Grímsfjós voru háleiga frá Stokkseyri, og er þeirra getið fyrst í manntali 1703. Hjáleiga þessi hefir öndverðlega verið byggð á fjósstæði heimajarðarinnar af manni þeim, er Grímur hét og býlið er við kennt. Grímsfjós fylgdu austurparti Stokkseyrar, og hélzt svo allt til þess, er erfingjar Adólfs Petersens á Stokkseyri seldu þau Grími í Nesi um eða eftir 1880. Árið 1885 lét Grímur þau í makaskiptum við Jón Adólfsson í Grímsfjósum í staðinn fyrir Símonarhús, en 1889 seldu þeir bræður, Jón Adólfsson og Adólf Adólfsson, eignarhlut sinn í Stokkseyrinni þeim Grími í Nesi og Einari Jónssyni borgara. Munu hjáleigurnar, sem þeim hluta fylgdu, hafa verið með í sölunni, þar á meðal Grímsfjós. Eftir það gengu þau kaupum og sölum með Stokkseyrartorfunni og eru nú síðan 1935 eign ríkissjóðs ásamt henni. Alla 18. öldina og lengur ( um 1700-1825) bjó sama ættin í Grímsfjósum. Var það ein grein Klofaættar og náskyld Stokkseyringum, en á annan veg komin af lögréttumönnum og valdsmönnum í ættir fram. Nefnist ættbálkur sá Grímsfjósaætt, en það eru afkomendur Bjarna Jónssonar hins fyrra í Grímsfjósum. Nú hefir önnur ætt búið þar óslitið síðan 1865.
Þessir hafa verið ábúendur í Grímsfjósum, sem kunnugt er um:
Bjarni Jónsson -1703-um 1715, bjó áður í Vestri-Móhúsum. Hann var fæddur 1650, sonur Jóns Bjarnasonar í Traðarholti, sjá um ætt hans þar. Bjarni var formaður á Stokkseyri, svo sem sjá má af því, að í Jarðabók ÁM. 1708 er þess getið, að hann hafi þá um nokkur ár goldið landskuld í formannskaupi. Hann hafði og allgott bú, 5 nautgripi, 31 kind og 7 hross (Jarðab. ÁM. Il, 67). Kona Bjarna var Katrín Jónsdóttir. Börn þeirra, sem upp komust, voru þessi: Valgerður, kona Helga Jónssonar á Mið-Kekki, Jón bóndi í Grímsfjósum, Guðmundur bóndi í Tungu í Flóa og Ingveldur, kona Knúts Snorrasonar í Kakkarhjáleigu.
Jón Bjarnason um 1715-1757. Hann var fæddur 1685, sonur Bjarna Jónssonar í Grímsfjósum. Jóns er getið sem búanda í Grímsfjósum í Þingbók Árnessýslu 28. maí 1723. Hann var jafnan meðal bezt efnuðu hjáleigubænda á Stokkseyri, tíundar t. d. 7 hndr. árin 1755 og 1756. Kona hans var Steinunn Magnúsdóttir í Meðalholtum, Þorgeirssonar. Þau áttu 14 börn, og komust þessi til þroska: Magnús bóndi og hreppstjóri á Baugsstöðum, Þuríður, kona Sigurðar Hannessonar í Seljatungu, Bjarni eldri bóndi í Traðarholti, Ólafur bóndi í Gegnishólum, síðast í Traðarholti, Bjarni yngri bóndi og hreppstjóri í Grímsfjósum, Agnes, kona Brands hreppstjóra Pálssonar í Hróarsholti, Valgerður, kona Þórðar Magnússonar í Starkaðarhúsum, og Tómas bóndi á Litla-Hrauni.
Bjarni Jónsson yngri 1757-1788. Hann var fæddur 1727, sonur Jóns Bjarnasonar í Grímsfjósum. Bjarni var enn á lífi í maí 1786, en talað er um hann sem dáinn í júní 1789 (Bréfab. Árn.). Hann var allvel efnaður, tíundaði að jafnaði 8 hndr. Bjarni var hreppstjóri í Stokkseyrarhreppi á árunum 1780-1786 eða lengur (Bréfab. Árn. 27. febr. 1780 og maí 1786). Kona hans var Danhildur Hafliðadóttir á Flóagafli, Egilssonar. Börn þeirra voru: Margrét, kona Jóns Jónssonar í Kirkjubæ á Rangárvöllum, síðar lengi vinnukona hjá Knudsen kaupmanni í Rvík, Jón bóndi í Grímsfjósum og Eyjólfur í Grímsfjósum, ókvæntur. Dóttir Eyjólfs með Ingunni Magnúsdóttur á StóraHrauni, Bjarnasonar var Gunnhildur, kona Hafliða Kolbeinssonar.
Danhildur Hafliðadóttir 1788-1812, ekkja Bjarna Jónssonar. Hún var fædd 1734 og hefir búið með Eyjólfi, syni sínum hin síðari árin.
Jón Bjarnason 1812-1825, bjó áður á Stóra-Hrauni og á Ásgautsstöðum. Hann var fæddur 1772, sonur Bjarna Jónssonar í Grímsfjósum, og dó á LitlaHrauni 19. apríl 1827. Jón var skipaður stefnuvottur í Stokkseyrarhreppi 1. júní 1798 (Þingb. Árn.). Hann var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Guðrún Magnúsdóttir hreppstjóra á Stóra-Hrauni, Bjarnasonar hafnsögumanns á Litlu-Háeyri, Magnússonar í Simbakoti, Beinteinssonar. Hún dó 1808, og nam skuldlaus eign dánarbúsins eftir hana 173 ríkisd. 83 sk. (Skiptab. Árn. 9. ágúst 1808). Börn þeirra voru: Anna á Valdastöðum og í Jórvík, giftist ekki, Bjarni eldri bóndi á Brekku í Þykkvabæ, Bjarni yngri bóndi á Valdastöðum, faðir þeirra Magnúsar í Stóru-Sandvík og Gunnars í Byggðarhorni, og Jón, dó uppkominn. Seinni kona Jóns í Grímsfjósum var Guðrún Helgadóttir hreppstjóra í Brattsholti, Sigurðssonar. Börn þeirra voru: Guðrún, giftist suður í Njarðvíkum og átti börn, og Helgi skipasmiður á Ásgautsstöðum og víðar.
Þuríður Einarsdóttir formaður 1823-1825, bjó áður í Götu, sjá þar, síðan eitt ár á Stóra-Hrauni og svo tvö ár hér á móti Jóni Bjarnasyni. Vildi hann ekki sleppa ábúðinni við hana lengur, og fór hún þá að Efra-Seli til Salgerðar, systur sinnar, og Kristjáns, mágs síns.
Jón Jónsson 1825-1833, bjó áður tvö ár á Stokkseyri, en síðar lengi á Vestri-Loftsstöðum, kallaður hinn ríki. Hann var fæddur 1800, sonur Jóns yngra á Stokkseyri Gamalíelssonar, og dó á Loftsstöðum 28. ágúst 1863. Jón var í merkisbænda tölu og stórefnaður, enda erfði hann Loftsstaði hvoratveggju, Hóla og margar fleiri jarðir eftir tengdaföður sinn. Kona hans var Sigríður elzta Jónsdóttir hreppstjóra hins ríka í Vestri-Móhúsum, Þórðarsonar, greind kona og sköruleg, siðavönd og stjórnsöm. Börn þeirra, sem upp komust, voru þessi: Guðlaug, kona Magnúsar Hannessonar á Baugsstöðum, Jón í Mettuhúsi í Hafnarfirði, Sigríður, kona Þorkels hreppstjóra Jónssonar í Óseyrarnesi, Jón hreppstjóri á Vestri-Loftsstöðum, Guðríður, kona Halldórs Steindórssonar á Fljótshólum, Gísli hreppstjóri á Eystri-Loítsstöðum, Sigríður, kona Jóhanns Adólfssonar á Stokkseyri, svo Odds Ögmundssonar í Oddgeirshólum, og Jón yngri á Vestri-Loftsstöðum, drukknaði í fiskiróðri 20. apríl 1872, ókvæntur. (Bergsætt, 167-184).
Margrét Guðnadóttir 1833-1834, ekkja Guðmundar Guðmundssonar á Efra-Seli, sjá um hana þar.
Símon Björnsson 1834-1838, síðar lengi bóndi á Skipum, sjá um hann þar.
Bjarni Björnsson 1838-1848, bjó svo nokkur ár á Skipum, en síðan lengi í Götu, sjá um hann þar.
Helgi Jónsson 1848-1852, bjó áður í Borg í Hraunshverfi og síðan víða, sjá um hann á Ásgautsstöðum.
Jón Stefánsson 1852-1859, síðar bóndi í Arabæjarhjáleigu. Hann var fæddur 1826, sonur Stefáns í Króki í Pörtum Jónssonar í Syðri-Gróf, Magnússonar. Kona hans var Kristín Guðmundsdóttir í Arabæ, Ketilssonar, og áttu þau börn. Meðal þeirra var Magnús sjómaður í Keflavík (d. 1951).
Hannes Jónsson 1859-1862, bjó áður á Ásgautsstöðum, en síðar á Grjótlæk, sjá um hann þar.
Hinrik Jónsson 1862–1865, bjó svo í Hallskoti í Flóa, þá í Vestri-Móhúsum, en síðast í Ranakoti, sjá um hann þar.
Jón Adólfsson 1865-1903. Hann var fæddur 3. ágúst 1837, sonur Adólfs hreppstjóra Petersens á Stokkseyri og Sigríðar yngstu frá Móhúsum, og dó 16. febr. 1916. ,,Jón var um mörg ár formaður á Stokkseyri og í Þorlákshöfn og ávallt heppinn með aflabrögð sín og sjóferðir. Hann var lágur maður vexti, gildur og saman rekinn, ólíkur systkinum sínum í því, að hann var dökkhærður, en þau ljóshærð, léttlyndur og smáskrýtinn í viðtali. Hann endurtók oft í spaugi það, sem hann sagði, t. d. þetta: ,,Það væri þakkað fyrir að tarna í Grímsfjósum – í Grímsfjósum“, eða þá þetta: ,,Nú er Svíakóngur illa beygður – illa beygður,“og hló svo að. Annars var Jón greindur maður, nokkuð vínhneigður framan af ævinni og jafnan fátækur. Hann var mjög líkur föður sínum bæði í sjón og því, hvernig hann kom fram við aðra: með sífelldu græskulausu spaugi og jafnvel kynjalátum til þess að vekja hlátur hjá öðrum“(J. P., Mannlýsingar).
Um Jón kvað Steingrímur Ólafsson í formannavísum:
Jón, sem hrósið hölda fann,
hann er Adólfs sonur,
Gríms frá fjósum hleypir hann
hesti sjós á skjálfandann.
Kona Jóns var Þuríður Grímsdóttir í Brú, Álfssonar í Bár, Skíðasonar í Eyvík, Einarssonar. Börn þeirra, sem upp komust, voru þessi: Sigríður, kona Júníusar Pálssonar á Syðra-Seli, Sigurður, er var lengi vinnumaður í Kaldaðarnesi, einn hinn duglegasti og skylduræknasti maður, Halldóra, kona Markúsar Þórðarsonar í Grímsfjósum, Kristjana, kona Guðjóns Jónssonar á Leiðólfsstöðum, og Olgeir smiður og fyrrum formaður á Stokkseyri. (Bergs ætt, 188-189). Olgeir hefir lengi verið einsetumaður í sjóbúð, er hann nefnir Geirakot, skammt frá Grímsfjósum og stundað þar smíðar sínar. Hann er mjög líkur föður sínum og afa: léttlyndur og síkátur með spaugi í orðum og látbragði, þykir sopinn góður. Fróður er hann og greindur vel. Hann átti lengi þrjá kjörgripi: sirkil Jóns Geirmundssonar, hegrakló og kýl.
Markús Þórðarson 1903-1939. Hann er fæddur 29. apríl 1875, sonur Þórðar Jónssonar á Efra-Seli, dugnaðarmaður og vel látinn. Kona hans var Halldóra ( d. 1937) Jónsdóttir í Grímsfjósum, Adólfssonar. Einkasonur þeirra er Andrés í Grímsfjósum.
Andrés Markússon 1939-. Hann er fæddur 14. júlí 1905, sonur Markúsar Þórðarsonar í Grímsfjósum, smiður góður. Kona hans er Jónína Kristjánsdóttir í Langholtsparti í Flóa, Diðrikssonar.
Þess skal getið, að í Grímsfjósum var einnig þurrabúðarbýli um alllangt skeið. Um 1870-80 bjó Þuríður Jónsdóttir frá Dvergasteinum þar sem einsetukona og samtímis henni Sveinn Jónsson blindi einnig í þurrabúð. Árið 1880 kom þangað Sigurður Sigmundsson, skaftfellskur að ætt, er austan hafði komið með síra Gísla Thorarensen. Bjó Sigurður þar til 1911, en síðan Kristinn, sonur hans, til 1926, er hann fluttist að Eystra-Íragerðí. Þurrabúð þessi stóð vestast í bæjarröðinni í Grímsfjósum. Var hún rifin um 1935 og er nú alveg sléttuð út.