Eftir langan lestur dapurlegra frásagna um sjóslys og manntjón á brimslóðum Stokkseyrar er gott að minnast þess, að þar gerðust líka oft atburðir, sem vöktu óblandna hrifningu og gleði. Það var þegar tókst að bjarga mönnum úr sjávarháska eða þegar skip náðu landi eftir langa og tvísýna hrakninga. Slíkir atburðir drógu úr broddi slysfaranna. Nokkrir formenn voru svo lánsamir að bjarga mannslífum á sjó einhvern tíma formannsævi sinnar, en engan formann veit eg á Stokkseyri fyrr eða síðar er orðið hafi bjargvættur viðlíka eins margra manna og Jón Sturlaugsson hafnsögumaður. Er skylt að geta þeirra afreka hans hér sérstaklega og ekki sízt fyrir þá sök, að hann var einnig að öðru leyti forustumaður um margt, er að sjómennsku laut í byggðarlaginu, svo sem um lendingar- og hafnarbætur, slysavarnir, stofnun ekknasjóðs, frysti. húsrekstur og fleira. Jón byrjaði að róa á vorvertíð, þegar hann var á 12. ári og var sjómaður óslitið í 57 ár (1880-1937). Hann var formaður á opnum skipum og vélbátum í 45 ár (1893-1937) og hafnsögumaður í 46 ár (1893- 1938) eða til dauðadags. Fáir hafa átt lengri og happasælli sjómannsferil en hann eða haft til að bera í ríkara mæli þá eiginleika, sem formanni á Stokkseyri mega bezt að haldi koma.
Eftirfarandi frásagnir af björgunarstörfum Jóns Sturlaugssonar eru byggðar á staðfestum skýrslum.
1) Um morguninn 15. apríl 1898 var róið til fiskjar frá Stokkseyri í fremur góðu veðri. Vindur var vestanstæður. Þegar leið fram á morguninn, sást seglskip koma af hafi, og er það nálgaðist, kom í ljós, að það hafði uppi neyðarmerki. Jón Sturlaugsson tók sig þá undir eins upp og sigldi til skipsins. Var þetta frakknesk fiskiskúta, ,,Isalla“ að nafni, og kominn að henni svo mikill leki, að skipverjar stóðu við að dæla. Einn af hásetum Jóns kunni lítið eitt í ensku, og sögðu Frakkar honum, að þeir vildu sigla skútunni í land, því að hún héldist ekki uppi fyrir leka; höfðu þeir ætlað að sigla til Reykjavíkur, en vindstaðan gert þeim það ókleift. Jón lét segja þeim, að hann vildi fyrst hafa tal af mönnum í landi og ráðgast um, hvað gera skyldi. Voru Frakkarnir mótfallnir því og vildu undir eins sigla skútunni í land, en Jón sat við sinn keip og sagðist mundu koma aftur að stundarkorni liðnu. Hann fór síðan í land og bar sig saman við reynda sjómenn, og varð niðurstaðan sú að sigla skútunni inn. Síðan sótti Jón skútuna og sigldi henni í land, og bjargaðist öll áhöfnin, 24 menn .
2) Að morgni dags 4. desember 1899 reri Jón til fiskjar ásamt fleirum. Þegar hann var búinn að draga lóðina, hélt hann til lands, og var þá komið stórbrim og ófær sjór. Þegar hann korn að sundinu, var bátur Þorkels Magnússonar í Eystri-Móhúsum að farast þar. Eftir litla stund lagði Jón inn í sundið og tókst að bjarga 3 mönnum, en tvo hafði tekið út, og drukknuðu þeir. Nokkru síðar lagði Jón inn úr sundinu og lentist vel.
3) Í birtingu um morguninn 14. marz 1906 var Jón Sturlaugsson að ganga til skips með línuna og ætlaði í róður. Heyrir hann þá gufuskip þeyta eimpípuna í ákafa. Hleypur hann þá upp á sjógarð og sér ljós í brimgarðinum fyrir austan Stokkseyri. Skipaði Jón mönnum sínum að bera heim línuna, og gengu þeir síðan niður að skipi, ýttu á flot og héldu út Músarsund. Herti Jón á hásetum sínum að róa vel, því að hann sá, að sjór var að versna. Þegar þeir komu á strandstaðinn, gekk brimið óbrotið yfir skipið og allt upp í siglutré, en bátur var á floti við skipið og tveir menn í honum og voru stöðugt að ausa. Skipið lá flatt við briminu, og auðsjáanlega voru þeir búnir að láta lýsi eða olíu í sjóinn, því að mikil lygna var aftur af skipinu. Með þeim mannafla, sem Jón hafði, treysti hann sér ekki að leggja að skipinu, en tók það ráð að róa bátnum aftur á bak inn í brimið. Þegar hann átti fáa faðma eftir, benti hann skipbrotsmönnum að korna, og köstuðu þeir sér niður í skipsbátinn, og seildust þeir og björgunarmennirnir hvorir á móti öðrum, þar til Jón og annar maður til náði í borðstokk skipsbátsins, sem var þá að því kominn að sökkva, því að hann hafði brotnað við skipssíðuna. Skipbrotsmennirnir komust allir upp í bát Jóns, en um það bil 5 mínútum síðar kipptist hið strandaða skip út af skerinu og sökk og sá ekki á siglutoppana. Í þessum svifum var sjór að verða ófær, en Jóni tókst lendingin giftusamlega. Skipið, sem strandaði, var togari frá Hull, „Destimona“ að nafni, og var áhöfnin 12 menn. Fyrir þessa björgun fekk Jón vandaðan sjónauka að gjöf frá brezku stjórninni. Þar með fylgdi skjal með eiginhandarundirskriftum mannanna, sem björguðust.
4) Það bar til 2. apríl 1908, að Jón fór í róður sem margir aðrir. Meðan þeir voru á sjónum, stórbrimaði, og þegar Jón kom að Stokkseyrarsundi, lágu mörg skip við sundið. Aðeins eitt skip, þ. e. skip Ingvars Karelssonar í Hvíld, hafði lagt inn á sundið, og fórst það. Þegar Jón kom, voru tveir menn í skipinu, sem kastaðist til og frá í briminu, en þar sem það var ýmist á hvolfi eða upp í loft, losnaði annar maðurinn við það. Eftir stundarkorn sætti Jón lagi og lagði inn í sundið og heppnaðist að ná þessum eina manni lifandi, sem eftir var í skipinu. Einnig náði hann þremur mönnum örendum. Enginn þeirra, sem lágu við sundið, treystist til að lenda heima, heldur sneru til Þorlákshafnar og þar á meðal Jón.
5) Hinn 19. marz 1913 reri eitt skip úr Loftsstaðasandi í slæmu sjóveðri og brimhroða, sem fór versnandi. Formaður var Guðmundur Hannesson í Tungu. Gat hann ekki lent heima og ekki heldur af eigin rammleik á Stokkseyri, því að þar var stórbrim og ekki róið þann dag. Jón Sturlaugsson sá sem fleiri til ferða skipsins og skildi, að það var í hættu statt. Brauzt hann því út á vélbáti og sótti mennina, 12 að tölu. Lendingin tókst vel.
6) Að morgni dags 16. apríl 1913 reri Jón á vélbáti með þorskanet út undir Selvog. Veður var fremur gott, meðan hann var að leggja netin, en um þær mundir sem hann hafði lokið því, skall á útnyrðingsveður, og var þá lagt af stað heimleiðis. Þegar hann kom austur á móts við Þorlákshöfn, tóku skipverjar eftir því, að árabátur var á siglingu frammi í hafi, en í því veðri var ófært að sigla, því að ofan á rokið bættist stórsjór, og lá skipið undir áföllum. Jón tók þá fyrir að fara til áraskipsins, setti í það taug og dró það til Eyrarbakka. Skip þetta var úr Þorlákshöfn, en þangað var ógerningur að draga það, því að það var beint á móti veðrinu. Á skipinu var 13 manna áhöfn. Ekki kvaðst Jón geta verið dómari um það, hvort mennirnir hefðu komizt lífs af án hjálpar, þar sem hann fann þá svo langt undan landi, en kalda útivist mundu þeir hafa átt og alls ekki náð landi næstu nótt og ekki daginn eftir, en þá var hörkufrost. Jón lenti í myrkri á Stokkseyri um kvöldið, og var hann og menn hans mikið hraktir.
7) Hinn 14. febrúar 1919 reri Jón á vélbáti og lagði línuna langt undan Stokkseyri. Veður var nokkuð hvasst af norðaustri, en þegar á daginn leið, gerði mikið rok, en sjór fór að ýfast, og upp úr því varð brim við lendinguna. Þegar Jón var búinn að draga hálfa línuna, kemur vélbátur á reki í veðrinu með neyðarveifu uppi og rekur fram hjá. Jón sinnti honum ekki alveg undir eins, en þegar hann fór að gæta betur að, sá hann, að ekki mátti lengur bíða, því að báturinn var að hverfa sjónum. Brá hann þá hnífi á línuna, fór af stað og náði bátnum og dró hann upp til Stokkseyrar. Þegar þangað kom, var sundið ófært með öllu, og tók Jón þá það ráð að fara með bátinn til Þorlákshafnar. Þar lágu þeir á höfninni um nóttina. Morguninn eftir var hvassviðri af norðaustri og vont veður. Tók Jón þá mennina úr bátnum, 8 að tölu, og flutti þá heim til Stokkseyrar og lentist vel.
Samkvæmt því, sem nú hefir sagt verið, bjargaði Jón Sturlaugsson alls 73 mönnum úr sjávarháska, 37 íslenzkum og 36 erlendum. Fyrir þau afrek meðal annars hlaut hann heiðursgjöf frá alþingi 1918 og var sæmdur riddarakrossi fálkaorðunnar 1. desember 1926.
Jón var fæddur 13. nóv. 1868, sonur Sturlaugs Jónssonar bónda og formanns í Starkaðarhúsum og fyrri konu hans, Önnu Gísladóttur á Ásgautsstöðum Þorsteinssonar. Jón átti til sjómanna að telja í báðar ættir og var að langfeðgatali kominn frá Bergi Sturlaugssyni í Brattsholti og Vopna-Teiti, sem áður eru nefndir. Hann ólst upp hjá foreldrum sínum og síðan föður sínum og stjúpmóður, Snjáfríði Nikulásdóttur frá Stokkseyrarseli, og varð fyrirvinna hennar um skeið, eftir að hann missti föður sinn. Eins og áður er sagt hóf hann ungur sjósókn og svo formennsku og stundaði þau störf mestmegnis til æviloka. Jón kvæntist 1898 Vilborgu Hannesdóttur frá Skipum, reisti sama ár húsið Vinaminni í Stokkseyrarhverfi, og bjuggu þau hjón þar allan sinn búskap. Þau eignuðust 10 börn og komust 9 þeirra upp. Þrátt fyrir ómegðina efnaðist Jón vel með dugnaði, ráðdeild og reglusemi. Var heimili þeirra hjóna jafnan með myndarbrag, enda var kona hans eigi síður mikilhæf á sínu sviði. Bæði tóku þau mikinn og farsælan þátt í félagslífi sveitunga sinna, og er þess getið á öðrum stöðum í þessu riti. Kemur Jón og víða við sögu framfara- og menningarmála í hreppnum, einkum þeim, er að sjómennsku lúta. Hann átti sæti í hreppsnefnd um nokkurt skeið og var hreppstjóri á árunum 1930-1933, en sagði því embætti þá af sér. Jón andaðist 5. ágúst 1938.