Svo má heita, að öll menntun almúgans fyrr á tímum væri fengin í heimahúsum, lengstum með nokkru eftirliti af hálfu presta. Það eftirlit var þó einkanlega bundið við kunnáttu í kristnum fræðum, spurningar um trúarleg atriði í kirkjum og við húsvitjanir. Í kaþólskum sið var talsvert eftirlit í þessum efnum og ákveðnar kröfur gerðar til þekkingar manna um trúaratriði, en í lútherskum sið voru húsvitjanir tíðkaðar að minnsta kosti frá dögum Gísla biskups Jónssonar á seinni hluta 16. aldar. Eiginlegur grundvöllur undir fræðslustarfsemi prestanna er þó fyrst lagður með konungsbréfi 22. apríl 1635. Þar er biskupum, próföstum og prestum boðið að láta öll börn á Íslandi læra fræði Lúthers utan bókar og yfirheyra þau í þeim. Enn fremur er prestum skipað að húsvitja oft og sjá um, að börnunum sé kennt.[note] Lovsaml. for Island I, 218-219.[/note] Með þessu er klerkastéttinni falið á hendur að sjá um uppfræðslu æskulýðsins. En hér snýst raunar allt um þekkingu í kristnum fræðum. Og einni öld síðar er þetta enn áréttað með tilskipun 13. jan. 1736 um fermingu barna, sem enn er í gildi í meginatriðum.[note] Sama rit, Il, 227-42.[/note]
Það er kunnara en frá þurfi að segja, að undirstaða alls bóklegs náms er að kunna að lesa. Lestrarkunnátta hefir án efa verið tiltölulega almenn hér á landi á 17. öld, og lærðu þá flestir að lesa á gömul handrit, einkum handrit af lögbókinni, Jónsbók, sem víða var til. En á síðustu áratugum þeirrar aldar var öllum hinum fornu skinnbókum sópað út úr landinu, og mun lestrarkunnáttu almennings þá hafa hnignað að mun. Til þess að hamla upp á móti þessu var nú farið að tengja lestrarkennslu við námið í kristnum fræðum. Talið er, að stafróf með atkvæðum hafi fyrst verið prentað með fræðum Lúthers í Skálholti 1686 og aftur fjórum árum síðar. En árið 1695 var prentað í Skálholti fyrsta eiginlega stafrófskverið hér á landi, „Eitt lítið stafrófskver fyrir börn og ungmenni“, en aftan við það eru prentuð fræði Lúthers. Síðan voru stafrófskver oft látin fylgja fræðunum. Þó segja biskuparnir Jón Vídalín og Steinn Jónsson í bréfi til stjórnarinnar 1717, að fáir bændur geti lesið og skrifað, og hafi þetta í för með sér mikla vanþekking í kristnum fræðum.
Í bréfi biskupanna, er nú var nefnt, er með því fyrsta hér á landi kvartað yfir því, að engir barnaskólar séu til. Telja þeir hina mestu nauðsyn á því, að í hverri sýslu sé settur á stofn barnaskóli, til þess að fátæk börn læri þar lestur. Ætlast þeir til þess, að áhugasamir menn í hverri sýslu skjóti saman fé til þess að kaupa jörð handa slíkum skóla. Sjálfur bauðst Jón biskup Vídalín til að gefa eignarjörð sína Drumboddsstaði til slíks skóla í Árnesþingi. Árið 1736 samdi Jón biskup Árnason álitsskjal um fræðslu barna og sendi stjórninni. Telur hann kennslu einungis fara fram í heimahúsum, þar sem foreldrar séu færir til þess, og segir, að í yfirreiðum sínum hafi prestar oft fárazt um, hve mörg heimili séu til, þar sem enginn sé lesandi. Hvetur hann mjög til þess, að lestur og skrift sé örvuð með almúganum, og telur stofnun skóla hina beztu stoð til þess. Nefnir hann stofnun eins barnaskóla í hverri sýslu, eins og fyrirrennarar hans höfðu gert, og gerir rækilegar tillögur um rekstur þeirra. Loks bar Halldór biskup Brynjólfsson fram tillögur til stjórnarinnar árið 1740 um sama efni. En þessum viturlegu tillögum hinna mætu manna var enginn gaumur gefinn.
En nú var þó skammt að bíða merkilegs atburðar í fræðslumálum landsins, en það var starf þeirra Lúðvíks Harboes og Jóns Þorkelssonar fyrrum Skálholtsrektors á árunum 1741-45. Harboe ferðaðist um landið, og hvar sem hann kom, lét hann stefna til sín börnum og unglingum, en prestar og djáknar voru látnir yfirheyra þau í návist hans. Sums staðar var fullorðið fólk einnig yfirheyrt. Rannsökuð var kunnátta í kristnum fræðum og lestri. Samdi Harboe skýrslur um rannsóknir sínar, þar sem hann skýrir hispurslaust frá hæfni presta, sem reyndust harla misjafnir, og lestrarkunnáttu í hverju prestakalli. Er þar um að ræða fyrstu öruggu vitneskjuna um kunnáttu manna í því efni. Taldist Harboe svo til, að á Suðurlandi og Austurlandi væru að meðaltali einungis 30 af hundraði læsir, en nokkru fleiri norðan lands og vestan, og mætti rekja það til hinnar miklu bókaútgáfu Guðbrands biskups og þess, að prentsmiðjan hafði lengst af verið á Hólum. f Gaulverjabæjar- og Stokkseyrarsóknum er þá fjölmennasti söfnuður á Íslandi, 970 sálir. Af þeim voru 249 læsir, en 721 ólæs. Tala læsra er hér nokkuð ofan við áðurnefnt meðaltal eða um 39 af hundraði. Presturinn, síra Ingimundur Gunnarsson, er talinn skikkanlegur og ekki ólærður, en uppburðarlítill og værukær. Vissi hann lítið um söfnuðinn, nema að þörf væri á skóla sökum fjölmennis.
Meðal annars árangurs af starfi Harboes og Jóns Þorkelssonar var tilskipun um barnafræðslu á Íslandi 29. maí 1744 og um húsvitjanir presta 27. maí 1746.[note] Þingb. Árn. 17. maí 1759.[/note] Er þar hert á eldri fyrirskipunum, einkum eftirliti með lestrarnámi. Þar er t. d. mælt svo fyrir, að ólæsir foreldrar, sem eigi eru öreigar, skuli skyldir að taka vinnumann eða vinnukonu, sem kynni að lesa, til að kenna börnunum lestur. Hin nýju fyrirmæli urðu til þess, að prestar vöknuðu til meiri skyldurækni í þessu efni en áður, og biskuparnir Finnur Jónsson og Hannes, sonur hans, höfðu strangt eftirlit með því, að fyrirmælunum væri hlýtt. Vegna þessa aðhalds af hálfu Finns biskups, kærðu prestar stundum heimilisfeður fyrir vanrækslu á kennslu og uppeldi barna. Þannig kærði t. d. síra Jón Teitsson í Gaulverjabæ 10 búendur í Stokkseyrarhreppi á manntalsþingi 1759 fyrir þessar sakir, og urðu sumir þeirra að gjalda sektir.[note] Þingb. Árn. 17. maí 1759.[/note] Hannes biskup lét einnig tvo presta sæta háum sektum fyrir að ferma ólæs börn.
Það er athyglisvert, að samkvæmt skýrslum Harboes báru ýmsir prestar fram ósk um stofnun barnaskóla, eins og áður er getið um síra Ingimund Gunnarsson. Það er eins og barnaskólahugmyndin liggi sérstaklega í loftinu á fyrra hluta 18. aldar. Áður er minnzt á tillögur biskupanna Jóns Vídalíns, Steins Jónssonar, Jóns Árnasonar og Halldórs Brynjólfssonar. Árið 1730 gaf Sigríður Jónsdóttir, ekkja Jóns biskups Vídalíns, jarðeign til fræðslukostnaðar námfúsum og siðprúðum munaðarleysingjum í Gnúpverjahreppi í lestri og skrift. Merkust og nafnkunnust er þó gjöf Jóns Þorkelssonar rektors, er gaf allar eignir sínar til fræðslu fátækum og munaðarlausum börnum í Kjalarnesþingi (Thorchilliisjóðurinn). En það er athyglisvert, að af hálfu stjórnarvalda var ekkert gert til að koma á fót barnaskólum þrátt fyrir allan hinn mikla áhuga þeirra á kristindómsfræðslunni, sem konungsbréf og tilskipanir bera vitni um. Fyrsti barnaskóli hér á landi var stofnaður í Vestmannaeyjum árið 1745 fyrir forgöngu prestanna þar. Stóð hann með nokkrum blóma um hríð, en féll svo niður aftur. Á vegum Thorchilliisjóðsins var skóli ekki stofnaður fyrr en 1792, enda þótt stofnun hans hefði verið ráðgerð og skipulögð þremur áratugum fyrr. Sá skóli var haldinn á Hausastöðum á Álftanesi í tvo áratugi, en lagðist þá niður.
Árangurinn af starfi Harboes og Jóns Þorkelssonar og tillögum þeirra varð mikill og góður. Á næstu áratugum fleygði lestrarkunnáttu þjóðarinnar stórkostlega fram. Með athugun á húsvitjunarbókum presta, þar sem þær hafa varðveitzt, má komast að tiltölulega öruggri niðurstöðu um þetta. Rannsakaðar hafa verið í þessu skyni húsvitjunarbækur frá árunum 1780-90 úr 84 sóknum í öllum prófastsdæmum landsins, og kemur þá í ljós, að um 90 af hundraði þeirra, sem eru orðnir 12 ára eða eldri, eru læsir. Er hér því um stórkostlegar framfarir að ræða á þeim fjórum áratugum, sem liðnir voru frá dvöl þeirra Harboes hér á landi.[note] Sbr. enn fremur um þetta efni P. E. Ólason: Saga Íslendinga V, 212-iB; VI, 186-92; Hallgr. Hallgrímsson: Íslenzk alþýðumenntun á 18. öld, Rvík 1925.[/note]
Að vísu má þakka prestastéttinni öðrum fremur þessar miklu framfarir í undirstöðumenntun landsmanna, en þar kemur þó fleira til. Prentun veraldlegra bóka færðist í vöxt við stofnun Hrappseyjarprentsmiðju, lærdómslistafélagsins og landsuppfræðingarfélagsins, svo að bókakostur var stórum girnilegri til fróðleiks og ekki viðlíka eins einhæfur og fyrr, er ekkert var prentað löngum stundum annað en svonefndar guðsorðabækur. Einstöku heldri menn þeirra tíma kostuðu heimiliskennara handa börnum sínum, eins og t. d. Jens Lassen Eyrarbakkakaupmaður, sem byggði „Húsið“. Á árunum 1767-1769 var heimiliskennari hjá honum Árni Þórarinsson, síðar biskup á Hólum, er hafði þá nýlokið kandidatsprófi í Kaupmannahöfn.[note] Sbr. Saga Hraunshverfis, 163-164.[/note] Er ekki ósennilegt, að fleiri en börn kaupmanns hafi fengið að njóta kennslunnar. Meðal alþýðu fundust einnig fræðarar, einkum konur, sem stóðu hinum lærðu sízt að baki um hæfileika og kostgæfni. Verður mér þá hugsað til Guðrúnar Brandsdóttur í Gegnishólaparti, sem andaðist 23. júlí 1785, 73 ára gömul. Hún var ættuð af Eyrarbakka og var seinni kona Jóns lögréttumanns Þorleifssonar á Efra-Velli og því stjúpmóðir mag. Bjarna Jónssonar prests í Gaulverjabæ. Hann segir svo við andlát hennar: „Þessi kona var ein hin fróðasta í guðsorði og líka hin uppbyggilegasta, þar hún hafði uppfrætt hér um 200 börn bæði í bóklestri og þeirra kristindómi.“[note] Min. Gaulverjabæjar.[/note] Þess er og getið um Katrínu Magnúsdóttur í Gerðum ( d. 1819), systur Brands í Roðgúl, að hún hafi verið vel til þess fallin að kenna tornæmum börnum.[note] Austantórur I, 21.[/note] Slíkar konur hafa án efa margar verið, þótt vér kunnum eigi að nefna nöfn þeirra. Þegar elztu fermingarskýrslur og húsvitjunarbækur úr Stokkseyrarsókn, sem nú eru varðveittar, hefjast á öðrum og þriðja tug 19. aldar, má heita, að allir sóknarmenn séu læsir. Þar var því til staðar hinn nauðsynlegi grundvöllur alls frekara náms.
Um skriftarkunnáttu manna fyrr á tímum eru ekki til neinar skýrslur, en margt bendir til, að hún hafi verið furðu almenn meðal bænda. Það má næstum heita almenn regla, að þingvitnisbændur í Stokkseyrarhreppi skrifi nöfn sín undir þingbókina með eigin hendi, og þannig var einnig víðast annars staðar. Hins vegar munu tiltölulega fáar konur hafa kunnað að skrifa, enda þótti slíkt óþarfi. Einstakir afburða skrifarar voru oftast til í flestum sveitum. Nefna má hér þrjá menn í Stokkseyrarhreppi, sinn frá hverri öldinni. Kolbeinn Hannesson bóndi og hreppstjóri í Holti ( d. um 1701) var kallaður söguskrifari, því að hann skrifaði upp gömul söguhandrit, og eru að minnsta kosti sum þeirra til enn, varðveitt í Árnasafni. Hann var góður skrifari, hefir efalaust skrifað upp margar bækur, fyrst hann var kenndur við þá iðju.[note]Bólstaðir o. s. frv., bls. 80. – Það var Kolbeinn í Holti, sem var kallaður söguskrifari, en ekki Kolbeinn í Tungu, sonarsonur hans, sbr. Valla-Ljóts sögu, Khöfn 1952, Indl. XIV. Samtímamaður Kolbeins í Holti var Páll Sveinsson söguskrifari, bóndi í Björk í Flóa.[/note] Annar var Hannes Kolbeinsson, síðast vinnumaður í Eystra-Íragerði (d. 1801), er kallaður var almanakaskrifari, því að hann skrifaði upp almanök fyrir fólk og hafði af því lítils háttar aukatekjur. Loks var Guðmundur Jónsson í Gerðum ( d. 1858) einnig listaskrifari. Hann skrifaði almanök fyrir ýmsa og margt annað, sem vanda þurfti að frágangi. Þessi dæmi sýna, að skriftarkunnátta var ekki bundin við eina stétt manna, því að af þessum þremur er einn bóndi, annar vinnumaður og sá þriðji fátækur hjáleigumaður. Hitt er víst, að skriftarkunnátta var ekki nærri því eins almenn og kunnátta í lestri, því að eiginleg skriftarkennsla var lítil sem engin. Flestir lærðu að skrifa af sjálfum sér, sem kallað er, og eru margar sögur af því, hvernig menn notuðu allt sem hendi var næst í æsku til þess að æfa sig í ritlistinni, móðuna og hrímið á gluggarúðunum, snjófannir og svell á vetrum, leirflög og sandinn í fjörunni o. s. frv. Skriftar námið hefir því mjög oft verið sjálfsnám áhugasamra unglinga, enda ber skrift alþýðumanna oft merki þess, að hún er stæld eftir prentletri, en ekki forskrift. Náðu margir þessara sjálflærðu skrifara furðu góðri rithönd.
Um andlegar menntir alþýðu á fyrri tímum verður hér að öðru leyti fátt ritað. Eins og áður er sagt, fór öll fræðsla fram á heimilunum og miðaðist fyrst og fremst við kristindóm og guðrækni. En til allrar hamingju tókst þjóðlegum fræðum að halda velli í samkeppninni við prédikanir og guðsorðabækur. Heimilin voru arinn íslenzkra fræða, þar sem fornsögur voru lesnar, rímur kveðnar, veraldleg kvæði þulin, þjóðsögur og afrekssögur sagðar og ævintýri hvísluð fram í rökkrinu. Þessi arfur var öllum sameiginlegur, en auðvitað hafa heimilin staðið misjafnlega að vígi að miðla honum. Þess er stundum getið í húsvitjunarbókum, að menn séu fróðir. Um Guðmund bónda Jónsson í Óseyrarnesi (d. 1844) segir t. d., að hann sé „fróður í gömlum fræðum og nýjum“, og um Jón ríka Þórðarson í Móhúsum ( d. 1849), að hann sé „fróður“. Um hann er það einnig kunnugt, að hann lærði að lesa og skilja dönsku af sjálfum sér og fekk sér danska veraldarsögu, gerðist mjög vel að sér í henni og kunni jafnvel heila kafla utanbókar.[note] Guðni Jónsson: Ísl. sagnaþættir og þjóðsögur XI, 35.[/note] Sumir færðu út svið þekkingar sinnar í aðrar áttir. Guðmundur bóndi Hafliðason á Skipum ( d. 1798) iðkaði meðal annars dráttlist og stærðfræði, sem fátítt var um menn á þeim tímum.[note]Austantórur I, 8; Bólstaðir s. frv., bls. 111. [/note] Sumir kunnu fingrarím, aðrir lögðu stund á kvæðaflutning og rímna, svo sem Jón Jónsson söngur í Íragerðíi( d. 1834), og svo mætti fleiri telja. Öll alþýðumenntun þessara tíma var sjálfunnin, orðin til fyrir námfýsi og framtak einstaklinga. Þegar skólarnir koma til sögunnar, fær menntunin alþjóðlegra snið.