002-Gömul byggðarnöfn

002-Gömul byggðarnöfn

Til forna bar ströndin milli Þjórsár og Ölfusár sameiginlegt heiti og nefndist Eyrar. Mun nafnið hafa verið dregið af eyrum, er þar gengu í sjó fram og nöfn eins og Stokkseyri og Háeyri eru enn til vitnis um. Á sama hátt var bakkinn upp frá sjónum á öllu þessu svæði nefndur Eyrarbakki. Þykir mér rétt að gera hér nokkra grein fyrir þessum gömlu byggðarnöfnum.

Eyra er oft getið í fornritum vorum í sambandi við siglingu til landsins og frá því, skip hafi komið út á Eyrum eða farið þaðan utan. Ef vel er að gáð, má sjá, að Eyrar voru ekki einn tiltekinn staður, heldur nafn á byggðarlagi. Í Flóamannasögu segir t. d. frá því, að Teitur Ketilbjarnarson og menn hans hafi riðið „út á Eyrar í Einarshöfn“ til þess að banna sakamanni þeirra far, en í Droplaugarsonasögu segir, að Grímur í Grímsnesi hafi komið „skipi sínu á Eyrar í þá höfn, er Knarrarsund heitir”.[note] Íslendinga sögur XII, 32; X, 123.[/note] Sú höfn var skammt fyrir vestan Fornu-Baugsstaði, þar sem nú heitir Knarrarós. Þá má minna á viðurnefni Lofts hins gamla í Gaulverjabæ, sem nam Gaulverjabæjarhrepp og þar með ströndina milli Þjórsár og Baugsstaðasíkis (Rauðár). Hann var ýmist kallaður Loftur hinn gamli af Eyrum eða Eyra-Loftur,[note]Sama rit VI, 486; III, 178; XII,9-10. [/note] og sýnir það, að Eyrar hafa verið í landnámi hans að nokkrum hluta, eða með öðrum orðum náð austur að Þjórsá. Hitt er og vafalaust, að Eyrar hafa náð út að Ölfusá. Þar heitir enn í dag Eyri eða Óseyri við ána, og er hún sennilega ein af eyrunum, sem ströndin var við kennd. Það er því öldungis víst, að nafnið Eyrar hefir verið haft um alla ströndina milli Þjórsár og Ölfusár.

Það má sjá af fornum heimildum, sögum, annálum og bréfum, að Eyranafnið hefir verið mjög algengt fram yfir miðja 14. öld, en þá bregður svo við, að það hverfur úr sögunni. Það kemur síðast fyrir í annálum árið 1360. Ástæðan til þess, að nafnið leggst niður, er sennilega sú, að staðhættir séu þá orðnir breyttir og eyrarnar eyddar af sjávargangi. Á fyrra hluta aldarinnar, 1316 og 1343, urðu tvenn stórkostleg sjávarflóð á Eyrum suður að tali annála, og verður þeirra getið síðar. Fyrra flóðinu féll sjór inn í „allar hinar fremri búðir á Eyrum”. Mun þetta hafa orðið til þess, að búðirnar voru fluttar upp á bakkann. Víst er að minnsta kosti um það, að upp úr þessu er farið að nota Eyrarbakkanafnið í sömu merkingu og Eyrar. Þannig er það fyrst notað í Gottskálksannál árið 1386.[note]Isl. Annaler ved G. Storm, 365.[/note]

Ekki er þó svo að skilja, að hér sé um nýtt nafn að ræða, aðeins fær það nokkru víðtækari merkingu en áður. Upphaflega hefir Eyrarbakki aðeins verið haft um bakkann sjálfan og nokkra landræmu upp frá honum til aðgreiningar frá hallanum niður að fjörunni og eyrunum við sjóinn. Er nafnið fornt og hefir verið notað samtímis Eyranafninu. Nægir því til sönnunar að minna á frásögn Landnámu, þar sem segir, að Hásteinn Atlason landnámsmaður á Stokkseyri hafi gefið Hallsteini mági sínum „hinn ytra hlut Eyrarbakka”, og rekaskrá Skálholtsstaðar frá því um 1270, þar sem sagt er, að kirkjan eigi reka „þann sem liggur fyrir Stokkseyri á Eyrarbakka”.[note]Íslendinga sögur I, 220, sbr. XII 8; Ísl. fornbrs. II, 75. [/note]

Á sama hátt sem Eyrar náðu yfir alla ströndina milli Þjórsár og Ölfusár, svo náði og Eyrarbakki yfir allan bakkann og síðar einnig yfir ströndina milli ánna. Í rekaskránni, sem nefnd var, ert. d. talað um Stokkseyri á Eyrarbakka; fjallskilasamþykkt frá 1567 er skrifuð á Loftsstöðum á Eyrarbakka, og í jarðabréfi frá 1546 er talað um part í jörðunni Fljótshólum á Eyrarbakka.[note]Sama rit XIV, 628; XI, 503 [/note] Í Jarðabók Árna Magnússonar og Páls Vídalíns 1708 er tekið svo til orða: ,,Stokkseyrarhreppur það er meiri hluti af því plátsi landsins, sem heitir Eyrarbakki, en hinn hluti Eyrarbakkans liggur austar og telst með Bæjarhrepp.”[note]Jarðabók II,40 [/note] Í dagbók sinni árið 1793 segir Sveinn læknir Pálsson m. a. svo frá ferðum sínum: „Leið okkar lá að þessu sinni niður að sjónum um Eyrarbakka. En þannig nefnist þurr landræma og flöt með ströndinni milli ósa Ölfusár og Þjórsár.”[note]Ferðabók Sveins Pálssonar, 196. [/note] Nefna mætti fjölda yngri dæma, sem sýna, að þessi málvenja hélzt fram á 19. öld.

Nú á dögum nær Eyrarbakki í víðustu merkingu yfir svæðið frá Hraunsá til Ölfusár, þ. e. þann hluta bakkans, sem telst til núveranda Eyrarbakkahrepps, og er það vart þriðjungur þess, sem forðum var. Sérstaklega er nafnið þó haft um þorpið í landi jarðanna Einarshafnar, Skúmsstaða og Háeyrar, og hefir svo lengi verið. Ekkert sameiginlegt nafn er nú til á allri ströndinni milli ánna, þótt slíkt væri til mikilla þæginda. En auðvelt væri að bæta úr því með því móti að taka hið forna Eyra-nafn upp aftur eftir sex alda hvíld.

Leave a Reply

Close Menu