53-Áburður og engjarækt, heimilisiðnaður og fleira

Þegar foreldrar mínir fengu ábúðarjörð sína 1854, fengu þau 6 hesta töðugresis af henni. Túnið var kargaþýft, en á þeim 33 árum, sem þau bjuggu þar, létu þau slétta túnið svo og færa það út, að síðustu árin fengu þau 150 til 160 hestburði góðrar töðu. Engjarnar voru litlar, en notadrjúgar, því að á þeim mátti vinna jafnt í vætutíð sem þurrki. Aldrei þurfti neinn dagur að falla úr vegna þessa. Varnargarðar voru hlaðnir um allar engjarnar, þar sem þess þurfti með og flóð og lækir voru eigi til varnaðar. Áveituskurðir voru einnig gerðir á allstóru svæði, sem nú er orðið að beztu engjum.

Stokkseyrarkirkja var eigandi jarðarinnar, og urðu foreldrar mínir að gefa 25 spesíur til þess að fá ábúðina. Eftirgjaldið var svo einar 20 álnir á landsvísu eða sem næst 10-12 kr. á ári hverju. Innnytjar jarðarinnar voru engar aðrar en þær að hirða mátti þang af þangviki því, er jörðinni var útmælt niður með sjónum, og eitt fjörufar fylgdi henni einnig til sölvatekju. Mótekja var slæm, en hagbeit sæmileg í Breiðamýri, og var þar byggt beitarhús eitt allstórt um 2 til 3 kílómetra langa leið frá bænum.

Til eldiviðar var rekaþang haft og einnig þang það, er skorið var undir vind, þ. e. skorið með þangsigðum á útskerjum og það síðan látið reka í land. Oftast voru einkum síðari árin 8-9 nautgripir í fjósi, 7-8 hestar á gaddi og gjöf, 60-80 lömb og ær álíka margar. Sauðir voru oftast á annað hundrað talsins, og fékkst af þessu taðafrakstur mikill af túni, skán úr fjárhúsum og hestatað mikið.

Mykjan var borin í kláfum og barkrókum í túnið á hausti hverju að öðru leyti en því, sem móðir mín ók henni sjálf í hjólbörum á meginhluta þess.

Þá var og klíningur hafður til eldsneytis ásamt þurrum þorskhryggjum, ýsuhausum og mó eða þangi. Þangið var hitadrjúgt vel, en af því mátti aldrei líta, svo að eigi kulnaði það út. Steinkol sáust aldrei nema til að dengja ljái og til smíða, Ljáir allir voru smíðaðir heima, svo og allir hnappar og tölur í hvers konar föt, sem unnin voru heima. Hnappar og tölur voru búnar til úr hrútshornum, laðaðir í löð með, látúnslöppum í gegn. Laðimar vorn bæði smáar fyrir buxur og vesti og stórar fyrir utanyfir-föt. Fallegar rósamyndir voru á hverri löð og „lappirnar“ slitu sjaldan úr sér saumþráðinn. Skinnklæði öll voru heimagjörð og flestur annar fatnaður utast sem innst ofinn úr einskeftu, vormeldúki og vaðmáli, litað, þæft og lagað til eftir því, sem þörf gjörðist.

Þá voru og öll reiðver, hnakkar, söðlar, undirdekk, ábreiður yfir kvensöðla, reiðingar, beizli, hnappheldur og hvað annað, er þessu tilheyrði, heima unnið.

Til ljósa voru „grútarlampar“ svonefndir og kolur, er hafðar voru í fjósi, eldhúsi og öðrum framhúsum. Fífukveikir og háfs-, hákarls- og skötulýsi var haft í lampa þessa, en daufa birtu báru þeir í baðstofum þriggja stafgólfa eða stærri. Olíulampar komu eigi í þeirra stað fyrri en 1875, en stundaklukka ári áður.

Selsheiði (þ. e. Syðra-Sels) er ágætt beitiland fyrir kýr og sauðfé, grösug mjög, með gul-starar, ferginís- og sef-flóðum hér og þar, sem oftast lágu undir vatni að vetrinum til. Þar mátti og finna hóf í tjörnum þessum og sótti fénaður mjög í hann, enda fór mörg kindin sér þar að voða, er ísa leysti og til hófsins náðist. Það voru einna mestu hætturnar fyrir fénaðinn og svo mógrafirnar, sem ruðningurinn var ekki nægilegur í eða nógu vel frá honum gengið.

Breiðamýri er meginhluti alls Flóans og láglendisins milli ánna upp undir Ingólfsfjall alla leið neðan frá sjó. Nú er hún öll orðin að einu áveitusvæði. En þótt hún kunni að hafa að einhverju leyti brugðizt vonum manna, er þar nú ólíkt umhorfs eða áður var, ekki sízt að því, er heyfeng snertir. Fyrir nærri 60 árum stóð rúmlega tvítugur maður þar að slætti, duglegur vel og fylginn sér. Sló hann af kappi miklu greiðfært land frá morgni til kvölds, og eftir hann lágu þá 2 1/2 hestburðir – fimm sátur – af rýru heyi. Sló hann með orfi, en ekki vél. Eigi alls fyrir löngu sló annar maður á líkum aldri þessa hina sömu gömlu teiga, einnig með orfi, og eftir hann lágu 20 hestburðir eða 40 sátur að deginum loknum eða jafnlöngum tíma sem hinn. Er hér um áttfalda uppskeru að ræða.

Mér hefur oft komið í hug sú fjarstæða, – en það veit ég, að aðrir munu kalla það, – að, ef allir landsmenn og einkum þeir, sem útskækla landsins byggja, vildu taka sig upp og flytja þaðan, sem þeir nú eru, gætu þeir og ættu að flytja á Suðurlandsundirlendið og lifa þar á kúarækt og sjávarafla, en vera svo í samvinnu um sauðfjárrækt og hrossa, þar sem betri skilyrði eru, hafa t. d. þúsundir sauðfjár norður á Hólsfjöllum, Arnarvatnsheiði eða hvar annars staðar, sem góð beit væri og önnur hentug skilyrði. Mundi þetta líkjast því, sem var áður fyrrum, er menn höfðu fénað sinn í seli. Vitanlega þyrfti að byggja sel þessi þannig, að fjárverðir hefði næg húsakynni fyrir sig og önnur fyrir fénaðinn, ef til þess þyrfti að taka í harðindum, enda mætti e. t. v. heyja þar eitthvað eða flytja hey eða annað fóður þangað.

Suðurlandsundirlendið gæti framfleytt tugum þúsunda manna fram yfir það, sem þar er nú. En mest um vert væri þó það, að með þessu fyrirkomulagi yrði öll starfræksla og stjórn hins opinbera auðveldari og ódýrari, samgöngurnar betri, hægari og kostnaðarminni og atvinnan tryggari og meiri, því nú fengi sérhver fjölskylda nægilegt land til þess að ryðja og rækta, t. d. í Holtunum, Landeyjunum og Ölfusinu. Þá þyrfti færri lækna, presta, sýslumenn og tollara og þar af leiðandi færri skrifstofur.

Ég spyr: ,,Væri þetta ekki heppilegra? Eða væri það óframkvæmanlegt?“

Fyrri spurningunni gjöri ég ráð fyrir, að menn svari játandi, en hinni flestir neitandi.

Hvar er þá öllu skipulagskunnáttan, tæknin og „tólfkóngavitið“, sem menn hafa öðlazt alla leið frá fullnaðarprófi úr barnaskóla upp í háskólapróf hér og erlendis?

Hvað sem um þetta má annars segja, þá yrði þetta hinn „deildi verður“, sem spámaðurinn Agúr bað um, nokkurs konar gnægðakista hinnar íslenzku þjóðar. Að öðru leyti verð ég að eftirláta mér lærðari mönnum og vitrari að vísa leiðina í þessum efnum.

Leave a Reply

Close Menu