001-Ávarp

Á fyrstu árum aldarinnar var ferskur gróandi í félagsmálum íslenzku þjóðarinnar. Hvert félagið á fætur öðru var stofnað og starfsemi flestra þeirra stóð þegar í miklum blóma. Þótt mörg þeirra hafi nú gengið fyrir ætternisstapa, var einmitt á þeim árum lagður grundvöllur ýmissa þeirra félaga, sem enn í dag eru þróttmikil, starfandi samtök í efnahagslegu eða félagslegu tilliti. Meðal þeirra eru ungmennafélögin. Hin almennu verkefni ungmennafélaganna hafa reynzt margvísleg og fjölbreytt. Göfugt fyrirheit og hollt starf þeirra hefur átt sinn stóra þátt í uppbyggingu þess nútíma þjóðfélags, sem við búum við í dag. Æskufólk 20. aldarinnar fann áhugamál sín innan vébanda þeirra félagssamtaka, sem hlúðu að sögu og þjóðlegri menningu og settu sjálfstæðismál þjóðar sinnar ofar öllu öðru.

Ungmennafélag Stokkseyrar minnist um þessar mundir 50 ára afmælis. Félagið var stofnað af æskufólki á Stokkseyri 15. marz 1908. Þáttur félagsins í menningar- og félagsmálum byggðarlagsins hefir verið mikill og góður. Það verður ekki dregið í efa, að áhrif félagsins hafa einnig orðið hinum ýmsu félagsmönnum til góðs í margvíslegum skilningi.

Við, sem nú störfum í félaginu, viljum að nokkru minnast þeirra ágætu manna, sem þar hafa unnið að framgangi ýmissa góðra mála og skapað sögu félagsins fyrstu 50 árin. Þetta rit, sem flytur stutta þætti; minningar frá liðnum starfsdögum og kveðjur til félagsins, á að vera þakklætisvottur okkar til þeirra, sem eiga starfsárin meðal minninga sinna og hvatning til hinna, sem enn eru ungir og hafa ekki skráð sinn þátt félagssögunnar.

Það er trú okkar og von, að félag okkar megi hér eftir sem hingað til stuðla að hollu starfi ungs fólks á Stokkseyri og finna verkefnin, sem alltaf bíða. Ábyrg, starfsglöð æska, sem þekkir skyldur sínar við land sitt, tungu og sögu eru þeir hornsteinar, sem sjálfstæði og framtíð íslenzku þjóðarinnar byggist á.

Heill fylgi starfi félagsins um ókomin ár.

Baldur Teitsson

Leave a Reply

Close Menu