Hæringsstaðir

Hæringsstaðir

Þeir eru kenndir við Hæring Þorgrímsson errubeins, sem um er getið í Landnámabók og hefir reist þar byggð fyrstur manna nálægt 970. Annars er Hæringsstaða ekki getið beinlínis fyrr en í Vilkinsmáldaga 1397. Þar var þá kirkja, sem helguð var Þorláki biskupi. Átti hún 11 hndr. í heimalandi, þrjár kýr og þrjár ær, auk nauðsynlegustu kirkjugripa. (Ísl. fornbrs. IV, 58). Ekki er til nema þessi eini máldagi kirkjunnar á Hæringsstöðum, enda hefir hún verið lögð niður um siðaskipti eða jafnvel fyrr, því að í máldögum Gísla biskups Jónssonar um 1570 er hennar ekki getið. Þess má geta, að Kristín Felixdóttir, kona Vopna-Teits, segist hafa alizt upp á Hæringsstöðum, og hefir það verið á árunum 1531-42, eftir því sem hún telur aldur sinn (Bréfab. Odds biskups Einarssonar 1605). Ekki nefnir Kristín, hver þá var bóndi þar. Að öðru leyti koma Hæringsstaðir ekki við sögu, svo að vitanlegt sé, fyrr en snemma á 17. öld, en kunnugt er um ábúendur þar síðan um 1620.

Hæringsstaðir voru eign kirkjunnar þar og svo Skálholtsstóls á miðöldum og allt til þess er stólsjarðir voru seldar undir lok 18. aldar. Á stólsjarðauppboðinu að Stokkseyri 9. ágúst 1788 keypti Hannes biskup Finnsson Hæringsstaði með öllum hjáleigum, samtals 30 hndr. 40 ál. að dýrleika með 120 álna landskuld og 5 kúgildum fyrir 234 ríkisdali 49 1/3 sk. Síðan var jörðin í eigu Finsensættarinnar, unz frú María Finsen, ekkja Ólafs Hannessonar Finsens dómara í landsyfirréttinum, seldi hana Gunnari bónda Ingimundarsyni á Hæringsstöðum 20. okt. 1845 fyrir 2200 ríkisdali. Gunnari reyndust kaup þessi of dýr, og nokkrum árum síðar seldi hann Þorleifi Kolbeinssyni á Háeyri hálfa Hæringsstaðatorfuna. Eign þessa gaf Þorleifur Stokkseyrarhreppi með gjafabréfi 16. febr. 1861, þinglesnu 12. júlí 1889, til þess að verðlauna af tekjum hennar þá bændur, sem mestan dugnað sýna í búnaðarframkvæmdum í hreppnum. Hinn helmingur torfunnar gekk til erfingja Gunnars eftir hans dag. Hjáleigupartarnir, sem fylgdu þeim helmingi, urðu þá smám saman viðskila við heimajörðina og hafa gengið kaupum og sölum sér í lagi. En heimajörðina hálfa eignaðist síðar Sigurður Gunnarsson bóndi í Lölukoti að nokkru í makaskiptum við systur sína, Þuríði, ekkju Páls Þórðarsonar í Brattsholti, en hluta af henni hafði hann tekið að erfðum. Seinna seldi hann ábúandanum á Hæringsstöðum, Snorra Sveinbjörnssyni, hálflenduna fyrir 1300 krónur, en Snorri seldi hana aftur Árna hreppstjóra Tómassyni. Árið 1920 keypti Guðni Jóhannsson, er þá bjó á Hæringstöðum, hálflenduna af Árna, en seldi hana, þá er hann fór þaðan, núverandi eiganda hennar, Þorgeiri bónda Bjarnasyni á Hæringsstöðum.

Hjáleigur frá Hæringsstöðum voru þessar: Hæringsstaðahjáleiga (Norðurkot), Lölukot (Rögnvaldskot, Suðurkot), Gljákot, Oddagarðar og Brú (Teitssel, Brúarhóll) .

Landamerki

Landamerki Hæringsstaða eru þessi samkvæmt lögfestu Hannesar biskups Finnssonar fyrir jörðinni með öllum afbýlum hennar, er lesin var upp að Stokkseyri 28. maí 1794:

,,Fyrir ofan Gljákot er lækur, sem rennur úr Stóralæknum og kallaður er Einstígur, úr honum beinleiðis í Digruvörðu, úr Digruvörðu í Morgunrima, úr Morgunrimanum í Valhöll, úr Valhöll í Kúhól, úr Kúhól í skarð á Ormstjörn, úr því skarði í Laskalækinn; ræður síðan sá lækur suður í miðja Blástursgróf og svo suður úr henni miðri og í Blástursgrófarvörðu; úr Blástursgrófarvörðu sjónhending í þúfu í Brúnunum og úr þeirri þúfu réttlínís í Stóralækinn skammt eitt fyrir ofan Arnarholtsvað (svo). Þar við lækinn vottar fyrir 2 garðleggjum, og eiga Hæringsstaðir að þeim fremri. Afmarkar síðan Stórilækurinn allt að austanverðu upp á Einstíg.“ (Veðmálabók Árn. 1794).

Árið 1890 eru landamerki Hæringsstaða tilgreind á þessa leið:

Úr Einstíg · sjónhending í Klofaþúfu (Kjálkaþúfu); frá henni ber Votmúlabæinn framan í há-Skútafell og Uppsalabærinn vestanvert í Búrfell; frá Klofaþúfu sjónhending í Digruvörðu, en hana ber þá í há-Selvogsheiði; frá Digruvörðu sjónhending til útsuðurs í Nýjuvörðu, sem stendur skammt fyrir ofan Gölt; ber þá Digruvörðu um bæjarhlaðið í Bár; frá Nýjuvörðu sjónhending í hólinn, sem er fyrir ofan og norðan Holtssel og kallaður er Kúahóll (Minna-Holtssel); frá honum ræður stefna fyrir framan Vöðlalækinn í þann hól, sem nefndur er Vöðlahóll (Kúfhóll); frá honum sjónhending í skarðið á Ormstjörn; úr skarðinu sjónhending í vörðu á Laskalækjarbakkanum, og er hún í beinni stefnu úr Ormstjarnarskarðinu á Baugsstaði; frá vörðunni er Laskalækurinn látinn ráða allt fram að vörðu, sem stendur á rimabarði austan lækjarins; frá henni ræður sjónhending í Blástursgrófarvörðu, en frá henni sjónhending í þúfu í Brúnunum og aftur frá henni sjónhending þar að læknum fyrir ofan Arnarhólsvað, sem téða þúfu ber rétt í Leiðólfsstaði; þar frá læknum á líka Lölukot að bera sunnanvert við Skálafell og bæinn Holt í norðurhorn Hengilsins. Síðan ræður Stórilækurinn allt upp að Einstíg, sem áður var nefndur (Landamerkjab. Árn., þinglesið 16. júní 1890).

Landskostum lýsir ÁM svo: ,,Fóðrast kann 12 kýr, 6 geld naut, 30 lömb, 40 ær, 8 hestar. Torfrista og stunga næg. Reiðingsrista hjálpleg. Elt er taði. Skógarhögg sem á öðrum stólsj örðum. Engjunum grandar vatn. Hætt er kvikfé á vetur fyrir smálækjum, þegar ís og snjó leggur yfir, og hefir oft að því skaði orðið. Vatnsból langt og erfitt um vetur, en þrýtur sjaldan. Hagmýri ljær ábúandi til slægna nábúum sínum á Hólum, Baugsstöðum, Skipum og Leiðólfsstöðum; kemur hér í mót nábúa góðvilji, en enginn viss betalingur.“ (Jarðab. 1708 Il, 46).

Leave a Reply

Close Menu