Eina farartæki Íslendinga á landi fram til loka síðustu aldar og víðast hvar lengur var hesturinn, sem af því hlaut verðskuldað heiðursnafn og var kallaður þarfasti þjónninn. Án hestsins hefði þjóðin verið illa sett og naumast getað lifað menningarlífi í strjálbýlu, vegalausu landi. Þess er þó ekki að dyljast, að þær samgöngur, sem byggðust á aldagamalli notkun hestsins, voru svo erfiðar, tímafrekar og frumstæðar á allan hátt, að þær hlutu að hverfa úr sögunni, jafnskjótt sem menn kynntust öðru betra. Því tóku menn þeirri nýjung fegins hendi, er jafneinfalt flutningstæki sem hestakerran fór að tíðkast kringum aldamótin. Breiddust þær svo ört út um sveitir landsins sem akfærir vegir leyfðu, og margur bóndinn lagði kapp á að gera akveg heim að bæ sínum, til þess að hann gæti notað kerru til flutninga. Með kerrunum vannst bæði vinnusparnaður og aukin afköst. Á einni kerru var hægt að flytja 3-4 hestburði, og það var ólíku saman að jafna um erfiði og fyrirhöfn að binda klyfjar á jafnmarga hesta með því, sem þar fylgdi, svo sem leggja á reiðinga, spretta af, láta upp klyfjar, taka ofan o. s. frv., eða búa upp á eina kerru. Þetta fannst mönnum þá almennt stórkostleg framför, og vissulega var það svo. En þó var það ekki nema lítill áfangi á leiðinni til miklu stórkostlegri nýjungar, sem leysa skyldi af hólmi hina fornu samgönguhætti. Bíllinn var á næsta leiti, farartækið, sem átti eftir að valda gagngerri byltingu í samgöngum hér á landi.
Sumarið 1913 voru fluttir hingað til lands fyrstu bílarnir, sem notaðir voru til fólksflutninga, og þá fóru bílar í fyrsta sinn úr Reykjavík austur í Árnessýslu. Þetta voru Fordbílar með blæjum, heldur ófullkomnir og bilgjarnir og ekki fljótir í ferðum, enda vegir lítt við hæfi. Hér ber þó að telja upphaf bílaaldar á Íslandi. Eftir þetta var ferill bílanna óslitinn, þrátt fyrir ýmiss konar erfiðleika, sem byrjun er oftast samfara. Einkum dró fyrri heimsstyrjöldin, sem hófst ári síðar, úr eðlilegum framförum á þessu sviði, þar eð innflutningur bíla var þá allmiklum vandkvæðum bundinn og bensín illfáanlegt og afar dýrt. Þegar stríðinu lauk, rættist bráðlega úr þessu, og á næstu árum þar á eftir uxu fólksflutningar með bílum hröðum skrefum og náðu til æ fleiri staða.
Telja má, að reglulegar samgöngur milli Stokkseyrar og Reykjavíkur hefjist 1905, er Baugsstaðarjómabúið tók til starfa. Smjörið frá búinu var flutt suður á kerrum vikulega á sumrum og hálfsmánaðarlega á vetrum, en í þessum ferðum var einnig sérstakur, yfirtjaldaður vagn til þess að flytja fólk, er þörf gerðist. Eitthvað munu Eyrbekkingar hafa notað’ sér ferðir þessar, en eftir að bílar komu til sögunnar, hafa nágrannaþorpin Eyrarbakki og Stokkseyri ávallt fylgzt að um samgöngur, hvort sem þeir, er ferðum héldu uppi, voru búsettir þar eða annars staðar.
Bílasamgöngur milli Eyrarbakka, Stokkseyrar og Reykjavíkur hófust árið 1918 með því, að þrír Eyrbekkingar, Einar Jónsson í Túni, Magnús Oddsson í Regin og Steingrímur Gunnarsson á Strönd, byrjuðu að halda uppi sætaferðum milli þessara staða á einum bíl, sem þeir voru með til skiptis, og árið eftir byrjaði Filippus Bjarnason á Stokkseyri með annan bíl. Á næstu árum bættust ýmsir fleiri í hópinn. Ekki var fylgt fastri áætlun fyrst í stað, en farið á milli, þegar nægilega margir farþegar gáfu sig fram. Árið 1923 hófu Bifreiðastöð Reykjavíkur og Bifreiðastöð Eyrarbakka fastar áætlunarferðir á þessari leið, og var þá, eins og nú tíðkast, lagt af stað’ á ákveðnum tíma, hvað sem um farþegatölu var. Á næsta áratug urðu bílar almennasta farar- og flutningatæki landsmanna, og myndaðist þá víða hörð samkeppni um fólksflutninga á fjölförnustu leiðunum, en aðrar voru vanræktar, þær er eigi þóttu arðvænlegar. Voru þessi mál komin í mesta öngþveiti, og þótti svo búið’ ekki mega standa lengur. Fyrir því setti alþingi 1935 lög um sérleyfi til fólksflutninga með bifreiðum, en samkvæmt þeim úthlutar póststjórnin ákveðnum aðiljum sérleyfi til fólksflutninga með áætlunarferðum á tilteknum leiðum. Á leiðinni Reykjavík-Hveragerði-Selfoss-Eyrarbakki-Stokkseyri urðu þeir Steindór Einarsson bifreiðaeigandi í Reykjavík og Páll Guðjónsson á Stokkseyri sérleyfishafar, en þeir höfðu báðir haldið uppi föstum ferðum á þessari leið í mörg ár. Hefir Steindór sérleyfið enn í dag, en Páll lét það af hendi 1951, en við tók Kaupfélag Árnesinga á Selfossi, sem hefir haft það síðan.
Framan af voru eingöngu notaðir litlir bílar í ferðir þessar, fyrst 5 manna bílar og síðan í mörg ár 7 manna bílar. Árið 1933 byrjaði Páll Guðjónsson með 14 manna bíl og var síðar með stærri bíla, og 1934 byrjar Steindór einnig með 14 manna bíl, en síðar er hann með stærri, aðallega 36 manna bíla. Frá því að sérleyfisferðir hófust, hefir Steindór haft tvær ferðir á dag til Stokkseyrar á sumrum og eina á vetrum, en Páll og síðar kaupfélagið eina ferð á dag nema um helgar, þá hefir kaupfélagið einnig tvær ferðir. Það er því óhætt að segja, að samgöngur við Stokkseyri séu í ákjósanlegu lagi.
1918-19 hafa þeir Einar Jónsson, Magnús Oddsson og Steingrímur Gunnarsson sætaferðir frá Eyrarbakka og Stokkseyri á svonefndum landsjóðsbíl og flytja póst og farþega; voru þeir allir þrír með bílinn til skiptis.
1919-22 hafði Filippus Bjarnason sætaferðir frá Stokkseyri og Eyrarbakka á 5 manna fólksbíl.
1920-22 hafði Kristmundur Gíslason frá Brattsholtshjáleigu sætaferðir frá Stokkseyri á 5 manna fólksbíl; meðeigandi hans var Jón Magnússon kaupmaður á Stokkseyri.
1920-26 hafði Kristinn Grímsson á Strönd sætaferðir á sams konar bíl frá Stokkseyri. Á sömu árum hafði Sigurður Óli Ólafsson á Stað sætaferðir frá Eyrarbakka og líka frá Stokkseyri.
1920-31 hafði Ólafur Helgason í Túnbergi sætaferðir frá Eyrarbakka og Stokkseyri; seinni árin (1926-31) hafði hann fastar ferðir.
1920-32 hélt Einar Jónsson, sem áður er nefndur uppi ferðum á eigin spýtur frá Eyrarbakka og Stokkseyri, mun þó ekki hafa haft stöðugar ferðir öll árin.
1920 byrjaði Steingrímur Gunnarsson, sem áður er nefndur, einnig ferðir frá Eyrarbakka og Stokkseyri á eigin spýtur, en óvíst er, hve lengi hann hélt þeim áfram.
1922 hafði Magnús Bjarnason frá Stokkseyrarseli 5 manna bíl í förum; bílstjóri var Filippus Bjarnason, sem áður er nefndur.
1922-26 hafði Tómas Tómasson á Fljótshólum sætaferðir á hálfkassabíl, 6 manna, frá Stokkseyri og flutti einnig vörur.
1923 stofnuðu eftirtaldir menn Bifreiðastöð Eyrarbakka: Ólafur Helgason, Sigurður Óli Ólafsson, Einar Einarsson á Grund, Steingrímur Gunnarsson, Jón Magnússon kaupmaður á Stokkseyri og Kristinn Grímsson á Strönd, og hófu þeir fastar ferðir á leiðunum Eyrarbakki-Stokkseyri-Reykjavík. Félag þetta hætti að starfa í árslok 1925, en flestir þessir menn héldu áfram akstri með eigin bifreiðum næstu árin.
1923-27 hafði Bifreiðastöð Reykjavíkur fastar áætlunarferðir frá Stokkseyri og Eyrarbakka. Aðalbílstjórar voru Filippus Bjarnason (1923-25) og Magnús Bjarnason (1926–27).
1924 og óslitið síðan hefir Steindór Einarsson haldið uppi föstum áætlunarferðum á þessari leið og sem sérleyfishafi síðan 1935; í ferðirnar hafði hann 7 manna bíla fram til 1933, en síðan 1934 stóra bíla, fyrst 14 manna, en svo aðallega 36 manna bíla. Aðalbílstjórar framan af voru Sigurður Jónsson 1924, Filippus Bjarnason 1925, Páll Guðjónsson 1926–30, Baldur og Guðmundur Sigurðssynir frá Eyrarbakka 1930–40 og svo ýmsir.
1927-35 hélt Jón Magnússon kaupmaður uppi sætaferðum með hálfkassa· bíl fyrir 6 farþega og flutti auk þess vörur. Bílstjóri var Eyþór Eiríksson á Stokkseyri.
1929-31 hafði Aðalstöðin í Reykjavík fastar ferðir til Stokkseyrar og Eyrarbakka með 7 manna bílum. Bílstjóri var Guðmundur Jónsson. 1930-31 var Garðar Gíslason frá Haugi í tvö sumur með hálfkassabíl í föstum ferðum úr Gaulverjabæjarhreppi og frá Stokkseyri til Reykjavíkur með farþega og vörur.
1930-51 hafði Páll Guðjónsson á Stokkseyri fastar áætlunarferðir til Eyrarbakka og Stokkseyrar og varð sérleyfishafi á þeirri leið 1935 ásamt Steindóri Einarssyni. Páll var fyrst með 7 manna bíl, en á árunum 1933-1935 með 14 manna bíl, en síðan enn stærri bíla. Framan af var Páll sjálfur bílstjóri í þessum ferðum, en síðar Bjarni Nikulásson frá Unhól.
1932 var Sveinn Sveinsson frá Hólmaseli með hálfkassabíl í ferðum og flutti farþega.
1951 varð Kaupfélag Árnesinga sérleyfishafi á Stokkseyrarleiðinni auk Steindórs Einarssonar og hefir síðan fastar áætlunarferðir með stórum farþegabíl. Aðalbílstjóri er Sveinbjörn Guðmundsson frá Merkigarði.
Í mörg ár voru fastar samgöngur á sjó til Stokkseyrar, en þó aðeins yfir sumartímann. Í þeim ferðum voru strandferðaskipin „Skálholt“, ,,Perwie“, „Austri“ og „Vestri“ og ef til vill fleiri. Þessar ferðir munu hafa byrjað 1898 og staðið fram yfir stríðsár eða fram undir það, að-Kaupfélagið „Ingólfur“ hætti starfsemi sinni 1923. Þessi strandferðaskip voru auðvitað ekki öll í förum samtímis. Ferðir þeirra voru strjálar og áætlunartíminn aðeins frá 15. apríl til 31. október ár hvert, eða svo var að minnsta kosti lengst af. Þessar ferðir komu sér einkum vel fyrir fólk, sem þurfti að ferðast milli landsfjórðunga vegna atvinnu eða af öðrum ástæðum og sömuleiðis fyrir flutning á vörum til eða frá.
Eftir að vélbátar komu til sögunnar, höfðu Stokkseyringar sjálfir stundum báta í förum, einkum til vöruflutninga. Þannig hélt Jón Sturlaugsson hafnsögumaður uppi ferðum milli Stokkseyrar og Reykjavíkur á árunum 1915- 1922 og fór þá frá 10 og allt upp í 22 ferðir á hverju sumri. Auk þess fór hann margar aukaferðir á öllum tímum árs til Vestmannaeyja. Voru sumar af ferðum þessum allmiklar hrakningaferðir, einkum vegna hinna erfiðu brimsunda á Stokkseyri. Í einni slíkri ferð var Jón sérstaklega hætt kominn. Það var þegar hann missti undan sér vélbátinn „Vilborgu” á Stokkseyrarsundi að morgni hins 8. sept. 1917. Hann var þá að koma frá Reykjavík. Klukkan 4 um morguninn kom hann austur að Stokkseyrarsundi, og þar sem ekki var orðið sundabjart, lagði hann til djúps, þar til er birti. Kom hann aftur inn að sundi kl. 6, og var þá kominn stormur á vestan og sjór að verða ófær að lenda. Lágsjávað var, en í hækkun og á takmörkum, að flyti. En þar sem útsjór var að verða ófær, lagði hann á sundið, en báturinn tók grunn innst í sundinu og stóð þar um það bil stundarfjórðung, áður en sjór fór að koma í hann. Þá fór að koma leki að honum, og eftir hér um bil hálftíma sökk hann og barst þá inn af grynningunum. Mennirnir 4, sem á bátnum voru, björguðust, tveir í mastrinu og tveir á floti, unz bátur kom frá landi og náði þeim. Sagt er, að Helga Jónsson verzlunarstjóra hafi dreymt um nóttina, að hann sæi Jón Sturlaugsson vera að farast á sundinu. Hrökk hann upp við drauminn, snaraðist á fætur og sá bátinn strandaðan í brimgarðinum. Vakti hann menn upp í skyndi, er settu fram bát og tókst að ná öllum skipbrotsmönnunum.
Milli Stokkseyrar og Vestmannaeyja voru aldrei fastar ferðir, fyrr en Sigurjón Ingvarsson hófst handa um þær árið 1940, sem síðar segir. Var þó mikil þörf samgangna þar á milli, sérstaklega í byrjun vertíðar og um lokin, því að margir sóttu til Eyja á vertíðinni þá eins og nú. Venjulega var úr þessu samgönguleysi bætt með því að senda vélbát frá Stokkseyri með fólk og flutning til Eyja eða öllu heldur, að vélbátar kæmu frá Eyjum til að sækja það. Að öðrum kosti varð fólk fyrst að fara með bílum til Reykjavíkur og taka svo skipsferð þaðan. Munaði það miklu á tíma og kostnaði. Menn reyndu því að sæta beinum bátsferðum, ef kostur var, og ósjaldan bar við, að farþegar yrðu fleiri en varúð gegndi. Aldrei varð þó að slysi í flutningum þessum, en hrakningasamt á stundum. Skal hér getið tveggja slíkra ferða, sem mörgum eru enn í minni.
Föstudaginn 5. okt. 1917 kom vélbáturinn „Rán“, sem var 8 smálestir að stærð, frá Vestmannaeyjum til Stokkseyrar til þess að sækja mó og um leið var gert ráð fyrir, að hann tæki nokkra farþega. Þriggja manna áhöfn var á bátnum, Þorvaldur Guðjónsson formaður, Gunnar Marel Jónsson vélamaður og Sæmundur Guðbrandsson háseti, allt víkingssjómenn. Svo fór, að farþegar urðu 11 frá Stokkseyri, 9 stúlkur og 2 karlmenn, og var lagt af stað um dagmálabil á laugardagsmorguninn. Var þá gott veður, lítill vindur og brimlaust. Að aflíðandi nóni skall á fárviðri af austri og gerði stórbrim sem í illviðrum á vetrum. Þurfti vélin að erfiða mjög gegn veðrinu, og er um klukkustundar ferð var eftir til Eyja, þraut olían. Var þá tekið til segla og lensað undan veðrinu um kvöldið og nóttina, en seglin rifnuðu meira og minna í veðurofsanum. Um hádegi á sunnudaginn sást til lands á Reykjanesskaga, og var þá krapaslydda, stormur og vont skyggni. Lögðu þeir í röstina inn undir landi og renndu bátnum inn á Hornvíkina norðan við nesið. Þar lá þá í vari stórt skip, sem var á leið til Vestmannaeyja, en áræddi ekki móti veðrinu. Að áliðnum degi tók báturinn sig upp þaðan, og var ætlunin að sigla til Sandgerðis. Komst hann í var upp undir Kalmanstjörn um kvöldið, er dimmt var orðið, og lágu þeir þar við akkeri á mánudagsnóttina í ofsaroki. Á tíunda tímanum á mánudagsmorguninn kom til þeirra togarinn „Rán“ úr Reykjavík, sem gerður hafði verið út að leita bátsins að tilhlutun Gísla Johnsens útgerðarmanns í Vestmannaeyjum. Hafði þá ekkert til bátsins spurzt, síðan hann lagði af stað frá Stokkseyri eða í fulla tvo sólarhringa, og töldu hann flestir af. Togarinn dró bátinn til Reykjavíkur og kom þangað stundu fyrir miðaftan. Voru bátverjar og farþegar allir heilir á húfi og furðu hressir eftir ferðina. Orð var á því gert, hve stúlkurnar sýndu mikla hugprýði í þessum hrakningum.[note] Sbr. Morgunblaðið 8. okt. 1917; Íslenzkir sagnaþættir og þjóðsögur Ill, 47-50; Sjómannablaðið Víkingur XIX (1957), 72-75. [/note]
Hin ferðin, sem hér verður getið, var farin snemma í janúar 1926 af tveimur Vestmannaeyjabátum til að sækja vertíðarfólk til Stokkseyrar, en þar beið fjöldi fólks, Stokkseyringar og aðrir, eftir fari til Eyja. Voru þetta bátarnir ,,Gunnar Hámundarson“, 21 smálest, skipstjóri Vigfús Sigurðsson í Pétursborg í Vestmannaeyjum, og „Svalan“, 16 smálestir, skipstjóri Sighvatur Bjarnason frá Stokkseyri. Bátarnir lögðu af stað frá Stokkseyri kl. 1 eftir hádegi 9. janúar, ,,Gunnar Hámundarson“ með 33 menn innanborðs og „Svalan“ með 27 eða með 60 manns samtals. Allmargt kvenfólk var á báðum bátunum, og meðal farþega á „Svölunni“ voru móðir Sighvats skipstjóra og tvö systkini hans, því að fjölskyldan var að flytja sig búferlum til Vestmannaeyja. Þegar bátarnir lögðu af stað, var vindur norðaustanstæður og allhvass, en þar sem sú vindátt er fremur hagstæð, töldu formenn ekki eftir betra að bíða, en farþegar allir ferðbúnir og óhægt um gistingu á staðnum fyrir margt aðkomufólk. Veðrið hélzt hið sama, þar til komið var austur á móts við Þjórsá, en þá snerist vindurinn á átt og kom þvert á austan, en um leið hvínrauk hann, og var brátt komið ofsaveður og stórsjór. Voru bátarnir að berja austur með söndunum allt kvöldið og nóttina í skammdegismyrkrinu beint á móti veðurofsanum og miðaði hægt. Aðbúnaður fólksins í bátunum var að sjálfsögðu mjög slæmur við slíkar aðstæður, og komst ekki nema nokkur hluti þess undir þiljur. Á „Svölunni“ voru t. d. uppi á þilfari alla leiðina Jóna Bjarnadóttir í Dalbæ, Guðrún Þórðardóttir í Beinateig, nú í Ranakoti, Sturlaugur Guðnason í Sandgerði, Guðjón Jónsson á Bjarmalandi og Sigurður Gíslason í Hrauk. Svipaða sögu var að segja af „Gunnari Hámundarsyni“, og má geta nærri, hvernig sú vist hefir verið um nóttina. Einn af farþegum á „Gunnari Hámundarsyni“, Gunnar Ingimundarson í Hellukoti, telur, að þrír sjóir mjög vondir og hættulegir hafi komið á bátinn á leiðinni. Eins og nærri má geta bar fólkið sig misjafnlega, en flestir voru rólegir og æðrulausir. Þannig þokuðust bátarnir áfram gegn ofviðri og sjóum, og síðla nætur komust þeir undir Hamarinn í Vestmannaeyjum. Þar lágu þeir í vari, því að ekki var viðlit fyrir roki að komast fyrir Klettinn og inn á höfnina. Um hádegisbilið 10. janúar lögðu bátarnir loks til hafnar eftir nærri sólarhringsútivist og lentu heilu og höldnu. Mannsöfnuður var á „Skansinum“ til að fagna þeim, því að menn höfðu verið mjög uggandi um afdrif þeirra. Margir voru þrekaðir nokkuð eftir þessa erfiðu ferð, en náðu sér brátt aftur.
Þó að svo giftusamlega tækist til um ferð „Gunnars Hámundarsonar“ og ,,Svölunnar“, að ekkert slys yrði á mönnum né bátum, þá vann þetta mannskaðaveður hervirki sín annars staðar. Þessa sömu nótt fórst vélbáturinn ,,Goðafoss“ í Vestmannaeyjum með 5 manna áhöfn, og stórt enskt flutningaskip fórst fyrir sunnan Eyjar með 5 mönnum, en 8 var bjargað. Má af því marka, að fleirum hafi verið nærri höggvið, er á sjó voru á svipuðum slóðum. [note]Frásagnir Sighvats Bjarnasonar skipstjóra og Gunnars Ingimundarsonar, Guðrúnar Þórðardóttur og Sigurðar Gíslasonar, sem voru farþegar á bátunum; sbr. einnig Morgunblaðið 10. og 12. jan. 1926.[/note]