You are currently viewing 123-Forsöngvarar og sönglíf á Stokkseyri
Söngflokkur Gísla Pálssonar við barnaskólann [Götuhúsaskólann] á Stokkseyri

123-Forsöngvarar og sönglíf á Stokkseyri

Um langan aldur hafa Stokkseyringar staðið framarlega um söngmennt og tónlist, þegar miðað er við það, sem almennt tíðkast hér á landi. Áhugi á þeim efnum virðist lengi hafa verið landlægur í Stokkseyrarhreppi, og kunnugt er þar um marga framúrskarandi söngmenn, þótt auðvitað ólærðir væru. Langt er síðan að því var veitt athygli, að mest ber á hæfileikum í þessa átt í einni ætt, sem hefir lengi verið fjölmenn og áhrifamikil í Stokkseyrarhreppi. Er þar um að ræða Bergsætt, sem komin er frá Bergi hreppstjóra Sturlaugssyni í Brattsholti, og það vill svo einkennilega til, að hann er fyrsti forsöngvarinn í Stokkseyrarkirkju, sem nafngreindur verður. Ekki er þó vitanlega svo að skilja, að tónlistarhæfileikar og áhugi á því sviði séu bundnir við Bergsætt eina. Þar má einnig nefna til marga niðja Eyjólfs sterka á Litla-Hrauni, en þessar tvær ættir koma meðal annars saman í foreldrum Selsbræðra, sem báru uppi allt sönglíf í Stokkseyrarhreppi í nærfellt sjö áratugi og voru fjórir hver eftir annan kirkjuorganistar á Stokkseyri. Verða þessi tengsl rakin nokkru nánar hér á eftir.

Eins og að líkum lætur, var söngurinn hér sem annars staðar í nánu sambandi við kirkjuna. Auðvitað tóku menn lagið í gamla daga, ekki síður en nú, í veizlum og á vinafundum, en um skipulegan og hátíðlegan söng var naumast að ræða nema í kirkjunni. Áður en hljóðfæri komu í kirkjur, reið mikið á því að hafa góðan forsöngvara. Hann réð tóni og lagi og söng fyrir. Hann þurfti ekki aðeins að vera góður raddmaður, heldur einnig að vera lagvís og að kunna mörg eða helzt öll tíðkanleg sálmalög. Til forsöngvara völdust því yfirleitt beztu söngmennirnir, sem völ var á á hverjum stað. Undir söngnum var svipur og áhrifablær messunnar mikið kominn, og hefir svo jafnan verið. Því er ástæða til að geta hér hinna gömlu forsöngvara á Stokkseyri að svo miklu leyti sem heimildir greina.

Fyrsti forsöngvarinn, sem nafngreindur er á Stokkseyri, var, sem áður segir, Bergur Sturlaugsson í Brattsholti ( 1682-1765). Ekki er kunnugt, hve lengi hann gegndi því starfi, en mælt er, að hann hafi verið mikill og góður söngmaður. Á hans dögum var útbrotakirkja á Stokkseyri, sem áður er lýst, og er þetta eftir honum haft: ,,Meðan eg var í útbrotunum, sá eg allt, heyrða eg allt, og vissa eg allt, en síðan eg kom (kórinn, sé eg ekkert, heyri eg ekkert og veit eg ekkert.“ Má vera, að hann eigi við það, að forsöngvarastarfið og sú ábyrgð, sem því fylgdi, hafi fengið honum nóg að hugsa og hann hafi getað fylgzt betur með messunni, meðan hann sat áhyggjulaus í útbrotum kirkjunnar. Bergur átti sex sonu og sex dætur, og komust allir synirnir upp og fjórar dæturnar. Þegar hann sendi börn sín á aðra bæi, var hann vanur að gefa þeim þetta heilræði: „Spurðu margs, en segðu fátt.“[note] Aðrir hafa setninguna þannig: ,,Heyrið þið margt, en talið þið fátt.“ [/note] Frá Bergi er komin fjölmenn ætt og í Stokkseyrarhreppi sérstaklega frá syni hans, Jóni Bergssyni. Hefir tónlistargáfa verið þar mjög ættgeng. Sigfús Einarsson var fjórði maður frá Jóni og Selsbræður, Bjarni, Jón, Ísólfur og Gísli Pálssynir, sömuleiðis; Friðrik Bjarnason og Páll Ísólfsson í fimmta lið. Af öðrum tónlistarmönnum, sem komnir eru af Bergi, má nefna Árna Beintein Gíslason, síra Halldór Jónsson á Reynivöllum og dr. Hallgrím Helgason.

Næsti forsöngvari, sem getið er um á Stokkseyri, var Brandur Magnússon smiður á Roðgúl (1727-1821). Verið getur, að hann hafi tekið við af Bergi, en óvíst er um það. Hitt er víst, að hann lét af forsöngvarastarfi í mótmælaskyni við nýju sálmabókina á nýársdag 1801. Um það segir svo í Kambsránssögu: ,,Jakob prófastur innfærði nýju sálmabókina í kirkjur sínar. Líkaði mörgum það illa fyrst, en brátt vann hann fleiri og fleiri á sitt mál. Jón hreppstjóri í Móhúsum studdi mál prófasts. Þá var Brandur bóndi í Roðgúl forsöngvari í Stokkseyrarkirkju. Hann var stórmenni að vexti og afli, stórlyndi og atorku og einnig að söngrómi. Hann neitaði að byrja hinn nýja söng. Prófastur lét það eigi fyrir standa og byrjaði sjálfur. En þá byrjaði Brandur hinn venjulega söng í Grallaranum og söng svo hátt, að eigi heyrðist til prófasts, og þagnaði hann. Eftir messu skaut prófastur á fundi, en varð lítið ágengt sökum ákafa Brands. Um kvöldið fór prófastur af stað heimleiðis, en kom við í Roðgúl og dvaldi þar fram á nótt. Eigi vita menn, hvað þar fór fram. En eftir það sýndi Brandur eigi annan mótþróa en að hann fór eigi í kór, heldur sat þegjandi í stólnum hjá konu sinni.“ Út af þessu orti Kolbeinn í Brattsholtshjáleigu meðal annars:

Forsöngvari náði nýr
nýjan söng að byrja
á nýársdegi, næsta órýr,
nokkrir undir kyrja.

Annar gamall annað lag
einnig taka náði
nú þann sama nýársdag,
svo nývillingur áði.

Víða berst um grund og geim
gamansfregnin slynga.
Forsöngvara þökk sé þeim,
sem þaggaði nývillinga.[note] Sagan af Þuríði formanni o. s. frv. I, 9. kap.[/note]

Hér má til uppfyllingar bæta við frásögn Jóns Adólfssonar í Grímsfj ósum, dóttursonar Jóns ríka í Móhúsum, af þessum atburðum, en hann sagði svo frá: Safnaðarfundur var haldinn á Stokkseyri eftir messu, og urðu þar harðar deilur. Síra Jakob krafðist þess, að nýja sálmabókin yrði notuð eftirleiðis, og studdi Jón í Móhúsum mál hans. Jón söngur á Ásgautsstöðum andmælti breytingunni kröftuglega og sagði m. a., að nýja sálmabókin væri til villu, skammar og svívirðingar. Þá reis upp Brandur í Roðgúl og sagði: ,,Komi þeir út, sem vilja halda trúnni.“[note] Eftir handriti Þórðar Jónssonar bókhaldara.[/note]

Eftir Brand varð forsöngvari Helgi Sigurðsson bóndi í Brattsholti ( 1750– 1818). Var þá hinn nýi kirkjusöngur viðtekinn, en mótstaðan hjaðnaði niður. Helgi var merkur bóndi, hreppstjóri og sáttasemjari. Hann var ættaður frá Ásgarði í Grímsnesi, afabróðir Jóns Sigurðssonar forseta.

Næsti forsöngvari var Sturlaugur Jónsson bóndi í Eystri-Rauðarhól (1763 -1838). Hann var sonur Jóns Bergssonar frá Brattsholti og talinn ágætur söngmaður. Sonur hans var Jón á Syðsta-Kekki, faðir Páls á Seli og Jónshreppstjóra á Hlíðarenda, sem var afbragðs söngmaður. Bróðir Sturlaugs var Grímur í Traðarholti, faðir Jóns í Traðarholti, föður Einars borgara á Eyrarbakka, föður Sigfúsar tónskálds, föður Elsu söngkonu í Danmörku.

Af Sturlaugi tók við Gísli Þorgilsson á Kalastöðum (1800-1858). Talið er, að hann hafi tekið við um 1832 og sennilega verið forsöngvari til dauðadags, en meðhjálpari var hann í 16 ár. Sagt er og, að Grallarinn hafi verið sunginn á stórhátíðum fram undir miðja öld, t. d. muni hann hafa verið sunginn á hvítasunnudag 1845. Hefir það verið í forsöngvaratíð Gísla. Móðir Gísla var sonardóttir Eyjólfs sterka á Litla-Hrauni, en kona hans var Sesselja Grímsdóttir frá Traðarholti. Dóttir þeirra var Margrét, móðir Selsbræðra. Bróðir Gísla á Kalastöðum var Guðmundur á Litla-Hrauni, einnig mikill söngmaður.

Eftir Gísla varð Andrés Þórarinsson bóndi í Brattsholti (1811-1894) forsöngvari. Mun hann hafa gegnt því starfi á árunum 1858-63, en þá fluttist hann að Holti í Gaulverjabæjarsókn, þar sem hann bjó síðan. ,,Hann kom með nýju lögin og söng mikinn.“[note] Friðrik Bjarnason telur (Heimir I, 1923), að Brynjólfur Björnsson í Borg (d. 1872) hafi orðið forsöngvari eftir Andrés, en það var ekki rétt. En meðhjálpari var hann.[/note]

Þegar Andrés hvarf úr sókninni, gekk fyrst í stað allt á tréfótum með sönginn, og gerðust þá ýmsir söngmenn. Helztir þeirra voru Gísli Oddsson í Steinskoti og Páll Halldórsson í Kumbaravogi. Hafði allt farið í ólestri hjá honum. Þetta millibilsástand stóð stuttan tíma, því að brátt var fenginn hæfur maður til þess að taka við forsöngvarastarfinu. Það var Gísli Gíslason í Vestri-Rauðarhól, síðar bóndi á Stóra-Hrauni og Ásgautsstöðum ( 1839-1917). Hann var sonur Gísla Þorgilssonar, fyrrum forsöngvara, og Sesselju Grímsdóttur. Gísli hafði komizt yfir nótnabók, sem kölluð var Arabók eða Akureyrarbók, því að hún var eftir Ara Sæmundsson og prentuð á Akureyri ( 1855), og lærði af henni lög ásamt Tómasi Þórðarsyni vinnumanni í Nesi, en þeir voru þá taldir mestir söngmenn. Jón Pálsson segir svo um rödd Gísla: ,,Fegurri og jafnframt fyllri og þýðari söngrödd minnist eg ekki að hafa heyrt, og líktist hún mjög söngrödd föðurbróður hans, Guðmundar gamla Þorgilssonar, síra Sæmundar í Hraungerði, Jóns á Hlíðarenda og Bjarna, bróður míns, en þessa menn heyrði eg syngja bezt og betur en nokkurn lærðan söngvara. Röddin var þeim ásköpuð.“[note]Bólstaðir o. s. frv., bls. 13.
[/note] Gísli var forsöngvari frá því um 1864 og allt þangað til að hljóðfæri kom í kirkjuna, – síðasti forsöngvarinn í Stokkseyrarkirkju í gömlum stíl.

Þó að hér hafi verið nefndir nokkrir helztu söngmenn á Stokkseyri fyrr á tímum, sem kunnugt er um, þá eru hinir þó eflaust fleiri, sem gleymdir eru. Geta verður þó eins manns enn, sem viðurnefni hlaut af söng og kveðskaparíþrótt sinni. Það var lón Jónsson söngur í Vestra-Íragerðíi(1756-1834), sem kallaður er Jón kvæða eða Jón cantor, þ. e. söngvari, í húsvitjunarbókum og studdi Brand í Roðgúl einna fastast gegn nýju sálmabókinni, sem fyrr segir. Jón sá var afi Bjarna ættfræðings, Arons í Kakkarhjáleigu, Friðriks í Hól og þeirra bræðra.

Fyrsta orgel, sem kom í kirkju austanfjalls, kom í Arnarbæliskirkju árið 1874. Vakti það mikla athygli og forvitni manna í fyrstu, og á næstu árum urðu flestar kirkjur til þess að ná í hljóðfæri. Þótti slíkt mikil búningsbót við messuflutning og aðrar kirkjulegar athafnir. Sóknarmenn Stokkseyrarsóknar brugðu tiltölulega fljótt við. Í ársbyrjun 1876 ritaði nefnd manna beiðni eða áskorun til safnaðarins um að kaupa orgel í kirkjuna og leggja fram samskotafé í því skyni. Í samskotanefndinni voru þeir Guðmundur Thorgrímsen verzlunarstjóri, Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri, Grímur Gíslason í Óseyrarnesi, Páll Eyjólfsson í Íragerði og Páll Jónsson á Syðra-Seli. Tekið var fram, að hljóðfærið ætti að kosta 400 krónur, og jafnframt var þess getið, og ungfrú Sylvia Thorgrímsen hefði boðizt til að kenna ungum manni þar í sókninni, Bjarna Pálssyni í Götu, að leika á hljóðfærið og skyldi kennslan vera ókeypis. Samskot voru síðan hafin, og gengu þau fljótt og vel með almennri þátttöku, allt frá börnum, sem gáfu nokkra aura, til máttarstólpa sveitarinnar, sem gáfu upp í 20 krónur. Söfnuðust þannig 399 kr. 98 aurar. Vitum vér eigi, hver lagði síðasta lóðið á vogarskálina, aurana tvo, sem á vantaði.

Sýnt er, að samskotanefndin hefir gengið að því vísu, að orgelsamskotin mundu heppnast, því að Bjarni Pálsson byrjaði þegar haustið áður á spilanáminu. Gekk hann tvisvar í viku út á Eyrarbakka um veturinn til náms og æfinga, en það er klukkustundar gangur hvora leið. Kom fljótt í ljós, að þar hafði réttur maður orðið fyrir valinu, því að honum sóttist námið afburða vel og gerðist síðar hinn ötulasti brautryðjandi um söngmennt og orgelkennslu í átthögum sínum.

Hið nýja orgel í Stokkseyrarkirkju var vígt á hvítasunnudag, 4. júní 1876, og lék Bjarni þá á það við guðsþjónustu í fyrsta sinn. Hann var síðan organisti á Stokkseyri til dauðadags.[note] Sbr. Austantórur II, 91, 107-109; III, 81-82.[/note]

Bjarni Pálsson (1857-1887) var hinn mesti áhugamaður um sönglistina sem önnur menningarmál, er hann hafði afskipti af. Hann kenndi söng í barnaskólanum bæði áður og eftir að hann varð aðalkennari við skólann. Hann kenndi mörgum að leika á orgel, og voru sumir nemendur hans langt að komnir. Árið 1884 fekk hann 100 kr. styrk á fjárlögum til að kaupa harmoníum til afnota við kennslu í söng og organslætti,[note] Stjórnartíðindi B 1884, bls. 100.[/note] og veturinn 1885-86 hafði hann 11 unga menn hjá sér um tíma, alla úr Hreppum og Biskupstungum til þess að kenna þeim að syngja lögin við alla sálmana, sem þá voru að koma út í nýju sálmabókinni.[note] Austantórur II, 91-92.[/note] Tvö söngfélög hafði Bjarni á Stokkseyri. Annað var barnakór, er hann æfði í síðasta kennslutímanum á hverjum degi, en þann tíma notaði hann ævinlega til söngs. Hitt var karlakór, er hann æfði á kvöldin í skólahúsinu. Er svo sagt, að áhugi manna á söngnum væri svo mikill, að menn kepptust við að ljúka vinnu sinni til þess að komast í tæka tíð á æfingarnar. Auk þess æfði hann drengjaflokk, og kölluðu þeir sig sjálfir „vonda kórinn“, af því að þeir. voru í mútum. En Bjarni lét það ekki fyrir standa og lét mestu varða, að þeir lærðu lögin. Karlakórinn söng í kirkjunni, á félagssamkomum eða við önnur sérstök tækifæri, barnakórinn við skólasetningu og skólaslit og barnaskemmtanir. Öll þessi starfsemi var mikil og kærkomin nýjung í fásinninu og kveikti líf og hreyfingu í kringum sig, sem lengi bjó að síðan.

Bjarni Pálsson var fjórði maður í báðar ættir frá Jóni Bergssyni, en dóttursonur Gísla Þorgilssonar, -sem áður er getið. Sönglistin átti sér djúpar rætur í ættstofninum og tónlistargáfa hið sama. Bjarni samdi bæði sönglög og sálmalög, en þekktast mun vera sálmalagið: ,,Hin mæta morgunstundin“, sem hefir verið tekið upp í safn slíkra laga, er gefið var út í Boston 1937 og ef til vill víðar erlendis. Þó að synir Bjarna væru svo ungir, er hann féll frá, að þeir gætu ekki notið kennslu hans, urðu þrír þeirra organistar, Þórður kennari og vitavörður, Páll Þorgeir í Chicago og Friðrik söngkennari í Hafnarfirði, sem er einnig meðal kunnustu tónskálda landsins. Fjórði bróðirinn, Páll skólastjóri, kunni einnig að leika á orgel, en önnur störf sátu meira í fyrirrúmi hjá honum.

Við hið sviplega fráfall Bjarna 1887 varð bróðir hans, Jón Pálsson yngri, síðar bankagjaldkeri í Reykjavík (1865-1946), organisti á Stokkseyri og gegndi því starfi í sex ár eða til 1893, enda· var hann þá orðinn búsettur á Eyrarbakka. Jón hafði lært að þekkja nótur hjá Einari Einarssyni frá Laxárdal, þegar hann var orgelnemandi hjá Bjarna í Götu veturinn 1878-79, en síðan lærði Jón hjá Bjarna, bróður sínum, og fekk að æfa sig á orgelið .í Stokkseyrarkirkju. Jón var sem þeir bræður allir mjög áhugasamur um söngmennt og var lífið og sálin í tónlistarstarfinu á Eyrarbakka, eftir að hann settist þar að sem verzlunarmaður og barnakennari, hafði þar tvö söngfélög, söngfélagið „Báru“ og karlakór, auk söngflokks 30 barna. Þegar Eyrarbakkakirkja var vígð 14. des. 1890, söng þar 38 manna blandaður kór frá Stokkseyri og Eyrarbakka undir stjórn hans. Það er til marks um áhuga og dugnað Jóns, að hann lét kirkjukórinn á Eyrarbakka læra alla hátíðasöngva Bjarna Þorsteinssonar og syngja á kirkjuhátíðum tveimur árum fyrr en það væri gert nokkurs staðar annars á landinu. Jón kenndi einnig orgelleik og hafði lengi á hendi orgelsölu bæði til kirkna og einstaklinga. Hann lét hljóðrita fjölda sönglaga, sálmalaga og rímna, eftir að hann fluttist til Reykjavíkur (1902), og þess má geta, að hann bjargaði frá gleymsku hinu undurfagra lagi „Víst ertu, Jesús, kóngur klár“, sem nú er eitt af vinsælustu sálmalögum kirkjunnar í raddsetuingu dr. Páls Ísólfssonar. Ekki mun Jón hafa haft sérstakan söngflokk á Stokkseyri á þessum árum utan kirkjunnar.

Þegar Jón lét af organistastörfum á Stokkseyri vegna bústaðaskipta og margs konar starfa, sem á hann hlóðust á Eyrarbakka, tók við starfinu þriðji bróðirinn, Ísólfur Pálsson (1871-1941). Hann var organisti frá 1893-1912, en þá fluttist hann alfarinn til Reykjavíkur. Ísólfur hafði alla jafnan söngflokka á Stokkseyri einn eða fleiri, eftir að Bjarni, bróðir hans, féll frá. Fyrir aldamót hafði Ísólfur æfðan kirkjukór og lét drengi úr barnastúkunni syngja millirödd, áður en þeir fóru í mútur. Safnaði hann þeim saman í kirkjunni til að kenna þeim raddirnar og æfði þá einnig í góðtemplarahúsinu. Úr kirkjukórnum myndaði hann auk þess annan kór með sama fólki að nokkru leyti. Var það blandaður kór og starfaði í mörg ár, hélt söngskemmtanir og kom fram við ýmis tækifæri, leystist loks í sundur af sjálfu sér, og varð þá nokkurt hlé á starfsemi þessari um tíma. En skömmu eftir aldamótin, líklega um 1902- 03, kallaði Ísólfur saman fjóra menn, þá Nikulás Torfason í Söndu, Ásgrím Jónsson í Móhúsum, Sigurð Magnússon í Dvergasteinum og Jón Jónsson í Íragerði, er þá voru einhverjir beztu söngmenn á Stokkseyri, og stofnaði með þeim kvartett, sem starfaði óslitið, þangað til Ísólfur fór. Sungu þeir margsinnis opinberlega á Stokkseyri og einnig nokkrum sinnum á Eyrarbakka. Kynntu þeir þannig fjölda sönglaga bæði erlendra og innlendra, þar á meðal eftir Ísólf sjálfan. Var söngur þeirra félaga mjög rómaður, raddir ágætar og vel æfðar. Sérstaklega er annáluð hin djúpa og blæfagra bassarödd Jóns í Íragerði, sem kunnugir telja, að átt hafi fáan eða engan sinn líka.

Ísólfur Pálsson lét sig miklu skipta flest menningarmál í byggðarlaginu, vann mikið að bindindismálum, leikstarfsemi og einkum að tónlistarmálum. Hann var sjálfur tónskáld, og eru ýmis af lögum hans þjóðkunn. Var hann maður mjög fjölhæfur, fekkst m. a. við uppfinningar, og læknir þótti hann góður, og virtist flest leika í höndum hans. Eftir að hann fluttist til Reykjavíkur, hafði hann mest með höndum stillingu, viðgerðir og smíði hljóðfæra. Tónlistargáfa ættarinnar hefir gengið ríkulega að erfðum til barna Ísólfs. Meðal þeirra eru dr. Páll tónskáld og organleikari við dómkirkjuna í Reykjavík, Sigurður organleikari við fríkirkjuna, Pálmar hljóðfærasmiður og Margrét, sem kennt hefir hljóðfæraslátt. Dóttir dr. Páls er Þuríður, hin vinsæla söngkona í Reykjavík.

Þá er Ísólfur fluttist burt, tók við organistastarfinu á Stokkseyri fjórði bróðirinn, Gísli Pálsson í Hoftúni ( 1868–1943). Gegndi hann því til dauðadags eða í 31 ár. Gísli var sérstakur áhugamaður um söngmenntina á Stokkseyri, kenndi söng við barnaskólann í meira en tvo áratugi, framan af jafnvel ókeypis á stundum, og hélt uppi söngflokkum alla sína organistatíð. Eftir að Ísólfur fór, stofnaði Gísli karlakór. Kjarni hans var kvartett Ísólfs, en við bættust þessir söngmenn: Guðmundur Pálsson í Vatnsdal, Ingvar Sturlaugsson frá Starkaðarhúsum, Gunnar Ingimundarson í Hellukoti, Bryngeir Torfason í Söndu, Sigurður Ingimundarson kaupmaður og Þorkell Þorkelsson í Móhúsum, allt prýðissöngmenn. Kór þessi hélt margar söngskemmtanir við góðan orðstír, en um 1922-23 lagðist karlakórinn niður, og var þá stofnaður blandaður kór. Hann starfaði lengi og vel undir stjórn Gísla Pálssonar eða allt fram undir það, að Gísli féll frá. Það er til marks um áhuga Gísla á þessum málum, að hann stofnaði sérstakan sjóð til eflingar kirkjusöng á Stokkseyri. Nefnist hann Sönglistarsjóður Stokkseyrarkirkju, og verður hans nánara getið hér á eftir.

Gísli Pálsson andaðist 24. maí 1943. Tók þá dóttir hans, Margrét Gísladóttir í Hoftúni, við organleikarastarfinu við Stokkseyrarkirkju; hafði hún það á hendi í þrjú ár og stjórnaði jafnframt söngkór kirkjunnar. Þegar Margrét lét af þessu starfi, voru liðin rétt 70 ár, síðan orgel kom í kirkjuna, og hafði hún, faðir hennar og föðurbræður verið organleikarar óslitið allan þann tíma.

Af Margréti tók Pálmar Þ. Eyjólfsson í Skipagerði við organleikarastarfinu 17. júní 1946, og hefir hann gegnt því síðan. Pálmar er í móðurætt kominn af .Tóni Bergssyni frá Brattsholti, en í föðurætt er hann systkinabarn við dr. Pál Ísólfsson. Einn kór er nú starfandi undir stjórn Pálmars, kirkjukórinn, sem hann hefir stjórnað, síðan hann tók við organleikarastarfinu. ,,Karlakór Stokkseyrar“ var stofnaður snemma árs 1945 og var Pálmar söngstjóri hans, en kórinn er fyrir löngu hættur störfum. Formaður kórarma var Helgi Sigurðsson í Bræðraborg. Pálmar Eyjólfsson hefir unnið talsvert að tónsmíðum sem margir ættmenn hans, og hefir kirkjukórinn m. a. flutt sum af sönglögum hans.

Áður en skilizt er við þetta efni, skal getið hér stuttlega tveggja burtfluttra Stokkseyringa, sem lengi hafa skipað sæti með fremstu tónlistamönnum þjóðarinnar. Þessir menn eru þeir Friðrik Bjarnason og einkum Páll Ísólfsson, synir bræðranna Bjarna Pálssonar í Götu og Ísólfs Pálssonar, sem áður er frá sagt. Friðrik Bjarnason ( f. 1880) hefir unnið aðalævistarf sitt í Hafnarfirði og verið þar lengi forustumaður í tónlistarmálum sem söngkennari í skólum, söngstjóri og organleikari við þjóðkirkjuna. Hann hefir samið fjölda tónsmíða, skólasöngva, einsöngslög, karlakórslög og orgeltónverk, og eru mörg af lögum hans þjóðkunn. Páll Ísólfsson (f. 1893) hefir um margra ára skeið gegnt forustuhlutverki í tónlistarlífi þjóðarinnar sem skólastjóri Tónlistarskólans, tónlistarráðunautur Ríkisútvarpsins, organleikari við dómkirkjuna, söngstjóri og tónskáld. Hann hefir samið tónverk fyrir orgel, píanó og hljómsveit og margt vinsælla sönglaga. Mikið af verkum hans er enn óprentað. Páll var kjörinn heiðursdoktor háskólans í Osló 1945 og félagi í konunglegu sænsku músikakademíunni 1956.

Hér á einnig við að nefna auk Þuríðar Pálsdóttur tvo þjóðkunna söngvara, sem að nokkru eru ættaðir frá Stokkseyri. Þessir söngvarar eru Guðrún Á. Símonar og Guðmundur Guðjónsson. Móðurforeldrar Guðrúnar voru Páll Stefánsson söðlasmiður í Pálshúsum á Stokkseyri og Guðrún Þorsteinsdóttir frá Kolsholtshelli, systir Jóns járnsmiðs í Garðbæ. En faðir Guðmundar er Guðjón Jónsson frá Útgörðum á Stokkseyri og þaðan ættaður.

Sönglíf á Stokkseyri hefir, eins og að framan er sagt, löngum verið mjög tengt kirkjunni, en á síðari tímum einnig náð langt út fyrir hana. Á sviði söngmenntar og tónlistar hafa Stokkseyringar verið allri þjóðinni auðmiðlendur. Frá þeim eru komnar margar tónperlur, sem eru nú og verða lengi skart hennar og prýði.

Leave a Reply