You are currently viewing 049-Baugstaðarjómabú
Baugstaðarjómaútibú

049-Baugstaðarjómabú

Um síðustu aldamót voru stofnuð fyrstu rjómabúin hér á landi, og var einn helzti forgöngumaður þeirra Sigurður Sigurðsson ráðunautur, er hafði kynnt sér slíka starfsemi í Danmörku á vegum Búnaðarfélags Íslands. Samdi hann fróðlega greinargerð um dönsku mjólkurbúin, er birtist í Búnaðarritinu 1899, og sýndi fram á, hvílíkur búhnykkur þau höfðu reynzt þar í landi. Varð þetta til þess, að ýmsir framfarasinnaðir bændur fengu áhuga á að reyna hið sama hér, og reið Ágúst Helgason í Birtingaholti á vaðið með vísi að slíku búi sumarið 1900.[note]Sbr. Ágúst Helgason, Endurminningar, 115-116.[/note] Tilraunir hans og annarra þóttu vel gefast, og brátt urðu bændur hrifnir af þessari nýbreytni. Smjörið seldist á hærra verði en áður og tekjurnar uxu af búunum. Varð þetta til þess, að á fyrsta áratug aldarinnar risu upp rjómabú í nálega öllum sveitum landsins.

Það var á fundi í Búnaðarfélagi Stokkseyrarhrepps 27. jan. 1904, sem stofnun rjómabús þar í sveit var fyrst rædd á opinberum vettvangi, svo að kunnugt sé. Á þeim fundi flutti Sigurður ráðunautur erindi um búnaðarmál, þar á meðal um stofnun rjómabús, en lagði að lokum til, að málinu yrði slegið á frest fyrst um sinn sökum ónógs undirbúnings. Á fundi, sem haldinn var í félaginu 3. maí um vorið, var ákveðið að fresta framkvæmdum til næsta árs, en fá mann frá Búnaðarfélagi Íslands til þess að skoða rjómabússtæðið og gera áætlun um kostnað.

Bera verður til hvers hlutar nokkuð, og svo varð hér, að smáatvik varð þess valdandi, að rjómabússtofnuinni var hrundið í framkvæmd fyrr en ráðgert hafði verið. Sumarið 1904 brá Gísli Pálsson í Kakkarhjáleigu (síðar Hoftúni) sér til Reykjavíkur og hafði meðal annars meðferðis tvo kassa af smjöri til sölu. Í öðrum kassanum var gulleitt smjör, og gekk greiðlega að selja það, en í hinum var hvítt vetrarsmjör, og vildu það fáir. Varð hann að ganga milli manna til þess að koma því út og losnaði loks við það fyrir kr. 1.30 kg. Hét Gísli því þá, að hann skyldi ekki fara fleiri slíkar ferðir til Reykjavíkur. Gísli var áhugamaður mikill og fljóthuga. Tók hann sig þegar til og kynnti sér vandlega starfrækslu þeirra rjómabúa, sem þá höfðu verið stofnuð, og að því búnu tók hann að hvetja sveitunga sína til þess að koma upp rjómabúi og hefjast þegar handa. Fekk hann ýmsa góða menn í lið með sér, svo sem sr. Einar Pálsson í Gaulverjabæ, Ólaf kaupmann Árnason á Stokkseyri o. fl. Einnig nutu þeir ráða og stuðnings Sigurðar Sigurðssonar ráðunauts um fyrirkomulag búsins og framkvæmdir. Þegar í upphafi mun hafa verið gert ráð fyrir því, að Stokkseyrarhreppur og Gaulverjabæjarhreppur yrðu saman um eitt rjómabú, enda var því valinn staður með tilliti til þess.

Stofnfundur rjómabúsins var haldinn á Baugsstöðum 8. okt. 1904, og voru þar lög samþykkt, stjórn kosin og félagar skráðir. Fundinn sóttu 40 bændur úr báðum hreppum, 29 gerðust þegar félagar, en síðar bættust við 19, svo að fyrsta árið voru í rjómabúinu 48 félagar. Þegar að fundinum loknum var hafizt handa um framkvæmdir, vatnsveituskurður, 1.4 km. að lengd, grafinn ofan úr Hólavatni, svo að vatnsafl væri hægt að nota til að hreyfa vélarnar, skáli reistur og vélar útvegaðar. Stóð búið fullgert og tók til starfa 21. júní 1905.

Rjómaskálinn, sem stendur að mestu með sömu ummerkjum enn í dag, var reistur við Baugsstaðaá spölkorn fyrir vestan Baugsstaði við svonefnt Þórðarker, sem um getur í vísu Einars á Tóftum, er hann kvað um rjómabúið:

Þarna fram við Þórðarker
þar skal rjómabúið standa
og búa til hið bezta smér,
sem berst á milli heimsins landa.

Grunnurinn er harður sandbakki og umhverfið láglent, en í góðu veðri er þar hin fegursta útsýn til fjallahrings þess hins mikla, er lykur um Suðurlandsundirlendið, og til Vestmannaeyja. Grunnmál rjómaskálans er 6X7 m., og að auki var við enda skálans reistur 2.5 m. breiður skúr, sem síðan var hækkaður jafnt húsinu. Þar er hreyfill, klefi fyrir fitumælingar og geymslu og á loftinu vörugeymsla. Skálinn er grafinn nokkuð í jörðu, og eru veggirnir að neðan úr steinsteypu um 1 m. háir. Síðan er trégrind, sem járnklædd er að utan, en þiljuð að innan. Gólfið er úr steinsteypu. Skálanum er skipt í þrennt, vinnuherbergi (strokkur, hnoðunarvél o. fl.), móttökustofa með suðupotti o. fl. Loks er íbúðarherbergi fyrir bústýruna og aðstoðarstúlku. Yfirsmiður að húsinu var Jón Gestsson í Villingaholti.

Kælihús var byggt við búið 1910. Það var torfkofi, 3 X 4 m. að grunnmáli. Helmingur hans var fylltur með snjó eða ísi á vetrum, en í hinum hlutanum voru geymd smjörkvartil. Kælihúsið var notað í 10 ár, en síðan var það stækkað og því breytt í geymsluhús.

Eins og áður er sagt, var vatnsafl notað til að hreyfa vélar búsins, og var vatnið leitt í skurði úr Hólavatni. Vatnið í skurðinum frýs stundum á vetrum, og þess vegna var keyptur 4 hestafla hreyfill til búsins árið 1929. Árið 1934 var búið raflýst, og kostaði það 900 kr. Áhöld búsins eru ekki margbrotin, aðallega strokkur, hnoðunarborð, fitumælingaráhöld, ostaker, sýruker o. fl. Hafa þau verið að nokkru endurbætt. Árið 1908 var t. d. keyptur nýr strokkur og smjörhnoðunarborð, og árið 1929 fekk búið smjörmótborð.

Upprunalegur stofnkostnaður rjómabúsins var um 4000 kr. Til þess að standast þann kostnað var tekið 3000 kr. lán í Landsbankanum. Það lán var greitt upp 1906, en þá fekk búið 2500 kr. lán úr viðlagasjóði til 20 ára með 3% vöxtum, afborgunarlaust fyrstu 4 árin. Var það endurgreitt að fullu 1924. Önnur lán hefir búið ekki tekið og var skuldlaust síðan og átti jafnan nokkuð af handbæru fé, auk eigna, húsa og áhalda.

Þær 1000 kr., sem á vantaði stofnkostnaðinn, þurftu félagsmenn að leggja fram. Það fé fekkst með þeim hætti, að hver félagi lét vinna eitt dagsverk, sem metið var á kr. 2.50 fyrir 12 stunda vinnu. Enn fremur greiddu félagar kr. 2.50 fyrir hvert kúgildi, sem þeir höfðu af mjólkurpeningi, og voru 15 ær taldar í kúgildinu. Nægði þetta til stofnkostnaðarins. En í sambandi við búið bættist það einnig við, að hver bóndi varð að útvega sér skilvindu, því að þær voru þá aðeins til á örfáum stöðum. Skilvindur kostuðu þá kr. 75-120, og miðað við kaupgetu bænda á þeim tímum hafa þetta því verið allmikil útgjöld.

Auk stofnkostnaðar lagði félagið fram nokkurt fé til endurbóta bæði á húsi og vélum, til kaupa á hreyfli, til raflýsingar o. fl. En frá byrjun lagði rjómabúið nokkurt fé í varasjóð. Voru öll þessi útgjöld greidd úr honum, og átti búið þó stundum álitlega fúlgu í honum, t. d. 1915 um 2250 kr.

Baugsstaðarjómabúið tók til starfa 21. júní 1905, eins og áður segir, og má segja, að það hafi starfað til vorsins 1948, en þá voru allir hluthafarnir farnir úr félaginu. Á árunum 1925 og 1927 féll starfsemin þó að mestu niður, og var þá nokkurt los á félagsskapnum, einkum vegna sölu mjólkur og rjóma til Reykjavíkur. Fram til 1928 starfaði rjómabúið aðeins um sumarmánuðina, en eftir það allt árið. Síðast var tekið af strokk í búinu 17. okt. 1952. Var þá strokkað fyrir tvö heimili, sem höfðu litla mjólk og fannst ekki taka því að fara með hana í mjólkurbúið.

Félagatala í Baugsstaðabúinu var lengst af nokkuð óstöðug. Það byrjaði með 48 félögum, en 1913 voru þeir orðnir 94 og voru þá flestir. Eftir það fór þeim að fækka, 1916 voru þeir 72, 1928 aðeins 32, en fjölgaði svo aftur á næstu árum, voru t. d. 44 árið 1934, en fór síðan óðum fækkandi fram að 1940 og voru þá komnir niður í 10. Á árunum 194,1-44 voru félagsmenn 8, 1945 voru þeir 7 og síðustu þrjú árin 1946-48 aðeins 3. Af stofnendum rjómabúsins hélt Hólaheimilið lengst tryggð við það, en það fór í júlí 1947.

Í sambandi við fækkun félagsmanna Baugsstaðarjómabús eftir 1913 hefir Sigurgrímur Jónsson í Holti, sem fylgzt hefir með þessum málum frá upphafi, látið bréflega í ljós við mig athyglisverða skýringu, sem ástæða er til að benda á. Hann segir m. a.: ,,Að minni hyggju gerir hér vart við sig þróun í innanlandsmálum, sem orðið hefir örlagarík fyrir þetta byggðarlag. Reykjavík er tekin að eflast að fólksfjölda. Þar er að myndast hópur neytenda, sem þegar á stríðsárunum fyrri hefir náð nokkurri kaupgetu og borgar fyrir heimagert smjör svipað verð og rjómabúin gátu greitt. Rjómabúin höfðu innleitt nokkra þekkingu um meðferð mjólkur og aukna vöruvöndun, og höfðu bændur því frambærilega vöru, – höfðu t. d. lært að lita vetrarsmjörið. Í Reykjavík hafði jafnframt skapazt markaður fyrir aðrar gjaldeyrisvörur bænda, svo sem hangikjöt og kæfu. Þegar þar við bætist, að í Reykjavík fengu þeir vörur til heimilisþarfa fyrir lægra verð en verzlanir austanfjalls gátu selt þær fyrir, verður það eðlileg þróun, að menn nota sína eigin hestvagna og sækja heldur lengra til þess að fá betri verzlun. Þetta skýrir hnignun rjómabúsins og jafnframt samdrátt verzlunar á Stokkseyri og Eyrarbakka. Annað form kom svo á öll þessi viðskiptamál síðar.“

Stjórn rjómabúsins var skipuð 3 mönnum. Í fyrstu stjórninni voru þeir Ólafur Árnason kaupmaður á Stokkseyri, Gísli Pálsson í Hoftúni og sr. Einar Pálsson í Gaulverjabæ. En formenn stjórnarinnar hafa þessir menn verið:

Ólafur Árnason kaupmaður, Stokkseyri  1904-1906
Sr. Einar Pálsson prestur í Gaulverjabæ 1907-1908
Jón Jónsson bóndi, Vestri-Loftsstöðum 1909-1910
Gísli Pálsson bóndi, Hoftúni 1911-1930
Ólafur Gunnarsson bóndi, Baugsstöðum 1931-1948

Af þessum mönnum voru tveir hinir síðast töldu langlengst í formannssæti og inntu af hendi mest starf í þágu félagsins í fundahöldum og ýmiss konar fyrirgreiðslu og höfðu mest með fjármál búsins að sýsla. Af öðrum, sem sæti áttu í stjórninni lengur eða skemur, má nefna Sigurð Einarsson kaupmann á Stokkseyri, Jason Steinþórsson í Vorsabæ, Magnús Hannesson í Hólum og Guðlaug Jónsson á Hellum. Af endurskoðendum búsins má nefna Júníus Pálsson á Syðra-Seli, Jón Sigurðsson í Syðri-Gróf og Ingvar Hannesson á Skipum.

Miklu máli skipti það rjómabúin á sinni tíð, að vel tækist til um val bústýru, enda réðust venjulega til þess starfa hinar efnilegustu stúlkur í hverri sveit og að undangengnu námi um eins vetrar skeið í mjólkurskólanum á Hvítárvöllum í Borgarfirði, er stofnaður var og rekinn í því skyni að þjálfa stúlkur í þessu starfi. Það er einróma vitnisburður kunnugra, að bústýrur þær, sem stýrðu Baugsstaðarjómabúinu, hafi allar leyst störf sín af hendi með ágætum og hver um sig átt ríkan þátt í velgengni búsins. En bústýrur voru þessar:

Margrét Jónsdóttir frá Sandlækjarkoti 1905-1906
Ragnheiður Hallgrímsdóttir frá Kalastöðum 1907-1915
Guðmunda Ólafsdóttir frá Björk í Flóa 1916-1918
Borghildur Magnúsdóttir frá Arabæ í Flóa 1919-1924
Sigurlína Högnadóttir frá Vík í Mýrdal 1926
Margrét Júníusdóttir frá Syðra-Seli  1928 og síðan

Fyrsta starf fyrstu rjómabústýrunnar var að ferðast milli allra félaganna til að leiðbeina þeim um meðferð mjólkurinnar. Þess skal getið til fróðleiks, að kaup hennar frá júní til septembers eða í 4 mánuði var kr. 128,00. Verða það 8 kr. á viku, og þótti hátt kaup.

Þegar Margrét Júníusdóttir kom að Baugsstaðabúinu, hafði hún verið rjómabústýra á öðrum stöðum í 20 ár og mun því án efa hafa starfað lengst

allra kvenna við rjómabú hér á landi eða samfleytt á fimmta áratug. Er því rétt að geta þessarar merku dugnaðarkonu hér nokkru nánar.

Margrét er fædd á Syðra-Seli 19. nóv. 1882, og voru foreldrar hennar Júníus Pálsson, síðar bóndi og sýslunefndarmaður þar, og unnusta hans Ingveldur Erlendsdóttir. Ingveldur varð úti í mannskaðaveðrinu 29. marz 1883, en Margrét ólst upp hjá ömmu sinni, Margréti Gísladóttur á SyðraSeli. Hún réðst aðstoðarstúlka við rjómabúið á Baugsstöðum hjá Ragnheiði Hallgrímsdóttur 1907, en fór um haustið í mjólkurskólann á Hvítárvöllum og útskrifaðist þaðan næsta vor.

Var hún síðan rjómabústýra í Þykkvabæ í Rangárvallasýslu á árunum 1908-1921, þá að Hróarslæk í Flóa 1922 og svo að Hofsá undir Eyjafjöllum 1923- 1927. Árið eftir réðst hún að Baugsstaðabúinu og veitti því síðan forstöðu alla tíð, meðan það starfaði. Þess skal getið, að veturinn 1911-12 dvaldist Margrét í Danmörku við mjólkurbúið Lögstrup á Jótlandi til frekari fullkomnunar í starfi sínu. Margrét gat sér jafnan sérstaklega góðan orðstír sem rjóma. bústýra, enda fylgdist að hjá henni dugnaður og reglusemi í öllum störfum. Við Baugsstaðabúið hafði hún ekki aðeins hin venjulegu bústörf og umsjón á hendi, heldur einnig alla reikningsfærslu búsins. Hún hefir einnig veitt forstöðu pöntunarfélagi Baugsstaðarjómabús, frá því að það var stofnað, og annazt innkaup þess, rekstur og reikningshald að öllu leyti. Er nánar skýrt frá því í þættinum um verzlun. Fyrir þessi störf sín í almennings þarfir hefir Margrét unnið sér óskorað traust og vínsældir.

Þess skal getið til gamans, að Margrét hefir alls búið til smjör, sem nemur 217.460 kg. í þeim rjómabúum, sem hún hefir starfað við, þar af rúmlega 108.000 kg. í Baugsstaðabúinu. Nú á dögum þykir það kannske líka í frásögur færandi, að hún gaf sér aldrei tíma til að taka sumarleyfi. Mest kveðst Margrét hafa tekið af strokk 60 kg. í einu, en minnst 1 kg.

Allt fram á heimsstyrjaldarárin fyrri eða til ársins 1916 var smjörframleiðsla búsins seld á erlendum markaði nema að litlum hluta tvö síðustu árin (1915-16). En á styrjaldarárunum breyttist þetta, og frá 1917 voru vörur búsins eingöngu seldar innanlands, og svo var æ síðan. Hér fer nú á eftir skýrsla um árlega smjörframleiðslu búsins og söluverð hennar.

ÁrSmjörmagn í kg. Verð í kr.ÁrSmjörmagn í kg. Verð kr.
1905540083781928534021326
190666301138819291387158253
19077900130551930816732481
19088670157501931844329113
190910368180151932866028177
191011416206241933901229950
1911138842713919341013034113
1912164783218519351084734495
1913155262785019361064934399
19146696129711937669222692
191510266242291938366412998
1916876521635193922088354
191738107182194016978355
19183139207911941159713727
19193310200621942176824808
19202446173821943180623180
19213004211991944183639196
19223826199531945119226248
192353612344319462756962
192428811693119471925835
1926227588361948401244
Samtals206137886899

Frá 1917 framleiddi búið einnig ost úr áfunum, og nam andvirði hans til 1934 kr. 14.702,00 alls. Á árunum 1928-29 seldi búið enn fremur rjóma til Reykjavíkur fyrir kr. 2.270,00. Á öllum starfstíma sínum seldi búið því smjör og aðrar mjólkurafurðir fyrir rúmlega 900.000 kr. eða fyrir um það bil kr. 20.500 að meðaltali á ári.

Rekstrarkostnaður rjómabúsins var á fyrstu árum þess 22-25 aurar á hvert kg. smjörs, en á stríðsárunum fyrri hækkaði hann að mun. Á árunum eftir 1930 var hann 50-65 aurar á kg., en þar í var þó inni falinn ýmiss konar kostnaður við endurbætur á áhöldum og húsi. Um þær mundir var svo um samið, að bústýran borgaði vinnulaun, hreinlætisvörur o. fl. og fengi fyrir það 10% af heildartekjum búsins.

Þegar frá upphafi studdi ríkið viðleitni bænda til að koma upp rjómabúum með tvennum hætti. Annars vegar var það gert með hagkvæmum lánum, en hins vegar með verðlaunum fyrir útflutt smjör. Verðlaunin voru miðuð víð gæði smjörsins og söluverð, en voru annars nokkuð breytileg. Hlutdeild Baugsstaðabúsins í þessum verðlaunum var sem hér segir:

Verðlaun fyrir útflutt smjör

ÁrKrónur
19051009.00
1906907.00
19071260.00
19081138.00
19091049.00
19101068.00
1911982.00
19121473.00
19131510.00
Samtals10466.00

Þetta fé hefir verið mjög mikilsverður stuðningur fyrir rjómabúið á þeim tíma.

Um flutninga til búsins og frá því er þess að geta, að bændur önnuðust sjálfir um alla tilflutninga. Rjóminn var fluttur þrisvar í viku á sumrin, en tvisvar í viku á vetrum til búsins, og voru nokkrir menn í samvinnu um það verk, fluttu hver frá öðrum til skiptis. Í fyrstu sáu bændur einnig um flutning á smjöri og öðrum afurðum frá búinu, og var farin ein ferð á viku til Reykjavíkur á sumrum, en á hálfs mánaðar fresti á vetrum. Flutningur með bílum byrjaði 1923. Hafði búið sérstakan bílstjóra, sem flutti allt til og frá búinu fyrir ákvæðisverð. Var það lengst af sami maðurinn, Gunnar Ingimundarson í Hellukoti. Auk þess að annast um flutninga sá hann um sölu og innheimtu fyrir seldar vörur í Reykjavík í samráði við rjómabústýruna. Jafnframt flutti hann vörur fyrir pöntunarfélagið.

Stofnun og starfræksla rjómabúsins á Baugsstöðum er merkur þáttur í framfarasögu félagssvæðisins. Mönnum varð ljósari en áður máttur samtaka og samvinnu, urðu félagslega þroskaðri eftir en áður. Rjómabúið kenndi mönnum vöruvöndun á mjólkurafurðum, en hirðusemi og hreinlæti á því sviði hlaut að leiða til hins sama um aðrar búsafurðir. Einnig færði búið mönnum drjúgar tekjur, sem áður voru lítt þekktar, og stuðlaði þannig beint að batnandi hag, því að óvíst verður að telja, að hverju þær 900.000 kr. hefðu orðið, sem búið færði félagsmönnum sínum, ef það hefði aldrei verið stofnað. Gæfa fylgdi störfum búsins einnig að því leyti, að það framleiddi jafnan hina beztu vöru þrátt fyrir erfiðar aðstæður, takmörkuð húsakynni og hin einföldustu áhöld. Smjörið frá Baugsstöðum var mjög eftirsótt í Reykjavík og af mörgum tekið fram yfir smjör frá nýtízku mjólkurbúum. Var þetta fyrst og fremst rjómabústýrunum að þakka sem kunnu vel sín verk og ræktu þau af alúð og samvizkusemi.

Rjómabúin í sveitum landsins heyra nú sögunni til, og hlutverki þeirra er lokið. Þau voru áfangi á þróunarleið frá frumstæðum búskaparháttum fyrri alda til hinna fullkomnu mjólkurbúa nútímans. Eftir að Mjólkurbú Flóamanna tók til starfa 1928, voru örlög Baugsstaðabúsins ráðin. Þó þraukaði það enn í tvo áratugi, lengur en flest ef ekki öll rjómabú önnur á landinu. Og enn í dag stendur rjómaskálinn gamli fram við Þórðarker við Baugsstaðaá sem minnisvarði liðins tíma, – forgengilegur minnisvarði, sem einn góðan veðurdag verður ekki annað en rústir einar og hróf.

(Heimildir: Rjómabúið á Baugsstöðum 1904-1934 eftir Sigurð Sigurðsson Fyrrv. búnaðarmálastjóra (Búnaðarrit 1936). – Skriflegar og munnlegar heimildir frá Margréti Júníusdóttur rjómabústýru o. fl.).

Leave a Reply