Eftirfarandi þula er skráð eftir Olgeiri Jónssyni í Grímsfjósum og mun vera frá 1865. Eru þar talin nöfn allra þáverandi formanna á Stokkseyri, 15 að tölu.
Pál, Aron, Bjarna, Sigurð sjá
sæjórum stýra og Jóna þrjá,
Gísla, Þórð, Einar, Grím, Karel,
Guðmund, Hannes og Árna tel,
hér á Stokkseyri formenn finn,
fylgi þeim drottins krafturinn,
veiti þeim blessun, verndi þá
voða og slysum öllum frá.
Nokkra aðgæzlu þarf að hafa við tímasetningu þulu þessarar. Auðþekkt eru nöfn þeirra Arons í Kakkarhjáleigu og Karels á Ásgautsstöðum, sem voru báðir fæddir 1831. Svo sagði Olgeir í Grímsfjósum, að einn af Jónunum þremur væri faðir hans, Jón Adólfsson í Grímsfjósum, en hann var fæddur 1837. Þetta bendir til tímans um og eftir 1860. En um þær mundir var einn nafnkunnur formaður á Stokkseyri, sem þulan nefnir ekki, en það var Tyrfingur Snorrason, sem drukknaði 1863. Þulan er því ekki gerð fyrr en eftir drukknun Tyrfings eða í fyrsta lagi 1864. Frá því ári getur hún þó ekki verið, því að þá voru tveir Grímar formenn á Stokkseyri, Grímur Gíslason síðar í Nesi, sem hætti þar formennsku það ár, og Grímur Jónsson í Gljákoti, en þulan telur aðeins einn Grím, sem kemur heim við 1865, og getur það ekki miklu skeikað. En formennirnir, sem þar eru nefndir, eru að minni hyggju þessir, taldir í sömu röð sem þar:
Páll Eyjólfsson, Eystra-Íragerði,
Aron Guðmundsson, Kakkarhjáleigu,
Bjarni Jónsson, Símonarhúsum,
Sigurður Eyjólfsson, Kalastöðum,
Jón Adólfsson, Grímsfjósum,
Jón Þorsteinsson, Roðgúl,
Jón Jónsson, Eystri-Móhúsum,
Gísli Magnússon, Vestri-Móhúsum,
Þórður Grímsson, Stokkseyri,
Einar Loftsson, Ranakoti,
Grímur Jónsson, Gljákoti,
Karel Jónsson, Ásgautsstöðum,
Guðmundur Jónsson, Rauðarhól,
Hannes Hannesson, Skipum,
Árni Grímsson í Árnatóft.