Stokkseyrarhreppur hefir átt nokkrar húseignir, en af þeim, sem hann hefir sjálfur látið reisa, er varla ástæða til að nefna aðrar en skólahús og samkomuhúsið „Gimli“. Um skólahúsin verður nánar getið í öðru sambandi. Samkomuhúsið „Gimli“, sem síðan varð þinghús hreppsins, byggði hreppurinn í samvinnu við Ungmennafélag Stokkseyrar árið 1921, og átti hvor aðili sinn helming hússins. Árið 1941 seldi hreppurinn og ungmennafélagið sameiginlega Verkalýðsfélaginu „Bjarma“ þriðjung hússins, og áttu hinir fyrri eigendur síðan sinn þriðjunginn hvor. En árið 1951 keypti hreppurinn aftur hluta verkalýðsfélagsins og 1955 hluta ungmennafélagsins, og varð hreppurinn þá einn eigandi hússins. En síðla árs 1957 seldi hreppurinn verkalýðsfélaginu allt húsið. Frá því „Gimli“ var reist, hefir það verið aðalsamkomuhús hreppsins. Þar hafa farið fram allar helztu samkomur hreppsbúa, leiksýningar, dansskemmtanir og opinber fundahöld; einnig hefir farið þar fram leikfimiskennsla barnaskólans og fleira. Meðan húsið var sameign hreppsins og áðurnefndra félaga, notuðu eigendurnir það auðvitað til starfsemi sinnar, greiddu leigu fyrir það eftir ákveðnum taxta og önnuðust viðhald og endurbætur hússins eftir réttum hlutföllum.
Sumarið 1949 var stofnað á Stokkseyri Byggingarfélag verkamanna samkvæmt lögum um verkamannabústaði nr. 3, 1935 og lögum um opinbera aðstoð við byggingar íbúðarhúsa í kaupstöðum og kauptúnum nr. 44, 1946. Stofnendur félagsins voru 16 að tölu, og skipaði félagsmálaráðuneytið Helga Sigurðsson í Bræðraborg formann þess. Félagið þurfti lögum samkvæmt að fá meðmæli hreppsnefndar til ríkisstjónarinnar, og samþykkti hreppsnefndin að veita þau meðmæli. Af því leiddi, að hreppssjóður varð gjaldskyldur til byggingarsjóðs um minnst 4 kr. með vísitöluálagi á hvern íbúa kauptúnsins, og var það árlegt framlag. Hefir hreppurinn þannig með árlegum fjárframlögum stutt að uppbyggingu kauptúnsins. Á vegum byggingarfélagsins eru nú 8 íbúðarhús risin frá grunni á Stokkseyri, sum fullger og önnur í smíðum.