Í fundargerð skólanefndar barnaskólans í Stokkseyrarhreppi hinum forna 1.nóv. 1878 segir svo: „Ísleifur Vernharðsson er af nefndinni fenginn til að kenna börnunum í vetur í Stokkseyrardeildinni. Var skólinn þar settur af sóknarprestinum með ræðu þann 17. október 1878, eftir að þau 16 börn, sem í hann ganga, höfðu verið yfirheyrð í bóklestri og þeim raðað.“Þetta er í fyrsta sinn, sem skóli er settur á Stokkseyri og sérstakur kennari ráðinn til hans. Er því 17. október 1878 réttur stofndagur barnaskólans á Stokkseyri, sem nú heitir Barna- og unglingaskóli Stokkseyrar og átti 80 ára afmæli á því ári, sem þessi þáttur var ritaður.
Ísleifur Vernharðsson var kennari á Stokkseyri í 5 vetur ( 1878-1883) , þó þannig, að síðasta veturinn 1882-1883 var hann einnig kennari á Eyrarbakka, enda þá orðinn búsettur þar, og er hann því síðasti kennarinn, sem starfaði á báðum stöðunum samtímis. Talið er, að Bjarni Pálsson í Götu hafi kennt söng í skólanum á þeim árum og að líkindum ókeypis. Tók Bjarni við skólanum eftir Ísleif og var kennari þar í 4 ár (1883-1887) eða til þess er hann féll frá. Þá tók við lón Pálsson yngri, bróðir Bjarna, og var einnig í 4 ár (1887-1891), en síðan Guðmundur Sæmundsson í Rauðarhól og síðar í Bræðraborg. Kenndi hann lengst allra manna við barnaskólann á Stokkseyri eða alls í 26 ár ( 1891-1917). Þessir menn nutu allir mikils álits sem kennarar meðal þeirra, sem til þekktu, voru stjórnsamir og reglusamir, litu vandlega eftir siðprýði og hegðun nemenda og gættu þess, að þeir stunduðu nám sitt samvizkulega og undanbragðalaust.[note]Sumir hafa talið, að þeir Ívar Sigurðsson og Ísólfur Pálsson hafi verið kennarar við skólann um skeið, en svo er ekki. Ingvar á Skipum og Þórdís í Móhúsum segja þó, að vera megi, að þeir hafi kennt þar dag og dag í forföllum, en meira hafi það ekki verið.[/note]
Þegar Ísleifur Vernharðsson hóf kennslu á Stokkseyri, fór kennslan fram í sérstöku húsi „stofu“), sem var sameign skólans og hreppsins og notað til fundahalds og fleira. Það stóð ofarlega á svonefndum Hölluhól, vestan til við vesturbæinn á Stokkseyri, að sögn fróðra manna. Hús þetta var ein stofa með herbergiskytru fyrir utan, er nota mátti sem skammakrók. Ris var uppi yfir, og var þar búið. Ekki hefir tekizt að afla vitneskju um það, hvenær þetta fyrsta skólahús á Stokkseyri var reist, en nýtt mun það ekki hafa verið, er Ísleifur hóf þar kennslu, og bendir það því með öðru fleira til eldra skólahalds þar. Í fundargerð skólanefndar 28. febr. 1880 segir svo um þetta hús: „Skólanefndin gengur inn á það að kaupa sveitarhlutann úr þing- og skólahúsinu á Stokkseyri, svo húsið verður algjörlega héðan af skólans eign. Þar á móti undirgengst sveitin að borga skólanum árlega 25 krónur í leigu af húsinu fyrir öll fundarhöld.“ Hinn 10. febr. 1884 skrifar þáverandi kennari á Stokkseyri, Bjarni Pálsson í Götu, skólanefndinni bréf, „hvar í að hann óskar að fá yfirráð yfir skólahúsinu þar,“ þ. e. á Stokkseyri. Ekki er kunnugt, hvernig nefndin svaraði þeirri málaleitan, en sennilegt er, að Bjarni hafi farið fram á þetta, til þess að hann væri frjáls að því að nota húsið til söng- og leikæfinga og annarrar félags- og menningarstarfsemi, sem hann hafði með höndum.En um þessar mundir hófst skólanefndin handa um byggingu nýs skólahúss og stærra. Í fundargerð nefndarinnar 7. febrúar 1886 er komizt svo að orði: „Vegna þess að skólinn á Stokkseyri hefir verið byggður að nýju úr timbri, hefir þetta haft í för með sér svo mikinn kostnað, að nefndin ekki sér skólanum fært að komast frá honum nema með því að taka þær 600 krónur, sem hafa verið lagðar fyrir á seinustu árum, til að létta á skuld skólans, og samþykkist þetta.“Af þessu virðist liggja beinast við, að hið nýja skólahús hafi verið byggt sumarið 1885. Þetta kemur heim við frásögn Þórdísar í Móhúsum, dóttur Bjarna Pálssonar í Götu, en hún kvaðst hafa verið tvo vetur, er hún var 8-10 ára gömul, í skóla hjá föður sínum í litla skólahúsinu („stofunni“) á Stokkseyri. Þórdís var fædd 17. jan. 1875, og hefir þetta því verið á árunum 1883-85. Fyrir 1885 hefir nýi skólinn því ekki verið byggður, en síðar hefir það ekki heldur verið, eins og fundargerðin sannar.[note] Það er áreiðanlega á misskilningi byggt í Sögu Eyrarbakka II, 171, sbr. 174, og í Sögu barnaskólans á Eyrarbakka, bls. 92, að skólahúsið í Götu hafi verið reist 1879. Mun þar átt við fyrsta skólahúsið heima á Stokkseyri, en engin heimild er fyrir því, að það hafi heldur verið reist það ár.[/note]
Nýja skólahúsið var byggt í Götu hjá heimili kennarans, og varð það brátt málvenja að kalla það Götuskólann. Það var timburhús og líktist helzt veglegri skemmu. Það var allstór kennslustofa ásamt dálitlum skammakrók og loft yfir. Þetta var aðalsamkomuhús þorpsbúa, unz góðtemplarahúsið var byggt 1898, og voru þar haldnir hreppsfundir og oft formannafundir, og þar fóru einnig fram leiksýningar. Götuskólinn var notaður sem skólahús í 24 ár, enda var hann þá fyrir löngu orðinn of lítill.
Hér fer á eftir annáll um starfsemi barnaskólans á Stokkseyri á árunum 1878-97 samkvæmt gerðabók skólanefndar; eru þær upplýsingar hvergi til annars staðar og eru fróðlegar, þótt þurrar séu. 1878-79: Skólinn settur af sóknarpresti með ræðu 17. okt. að loknu lestrarprófi og röðun barnanna, 16 að tölu; skólanum sagt upp 15. febr. með ræðu af sóknarprestinum, eftir að próf hafði farið fram. 1879-80: Skólinn settur með ræðu af sóknarprestinum 6. okt., er börnin höfðu verið prófuð í lestri og þeim raðað; að loknu prófi var skólanum sagt upp 6. febr. með ræðu af sóknarpresti. 1880-81:
Skólinn settur 4. okt. með ræðu af sóknarprestinum að loknu lestrarprófi og röðun barnanna, 17 að tölu; skólanum sagt upp 5. febr. með ræðu af sóknarprestinum; börnin voru áður yfirheyrð og þeim raðað. 1881-82: Skólinn settur 1. okt. með 11 börnum; skólanum sagt upp 3. febr., eftir að próf hafði fram farið og börnunum hafði verið raðað. 1882–83: Setningardags ekki getið; skólanum sagt upp 5. febr. 1883-84: Skólinn settur laugardaginn 29. sept. með ræðu af barnakennaranum Bjarna Pálssyni og börnum raðað, eftir að þau höfðu verið reynd í bóklestri; skólanum sagt upp 1. febr. að loknu prófi og röðun barnanna. 1884-85: Skólinn settur 29. sept. af kennaranum, organista Bjarna Pálssyni, með ræðu; skólanum sagt upp 4. febr. 1885-86:
Setningardags ekki getið; skólanum sagt upp 7. febr. að prófi loknu. 1886- 87: Skólinn settur 1. okt., og voru 12 börn komin til kennslu; próf haldið 7. febr. og skólanum sagt upp. 1887-88: Ekkert bókað um skólahaldið. 1888- 89: Skólinn í Götu settur 24. sept., kennari Jón Pálsson, og mættu þar 24 börn; skólanum sagt upp 28. febr.; voru öll börnin viðstödd, sem kennslunnar höfðu notið, og gekk fremur vel. 1889-90: Skólinn settur 26. sept. með 17 börnum, kennari Jón Pálsson eins og áður; skólanum sagt upp 1. marz; gekk prófið yfir höfuð vel á báðum stöðum. 1890-91: Skólinn var haldinn frá október· byrjun til febrúarloka með kennara Jóni organista Pálssyni í Götu. 1891-92: Skólinn var haldinn frá októberbyrjun til febrúarloka með Guðmund Sæmundsson í Rauðarhól fyrir kennara. 1892-93: Skólinn stóð frá októberbyrjun til marzloka, kennari sami þá og framvegis. 1893-94: Skólinn settur 3. okt. með 15 börnum; formaður skólanefndarinnar setti skólann með ræðu; miðsvetrarpróf haldið um jólaleytið og aðalpróf 27. febr. og skólanum þá sagt slitið; gengu 17 börn undir prófið, og voru þeir sr. Ólafur Helgason og Ísólfur Pálsson prófdómendur. 1894-95: Prófum og fyrirkomulagi kennslunnar yfir höfuð hagað svo sem að undanförnu; skólarnir hlutu ár þetta 325 kr. styrk úr landssjóði. 1895-96: Kennarar og kennslutilhögun hið sama og áður; skólanum veittur styrkur úr landssjóði 320 kr. 1896-97: Kennarar sömu og áður, kennslutilhögun sama; skólanum veittur 318 kr. styrkur úr landssjóði.
Í maímánuði 1897 var Stokkseyrarhreppi hinum forna skipt í tvö hreppsfélög. Varð þá sú breyting jafnhliða á skólanum, að hið sameiginlega fjárhald þeirra hvarf úr sögunni og hvor skólinn um sig varð sjálfstæð stofnun, er rekin var á vegum hreppsfélaganna með skólagjöldum og dálitlum styrk úr landsjóði. Skólaskylda var engin fremur en áður, og stóð svo til þess er hin merku fræðslulög voru sett árið 1907, en þau komu raunar ekki til framkvæmda á Stokkseyri fyrr en haustið 1909. Um skólagjöld á þessum árum er það kunnugt, að fram til 1907 voru þau 5 krónur á mánuði fyrir barnið, en þá voru þau hækkuð upp i 6 krónur. Skyldi gjaldið þá greiðast hálft fyrirfram og eftirstöðvarnar eigi síðar en 10. maí. Heimilt var mönnum einnig að greiða allt gjaldið fyrirfram, og skyldi það þá vera 5 krónur á mánuði eins og áður var. Landsjóðsstyrkur til skólans var nokkuð mismunandi frá ári til árs; 1904 var hann 132 krónur, en 1906 277 krónur, svo að dæmi séu nefnd.
Aðalkennari skólans á þessu tímabili var Guðmundur Sæmundsson, eins og áður er sagt. Um laun hans er það að segja, að þau voru lengi vel 30 krónur á mánuði, en 1906 voru þau hækkuð upp í 40 krónur. Árið 1908 ætlaði Guðmundur að hætta kennslu, en skólanefnd bað hann þess bréflega að halda áfram starfi sínu sem fyrsti kennari. Gaf Guðmundur kost á því fyrir 50 krónur á mánuði, og gekk nefndin að því með því skilyrði, að 25 börn fengjust til kennslunnar í hans bekk; að öðrum kosti skyldi kaupið vera hið sama sem undanfarin ár, 40-45 krónur á mánuði.
Allt það tímabil, sem hér um ræðir, eða þangað til skólaskylda var lögleidd, starfaði skólinn með svipuðum hætti. Kennslutíminn var 4-5 mánuðir á ári, frá byrjun októbermánaðar til byrjunar febrúar eða marz. Kennslustundir voru venjulega 5 á degi hverjum, frá kl. 10–3. Börnin voru flest á aldrinum 10-13 ára og yfirleitt orðin læs, er þau komu í skólann, enda þá ávallt prófuð í lestri. Um þá kennslu önnuðust heimilin að langmestu leyti, og gerði þessi kunnátta börnunum að sjálfsögðu allt nám í skólanum auðveldara og notadrýgra. Námsgreinar voru: lestur, skrift, reikningur, kver og biblíusögur, landafræði, mannkynssaga og danska. Á dögum Ísleifs Vernharðssonar og Bjarna Pálssonar kenndi Bjarni einnig söng. Það var lengi siður að hefja fyrstu kennslustundina á morgnana með því að syngja sálm og lesa stutta bæn, og í síðasta tímanum var alltaf söngur, að minnsta kosti í tíð Bjarna Pálssonar. Á haustin var skólinn jafnan settur með ræðu sóknarprests eða kennara, og að prófum loknum var honum slitið með sama hætti. Þetta gaf skólastarfinu virðulegan blæ. Agi var svo góður, að sjaldan eða aldrei þurfti að beita valdi eða refsingum, enda ber öllum saman um það, að uppeldisáhrif skólans hafi verið mikil og góð. Ríkt var gengið eftir því, að börnin lærðu lexíur sínar heima og sæktu vel kennslustundir. Að einu leyti var þó nokkur rýmkun á því ger. Þegar gæftir voru og vel fiskaðist, var skólabörnum leyft að hjálpa til við beitningu eða nýtingu aflans. En til þess að leyfi þetta væri ekki misnotað, gerði skólanefnd árið 1906 börnunum það að skyldu að koma í skólann hvern dag, sem ekki væri róið þegar að morgni, og fara ekki úr skólanum, nema róið yrði. Lífsbaráttan heimtaði eitt og skólinn annað, og hér var hliðrað til á skynsamlegan hátt. Samkvæmt reynslu síðari tíma er árangur af skólastarfi hvergi betri en einmitt þar, sem tekizt hefir að sameina bóklegt nám og hagnýta vinnu.
Stærsta sporið, sem stigið hefir verið til eflingar almennri menntun hér á landi, var setning laga um fræðslu barna og unglinga og laga um stofnun kennaraskóla 22. nóv. 1907. Í fræðslulögunum var ákveðin skólaskylda barna á aldrinum 10-14 ára og heimilunum jafnframt gert að skyldu að sjá svo um, að börnin væru nokkurn veginn læs og skrifandi 10 ára gömul. Þar, sem fastir skólar voru starfandi, skyldi árlegur námstími vera 6 mánuðir. Kostnaður við skólahaldið skyldi greiðast af því opinbera, sveitarfélögum, bæjarfélögum og Úr landsjóði. Þurfti nú enginn að fara á mis við skólagöngu fyrir fátæktar sakir. Fræðslulögin voru tvívegis endurskoðuð. Árið 1926 voru gerðar á þeim þær aðalbreytingar, að fræðslumálastjórn var veitt heimild til að leyfa eða ákveða skólaskyldu frá 7 ára aldri og lögákveðinn var styrkur til byggingar skólahúsa utan kaupstaða. Við endurskoðun laganna 1936 var skólaskyldan látin hefjast um 7 ára aldur, farkennsla skyldi leggjast niður að mestu eða öllu leyti og heimavistarskólar reistir í sveitum, þar sem því yrði við komið. og enn fremur voru þá sett ákvæði um námseftirlit, sem kom þó ekki til framkvæmda fyrr en á árinu 1941. Loks voru sett ný og yfirgripsmikil lög um fræðslu barna og lög um gagnfræðanám árið 1946, og eru þau nú í gildi. Samkvæmt þeim nær skólaskyldan frá 7-15 ára aldurs, og hafa barnaskólarnir kennsluna á hendi, unz börnin eru orðin 13 ára, en þá taka við unglingadeildir gagnfræðaskólanna, og lýkur skólaskyldunni með svonefndu unglingaprófi eftir tveggja vetra nám þar. Gert er ráð fyrir 7 mánaða námstíma á ári. Með lögum þessum eru barnaskólarnir tengdir beint við framhaldsskólana. Er nú öllum dugandi unglingum vegurinn til mennta miklum mun greiðari en áður var.
Þegar fræðslulögin frá 1907 gengu í gildi, urðu í rauninni engar teljandi breytingar á barnaskólanum á Stokkseyri. Skólinn hafði þegar þriggja áratuga reynslu að baki sér og var kominn í fast horf, mjög svo á þá lund, sem lögin gerðu ráð fyrir, svo sem um aldur og undirbúning nemenda, námsgreinar og kennslutíma. Eitt var það þó, sem af skólaskyldunni leiddi, og það var fjölgun nemenda, en hún hafði það hins vegar í för með sér, að ekki varð undan því komizt að reisa nýtt skólahús. Gamli Götuskólinn var fyrir löngu orðinn of lítill og auk þess svo úr sér genginn, að heilsu kennara og nemenda var stefnt í voða, með því að húsið hélt hvorki vatni né vindi, að sögn gamalla nemenda, sem þar voru, en upphitun lakleg. Á fundi skólanefndar 2. marz 1903 er þegar rætt „um hús skólans og var álitið ónóg með tilliti til þess, að aðsókn skólans eykst mjög, og ákvarðaði nefndin að fara fram á það við hreppsnefndina, að hún taki ábyrgð á láni að minnsta kosti 1000 kr. til þess að reisa nýtt skólahús eða kaupa hús í stað hins gamla.“ Við þetta var þó látið sitja enn um sinn. Sumarið 1909 var loks ráðizt í byggingu nýs skólahúss. Það var timburhús, tvær allrúmgóðar kennslustofur, og stóð á túninu í Eystri-Móhúsum norðan við bæinn, en fyrir sunnan Götuhús. Fekk hreppsnefndin á leigu 250 ferfaðma lóð umhverfis skólann hjá eigendum Stokkseyrartorfunnar fyrir 15 kr. árlegt eftirgjald. Af Götuskólanum gamla er það að segja. að eigendur vélbátanna „Vonarinnar“og „Þorra“, Pálmar Pálsson, Jón Sturlaugsson o. fl., keyptu húsið, fluttu það vestur að Stokkseyri veturinn 1909- 10 og notuðu það fyrir fiskhús, en seinna var það haft fyrir veiðarfærageymslu og þess háttar. Endalok þess urðu þau, að það brann í brunanum mikla í desember 1926. Þess skal getið, að í árslok 1910, er gerðir voru upp reikningar gamla skólans, námu skuldlausar eignir hans kr. 150.76, þar með talið afgjald af Vallarhjáleigu.
Haustið 1909 varð það allt í senn, að barnaskólinn á Stokkseyri tók til starfa samkvæmt hinum nýju fræðslulögum, hann fekk nýtt hús og nýr skólastjóri kom að skólanum. Það var Páll Bjarnason frá Götu, er síðar var skólastjóri í Vestmannaeyjum, gáfaður maður og vel að sér og ágætur kennari. Var hann skólastjóri til 1917 og Guðmundur Sæmundsson samkennari hans jafnlengi, en þá hurfu þeir báðir frá skólanum. Þess má geta til tíðinda frá þeim árum, að 1913 ákvað skólanefndin að afnema mánaðarleyfin í skólanum. Veit eg ekki, hve lengi það bann gilti, en leyfin voru síðar tekin upp aftur, svo sem alls staðar er venja. Árið eftir heimilaði nefndin allt að 25 kr. til garðræktar gegn því að skólabörnin fengju frjálsan aðgang að vinnu við hana. Veturinn 1915-16 fekk Páll leyfi til að vera fjarverandi frá skólanum. Var hann þá ritstjóri „Suðurlands“og sat á Eyrarbakka, en skólastjóri í hans stað var Sigurður Þorkelsson frá Gamla-Hrauni, síðar fulltrúi hjá tollstjóra í Reykjavík. Nemendur voru þá 65 að tölu og stóð þannig á, að skipta varð yngri deildinni í tvennt. Þurfti að kenna tveimur tímum lengur á dag en venja hafði verið, og gáfu kennararnir kost á að gera það, og fengu þeir í kaup fyrir þá kennslu annar 60 aura og hinn 40 aura fyrir tímann. Árið eftir var nemendatalan 76, og munu kennararnir þá einnig hafa bætt við sig aukavinnu. Þá var einnig stofnuð stöfunardeild fyrir börn innan skólaskyldualdurs, og var kennslugjald fyrir hvert barn ákveðið 1 kr. 75 aurar á mánuði. Þátttaka var lítil, og lagðist sú kennsla niður um sinn. Páll Bjarnason var áhugamaður í starfi sínu, og meðal annars hélt hann foreldrafundi, sem mun hafa verið nýjung austur þar. Þess er t. d. getið, að hann hafi haldið slíkan fund á Stokkseyri 4. jan. 1914, og var umræðuefnið samvinna skóla og heimila. Var fundurinn vel sóttur, og einkum fjölmenntu konur.[note]Sbr. Suðurland, 7. jan. 1914.[/note]
Á stríðsárunum 1914-18, einkum er fram í sótti, var alls staðar erfitt um skólahald vegna dýrtíðar og skorts á ýmsum nauðsynjum, einkum á eldsneyti. Kol urðu óheyrilega dýr, og varð víða að draga mjög úr skólahaldi, þar eð efni voru ekki fyrir hendi til þess að hita upp skólahúsin. Sumarið 1917 ákvað skólanefndin á Stokkseyri að hafa aðeins einn kennara veturinn eftir og kenna í annarri skólastofunni, þegar ekki væri kalt í veðri. Að öðru leyti skyldi kennslan fara fram á einstökum heimilum, þar sem safnað væri saman nokkrum börnum í senn. Kennslutíminn skyldi vera óákveðinn. Kennari var ráðinn Guðjón Guðjónsson, síðar skólastjóri í Hafnarfirði, og starfaði hann við skólann á Stokkseyri í tvo vetur, 1917-19, með furðu góðum árangri, miðað við hinar erfiðu aðstæður stríðsáranna. Seinni veturinn kenndi kona hans, Ragnheiður Jónsdóttir rithöfundur frá Aldarminni, með honum við skólann.Árið 1919 réðst Sigurður Heiðdal rithöfundur skólastjóri til Stokkseyrar, og gegndi hann því starfi til 1929, er hann gerðist forstöðumaður vinnuhælisins á Eyrarbakka, er þá var nýstofnað. Samkennari hans fyrsta árið var Sigurður Sigurðsson, skaftfellskur maður, og var hann einnig stundakennari árið eftir. En haustið 1920 var Jónas Jósteinsson síðar yfirkennari við Austurbæjarskólann í Reykjavík, ráðinn kennari að Stokkseyri að tillögum Magnúsar Helgasonar skólastjóra Kennaraskólans. Var Jónas síðan samkennari Sigurðar Heiðdals, meðan Sigurður var skólastjóri, og tók við skólastjórninni af honum og hafði á hendi í tvö ár 1929-31, en sagði þá upp starfi sínu og fluttist suður. Þeir Sigurður Heiðdal og Jónas Jósteinsson eru báðir þekktir skólamenn, enda nutu þeir bæði trausts og álits í starfi sínu við skólann á Stokkseyri. Tóku þeir og báðir þátt í sveitarmálefnum og félagslífi, svo sem merki má sjá til annars staðar í riti þessu.
Þess er vert að geta, að Sigurður Heiðdal varð til þess fyrstur manna að efna til skólaskemmtana fyrir börnin í skólanum á Stokkseyri. Að þeim skemmtunum stóðu bæði kennarar og nemendur. Æfði hann börnin í upplestri og flutningi stuttra leikþátta og tók þau heim til sín til æfinganna. Væri aðgangur seldur á slíkar skólaskemmtanir, rann ágóðinn til barnabókasafnsins, sem Sigurður stofnaði og hafði mikinn hug á að efla. Slíkar skólaskemmtanir voru einnig haldnar í skólastjóratíð Jarþrúðar Einarsdóttur og ef til vill lengur.
Fyrstu árin eftir stríðið fór nemendum fjölgandi í skólanum á Stokkseyri. Veturinn 1920-21 voru nemendur um 70, og urðu deildir barnaskólans þá þrjár. Var Sigurður Sigurðsson þá ráðinn stundakennari til að kenna yngstu deildinni tvo tíma á dag til 1. apríl fyrir 1 kr. 30 aura um tímann. Þar á meðal voru og börn innan skólaskyldualdurs, og skyldi kennslukaup fyrir þau vera 18 kr. fyrir allan tímann. Eins og áður hafði verið, gerðust fáir til að nota sér kennsluna handa stöfunarbörnum, og næstu veturna önnuðust föstu kennararnir um alla kennslu við skólann. En veturinn 1923-24 komst tala nemenda upp í 105 eða þar um bil. Þurfti þá að fá þriðja kennarann, og var það Helga Þorgilsdóttir, núverandi yfirkennari við Melaskólann í Reykjavík. Næsta ár fækkaði nemendum aftur svo mikið vegna hins mikla burtflutnings fólks frá Stokkseyri, að tveir kennarar nægðu eins og áður hafði verið.
Á þessu tímabili fór jafnan fram meiri eða minni kennsla í svonefndum aukagreinum. Söngkennslu var haldið uppi árlega allt frá skólastjóratíð Páls Bjarnasonar, frá 1913 eða fyrr. Kennari var Gísli Pálsson í Hoftúni, og kenndi hann að minnsta kosti framan af sum árin ókeypis eina stund á viku, en oftast sem stundakennari fyrir ákveðna þóknun og síðast sem fastur söngkennari á árunum 1925-33, er Axel Þórðarson kennari tók við söngkennslunni af honum. Kvenfélagið hélt öðru hvoru í mörg ár uppi kennslu í handavinnu stúlkna, og höfðu kvenfélagskonur kennsluna á hendi án þess að taka laun fyrir. Árið 1926 ákvað skólanefndin að koma á fastri kennslu í handavinnu, en þó féll hún niður í nokkur ár eftir það. Öll árin, sem Jónas Jósteinsson starfaði við skólann, kenndi hann drengjum leikfimi tvo tíma á viku. Átti sú kennsla að fara fram í samkomuhúsinu, en vegna kulda eða af öðrum ástæðum var sjaldnast hægt að nota það. Venjulega var það því til ráðs tekið að taka til í skólastofunum að lokinni venjulegri kennslu og kenna leikfimina þar. Veturinn 1925-26 fekk Jónas orlof frá kennslu til utanfarar, og var Hafliði Sæmundsson, síðar kennari við Austurbæjarskólann í Reykjavík, staðgöngumaður hans þann vetur. Einnig fekk Sigurður Heiðdal leyfi frá kennslu frá nýári 1928, og kenndi Gunnar M. Magnúss rithöfundur fyrir hann út veturinn. Árin, sem Jónas var skólastjóri, 1929-1931, var samkennari hans Sigurður Eyjólfsson frá Kalastöðum, síðar skólastjóri á Selfossi.
Þegar Jónas Jósteinsson fór, tók við skólastjórninni Jarþrúður Einarsdóttir frá Tóftum, núverandi kennari við Austurbæjarskólann í Reykjavík. Gegndi hún skólastjórastarfinu á Stokkseyri í tvö ár 1931-1933, og var Sigurður Eyjólfsson samkennari hennar fyrra árið, en Loftur Guðmundsson rithöfundur seinna árið. Nemendur voru um þær mundir um og yfir 60. Jarþrúður tók að sér að sjá börnum úr farskólahverfinu í uppsveitinni fyrir heimavist, svo að þau gætu sótt skólann á Stokkseyri, og kom það sér vel fyrir börnin og aðstandendur þeirra.
Haustið 1933 réðust tveir nýir kennarar að skólanum. Skólastjóri var ráðinn Hlöðver Sigurðsson, núverandi skólastjóri barnaskólans á Siglufirði, og gegndi hann því starfi í 10 ár eða til ársins 1943. Samkennari hans allan tímann var Axel Þórðarson, núverandi kennari við Miðbæjarskólann í Reykjavík. Var hann kennari við barnaskólann á Stokkseyri til 1946 eða í samfleytt 13 ár, en seinni árin var hann jafnframt símstjóri og póstafgreiðslumaður. Þeir Hlöðver og Axel voru einir sem fastakennarar þessi ár, og var samvinna þeirra hin bezta. Framan af var skólinn í tveimur deildum að mestu, en eftir að fræðslulögunum var breytt 1936, voru tekin í skólann börn frá 7 ára aldri. Varð þá að fjölga deildum upp í 3-4, en til þess að kennararnir kæmust yfir alla kennsluna, var starfstími skólans lengdur í 9 mánuði, og jafnframt voru hinar reglulegu kennslustundir styttar úr 50 mínútum, sem verið hafði, niður í 40 mínútur. Hlöðver kenndi leikfimi, meðan hann var við skólann, og fór hún fram í samkomuhúsinu, þó að aðstaða þar væri ekki góð, en hún batnaði að mun, eftir að baði var komið fyrir í kjallara hússins. Einnig kenndi Hlöðver drengjum handavinnu, smíðar, bókband o. fl., og ræktu drengirnir það nám af miklum áhuga, en handavinnukennari stúlkna var lengst af Margrét Gísladóttir í Hoftúni. Axel kenndi söng öll sín ár við skólann, tvo tíma á viku í hverjum bekk; einnig kenndi hann lítils háttar handavinnu. Á þessu tímabili voru nemendur venjulega um 60-70 að tölu.
Hér skal nú staðar numið um hríð, og víkur nú sögunni að húsnæðismálum skólans. Þegar hér var komið sögu, voru mörg ár liðin, síðan kvartanir fóru að koma fram um það, að skólahúsið frá 1909 væri ónógt og úr sér gengið. Í bréfi skólanefndar til hreppsnefndar 15. apríl 1935 er ástandinu í þessum efnum lýst þannig: ,,Skólastjóri lýsti því fyrir nefndinni, að óhjákvæmilegt væri, að gera þyrfti miklar umbætur við skólann þegar á þessu ári, þar sem á flestum sviðum skorti á, að skólahús og kennsluáhöld fullnægðu þeim kröfum, er almennt væru gerðar til slíkra stofnana og lög mæla fyrir um. Flest væri orðið gamalt, úrelt og úr sér gengið, bæði hús og áhöld, að við slíkt yrði ekki lengur unað. Það, sem skólastjóri taldi mest aðkallandi að þessu sinni, væri, að settir yrðu nýir gluggar í skólastofurnar; þeir, sem fyrir væru, séu flestir orðnir fúnir og haldi hvorki vindi né vatni; fengin ný skólaborð, sem nú eru flest orðin ónothæf, auk þess illa gerð og óholl fyrir börnin. Þá taldi hann nauðsyn á, að skólinn fengi stærri lóð en hann nú hefir til umráða fyrir leikvöll og hann yrði afgirtur; enn fremur ýmsar minni háttar umbætur, m. a. á ljósum í skólanum, hillur til bókageymslu o. s. frv. Þá sagði hann salerni skólans í megnri óhirðu og í alla staði óviðunandi að hafa þau í því ástandi, sem þau nú eru í.“
Sumarið 1936 var unnið að því að gera við skólann, því að svo segir í fundargerð skólanefndar 13. sept. það ár: ,,Hefir nú verið gert við ýmislegt, er ábótavant hefir verið, sett nýtt gólf í skólaganginn, ný útidyrahurð, fatasnagar og fleira, enn fremur von á nýjum borðum og stólum í kennslustofurnar á þessu hausti.“Þess skal getið, að Kvenfélag Stokkseyrar lagði fram fé til kaupa á borðum í skólastofurnar, og eru þau flest í notkun enn í dag.
Þessi viðgerð reyndist ekki annað en ný bót á gamalt fat, og sótti skjótt aftur í sama horfið. Hinn 6. júní 1942 skrifar skólanefnd hreppsnefndinni á þessa leið: ,,Skólanefnd vill vekja athygli hreppsnefndar á því, að húsnæði barnaskólans er alveg óviðunandi. Telur skólanefnd því sjálfsagt, að áætlað verði fé á fjárhagsáætlun til endurbótar á skólahúsinu eða nýbyggingar. Telur nefndin, að nú séu heppilegir tímar til að afla fjár til framtaks og umbóta.“Á þessu ári og hinu næsta voru haldnir foreldrafundir til þess að ræða um málefni skólans. Í marz 1946 er enn kvartað um það í fundargerð skólanefndar, að húsnæði skólans sé óviðunandi. En þá var farið að hilla undir lausn þessa vanda: byggingu nýs og veglegs skólahúss, þótt enn liðu nokkur ár, unz það yrði að veruleika.
Um byggingu nýs skólahúss er fyrst rætt ákveðið á fundi skólanefndar 7. febr. 1939. Var þá samþykkt að fara þess á leit við hreppsnefnd m. a., að hún fái teikningu og kostnaðaráætlun nýs skólahúss og fari þegar að undirbúa byggingu þess, eftir því sem hún sjái sér fært. Þetta mál þokaðist þó hægt fram. Nærri fjórum árum síðar barst skólanefnd tillöguuppdráttur af væntanlegu skólahúsi, gerður af húsameistara ríkisins, Guðjóni Samúelssyni, og var þá samþykkt á sameiginlegum fundi skólanefndar og hreppsnefndar 27. jan. 1943 að fara þess á leit við fræðslumálastjórn, að hún sækti um ríkisstyrk til skólabyggingar á fjárlögum fyrir næsta ár, og yrði það fé lagt til hliðar, ef ekki þætti fært að ráðast í byggingu á því ári. Hinn 30. nóv. 1943 var fundur haldinn í skólanefndinni að beiðni Bjarna M. Jónssonar námsstjóra, og sótti hann fundinn ásamt Þorsteini Einarssyni íþróttafulltrúa í Reykjavík, sem hafði verið beðinn að koma austur til þess að athuga stað fyrir skólann með tilliti til leikvallar. Staðir þeir, sem honum hafði einkum verið hent á, voru í Tjarnarkoti og á gamla skólastaðnum, og taldi hann þá báða viðunandi. Á fundinum var skýrt frá því, að hreppurinn hefði þegar lagt til hliðar 20.000 kr. til skólabyggingar og margir hefðu munnlega lofað dagsverkum til skólans.
Þrátt fyrir þetta leið enn og beið um framkvæmdir. Árið 1946 tók skólanefnd að gerast óþolinmóð, samþykkti 17. marz áskorun til hreppsnefndar um að hefja byggingu á næsta ári og hélt síðan marga fundi um byggingarmálið og bréfagerðum uppi um það við hreppsnefndarmenn, héraðslækni o. fl. Bætti það ekki úr skák, að kominn var upp ágreiningur um skólastaðinn. Varð það þá að ráði að fá fræðslumálastjóra, skipulagsstjóra og íþróttafulltrúa austur til Stokkseyrar til þess að ákveða stað handa hinu nýja skólahúsi í samráði við námstjóra, skólanefnd og hreppsnefnd. Komu allir þessir aðiljar saman á fund 27. ágúst 1946, og eftir nokkrar umræður og athuganir var skólanum valinn staður vestarlega á Stokkseyrartúni gamla, vestur undir Löngudæl, og voru þar þá reknir niður hælar.
Sumarið 1947 var loks hafizt handa um byggingu skólahússins, og var verkinu síðan haldið áfram næstu árin, enda var þörfin fyrir það orðin brýn. Á fyrsta byggingarári nýja skólans barst honum höfðingleg gjöf að upphæð 10.000 krónur frá hjónunum Árna Tómassyni hreppstjóra í Bræðratungu og konu hans Magneu Einarsdóttur í tilefni af sextugsafmæli Árna hinn 13. okt. 1947. Afhentu þau hjón hreppsnefndinni gjöf þessa hinn 31. des. sama ár. Kom fé þetta að sjálfsögðu í góðar þarfir, því að byggingin varð dýr. Sumarið 1950 var henni það langt komið, að hreppsnefndin sá sér fært að selja gamla skólahúsið. Var þá verið að stofna fiskþurrkunarhús á Stokkseyri, og keyptu stofnendur þess gamla skólann og rifu hann þá um sumarið og byggðu upp úr honum Þurrkhús Stokkseyrar.
Haustið 1950 fluttist skólinn í nýja húsið og tók þar til starfa hinn 21. október. Vantaði þó mikið á, að húsið væri fullgert, og enn er önnur álma þess óbyggð, en þar er ráðgert að verði leikfimissalur. Er gert ráð fyrir að ljúka byggingunni, þegar fé fæst til hennar. Einnig er eftir að girða og lagfæra lóð skólans, en þar er gert ráð fyrir rúmgóðum leikvelli handa börnunum. Þrátt fyrir það sem á vantar, er skólahúsið myndarleg og vegleg bygging, sem hýsa mun skólaæsku Stokkseyrar um langa framtíð. Auk skólans eru nú í húsinu bókasafn lestrarfélagsins, viðtalsstofa héraðslæknis, og þar var einnig um skeið skrifstofa hreppsins. Einnig er þar stofa fyrir ljóslækningalampa kvenfélagsins og ljósböð fyrir börn og fullorðna í sambandi við þá.
Oft átti skólanefnd úr vöndu að ráða að útvega skólastjóra eða kennurum húsnæði, þar eð ekki var til neitt sérstakt íbúðarhús handa þeim á Stokkseyri. Er þess t. d. getið í fundargerð nefndarinnar 22. júlí 1947, að til vandræða horfi um íbúð handa skólastjóra og talið ólíklegt, að nokkur skólastjóri fáist, ef þetta lagist ekki innan tíðar. Gerði nefndin það að tillögu sinni, að þá þegar yrði hafizt handa um byggingu skólastjóraíbúðar. Þetta dróst þó að vísu enn um nokkur ár, en haustið 1952 var lokið við byggingu hússins. Það stendur á skólalóðinni og er tveggja hæða steinhús og íbúðir fyrir skólastjóra og kennara. Hús þetta nefnist Stjörnusteinar eftir hinum forna bæ Ölvis Hásteinssonar.
Þegar skólinn fluttist í hið nýja hús haustið 1950, voru nemendur 59 að tölu. Skólastjóri varð þá Björn Guðmundsson, sem verið hafði kennari þar einn vetur áður, en er nú talkennari við barnaskólana í Reykjavík. Samkennarar hans voru Björn Gestsson og Valborg Helgadóttir, nú kennslukona í Reykjavík. Veturinn 1951-52 fekk Björn Guðmundsson fjarvistarleyfi, en Páll Sigurðsson, nú á Akureyri, kenndi fyrir hann. Nemendur voru þá 66 að tölu. Kennarar ásamt Páli voru þá Ásta Hannesdóttir nú húsfreyja í Reykjavík, og Óskar Magnússon, sem var síðan kennari við skólann í 6 ár, en fluttist að barnaskólanum á Eyrarbakka haustið 1957. Veturinn 1952-53 voru nemendur í skólanum 72. Skólastjóri var þá Garðar Sveinbjörnsson frá Yzta-Skála, og í stað Ástu var ráðin kennari Jóhanna Jóhannsdóttir. Hún kenndi við skólann í þrjú ár, en fluttist til Reykjavíkur 1955. Haustið 1953 varð skólastjóri á Stokkseyri Árni Einarsson frá Raufarhöfn og gegndi því til 1959. Varð þá skólastjóri Friðbjörn Gunnlaugsson frá Akureyri, sem gegnir því embætti nú. Aðrir kennarar við skólann síðustu árin hafa verið: síra Magnús Guðjónsson veturinn 1955-56, frú Anna Sigurkarlsdóttir síðan 1957, Ragnar Ágústsson frá Svalbarða á Vatnsnesi 1957-60, frú Sigríður Sigurðardóttir síðan 1960 og Sigurlaug Gunnarsdóttir frá sama tíma. Stundakennarar við skólann hafa enn fremur verið síra Magnús Guðjónsson 1958-61 og Pálmar Eyjólfsson síðan 1959.
Nemendafjöldi hefir verið svipaður þessi árin, milli 70 og 80. Þess skal getið, að á árunum 1945-57 hafði Reykjavíkurbær jörðina Kumbaravog á leigu og rak þar hæli fyrir munaðarlaus börn. Nutu þau kennslu í Barna- og unglingaskóla Stokkseyrar. Eru þau börn ekki talin með í nemendatölunni hér á undan. Var fjöldi þeirra allbreytilegur, því að ýmist komu þau eða fóru á sama skólaárinu. Veturinn 1954-55 voru t. d. 70 innansveitarbörn í skólanum. En ef Kumbaravogsbörnin eru talin með, þá voru 99 börn í skólanum, er hann byrjaði um haustið, en ekki nema 84 um vorið. Stafaði mismunur þessi af börnum, sem flutzt höfðu burt á skólatímanum, en það voru nær eingöngu börn frá Kumbaravogi.[note] Á seinni árum hefir skólinn á Stokkseyri venjulega starfað í 5 deildum, og 1 Suðurland 11. júní 1955.[/note]
Á seinni árum hefir skólinn á Stokkseyri venjulega starfað í 5 deildum, og er ein þeirra unglingadeild. Reglulegur starfstími skólans er frá 15. sept. til 15. maí ár hvert, og byrjar hann með haustskóla fyrir yngstu börnin. Á vorin fer kennari með börn til sundnáms í Hveragerði. Kenndar eru í skólanum allar lögskyldar námsgreinar. Leikfimiskennslan fer enn fram í samkomuhúsinu „Gimli“. Eftir að Axel Þórðarson fór, hefir söngur aðeins verið kenndur annað veifið, og önnuðust þá kennsluna ýmist Margrét Gísladóttir í Hoftúni eða Pálmar Eyjólfsson í Skipagerði. Námsstjóri hefir jafnan verið Bjarni M. Jónsson frá Stokkseyri.
Hin fyrsta sérstaka skólanefnd barnaskólans á Stokkseyri var kosin á hreppsskilaþingi í júnímánuði 1897. Var hún skipuð 5 mönnum, eins og hin sameiginlega skólanefnd fyrir skólana á Eyrarbakka og Stokkseyri hafði áður verið. Þar af voru tveir menn, sóknarpresturinn og oddvitinn, sjálfkjörnir samkvæmt þeirri venju, er upp var tekin árið 1887 og fyrr er frá sagt. Var þessi háttur á hafður um skipun nefndarinnar, þar til er fræðslulögin frá 1907 gengu í gildi. Samkvæmt þeim skyldi skólanefnd einnig skipuð 5 mönnum, en þeir skyldu allir kosnir af skólahéraðsmönnum á sama hátt og kosið var í hreppsnefnd og nefndin síðan sjálf kjósa sér formann. Þessu var breytt með lögum um fræðslu barna 1926 á þá lund, að skólanefndir í hreppsfélögum skyldu skipaðar 3 mönnum, og skyldu tveir þeirra kosnir af skólahéraðsmönnum sem áður, en hinn þriðji, formaður nefndarinnar, skipaður af fræðslumálastjóra. Í fræðslulögunum frá 1946, sem nú gilda, er þetta atriði orðað svo: ,,Í hverju skólahverfi skal vera skólanefnd, skipuð þremur mönnum. Skulu tveir þeirra kosnir af nýkosinni sveitarstjórn, en fræðslumálastjórn skipar einn, og skal hann vera formaður.“Samkvæmt því er það nú hreppsnefndin, sem kýs tvo menn í skólanefndina og menntamálaráðherra, sem skipar formanninn.
Eins og kunnugt er, er skólanefnd nánasti yfirboðari skólans og hefir milligöngu um þau málefni, er hann varðar, annars vegar við sveitarstjórnina og hins vegar við stjórn fræðslumálanna á hverjum tíma. Starf skólanefndarmanna hefir alla tíð verið ólaunað, en oft er það erilsamt, og einkum þegar um meiri háttar framkvæmdir hefir verið að ræða í þágu skólans. Skólanefnd gerir tillögur um ráðningu skólastjóra og kennara, og hennar er að sjá um, að skólahús, húsmunir og kennsluáhöld séu í lagi. En allt slíkt kostar fé, og þar eiga skólanefndir undir högg að sækja á tvær hendur, bæði hjá sveitarstjórn og fræðslumálastjórn. En þær eiga hins vegar í mörg horn að líta, og því vill stundum dráttur verða á umbótum, sem sjálfsagðar virðast, enda þótt skólanefnd vilji gera sitt bezta. Skulu þeir nú taldir, er setið hafa í skólanefnd barnaskólans á Stokkseyri í síðastliðin 60 ár eða frá því er Stokkseyrarhreppi hinum -forna var skipt. Formenn skólanefndar hafa þessir menn verið:
Síra Ólafur Helgason, Stóra-Hrauni 1897-1904
Síra Gísli Skúlason, Stóra-Hrauni 1904-1904
Hannes Jónsson, Roðgúl 1908-1916
Bjarni Grímsson, Stokkseyri 1916-1926
Eyjólfur Sigurðsson, Björgvin 1926-1928
Ásgeir Eiríksson kaupmaður, Stokkseyri 1928-1939
Sæmundur Friðriksson, Brautartungu 1939-1942
Árni Tómasson, Bræðratungu 1942-1946
Guðmundur Einarsson, Merkigarði 1946-1950
Guðjón Jónsson, Vestri-Móhúsum 1950-1958
Helgi Sigurðsson, Bræðraborg 1958-
Aðrir skólanefndarmenn hafa verið þessir: Jón Jónsson oddviti, Holti 1897 -1907, Jón Jónasson kaupm., Stokkseyri 1897-1910, Guðmundur Sæmundsson kennari 1897-1908, Ólafur Árnason kaupm., Stokkseyri 1897-1902, og sátu þessir menn í fyrstu skólanefndinni ásamt síra Ólafi Helgasyni; Ísólfur Pálsson tónskáld 1902-08, Jón Adólfsson oddviti, síðar kaupm. 1907-08, Helgi Jónsson verzlunarstjóri 1908-10, Gísli Pálsson, Hoftúni 1908-13, Júníus Pálsson, Syðra-Seli 1908-16, Ingvar Jónsson, Stokkseyri 1910-20. Sigurður Hinriksson, Ranakoti 1910-13, Þóra Þorvarðsdóttir húsfrú, Stokkseyri 1913-16, Margrét Jónsdóttir húsfrú, Stokkseyri 1913-16, Markús Kr. Þórðarson, Grímsfjósum 1916-26, Eyjólfur Sigurðsson, Björgvin 1916-26, tók svo við formennsku í nefndinni, Jón Grímsson, Móakoti 1916 -20, Þórður Jónsson bóksali 1920-24, Gísli Pálsson í annað sinn 1920-26. Eftir þetta var nefndin skipuð þremur mönnum. Ásgeir Eiríksson kaupm. 1926-29, varð svo formaður nefndarinnar, Bjarni Júníusson, Syðra-Seli 1926-38, Gísli Pálsson í þriðja sinn 1928-43, Viktoría Halldórsdóttir húsfrú, Sólbakka 1938-42, Guðmundur Sigurjónsson, Sunnuhvoli 1942-46, Axel Þórðarson kennari 1943-50, Viktoría Halldórsdóttir í annað sinn 1946 og síðan, Jón Magnússon kaupmaður 1950-55 og Steingrímur Jónsson, Fagurgerði 1956 og síðan.
(Aðalheimildir þessa kafla: 1) Funda og gjörðabók fyrir Barnaskólann í Stokkseyrarsókn og hrepp 1850-1897, frumrit í vörzlu Haralds Péturssonar safnahúsvarðar í Reykjavík. – 2) Gjörðabækur skólanefndar barnaskólans á Stokkseyri 1903-1957 (árin 1897- 1903 vantar). – 3) Skrá um kennara við barnaskólann á Stokkseyri síðan 1909 samkvæmt spjaldskrá fræðslumálaskrifstofunnar. – 4) Ýmsar munnlegar frásagnir kunnugra manna. Um æviatriði kennara vísast til Kennaratals á Íslandi, sem nú er að koma út).