131-Bókmenntir

Ekki er um auðugan garð að gresja um bókmenntir í Stokkseyrarhreppi fyrr á tímum. Þaðan er engin forn skinnbók komin, svo að menn viti, engin saga rituð, nema ef vera kynni Flóamanna saga, engar rímur ortar, enginn annáll skráður. Í hreppnum var aldrei neitt menntasetur, er menn gætu sótt til fyrirmynd eða hvatning til bóklegrar iðju, og ekki heldur stórhöfðingjar eða ríkismenn, sem höfðu jafnframt áhuga á bókmenntum og gerðust styrktarmenn fræðimanna og skálda, eins og dæmi eru til annars staðar. Enginn varð heldur til þess að taka sér fram um slíka starfsemi. Sú varð því raunin á, að allt, sem til bókmennta mátti teljast, kveðskapur, sögur og sagnir, gleymdist og glataðist með tímanum. Hið gamla hvarf fyrir hinu nýja, hið nýja varð senn gamalt og allt fór að lokum sömu leiðina. Þegar ritöld hófst í Stokkseyrarhreppi á 19. öld, kom í ljós, að byggðarlagið var auðugt af margs konar söguefnum, þar voru góðir hagyrðingar og alþýðlegir fróðleiksmenn. En fátt kunnu þeir þá orðið að segja þeirra tíðinda, er gerðust fyrir stóraflóð eða fyrir aldamótin 1800. Atburðir fyrri tíma voru orðnir líkt og vörður, sem ferðamaður fjarlægist í þoku eða hríð, en hversdagsleg sköpunarverk andans hulin í myrkri baksýn. Á síðasta aldarskeiði hefir orðið mikil breyting í þessu efni. Alþýðlegir fræðimenn úr Stokkseyrarhreppi tóku loks að færa ýmsan fróðleik byggðarlagsins í letur og skáld og rithöfundar þaðan að kveðja sér hljóðs í bókmenntunum. Þessara manna skal nú stuttlega getið og helztu verka þeirra.

Af fræðimönnum skal hér fyrstan telja Bjarna Guðmundsson ættfræðing ( 1829-1893). Hann var fæddur í Starkaðarhúsum í Stokkseyrarhverfi, bróðir þeirra Arons í Kakkarhjáleigu og Friðriks í Hól. Bjarni fór um fermingu að heiman í vinnumennsku og var síðan í ýmsum stöðum, barst suður í Gullbringusýslu og bjó lengi sem þurrabúðarmaður í Kirkjuvogi í Höfnum. Síðan var hann í Reykjavík um nokkurt skeið, en þaðan fluttist hann á fæðingarsveit sína í Stokkseyrarhreppi og átti þar heima síðustu 5 æviár sín og andaðist á Syðra-Seli. Hann kvæntist og átti fjögur börn, en þau dóu ung nema ein dóttir, Hólmfríður í Hólum, sem látin er fyrir fáum árum, ógift og barnlaus. Bjarni var alla ævi bláfátækur, en fýsn hans til fróðleiks og skrifta var næstum dæmalaus. Ættfræði og sögufróðleikur í sambandi við hana voru aðal hugðarefni hans. Hann var svo að kalla sískrifandi ættartölur fyrir hina og aðra, og verður ekki að svo komnu tölu á þær komið, þar sem fjölda margar þeirra eru enn í eigu einstakra manna. Safn slíkra ættartalna, sem skrifaðar eru fyrir einstaka menn, er í 5 bindum í Lbs. 2595-2599, 8vo, auk margra á víð og dreif í öðrum handritum í safninu. Fyrir ættartölur sínar fekk Bjarni dálitla borgun, og mun þetta starf oft og tíðum hafa verið eina tekjulind hans. Mesta rit Bjarna eru hinar samfelldu ættartölubækur hans, er hann kallar „Íslands ættartölubók, að nýju uppskrifuð, endurbætt og aukin.” Eru þetta alls 10 bindi, Lbs. 464 fol. og Lbs. 2652- 2660, 4to, samtals rúmar 4900 blaðsíður að nafnaskrá meðtalinni, skrifað á árunum 1882-1892. Mikið rit er einnig „Annálar Íslands og saga” í 4 bindum, Lbs. 2718–2721, 4to, samtals 1986 blaðsíður, skrifað á árunum 1890-1892, ásamt framhaldi þess í Lbs. 2724, 4to, sem er skrifað 1892. Þá hefir hann ritað sína eigin ættartölubók, Lbs. 2722, 4to, 224 blaðsíður að stærð, og er þar að finna æviágrip sjálfs hans til ársins 1888. Fjölda margt annað hefir Bjarni ritað, ættfræðilegs og sögulegs efnis, skrifað upp rit annarra manna, t. d. ættartölubækur Ólafs Snókdalíns í tveimur stórum bindum, Suðurnesjaannál síra Sigurðar Br. Sívertsens og margt fleira. Má af þessu marka, hvílíkur fádæma eljumaður Bjarni var við bókiðju sína þrátt fyrir mjög örðug lífskjör. Það var honum hvatning og traust, að góðir menn lögðu honum lið og kunnu að meta viðleitni hans, ein; og t. d. síra Sigurður Br. Sívertsen á Útskálum, sem lánaði honum bækur og gaf honum ættartölubækur sínar eftir sinn dag, og Jón Pétursson háyfirdómari, sem liðsinnti honum á Reykjavíkurárunum og greiddi götu hans með bókalánum og á annan veg.

Rit Bjarna Guðmundssonar eða Ættartölu-Bjarna, eins og hann var almennt kallaður, eru mikil að vöxtum, en ekki að sama skapi mikils virði. Það, sem hann ritaði sögulegs efnis, dró hann að mestu saman úr ritum annarra, en lagði lítið sjálfstætt efni til frá sjálfum sér, enda skorti hann margt til þess, einkum almenna fræðimannlega menntun. Ættartölur hans eru mjög ótraustar, og verður að nota þær með stöðugri gát, en engu að síður er stundum mikil hjálp að þeim. Verk hans verður að dæma með hliðsjón af því, að hann hafði enga menntun hlotið til fræðistarfa, lifði jafnan við þröngan kost og hafði sjaldnast aðgang að beztu heimildarritum. Saga hans er eitt algildasta dæmi ódrepandi elju og fróðleiksfýsnar, sem verið hefir einkenni margra íslenzkra alþýðumanna fyrr og síðar.

Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi (1838-1914) varð fyrstur manna til þess að færa í letur sögur og sagnir úr Stokkseyrarhreppi, er hann ritaði Söguna af Þuríði formanni og Kambsránsmönnum. Margrét, móðir Brynjúlfs, var dóttir Jóns hreppstjóra Einarssonar á Baugsstöðum og var fædd þar og uppalin. Hún var fróðleiks- og gáfukona, og af henni nam Brynjúlfur á unga aldri ýmsan fróðleik um menn og atburði í Stokkseyrarhreppi. Þar við bættist, að sumt af því fólki, sem við söguna var riðið og þá sérstaklega Gottsvíns· fólkið, hafði verið búsett í fæðingarsveit Brynjúlfs, Gnúpverjahreppi. Hefir þetta hvort tveggja vakið snemma áhuga hans á söguefninu. Sagan af Þuríði formanni, hinni svipmiklu og minnistæðu konu, og Kambsránsmönnum, sem örlögin skákuðu til sameiginlegs skipbrots, er á vissan hátt sterkofin heild og tekur flestum hliðstæðum sögum frá seinni tímum fram bæði að efnismeðferð og frásögn.

Einna mikilvirkastur skrásetjari sögufróðleiks og þjóðhátta úr Stokkseyrar· hreppi var Jón Pálsson (yngri) frá Syðra-Seli ( 1865-1946). Hann hefir áður komið hér við sögu sem barnakennari og organleikari á Stokkseyri. Var hann síðan lengi verzlunarmaður og kennari á Eyrarbakka, en fluttist þaðan 1902 til Reykjavíkur og átti þar heima síðan til æviloka. Hann var lengi aðalgjaldkeri Landsbankans, en gegndi auk þess margvíslegum trúnaðarstörfum og tók jafnan mikinn þátt í félags· og menningarmálum, sem of langt yrði upp að telja. Á efri árum sínum og einkum tvo síðustu áratugina, sem hann lifði, skrásetti hann af kappi endurminningar sínar um menn og málefni í átthögum sínum, frásagnir og einkum þjóðhætti af ýmsu tagi. Sýnishorn af þessu safni Jóns birtist í Austantórum, sem komu út í þremur heftum á árunum 1945- 1952. Meðal óprentaðra rita hans má nefna Mannlýsingar, sem fjalla um bændur og búandmenn í Stokkseyrarhreppi hinum forna á uppvaxtarárum höfundar og fram undir aldamótin. Auk þess ritaði Jón kynstrin öll um ýmis önnur efni, t. d. skiptir skrítlusafn hans þúsundum, og einnig hélt hann saman ýmsum fágætum hlutum í skrifuðu máli, handritum eftir aðra, bréfum og því um líku. Einn af vinum Jóns og lærisveinum, Haraldur Hannesson hagfræðingur, hefir haft safn hans undir höndum, flokkað það eftir efni, raðað því og heft í hæfileg bindi og gert skrá yfir það, allt með prýðisfrágangi, og er safnið þannig úr garði gert samtals 40 bindi. Verður það síðan, áður en langt líður, afhent Landsbókasafni Íslands til eignar og varðveizlu.

Handrit Jóns Pálssonar eru, sem við má búast, misjöfn að gildi og gæðum. Sumir efnisflokkarnir eru lítils virði nema sem vitnisburður um hin fjölþættu áhugamál höfundarins. Langmerkast er það, sem hann hefir ritað um þjóðleg efni, sem er bæði fróðlegt og mikið að vöxtum. Þess ber þó að gæta, að ósjaldan hefir hann skrifað oftar en einu sinni um sama efnið, svo að sumar ritgerðir eða kaflar eru í tveimur gerðum eða fleiri. Jón var mikill aðdáandi Lefoliisverzlunar og forstöðumanna hennar, og kemur það mjög einhliða fram í ritum hans um það efni. Yfirleitt eru frásagnir hans byggðar á minni hans og eigin reynslu, en lítt skyggnzt til heimildarannsóknar. En minni hans var trútt og lífsreynsla fjölbreytt, og kennir því margra grasa í safni hans, sem gott verður að leita til, þegar þjóðháttasaga Íslendinga verður rituð.

Allt er ókunnugt um skáld og hagyrðinga í Stokkseyrarhreppi þangað til á 19. öld. Þá eru þar uppi ýmsir vel skáldmæltir menn, eins og t. d. Guðmundur Nikulásson. í Eyvakoti (1762-1844), sem til er eftir langt gamankvæði, sem nefnist Formannsvísur;[note]Ísl. sagnaþ. og þjóðs. IX, 53-66  [/note] Eiríkur Snorrason í Hólum (1794–1835), sem orti dýrt kveðnar formannavísur á Stokkseyri 1827, sem getið er hér að framan; bræðurnir Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri (1798-1882), sem orti vel, en fór dult með,[note]Blanda VIII, 310-311; Austantórur I, 56, 64. [/note] og Jón Kolbeinsson Kambsránsmaður (1800-1839), er orti andleg kvæði og sálma sér til hugsvölunar eftir afbrot sitt;[note]Sagan af Þuríði formanni III, 26. kap. [/note]  Sigfús Guðmundsson trésmiður á Skúmsstöðum (1805-1877), sem orti snjallar tækifærisvísur;[note]Ísl. sagnaþ. og þjóðs. X, 44-51. [/note] Álfur Jónsson í Hól í Stokkseyrarhverfi ( 1822-1896), sem orti m. a. formannavísur á Loftsstöðum um 1870;[note]Saga Eyrarbakka II, 37; Bólstaðir, 273.  [/note] Bárður Diðriksson í Útgörðum (1844 -1896), hagorður vel, en heldur klúryrtur,[note]Ísl. sagnaþ. og þjóðs. VI, 23-28.  [/note]og sjálfsagt mætti fleiri telja.

Í flokki þessara hagyrðinga er mér kunnugt um aðeins eina konu, sem orð fór af. Það var Margrét Jónsdóttir á Stéttum í Hraunshverfi (1824-1904). Hún orti margar tækifærisvísur, vísur um einstaka formenn og því um líkt, og eru nokkrar tilfærðar áður í þessu riti.[note]Sjá enn fremur þátt um Margréti í Ísl. sagnaþ. og þjóðs. II, 27-32; Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 381-385. [/note] Langkunnasta og jafnframt snjallasta alþýðuskáld á Stokkseyri var Magnús Teitsson á Brún (1852-1920). Hann var gáfaður vel og skjótur í hugsun og svo hraðkvæður, að hann orti vísur undirbúningslaust jafnhratt sem aðrir töluðu, og brást sjaldan, að í þeim væri eitthvað eftirminnilegt og hnyttið, þótt yrkisefni væru smáleg. Vísur hans lærðust fljótt og flugu manna á milli og urðu sumar landfleygar. Gjarnt þótti Magnúsi að grípa til óheflaðs orðbragðs í vísum sínum, en venjulega var það gert með einhverju listarbragði, svo að flestum varð það fremur til gamans en hneykslunar. Einnig orti hann kvæði alvarlegs efnis. Eftir Magnús eru prentaðar formannavísur frá Stokkseyri 1891 og fleira í þessu riti, og enn fremur eru vísur eftir hann prentaðar í Bólstöðum og búendum í Stokkseyrarhreppi, Sögu Hraunshverfis á Eyrarbakka, Íslenzkri fyndni og Íslenzkum sagnaþáttum og þjóðsögum. Að öðru leyti er þorri vísna hans óprentaður og vafalaust margt af þeim glatað. Sjálfur átti hann bók með vísum sínum, en hún eyðilagðist fyrir sérstakt óhapp. Ýmsir hafa safnað vísum Magnúsar, eftir því sem þeir náðu til, en enginn til fullnustu. Séð hefi eg tvö slík vísnasöfn, annað meðal handrita Jóns Pálssonar, en hitt tínt saman af Friðriki Sigurðssyni á Gamla-Hrauni, og er það talsvert stærra. Meðal annarra, sem söfnuðu vísum Magnúsar, var Sigurður Jónsson skólastjóri í Mýrarhúsaskóla, og er talið, að honum hafi orðið allvel ágengt.

Samtímamaður Magnúsar Teitssonar nokkru yngri var Guðjón Pálsson í Bakkagerði á Stokkseyri (1865-1955), hagyrðingur góður. Hann gaf út kver með sálmum og andlegum ljóðum 1934, er nefnist Stjörnublik, og nokkrar formannavísur eftir hann eru prentaðar í þessu riti. Ýmislegt fleira er til eftir hann í handriti. Hann hélt sjálfur kveðskap sínum til haga, en talsvert af því, sem hann lét eftir sig, virðist hafa týnzt úr safni hans.

Að lokum skal getið hér þriggja ljóðskálda af yngri kynslóðinni, sem voru öll fædd og uppalin á Stokkseyri, en fluttust síðan til Reykjavíkur. Elztur þeirra var hið þjóðkunna gamanskáld Sigurður Ívarsson (1899-1937). Sigurður orti í mörg ár fyrir „Spegilinn” undir dulnefninu Z, og þóttu gamankvæði hans bera af öðrum sams konar kveðskap sakir léttrar og markvísrar fyndni og persónulegs stíls, og enn í dag hefir enginn tekið honum fram í þess háttar ljóðagerð hér á landi. Sigurður gaf út þrjár ljóðabækur: Vér brosum 1929, Alþingismannatal 1930 og Verkin tala 1931. Seldust þær fljótt upp og hafa ekki verið prentaðar aftur. Einar M. Jónsson stúdent og kennari frá Unhól á Stokkseyri (f. 1904) hefir getið sér gott orð sem skáld. Hann hefir gefið út þrjár ljóðabækur: Að morgni 1942, Brim á skerjum 1946 og Þallir 1958. Hann hefir um nokkurra ára skeið verið skólastjóri iðnskólans að Reykjalundi.

Yngstur þessara skálda er Helgi Sæmundsson frá Baldurshaga á Stokkseyri (f. 1920). Hann gaf út eina ljóðabók: Sól yfir sundum, æskuljóð, 1940, en hefir síðan að mestu lagt skáldskapinn á hilluna. Hann hefir þýtt fjölda bóka, skáldsögur og önnur rit, og má þar t. d. nefna Lygn streymir Don eftir Sjolokoff og Smásögur eftir Arnulf Överland. Helgi hefir stundað blaðamennsku og ritstjórn og er nú ritstjóri Andvara og formaður Menntamálaráðs Íslands.

Þegar vikið er að skáldum í óbundnu máli, verður enginn fyrr tilnefndur á Stokkseyri en Bjarni Pálsson í Götu. Hann samdi að minnsta kosti fjögur leikrit, og er „Eitt kvöld á klúbbnum” þeirra merkast. En um leikritun Bjarna er rækilega ritað hér að framan, og skal það ekki endurtekið. Kemur þá næst til sögunnar Sigurður Heiðdal skólastjóri og síðar forstöðumaður vinnuhælisins á Eyrarbakka (f. 1884). Hann kom til Stokkseyrar 1919 og var skólastjóri þar í 10 ár og gegndi þar ýmsum öðrum trúnaðarstörfum, en síðan í önnur 10 ár forstöðumaður vinnuhælisins. Sigurður er, eins og kunnugt er, mikilvirkur og þjóðkunnur rithöfundur, hefir samið leikrit og margar skáldsögur. Helztu rit hans eru þessi: Stiklur 1917, Hræður I-II 1918-19, Bjargið, leikrit, 1919, Hrannaslóð, sögur, 1921, Svartir dagar, skáldsaga, 1942 og Örlög á Litla-Hrauni 1957. Margt fleira hefir hann ritað, þótt hér verði ekki talið.

Enn eru ótaldir tveir rithöfundar, nokkru yngri, sem slitu barnsskónum á Stokkseyri, en fluttust þaðan burt. Annar þeirra er hin vinsæla skáldkona, Ragnheiður Jónsdóttir kennari (f. 1895). Hún hefir ritað fjölda bóka, bæði skáldsögur og einkum sögur handa börnum og unglingum. Þessar eru skáldsögur hennar: Arfur 1941, Í skugga Glæsibæjar 1945, Úr minnisblöðum Þóru frá Hvammi: Eg á gull að gjalda 1954 og Aðgát skal höfð 1955, Sárt brenna gómarnir 1958. Bækur Ragnheiðar handa börnum og unglingum eru þessar:

Ævintýraleikir 1934, Hlini kóngsson 1943, Dóra 1945, Dóra í Álfheimum 1945, Dóra og Kári 1947, Vala 1948, Dóra verður átján ára 1949, Hörður og Helga 1950, Í Glaðheimum 1951, Dóra sér og sigrar 1952, Sólhvörf 1953, Dóra í dag 1954, Gott er í Glaðheimum 1955, Vala og Dóra 1956 og Glaðheimakvöld 1958. Auk þess hefir Ragnheiður birt margar smásögur handa börnum og fullorðnum í blöðum og tímaritum. Hún er nú meðal mest lesnu rithöfunda landsins. Hinn rithöfundurinn er Bjarni M. Jónsson. námsstjóri (f. 1901). Hann hefir ritað ævintýri handa börnum, er nefnast Kóngsdóttirin fagra 1926 og Álfagull 1927. Báðar þær bækur komu í annarri útgáfu 1948. Bjarni hefir ritað ýmislegt um skólamál og m. a. samdi hann skýrslur um landspróf barna í mörg ár.

Leave a Reply