27-Viðaukar við veðurspár

Fiskiendur sitja makráðar á vatni eða vatnsbökkum; en allt í einu hefja þær sig til flugs og stefna til fjalla síðari hluta dags. Sé manni þá gengið þangað, sem þær sátu áður, má sjá ár allar og læki uppbelgda af íkæfu kraps og snjóa, enda er þá skollinn á öskubylur næsta dag (Sbr. Austantórur I, bls. 117).

Rjúpan er venjulega þögul mjög í vetrarkælum og safnar þá í kyrrþey í sarp sinn. Kemur það þá oft á tíðum fyrir, að ein rjúpan í stórum hópi rekur upp ámátlegt ýlfur og flýgur hátt í loft, ein út af fyrir sig, en brátt bætast fleiri við, unz allur hópurinn er floginn á brott. Er þá segin saga, að í vændum er verri tíð en áður og snjókoma mikil. (Sbr. Austantórur I, bls. 117).

Meðan ær voru mjólkaðar í kvíum, tóku mjaltakonur og aðrir þeir, er á stöðli voru, eftir því, að ærnar hristu sig, eins og væri þær holdvotar af regni, og vissi það ávallt á rigningu, en ef þær hóstuðu í rigningatíð, brá til þurrviðris næsta dag eða dægur.

Þegar kindum var slátrað á haustin, sáu menn oft langar og tómar eyður í görnum þeirra, og var þá ályktað, að því lengri sem eyðurnar voru og samfelldari, því lengri yrði harðindakaflarnir næsta vetur. (Sbr. Austantórur I, bls. 122).

Þorri var tileinkaður bændum. Þorradagurinn fyrsti var því nefndur bóndadagur. Varð bóndi jafnan að fara snemma á fætur þann dag og heilsa þorra m. a. með því að ganga eða hoppa hálfnakinn þrívegis umhverfis hús sín, í hvaða veðri sem var. Ekki mátti hann fara nema í aðra buxnaskálmina, meðan hann var á ferðalagi þessu, og hina skálmina varð hann að láta dragast með jörðu; berhöfðaður og vettlingalaus varð hann og að vera og skólaus á þeim fæti, sem í buxnaskálminni var.

Góa var dagur konunnar, og konudagur nefndist fyrsti dagur góu, og skyldi húsfreyjan (,,konan”) ávallt vera klædd hinum betri fötum sínum og á nýjum skóm. Matföng öll varð hún að framreiða meðal þess bezta, er hún átti í búri sínu, og sýna, að dagurinn var hátíðisdagur hennar.

Síðasti vetrarmánuður er nefndur einmánuður. Er hann tileinkaður hinum trúu hjúum, en harpa, fyrsti sumarmánuður, er mánuður barnanna, gleðinnar og hinnar saklausu æsku. Einmánuður er sonur Þorra gamla og Góu, en Harpa dóttir þeirra, en ólík þeim í flestu, þótt mislynd séu þau með köflum.

Þessi vísa er til um fjölskyldu þessa:

Þorri og Góa, grálynd hjú,
gátu son og dóttur eina:
Einmánuð, sem bætti’ ei bú,
og blíða Hörpu’ að sjá og reyna.

Um góu og einmánuð er þetta sagt: Góður skyldi fyrsti dagur góu, annar og hinn þriðji, þá mun einmánuður og góður verða. Aðrir segja, að þetta eigi við um þorra og góu. (Sbr Austantórur I, bls. 149).

Leave a Reply