Stokkseyrarhreppur hefir yfir að ráða nokkrum sjóðum, sem stofnaðir hafa verið í ákveðnu augnamiði og varið er í samræmi við það. Þykir rétt í sambandi við fjármál hreppsins að gera nokkra grein fyrir sjóðum þessum.
1) Þorleifsgjafarsjóður er elztur þessara sjóða. Hann er stofnaður af Þorleifi Kolbeinssyni hreppstjóra á Háeyri með mjög rækilegu gjafabréfi 16. febr. 1861, þar sem hann gefur Stokkseyrarhreppi eftir sinn dag hálfa Hæringsstaðatorfuna, þ. e. hálfa heimajörðina Hæringsstaði með helmingi allra hjáleigna, er undir hana lágu: Hæringsstaðahjáleigu eða Norðurkots, Lölukots, Gljákots, Oddagarða og Brúar, samtals 15 hndr. 20 álnir að dýrleika með 5½ kúgildi og 1 hndr. 40 álna landskuld, til jarðabóta og til þess að bæta búnaðarháttu í hreppnum bæði til sjós og lands. Er svo mælt fyrir í gjafabréfinu, að eftir gefandans dag skyldi leggja að minnsta kosti 25 ríkisd. af afgjaldi jarðanna á vöxtu árlega, unz höfuðstóllinn væri orðinn 30.000 ríkisd., en afganginum skyldi varið sem þóknun eða viðurkenningu handa þeim, sem mestan dugnað sýndu í hreppnum í bættum búnaðarháttum, jarðabótum eða öðru, sem til góðs búnaðar heyrir. Þegar höfuðstóllinn hefði náð 30.000 ríkisd., væri leyfilegt að nota alla vextina ásamt afgjaldi jarðanna til jarðabóta eða annarra þarflegra fyrirtækja í hreppnum, svo sem túnasléttunar, girðinga, sjógarðs, framræslu Breiðamýrar, landamerkjagarða, kál- og jarðeplaræktar, plæginga, grasfræskaupa og sáningar þess; enn fremur gæti komið til mála að láta kenna ungum mönnum að höggva grjót til veggjahleðslu og húsabygginga, og þegar búið væri að bæta allar jarðir í hreppnum, eins og framast yrði, mætti kaupa eitt eða fleiri þilskip til fiski- og hákarlaveiða eða jafnvel haffært skip; og til þess að arðurinn gæti lent í hreppnum, þyrfti hreppsmenn sjálfir að vera fyrir skipum þessum, en af því leiddi, að kenna þyrfti efnilegum, ungum mönnum stýrimannafræði og sjómennsku; til alls þessa mætti veita styrk úr sjóðnum. Þannig lét hinn forvitri gefandi sig dreyma um bjartari framtíð.[note]Gjafabréfið er prentað í Austantórum I, 66-67. Það var þinglesið 12. júní 1889 og fært inn í Veðmálabók Árnessýslu. Guðmundur Ísleifsson mótmælti gjafabréfinu fyrir hönd erfingja Þorleifs, en mótmælin voru ekki tekin til greina. [/note]
Tveimur árum eftir lát Þorleifs afhentu erfingjar hans umboðsmanni sjóðsins 210 kr. í peningum, sem munu hafa verið tveggja ára afgjald af Hæringsstaðaeigninni. Fyrsta reikningsár sjóðsins 1884 var eign hans í árslok kr. 378,90.
Þó að gefandinn gerði ráð fyrir ýmsum breytingum, sem verða kynnu síðar meir, og slægi ýmsa varnagla í gjafabréfinu, sá hann þó ekki allt fyrir, sem ekki var heldur von. Skipt var um mynt hér á landi 1875 og krónur og aurar teknir upp í stað ríkisdala og skildinga, og voru 2 krónur látnar jafngilda einum ríkisdal. Höfuðstóll sjóðsins fullmyndaðs jafngilti því 60.000 kr. Hreppnum var skipt í tvennt 1897, og varð sjóðurinn þá óskipt eign beggja hinna nýju hreppa. Þetta hafði þó hvorugt nein áhrif á verðgildi sjóðsins. Hins vegar hefir hið mikla verðfall peninga á seinni tímum gert þennan sjóð sem aðra gamla sjóði aðeins að broti af því, sem þeim var ætlað að vera, enda þótt tekið hafi eðlilegum vexti að krónutölu. Má aðeins nefna það sem dæmi, að kringum síðustu aldamót var dagkaup fyrir 10 tíma vinnu 2 krónur, en er nú um 200 kr. Fyrir sömu upphæð sem eitt dagsverk kostar nú, hefði því þá, að óbreyttu verðgildi peninganna, fengizt 100 dagsverk. Má af þessu marka, hversu ráðagerðir hinna vitrustu manna verða haldlitlar, þegar þeir ætla sér að sjá ráð fyrir öldum og óbornum.
Meðan sjóðurinn var að myndast, var oftast úthlutað úr honum smástyrk eða þóknun til þeirra bænda, sem mestar framkvæmdir höfðu með höndum í jarðabótum eða öðru, sem til góðs búnaðar heyrir. Á árunum 1892-1938 var þannig nokkurri upphæð úthlutað næstum árlega, eða alls 173 styrkjum, sem voru að upphæð samtals kr. 4796,94. Að meðaltali hafa styrkirnir því numið kr. 27,73. Alls hlutu 43 aðiljar styrk úr sjóðnum á þessu tímabili, sumir mörgum sinnum. Fyrsti maður, sem styrk hlaut, var Gizur Bjarnason á Litla. Hrauni, en langoftast hlutu hann þeir Gísli Pálsson í Hoftúni (23 sinnum) og Jón Jónsson í Holti (20 sinnum).
Þess skal getið, að á árunum 1926-1940 var nokkru fé varið úr sjóðnum til flóðgarðabyggingar í landi Hæringsstaðatorfunnar og 1929 einnig til landamerkjagirðingar milli Hæringsstaða og Meðalholta. Fé það, sem varið var þannig jarðeign sjóðsins til góða, nam samtals kr. 2632,23.
Árið 1939 var hætt um sinn að veita þóknun úr sjóðnum, en áherzla var lögð á, að hann næði sem fyrst þeirri upphæð, sem tiltekin er í gjafabréfinu til þess, að hann yrði fullmyndaður, þ. e. 60.000 kr. Þessu marki var náð árið 1948. Þótti stjórn sjóðsins þá nauðsynlegt að gera einhverjar ráðstafanir um tekjur hans, miðað við þáverandi aðstæður og þó í anda gjafabréfsins, og í tilefni af því héldu hreppsnefndir Stokkseyrarhrepps og Eyrarbakkahrepps fund með sér ásamt umboðsmanni sjóðsins 6. des. 1950. Kom nefndunum saman um, að ráðstafa tekjum sjóðsins þannig, að 1000,00 kr. skyldu lagðar árlega við höfuðstólinn, en eftirstöðvum ársteknanna mætti úthluta til verðlauna fyrir ræktunarframkvæmdir, túnvinnslu, skurðagröft, garðyrkju o. s. frv., sem meðlimir búnaðarfélaganna í báðum hreppum hefðu með höndum. Jafnframt lagði fundurinn áherzlu á, að nýkjörnar hreppsnefndir beggja hreppanna skyldu framvegis taka ákvörðun um ráðstöfun sjóðsteknanna hverju sinni. Samkvæmt þessari samþykkt hófust styrkveitingar úr sjóðnum aftur 1951, og munar nú meira um þær en áður. Einnig hefir nokkru meira fé verið lagt við höfuðstólinn en samþykktin gerir ráð fyrir, og hefir umboðsmaður sjóðsins óbundnar hendur um það.
Stjórn Þorleifsgjafarsjóðs er í höndum hreppsnefnda Stokkseyrar- og Eyrarbakkahrepps undir umsjón sýslumannsins í Árnessýslu. Kjósa hreppsnefndirnar sérstakan mann til þess að hafa á hendi stjórn sjóðsins í umboði þeirra og annast rekstur hans og reikningshald. Er til þess valinn einhver af „beztu og vitrustu bændum hreppsins“, eins og áskilið er í gjafabréfinu. Eftir því, sem næst verður komizt, hafa þessir menn verið umboðsmenn sjóðsins:
- Grímur Gíslason, Óseyrarnesi, 1884-1886.
- Einar Jónsson borgari, Eyvakoti, 1887-1895.
- Ólafur Helgason prestur, Stóra-Hrauni, 1896-1897.
- Gísli Pálsson, Hoftúni, 1898-1909.
- Guðmundur Sigurðsson, Eyrarbakka, 1910-1925.
- Gísli Pálsson, Hoftúni, aftur 1925-1943.
- Þorgeir Bjarnason, Hæringsstöðum, 1943-.[note] Helztu heimildir: Fjárhaldsbók Þorleifsgjafarsjóðsins 1884 og síðan; gjörðabók hreppsnefndarinnar í Stokkseyrarhreppi; ýmsar upplýsingar frá umboðsmanni sjóðsins, Þorgeiri Bjarnasyni á Hæringsstöðum. [/note]
2) Lendingarsjóður stendur straum af lendingarbótum á Stokkseyri. Hann á sér alllanga forsögu, og mun fyrsti vísir til hans hafa verið svonefndur Bjargráðasjóður, sem orðinn var til 1909 og má vera eldri. Hlutverk hans var að bæla lendingarskilyrði, halda við sundmerkjum, auðvelda björgunarstörf og því um líkt. Tekjur sjóðsins voru tillög frá formönnum, 20 kr. frá Stokkseyrarhreppi og 15 kr. frá Kaupfélaginu „Ingólfi“ árlega. Séð hefi eg reikninga sjóðsins frá árunum 1912-1916, og var Vilhjálmur Einarsson í Gerðum reikningshaldari. Mesta sjóðseign á eignaskýrslu á þessum árum var 95 kr. 1914, en minnsta 47 kr. 27 au. 1916. Má af því marka, að ekki hefir sjóður þessi verið til stórræðanna. Á almennum hreppsfundi á Stokkseyri 19. febr. 1923 var svo stofnaður nýr sjóður í sama skyni, og nefndist hann Lendingarsjóður í Stokkseyrarveiðistöð. Bar Júníus Pálsson að tilhlutan sýslunefndar fram frumvarp að reglum fyrir sjóðinn, og voru þær samþykktar á fundinum með samhljóða atkvæðum. Sjóðurinn var myndaður af ákveðnum gjöldum, er hver vélbátur og hver róðrarbátur skyldi greiða af vetrarvertíðarhlut sínum, og voru það upphaflega 3 kr. af vélbát, en hálfu minna af róðrarbát. Fé sjóðsins skyldi varið til þess að bæta leiðir, leiðarmerki og lendingu í Stokkseyrarveiðistöð. Gert var ráð fyrir, að formenn þar í veiðistöðinni kysu árlega nefnd til að hafa umsjón með þessum verkefnum sjóðsins og gera tillögur um, hvenær byrjað yrði að veita fé úr sjóðnum og hve mikið í hvert sinn. Þessu hlutverki sínu gegndi sjóðurinn að sjálfsögðu eftir getu við þær framkvæmdir, sem í hönd fóru til lendingarbóta á næstu áratugum. En samkvæmt reglugerð um Lendingarsjóð Stokkseyrar 17. sept. 1943 kemst sú skipan fyrst á sjóðinn, sem hann hefir nú. Var þá í rauninni stofnaður nýr sjóður til þess að standa straum af kostnaði við lendingarbæturnar og af viðhaldi þeirra og til árlegs rekstrarkostnaðar, og tók hann við eignum og skuldum fyrra lendingarsjóðs og „Bryggjufélags útgerðarmanna á Stokkseyri“. Einnig veitir sjóðurinn viðtöku því fé, sem lagt er fram af opinberri hálfu til lendingarbóta á hverjum tíma. Hafnarnefnd hefir umsjón með sjóðnum.
3) Fjallskilasjóður er í sinni núverandi mynd stofnaður eftir fjárskiptin 1952-1953 og er sameiginlegur fyrir Flóahreppana alla og Skeiðahrepp. Hann er, eins og nafnið gefur til kynna, myndaður af fjallskilagjöldum hreppsbúa, þeirra sem fjallskil eiga að inna af hendi. Er fjallskilakostnaður reiknaður út ár hvert með því að leggja í dagsverk og meta til verðs vinnu þá, sem þarf til smölunar afréttar, og annan kostnað, sem fjallskilum við kemur. Eru allir jarðeigendur og fjáreigendur fjallskilaskyldir, og er 1/3 kostnaðar lagður á landverð jarða í hreppnum, en 2/3 er jafnað niður á sauðfjáreign, og er það 10 kr. á kind. Fjallskil geta menn innt af hendi ýmist með afréttarsmölun, vinnuframlögum á annan hátt eða peningagreiðslum, og er það á valdi hreppsnefndar að ákveða, á hvern hátt hver einstakur skuli greiða þau. Fé fjallskilasjóðs er varið til ýmislegs kostnaðar vegna afréttarmála, svo sem til afréttargirðinga og viðhalds rétta, sæluhúsa, eftirleita o. fl.
4) Bátakaupasjóður varð til árið 1944 í sambandi við útgerð hreppsins. Keypti hreppurinn þá alla báta Samvinnufélags Stokkseyringa, þrjá að tölu, en seldi jafnharðan 2/3 hluta þeirra, eins og frá er skýrt annars staðar. Ágóði af bátakaupunum og útgerð þeirra var lagður í sérstakan sjóð, sem ætlaður er til kaupa á nýjum bátum.