreppaskipun en þeirri, að bóndi, sem bjó við hreppamót, mátti kjósa sig í næsta hrepp, ef bændur þar leyfðu, enda yrði full bændatala eftir í þeim hreppi, sem hann segði sig úr. En það var löghreppur, er 20 búendur voru í eða fleiri, og þurfti lögréttuleyfi til, ef færri voru. Gilti þetta allt fram í byrjun 19. aldar. Árið 1703 voru 162 hreppar á öllu landinu, og hefir sú tala lítið sem ekki breytzt fram á síðastliðna öld.

Í þessu sambandi er ekki ófróðlegt að athuga, hvernig bæjatal í hinum fornu Flóahreppum kemur heim við þá tölu bænda, er vera skyldu í löghreppi. Skulu því taldar upp jarðirnar, eins og ætla má, að þær hafi verið við upphaf hreppaskiptingar á þessum slóðum:

Kaldnesingahreppur:   Flóagafl, Lambastaðir, Kaldaðarnes, Kálfhagi, Sandvík,[note]Þ.e. Eyði-Sandvík, sbr. Ísl. fornbrs. I, 320. [/note] Sandvík hin ytri, Kotferja, Selfoss, Björk, Byggðarhorn, Jórvík, Votmúli, Smjördalir, alls 13 jarðir.

Hraungerðingahreppur: Sölvaholt, Laugardælir, Svarfhóll, Ámót, Langaholt, Uppsalir, Tún, Krókur, Arnarstaðir, Lækur, Hraungerði, Reykir, Laugar, Ölvesholt, Oddgeirshólar, Brúnastaðir, Hryggur, Hjálmholt, Bitra, Bár, alls 20 jarðir.

Villingaholtshreppur: Gneistastaðir, Hurðarbak, Hróarsholt, Súluholt, Önundarholt, Kolsholt, Skúfslækur, Mýrar, Gafl, Gróf, Sýrlækur, Nes, Mjósund, Villingaholt, Vatnsendi, Vatnsholt, Vælugerði, Egilsstaðir, Kampaholt, Hnaus, Urriðafoss, Þjótandi, Skálmholt, alls 23 jarðir.

Gaulverjabæjarhreppur: Fljótshólar, Traustaholt, Ragnheiðarstaðir, Loftsstaðir, Snóksnes, Hamar, Galtarstaðir, Völlur, Versabær, Sviðugarðar, Seljatungur, Hrútsstaðir, Meðalholt, Gegnishólar, Arnarhóll, Gaulverjabær, Gerðar, Haugur; Hellur, Tunga, alls 20 jarðir.

Stokkseyrarhreppur: Hólar, Baugsstaðir, Leiðólfsstaðir, Skipar, Ölvisstaðir, Hæringsstaðir, Holt, Tóftar, Brattsholt, Traðarholt, Kökkur, Ásgautsstaðir, 1 Sel, Stokkseyri, Framnes, Háeyri, Skúmsstaðir, Einarshöfn, Drepstokkur, Nes, alls 20 jarðir.

Ef gert er ráð fyrir því, að allar framantaldar jarðir hafi verið í byggð, þegar hreppaskiptingin fór fram, þá kemur í ljós, að fjórir af þessum fimm löghreppum hafa fulla búendatölu og þrír þeirra meira að segja nákvæmlega hið tilskilda lágmark, 20 búendur. Hins vegar skortir Kaldnesingahrepp mikið upp á þá tölu. Auðvelt hefði verið að haga hreppaskiptingunni á þann veg, að hrepparnir hefðu aðeins orðið fjórir. En það hefði farið í bág við hina fornu landnámaskiptingu. Bændur í landnámi Þóris Ásasonar hafa kosið að eiga samstöðu og því sótt um og fengið lögréttuleyfi til þess að mynda með sér sérstakt hreppsfélag.

Þess hefir áður verið getið, að eðlilegra væri, að Hólar teldust með Gaulverjabæjarhreppi, þegar miðað er við takmörkin á landnámum þeirra Lofts hins gamla og Hásteins Atlasonar, eins og þau eru tilgreind í Landnámu. Sennilegt þykir mér, að hér hafi komið til greina sérstakar ástæður við hreppaskiptinguna. Ef Hólar hefðu fylgt Gaulverjabæjarhreppi, hefði bændatal þar orðið einum fleira en þörf var á til þess að mynda löghrepp, en í Stokkseyrarhreppi einum færra en til þess þurfti samkvæmt jarðatalinu hér á undan. Gat þá verið tvennt til, svo að bændur í Stokkseyrarhreppi losnuðu við að sækja um lögréttuleyfi til að mynda með sér hrepp, annaðhvort að þeir fengju því framgengt með samkomulagi við bændur í Gaulverjabæjarhreppi, að Hólar skyldu leggjast til Stokkseyrarhrepps, eða fengju að öðrum kosti bóndann í Hólum til þess að kjósa sig þangað, eins og leyfilegt var að lögum, er eins stóð á. Misræmið milli landnáma og hreppa, að því er varðar þessa einu jörð, hlýtur að eiga sér sérstaka orsök, og eg kem ekki auga á aðra líklegri. Menn hafa fyrir löngu veitt þessu misræmi athygli og látið sér til hugar koma að skýra það þannig, að Baugsstaðasíki (Rauðá) hafi til forna runnið austan við landareign Hóla, en þess sjást engin merki eða líkindi. Annars hafa engar breytingar orðið á ummerkjum Stokkseyrarhrepps, unz honum var skipt í tvö hreppsfélög skömmu fyrir síðustu aldamót.

Leave a Reply