Þorleifur Kolbeinsson kaupmaður á Stóru-Háeyri eða Þorleifur ríki, eins og hann hefur oft verið nefndur á síðari tímum, var fæddur í Brattsholtshjáleigu 6. júní 1798. Foreldrar hans voru Kolbeinn Jónsson í Brattsholtshjáleigu, síðar í Ranakoti, og Ólöf Hafliðadóttir. Eins og skýrt er frá í þættinum af Kolbeini hér á undan, voru þau hjón fátæk mjög og urðu að sætta sig við það hlutskipti að hlaða saman barnaómegð mikilli og bolloka á hálfgerðum örreytiskotum mestan hluta ævi sinnar.
Þorleifur ólst upp við hin ömurlegu uppkreistingskjör foreldra sinna og systkina fram að tekt sinni. Eftir það fór hann í vistir hér og þar, meðal annars til Jakobs Högnasonar í Skálmholtshrauni, Arnórs Erlendssonar í Lölukoti og Jarþrúðar Magnúsdóttur, ekkju Kristjáns Bergers hafnsögumanns á Stóru-Háeyri. Í vistum þessum leið honum að vonum misjafnlega. Hann var lítill vexti og pasturslítill fram eftir ævi, og varð hann því oft að taka nærri sér við ýmsa vinnu, sem öðrum féll létt. Og ekki hossaði kaupið hátt í þá daga. Framtíðarvonir fátækra unglinga, þótt gáfaðir og vel gefnir væru, voru allt annað en glæsilegar á þeim tímum.
Þegar búið var að ferma Þorleif, fór hann sem vikadrengur til Jakobs bónda í Skálmholtshrauni. Brynjólfur frá Minna-Núpi segir svo frá í sögu Þuríðar formanns og Kambsránsmanna, að eftir árið hafi Jakob falað Þorleif til næsta árs og boðið honum 8 dali í kaup. ,,Þá á ég eitthvað fyrir liðna árið líka,“ segir Þorleifur. ,,Nei,“ segir Jakob, ,,það var aldrei um samið.“ Þorleifur undi þessu eigi sem bezt og leitaði ráða hjá hreppstjóra og sagði honum sem var, að eigi var fyrir fram samið um kaup fyrir hið liðna ár. ,,Jæja,“ sagði hreppstjórinn, ,,hafðu þá heimsku þína í kaup.“ Frá þessu sagði Þorleifur sjálfur síðar og sagði þá um leið: ,,Ég fekk oft gott kaup eftir þetta; en á engu árskaupi græddi ég meira en þessu. Ég lærði af því!“
Frá Skálmholtshrauni mun Þorleifur hafa ráðizt vinnumaður til Arnórs í Lölukoti. Hann var sonur Erlends bónda Helgasonar á Hæringsstöðum. Arnór hafði útræði frá Tunguósi og átti sjóbúð sína á melnum fyrir austan Baugsstaði, vestan Vellankötlu. Var hún nefnd Arnórsbúð. Frá Lölukoti, sem er alllangt frá Baugsstöðum, var talið, að sól væri í hádegisstað, er hana bæri yfir Arnórsbúð.[note] Um Arnór var þessi formannsvísa kveðin:
Einn er róinn út á sjó
Arnór þjóastinni,
eitthvað dró og í það hjó
annarri kló með sinni.
Arnór hafði löngum heylön nokkura á rimabarði í Hæringsstaðamýri. Torfrusl og ýmislegt annað hlóðst svo á rimabarð þetta, að það greri vel upp, og garðbrot nokkurt varð þar eftir. Var riminn nefndur Arnórsrimi og garðbrotið Arnóragarður. Sér enn fyrir honum. [/note]
Þorleifur Kolbeinsson kom fyrst á sjó, þegar hann var hjá Arnóri í Lölukoti. Var hann þá milli tektar og tvítugs, en væskilslegur og ósterkur. f þessum fyrsta róðri sínum dró Þorleifur svo stóra ýsu, að hann ætlaði ekki að ráða við hana, og var lengi tvísýnt um það, hvernig viðureign þeirra mundi lykta. Tók Þorleifur þá það ráð að halda þeim hluta færisins, sem hann hafði tosað inn í skipið, milli tanna sér eða stíga á það með fótunum. Loks vann hann sigur í viðskiptum þessum og gat innbyrt ýsuna hjálparlaust, og alls dró hann sjö ýsur í róðri þessum. Að þessu sinni var Þorleifur aðeins hálf drættingur, og var það almenn tízka um drengi og táplitla unglinga. Hann átti því helming afla þess, sem hann hafði dregið um daginn, og var honum mikil forvitni á að vita, hvernig formaður færi að því að skipta aflanum svo, að hvor hefði það, sem honum bar. Vitanlega mátti skera eina ýsuna í tvennt, en ef til vill léti Arnór hann fá stöku ýsuna í heilu lagi, af því að hann hafði haft svo mikið fyrir drættinum. Þessu var Þorleifur að velta fyrir sér á leiðinni í land. En er á skiptivöllinn kom, þá gekk Arnór til hans og sagði, að hann mætti eiga allar ýsurnar, sem hann hafði dregið um daginn. Varð Þorleifi svo mikið um þennan óvænta úrskurð, að hann kallaði hástöfum upp yfir sig og sagði: ,,Á ég að eiga þær allar? Ósköp á ég þá mikið!“ Löngu síðar kvað Þorleifur svo að orði, er hann sagði frá þessu: ,,Engri gjöf hef ég orðið fegnari á ævinni en þessari gjöf Arnórs í Lölukoti. Mér fannst ég vera orðinn ríkasti maður í heimi.“
Snemma vaknaði löngun Þorleifs til þess að læra eitthvað til munnsins og mennta sig, en í þeim efnum voru honum flest sund lokuð, enda fór því fjarri, að menn kæmu almennt auga á efni það og hæfileika, sem í ungu fólki bjó, piltum og stúlkum, eða vildu fórna neinu til þess að koma því á framfæri. Vinnustritið var hin eina hugsanlega tilvera og eina framtíðarvonin, sem við honum blasti sem öllum öðrum. Má af ýmsu sjá, að Þorleifur hefur fundið sárt til þessa í æsku. Svo rík gerðist menntalöngun Þorleifs og þrá hans til þess að hleypa heimdraganum, að hann ákvað að herða sig upp og reyna fyrir sér, hvort einhver vildi ekki verða til þess að hjálpa honum. Hann tók sig því til, tæplega tvítugur, og arkaði suður til Reykjavíkur. Gekk hann þar fyrir mikils háttar mann einn, er var fjáður vel, tjáði honum hagi sína og innti hann að því, hvort hann vildi ekki hjálpa sér til að nema eitthvað nytsamt og gott, því að svo væri hann vanbúinn að vexti og líkamlegu atgervi, að sér mundi trauðla nægja það til þess að komast áfram í lífinu. Eigi er þess getið, hvernig maður þessi tók við Þorleifi, en svo mikið er víst, að hann synjaði honum um alla hjálp, og hafi hann gengið fyrir fleiri menn, sem líklegt er, hefur farið á sömu leið um hjálpina. Höfðingjarnir syðra .haf’a áreiðanlega ekki gert sér grein fyrir því, hvílíkt mannsefni bjó í þessum stutta staula, og sannaðist þar sem oftar, að „vandséður er rekabúturinn.“ En nærri má geta, að þessi píslarganga hefur haft djúp áhrif á hinn gáfaða ungling, ekki þó til þess að láta hugfallast og leggja árar í bát, heldur til þess að herða og stæla vilja hans til sjálfsbjargar.
Árið 1827 gerðist atburður, sem sló miklum óhug á marga fjær og nær, en það var Kambsránið, sem víðfrægt er orðið. Lentu tveir af bræðrum Þorleifs í þeirri ógæfu að taka þátt í ráninu, og tók hann það ákaflega sárt, sem von var til, enda höfðu þeir ávallt getið sér hið bezta orð og voru báðir miklir efnismenn, vinsælir og vel gefnir. Einn Kambsránsmanna var Jón Geirmundsson, sem bjó á Stéttum í Hraunshverfi. Eftir að upp komst um ránsmennina, voru bú þeirra og eigur teknar upp, og losnaði þá ábúðin á Stéttum. Ákvað Þorleifur þá að taka kotið til ábúðar og byrja búskap. Voru efni hans í fyrstu lítil. En Þorleifur hafði snemma lært að fara vel með lítil efni og reynslan kennt honum, að „betra er hjá sjálfum sér að taka en sinn bróður að biðja.“ Hann vandi sig því á að lifa sparnaðarsömu lífi, nýta allt sem bezt og hirða vel. Sá hann, að iðni, sparsemi og strangasta reglusemi, sjálfsafneitun og jafnvel harka við sjálfan sig voru meðal þeirra dygða, sem dugðu bezt í lífinu, og ásetti hann sér því þegar í æsku að fylgja þeim í öllum greinum. Að vísu hneigðist Þorleifur nokkuð til drykkjar á unga aldri, enda var sá löstur mjög almennur meðal ungra manna á þeim tímum, en hann sá, að slíkt gat leitt til glötunar fyrir sjálfan hann og aðra. Hann hætti þess vegna allt í einu og sjálfkrafa að neyta víns að neinu ráði, og varð þess aldrei vart eftir það, að vín sæist á honum. En aldrei varð hann þó alger bindindismaður, enda var slíkt nær óþekkt á þeim tímum.
Á Stéttum bjó Þorleifur fá ár, en fluttist þaðan að Borg í Hraunshverfi. Árið 1833 fekk hann Stóra-Hraun til ábúðar. Þar bjó hann til ársins 1841. Þá keypti hann Stóru-Háeyri með hjáleigum þeim, er undir hana lágu þá, og fluttist þangað og átti þar heima síðan til dauðadags. Var hann þá og síðan kunnastur undir nafninu Þorleifur á Háeyri, enda gerðist hann þá brátt nafnkunnur maður fyrir hyggindi sín og auðsöfnun, er tímar liðu fram, og gengu af honum ýmsar sögur, er sýndu gætni hans og vitsmuni.
Það leið eigi á löngu, unz hreppsbúar tóku að fela Þorleifi ýmis trúnaðarstörf. Árið 1840 varð hann hreppstjóri Stokkseyrarhrepps og sáttamaður 1857. Árið 1866sagði hann af sér hreppstjórninni, en tók við henni aftur 1874 fyrir tilmæli hreppsbúa, enda hafði hann verið ormur hönd hreppstjóranna frá því, er hann sagði starfi sínu lausu. Hreppsnefndarmaður og oddviti þeirrar nefndar varð hann, þegar hreppsnefndir komust á, og alla ævi síðan. Hreppurinn græddi mikið fé um hans daga, og auk þess gaf Þorleifur honum stórgjöf, er Þorleifssjóður nefndist eða Gjafasjóður Þorleifs Kolbeinssonar. Gjöfin var hálf Hæringsstaðatorfan, 15 hndr. og 20 al. að dýrleika, og skyldi nokkurum hluta vaxtanna verja til þess að verðlauna dugnaðarmönnum fyrir framfarir í búnaði. Verðlaunin voru ákveðin 4, 6 og 8 ríkisdalir eða 16 kr. hæst á ári. Samdi Þorleifur sjálfur gjafabréfið og skipulagsskrá fyrir sjóð þennan, og er því við brugðið, hversu vel hún er úr garði gerð, ákveðin og ýtarleg í öllum greinum. Þykir engu líkara en lærður lögfræðingur hafi um hana fjallað.
Þá gaf Þorleifur einnig aðra jörð, 3.57 hndr. að dýrleika, barnaskólanum á Eyrarbakka eftir sinn dag, en hann hafði verið meðstofnandi skólans árið 1852 ásamt Guðmundi Thorgrímsen verzlunarstjóra, og um langt skeið eða til ársins 1877 hafði skólinn starfsemi sína í húsi Þorleifs. Fyrsti kennari þar var síra Jón Bjarnason, faðir Bjarna frá Vogi. Um skólann á Eyrarbakka og kennara þá, er þar voru fram yfir síðustu aldamót, hef ég skrifað á öðrum stað.
Þegar hin svonefnda Melabrú eða Nesbrú var lögð ofan frá melunum fyrir ofan Flóagafl niður að Óseyrarnesi yfir hið mesta kviksyndi, langa leið og torfæra mjög, gaf Þorleifur 1000 krónur til þessara þörfu samgöngubóta, en áskildi þó um leið, að brúin skyldi öll steinlögð, annars myndi hún. að litlu gagni koma. Þessum fyrirmælum Þorleifs var eigi fylgt og ekki svo mikið sem ein steinvala lögð í brúna, og varð leiðin því jafnvel að enn meira foraðsdíki en áður. Umferðin um brúna var jafnan mikil, og óðst hún því fljótt út, svo að menn og hestar urðu að brjótast þar um jafnt á nótt sem degi, en farangur týndist og spilltist, og um aðra leið var ekki að ræða nema á ísi að vetri til. Við þessa vegleysu urðu menn að búa nærri aldarfjórðungsskeið eða þar til er vegurinn milli Eyrarbakka og Selfoss var lagður. Sást í þessu sem öðru að óhætt var að hlíta ráðum Þorleifs. Hann var löngum hvatamaður og stuðningsmaður sérhvers þess, er til framfara horfði, en ávallt lagði hann þá aðaláherzluna á það, að fara gætilega, og að vel væri til alls vandað.
Árið 1880 var Þorleifur sæmdur dannebrogsorðunni. Fór sú athöfn fram í Stokkseyrarkirkju, og man ég eftir því, eins og það hefði skeð í gær. Þótti það óvenjuleg athöfn og harla virðuleg.
Þorleifur var tvíkvæntur og lifði báðar konur sínar.
Þegar Jón Kolbeinsson, bróðir Þorleifs, lenti í Kambsráninu, var hann trúlofaður góðri og efnilegri stúlku, Sigríði Jónsdóttur rennismiðs á Brú í Flóa. Bað hann þá Þorleif að taka hana að sér og ganga henni í sinn stað, og varð það að samkomulagi með þeim öllum. Giftust þau Þorleifur og Sigríður 31. okt. 1831, og voru samfarir þeirra góðar, en eigi áttu þau börn, sem upp komust. Sigríður dó 27. ágúst 1855, en 10 árum síðar, 25. júlí 1865, kvæntist Þorleifur bústýru sinni, Elínu Þorsteinsdóttur frá Simbakoti á Eyrarbakka, Þórðarsonar.[note] Nokkurar sagnir um Þorstein í Simbakoti eru í Íslenzkum sagnaþáttum og þjóðsögum Guðna Jónssonar III, 33-37. [/note] Hún var hin mesta dugnaðarkona og hafði staðið fyrir búi Þorleifs frá því, er fyrri kona hans féll frá. Börn þeirra Þorleifs og Elínar voru þessi:
1) Sigríður Þorleifsdóttir, kona Guðmundar Ísleifssonar kaupmanns og formanns á Stóru-Háeyri. Börn þeirra, sem upp komust, eru þessi: a) Guðbjörg, ekkja síra Gísla Kjartanssonar á Sandfelli í Öræfum; b) Guðmundur, fór til Ameríku um tvítugsaldur og átti heima vestur á Kyrrahafsströnd; c) Þorleifur alþm., útvegsbóndi á Stóru-Háeyri og í Þorlákshöfn, síðast í Reykjavík; d) Sylvía, kona Ólafs Lárussonar héraðslæknis í Vestmannaeyjum; e) Geir, búsettur í Khöfn, kvæntur danskri konu; f) Haraldur, starfsmaður Búnaðarbankans í Reykjavík; g) Solveig, kona Ingimars Jóhannessonar kennara í Reykjavík, og h) Elín, ógift í Reykjavík. Auk þess áttu þau Sigríður og Guðmundur tvo drengi, sem dóu kornungir.
2) Málfríður Þorleifsdóttir, var tvígift. Fyrri maður hennar var Andrés Ásgrímsson verzlunarmaður frá Litlu-Háeyri, og börn þeirra: a) Þorleifur pípugerðarmaður í Reykjavík; b) Ingveldur, kona Helga bónda á Herríðarhóli í Holtum, síðar í Reykjavík, Skúlasonar prófasts á Breiðabólstað í Fljótshlíð, Gíslasonar; c) Andrea, kona Hannesar Jónssonar kaupmanns í Reykjavík. Eina dóttur áttu þau enn, er dó ung. – Seinni maður Málfríðar Þorleifsdóttur var Jón Sveinbjörnsson frá Kluftum í Hrunamannahreppi, ágætismaður hinn mesti og mikill búhöldur. Bjuggu þau mörg ár að Bíldsfelli í Grafningi. Börn þeirra eru: d) Málfríður, átti fyrr Gunnar Þórðarson alþm. frá Hala í Holtum, en síðar Kolbein Högnason bónda í Kollafirði og skáld, nú í Reykjavík; e) Sveinbjörn hæstaréttarlögmaður í Reykjavík. Enn fremur áttu þau dóttur, er Elín hét og dó innan fermingaraldurs.
3) Elín Þorleifsdóttir, fyrri kona síra Jóhanns Þorsteinssonar prófasts í Stafholti. Þau áttu tvö börn, Þóru og Leif að nafni, og dóu þau bæði á unga aldri.
4) Þorleifur Þorleifsson, lærði verzlunarfræði, en drukknaði á bezta aldri í Eyrarsundi sumarið 1884.
5) Kolbeinn Þorleifsson búfræðingur, bóndi í Hróarsholti, kvæntist Sigríði Jónsdóttur frá Vestri-Loftsstöðum Jónssonar. Börn þeirra voru: a) Kristín, dó ógift; b) Elín, kona Þorgeirs Bjarnasonar á Hæringsstöðum; c) Þuríður, kona Grétars ó. Fells rithöfundar í Reykjavík.
Elín, kona Þorleifs á Háeyri, andaðist 24. nóv. 1869.
Eftir það bjó hann með systrum sínum um 6 ára skeið, en í félagi við Guðmund, tengdason sinn, eftir það til æviloka. En Þorleifur andaðist á Stóru-Háeyri 9. marz
1882 á 84. ári. ·
Hér fara á eftir nokkurar frásagnir um Þorleif, einkum frá verzlunarviðskiptum hans, svo og um nokkur tilsvör hans, er lýsa manninum nánar en þegar er gert.
Þorleifur mun snemma hafa byrjað að verzla í smáum stíl, og hélt hann því síðan áfram alla tíð jafnframt búskapnum. Þá var aðeins ein verzlun á Eyrarbakka, Lefoliisverzlun, er var ein hin stærsta og víðfeðmasta á landi hér. Oft þraut þar þó vörubirgðir að vetrinum til, og fór Þorleifur nærri um það, hvað einstökum vörutegundum leið, og keypti þá að haustinu til allar þær vörur, er hann vissi, að ganga mundu til þurrðar í Eyrarbakkaverzlun og útgengilegastar voru, svo sem sykur, tóbak og brennivín, eldspýtur, kerti, álnavöru ýmiss konar, veiðarfæri, línur og lóðaröngla og geymdi til vetrarins. Þegar fram að jólum kom og enn lengra leið fram á veturinn, hafði Þorleifur eigi aðeins nægilegt til þess að miðla viðskiptamönnum sínum, heldur svo miklar birgðir, að hann gat fullnægt þeim og öðrum, sem til hans leituðu, um flest það, er þá vanhagaði um. Var þá eigi við aðra að metast um verðið, og víst mun Þorleifur hafa fylgt þeirri reglu, er maður nokkur· sagði löngu síðar um sig og verzlun sína, að hann „léti sér nægja þægilegan kaupmannsgróða.“ Hver gróði Þorleifs var, vissi hann bezt sjálfur, en það sýndi sig síðar, að á einhverju hafði hann hagnazt. Eigi var Þorleifur þó neinn svíðingur, þótt hann væri hins vegar svo hygginn kaupmaður, að hann gat hjálpað mönnum um ýmsar nauðsynjar, er þær voru þrotnar hjá öðrum. Og þótt Þorleifur þætti dýrseldur í viðskiptum sínum við aðra, var hann ávallt hreinskiptinn og áreiðanlegur.
Eins og nærri má geta, kvörtuðu menn oft um það við Þorleif, að þetta eða hitt væri dýrt hjá honum. Var þá viðkvæði hans venjulega þetta: ,,Það er satt. Það er dýrt. Ekki mundi ég kaupa það, ef ég væri í þínum sporum. En þú ræður, hvað þú gerir, og ef þú þarft þess með og getur ekki komizt af án þess, þá er það ekki of dýrt.“ Og svo keyptu menn auðvitað af honum.
Árið 1868 leysti Þorleifur borgarabréf sitt, en eigi jók hann þó við verzlun sína eða breytti henni frá því, sem áður var. Um þær mundir byrjaði Einar Jónsson borgari, faðir Sigfúsar tónskálds, verzlun sína, og var Þorleifur í ráðum með honum. Þeir urðu því nokkurs konar hemlar á háu verðlagi Lefoliisverzlunar og héldu því í skefjum, enda varð þetta upphaf þess, að verzlunarstaður þessi blómgaðist æ meir, eftir því sem tímar liðu, og Lefoliisverzlun sjálf varð ein hin bezta verzlun landsins bæði um verðlag og vörugæði.
Þorleifur seldi meðal annars vín og gætti þess vel að vera ávallt birgur af því. Tók hann ýmsa hluti upp í andvirði þess og vitanlega ávallt svo mikið, að hann hefði engan skaða af þeim viðskiptum fremur en öðrum. Einn af tryggustu viðskiptamönnum hans um skeið var Bárður Diðriksson, síðar í útgörðum. Fór hami með afla sinn smám saman til Þorleifs og keypti vín fyrir. Um það var þessi vísa kveðin, og eigna sumir hana Þorleifi sjálfum, en aðrir Diðriki gamla, föður Bárðar:
Bárður minn er bústólpi,
bjargvættur í sveitinni,
hjálpar oft um harðæti
honum gamla Þorleifi.
Annars var það oft venja Bakkamanna sumra, þegar í róðrum stóð, að þeir gripu í hönd sér vænan fisk úr hlut sínum og löbbuðu upp í búð til Þorleifs og fengu fyrir pela af brennivíni eða eitt kvartil af munntóbaki. Hvorttveggja var þá ódýrt mjög, brennivínspotturinn kostaði 1 mark eða 32 aura, og tóbakið var eftir því. En ætíð voru viðskipti þessi látin standast á, hversu feitur og stór sem fiskurinn var.
Stundum lánaði Þorleifur Bakkamönnum brennivín gegn. veði, ef andvirðið var eigi greitt samdægurs eða menn höfðu það eigi handbært í svipinn. En tryggt varð veðið að vera. Einn var sá maður, er ávallt hafði veð það að bjóða, er hann leysti undantekningarlaust úr veðböndum að kveldi sama dags, en það var Jón gamli strompur, sem kallaður var. En þetta dýrmæta veð var næturgagnið hans. Það taldi Jón sig ekki mega missa yfir nóttina. Þetta vissi Þorleifur vel og einnig hitt, að Jón gamli var vel stæður maður og engin hætta á, að hann mundi lenda á sveitinni fyrir þessar sakir. Það brást því aldrei, er Jón setti þennan kjörgrip að veði, að hann fengi eins mikið brennivín og hann vildi eða hann hélt sig hafa þörf fyrir, enda taldi Þorleifur hann einn hinn tryggasta og áreiðanlegasta viðskiptavin sinn.
Eigi hafði Þorleifur margbrotið bókhald. Venjulega krítaði hann aðeins upphæðina og skammstöfuð nöfn viðskiptamannanna á töflu í búðinni sér til minnis. Bar þá oft við, er menn hímdu í búðinni, að þeir brugðu hendi sinni að baki þeirra, er framar stóðu, og þurrkuðu út það, sem Þorleifur hafði krítað um viðskipti þeirra við hann. Sjaldan munu þeir þó hafa grætt á þessu, því að Þorleifur hafði auga á þeim og kallaði þá stundum til þeirra: ,,Ekki að þurrka út krítina, því að þá er engum þeim, er það gerir, lánað eitt skildingsvirði.“ Þetta vildu þeir ekki eiga á hættu og létu því óvanda þennan niður falla.
Þegar stolið var frá Þorleifi, tók hann því með jafnaðargeði og sagði aðeins: ,,Þjófarnir hugsa sem svo: „Það er engin synd að stela frá honum Þorleifi, því að hann er nógu ríkur.“
Við bar það, að menn reyndu að leika á Þorleif í viðskiptum, en sjaldnast riðu menn feitum hesti frá því. Einhverju sinni kom sveitamaður til Þorleifs með smjörpinkil og vildi selja. Þorleifur vó smjörið, en sneri sér svo frá til þess að reikna út verðið. A meðan tók maðurinn pinkil sinn aftur og lét í pokann. Þegar Þorleifur sneri sér við, tók maðurinn upp smjörpinkil sinn og segir: ,,Eg var nú hérna með ofurlítið meira smjör. Viltu ekki kaupa það líka, Þorleifur minn?“ Hann tekur við smjörinu, vegur það og segir: ,,Alveg eins og hitt, einn fjórðungur og þrjár merkur. En hvað vigtaði smjörið allt heima hjá þér?“ ,,Mér reiknaðist, að það væri nálægt tveim fjórðungum og 5 eða 6 mörkum,“ segir maðurinn. ,,Jæja,“ segir Þorleifur, ,,við svona menn er svo gaman að skipta, að ég ætla að láta það bíða að borga þér seinni vigtina, þangað til þú kemur með hana hingað.“ Varð maðurinn að láta sér þetta lynda, skammaðist sín og svaraði engu.
Einu sinni varð Þorleifur uppiskroppa með sykur, og það jafnvel svo, að hann hafði eigi nóg til heimilisþarfa. Sendi hann þá mann með skjóðu til annars manns, er bjó í nokkurri fjarlægð, og bað hann að lána sér sykur svo mikinn sem skjóðan tæki. Þegar Þorleifur sendi borgunina í sama nokkuru síðar, vantaði hálft pund upp á vigtina. Maðurinn lét sækja hest sinn í haga, söðlaði hann í skyndi og reið til Háeyrar. Fekk hann ágreininginn samstundis jafnaðan, enda játaði maðurinn, að um misgáning hefði verið að ræða, en engin svik eða undanbrögð hjá Þorleifi. Slíkar refjar voru fjarri hugsun Þorleifs.
Eins og áður er sagt, keypti Þorleifur Stóru-Háeyrina með hjáleigum, er hann fluttist þangað. Síðar keypti hann margar jarðir aðrar, en falaði enga til kaups. Menn buðu honum þær, er þeir komust í peningaþröng. Enga jörð keypti hann dýrara verði en svo, að hún rentaði sig án þess að jarðarafgjaldið væri hækkað. Og svo vel þótti hann gera við landseta sína, að orð var á því gert.
Háeyrartorfunni fylgdi gott rekaland, strandlengja, nokkur hundruð metra á lengd. Þegar heimajörð var í leiguábúð, var venjan sú, að heimabóndi hefði leiguliðagagn, sem kallað var, en það voru álnarkefli og spýtur, er voru þrjár álnir milli losa og þaðan af minni, en landsdrottinn átti allan stærri reka. Nú var Þorleifur bæði landsdrottinn og heimabóndi á Háeyri og átti því allan reka óskertan fyrir Háeyrarlandi, en hjáleigumenn og þurrabúðarmenn höfðu engin afnot rekans önnur en þau, að þeir máttu hirða þar fiskrytjur nokkurar, svo sem karfa, keilu og annað slíkt. En algengt var, að menn gerðust fullhirðusamir á rekanum og ágirntust spýtu og spýtu, er að landi bar, ef þeir komust í færi. Munu fáir hafa verið lausir við slíka hirðusemi bæði á Háeyrarrekunum og annars staðar. Einhverju sinni hvarf staur einn af rekanum hjá Þorleifi, er vart hafði orðið við, að rekið hafði. Hafði Þorleifur að þessu sinni M undakotsmenn einkum grunaða og lét gera leit hjá þeim, en það bar engan árangur. Þegar leitarmenn voru að fara, segir bóndi hróðugur: ,,En að þið skylduð ekki leita í fjóshaugnum!“ ,,Þá er að gera það,“ segir Þorleifur, og þar fannst staurinn. Í tilefni af þessu orti Þorleifur vísu þessa, sem margir lærðu:
Í Mundakoti mæna
menn á hafið græna,
viðnum vilja ræna,
vaskir nóg að stela,
þraut er þyngri að fela.
Mangi og Jón
eru mestu flón,
minnstu ekki á hann Kela.
Mörg hnyttin tilsvör voru höfð eftir Þorleifi, og flugu þau sum mann frá manni.
Einn af góðvinum Þorleifs var Ebenezer Guðmundsson gullsmiður á Eyrarbakka. Hittust þeir oft og ræddust við. Einu sinni lagði Ebenezer þessa spurningu fyrir Þorleif: ,,Heldur þú, Þorleifur minn, að það sé synd að bölva?“ ,,Synd? Það veit ég ekki,“ svaraði Þorleifur, „en ég bölva aldrei, af því að ég tel það ekki borga sig og mér þykir það vissara. Eg hef aldrei vitað neinn græða á því.“
Sveitamaður nokkur kom til Þorleifs með vöru sína i poka, og stóð Þorleifur hjá honum, meðan hann leysti fyrirbönd pokans, sem var allur fjatraður í snærum og harðir hnútar á. Þeir röbbuðu saman á meðan, unz manninum tók að leiðast að fást við hnútana. Á meðan hann var að tala við Þorleif, sagði hann: ,,Hvað telur þú nú, Þorleifur minn, vera helztu ástæðuna til þess, að þú hefur efnazt svo vel og orðið ríkur?“ Um leið brá hann hnífi sínum á síðasta hnútinn. Þorleifur svaraði: ,,Ástæðan er sú, að ég gaf mér tíma til að leysa hnútinn.“ Eftir þessu voru tilsvör Þorleifs oft og tíðum, og voru mörg þeirra höfð að orðtækjum manna á milli.
Þorleifur á Háeyri var, sem áður segir, smár vexti, en gildur á velli, munnvíður, með mikið hár á höfði og skegg á vöngum, hátt enni og söðulbakað nef. Augun voru gáfuleg mjög og mild, hýrleg og skýr, enda var hann spekingur að viti. Hann var óvenjulega mikill framfara- og hugsjónamaður á sinni tíð. Skáldmæltur var hann vel sem bræður hans sumir, en hann varaðist að láta neinn nema það, sem hann orti, fór aðeins einu sinni með hvert kvæði eða vísu. Margt af því var alvarlegs efnis, til áminningar eða viðvörunar, en fleira þó spaugi blandið um menn og málefni líðandi stundar, en yfirleitt var það allt græskulaust og í gamni sagt öðrum til skemmtunar. Allra manna stilltastur var Þorleifur, og sjaldan mun það hafa komið fyrir, að á honum sæist reiði. Um það sagði hann sjálfur: ,,Það hugsa margir, að ég geti ekki reiðzt, en það er ekki svo. Ég er geðríkur maður, og fyrr á árum kom það fyrir, að ég hleypti reiðinni fram. En ég sá, að ég vann aldrei neitt á því, en tapaði ávallt. Ég gerði mér því að reglu að láta aldrei reiðiorð til mín heyrast, og hef ég komið málum mínum fram eins fyrir því. Reiðin er heimska, en lempnin er rétta leiðin til þess að fá málum sínum framgengt.“
Enginn mælskumaður var Þorleifur eða margorður í viðtali. En orð hans hittu jafnan í mark og voru svo efnisrík og áhrifamikil, að þeir, sem á hann hlýddu, fundu, að þarna var kjarni málsins, settur fram umbúðalaust og í einföldum búningi. Það voru orð viturs og lífsreynds manns. Það, sem einkenndi einkum Þorleif og gerði hann að mikilmenni, var eigi aðeins hið skarpa og djúpa vit hans, heldur og hin óbifanlega staðfesta hans og fágæta vald yfir sjálfum sér, er hann hafði öðlazt með langri sjálfstamningu. Um þetta komst hann svo að orði: ,,Það, sem ég hef komizt, hefur mér á unnizt með því að leggja á mig sjálfsafneitun og brjóta af mér hlekki hins illa vana og eftirlætis við vondar girndir. Með því móti gætu margir menn komizt áfram í lífinu án þess að finna til neinnar þvingunar eða sársauka. Það er vegurinn til hins fullkomna frelsis.“
Þannig tókst þessum umkomulausa dreng eigi aðeins að skapa einhvern mesta auð hér á landi um sína daga, heldur og að skapa úr sjálfum sér sterkan og heilsteyptan persónuleika, sem hóf sig að andlegum þroska og lífsvizku hátt yfir alla meðalmennsku og smámunasemi síns daglega umhverfis.