003-Litast um á Eyrum

003-Litast um á Eyrum

Stokkseyrarhreppur hinn forni er í lögun einna líkastur jafnarma þríhyrningi með hér um bil 9 km. grunnlínu að austan og topphorn vestur við Ölfusá; önnur langhliðin liggur um Breiðamýri á mörkum Sandvíkurhrepps, en hin með sjó og er um 15 km. að lengd. Að utanverðu, frá Ölfusá og austur fyrir Hraunsá, er byggðin öll með sjónum. Voru þar yzt jarðirnar Nes og Rekstokkur ( eldra Drepstokkur), sem nú eru í eyði, en þá Einarshöfn, Skúmsstaðir og Háeyri, og er Eyrarbakkakauptún í landi þeirra jarða. Hálfrar stundar gang þar fyrir austan er Hraunshverfið, sem fyrrum var þéttbýlt og mannmargt, en nú eru þar aðeins í byggð jarðirnar Gamla-Hraun og Borg. Þegar austur fyrir Hraunsá kemur, breikkar byggðin. Langt uppi á mýri eru Stokkseyrarselin, en austur með sjónum Stokkseyrarhverfið með mörgum býlum, sem eru „dreifð yfir blómguð tún og grænar grundir”. Þar eru hið næsta fyrir ofan jarðirnar Ásgautsstaðir, sem nú eru í eyði, Selin og nokkru austar Brautartunga, Svanavatn og Hoftún. Fram hjá þeim liggur vegur upp á bæina miðsvæðis í hreppnum, að Brattsholti, Holti og Hæringsstöðum. Nokkru ofar er Breiðamýrarholt, en efst og austast í hreppnum eru býlin Gljákot, Oddagarðar og Brú, öll nú í eyði að kalla. Suðaustur frá Brattsholti eru Tóftar og litlu sunnar Leiðólfsstaðir í eyði. Hjá Grjótlæk austast í Stokkseyrarhverfi var reiðvegur upp að hinu forna höfðingjasetri Traðarholti, sem á land að sjó, en skammt þaðan austur með sjónum er jörðin Skipar og enn góðum spöl austar Baugsstaðir, einnig við sjó fram. Þar upp frá eru Hólar, og eru þetta austustu jarðirnar í hreppnum að sunnanverðu.

Allt er land slétt og grasgefið í Stokkseyrarhreppi, líkt og annars staðar í Flóa. Fáein lág holt hefjast þó upp yfir jafnlendið, og standa á þeim bæirnir uppi í sveitinni. Ofan til í hreppnum liggur Breiðamýri eftir honum endilöngum, grösug, en votlend mjög og ill yfirferðar, en þar fyrir neðan taka við móar og heiðalönd, góð til beitar og vel til ræktunar fallin, og er Stokkseyrarheiði þeirra mest. Næst sjó eru þurrir og sendnir valllendisbakkar. Á þeim eru tún sjávarbænda. Bakkar þessir eru nokkru hærri en landið fyrir innan þá vegna áhleðslu frá sjónum, og hafa því myndazt vötn eða uppistöðulón í slakkanum innan bakkans, þar eð vatn leitar þangað ofan af mýrum, en afrennsli ekki nægilegt. Vötn þessi eru venjulega kölluð flóð eða dælur. Höfðu sum þeirra afrennsli til sjávar, sem nú eru horfin. Hefir sjórinn borið þara og annað rusl upp í mynni þeirra og farvegurinn smám saman fyllzt.

Vestasta vatnið er Steinskotshóp, sem nú er þó að mestu þurrt orðið. Úr því austanverðu eða þar nálægt, sem barnaskólinn er, féll Háeyrará til sjávar. Seint á 18. öld er hennar getið, og er hún þá tekin að fyllast upp. Býður sýslu. maður þá ábúendum í Hraunshverfi og Háeyrarhverfi að moka hana upp, þar eð hún skemmi engjar Litla-Hrauns.[note]Bréfb. Árn. 24. júlí 1788, sbr. V.G., Saga Eyrarbakka I, 11. [/note] Nokkru síðar hefir farvegur Háeyrarár fyllzt með öllu. Spölkorn austar er Ytra-Litla-Hraunsvatn og þá Eystra Litla-Hraunsvatn, nokkru stærra. Úr því var dálítið afrennsli í Hraunsflóðin, sem lágu eftir endilöngu Hraunshverfi og hétu ýmsum nöfnum, en þau höfðu að lokum afrennsli austur í Hraunsá. Skammt þar fyrir austan er Skerflóð, sem frægt er orðið af Skerflóðs-Móra. Myndaði það ásamt Löngudæl eitt samanhangandi flóð, sem náði alla leið austur í Stokkseyrarhverfi. Úr Skerflóði fellur Hraunsá til sjávar, sennilega stytzta á landsins, aðeins nokkrir tugir metra að lengd. Yfir hana liggur brú á þjóðveginum til Stokkseyrar. Ísólfur Pálsson sagði svo og hafði eftir Ólafi Jónssyni í Hafliðakoti, að Hraunsá hefði verið skorin fram úr Skerflóði og af því drægi flóðið nafn sitt. En Jón Adólfsson í Grímsfjósum sagði, að áin hefði áður runnið fram úr flóðinu, sem er milli Dvergasteinalækjanna, og til sjávar þar nálægt, sem hliðið er á sjógarðinum fyrir vestan Bjarnavörðu. Eftir aldamótin sást enn glöggt, hvar Hraunsá hafði runnið úr flóðinu, að sögn Jóns Júníussonar frá Syðra-Seli, en þá hafði afi hans sýnt honum það.[note] G. J., Saga Hraunshverfis á Eyrarbakka, 137. [/note]

Knarrarósviti

Skammt fyrir norðan Skerflóð er Hafliðakotsvatn, allstórt og afrennslislaust, en nokkru austar er Selvatn og þá Ásgautsstaðavatn. Þau hafa sameiginlegt afrennsli í Löngudæl. Fyrir austan Stokkseyrarheiði tekur við mikill vatnaklasi, tengdur saman og við sjó með lækjum og ám. Aðalvötnin á þessu svæði eru Traðarholtsvatn og Skipavatn. Úr Traðarholtsvatni rennur Nýilækur austur í Skipavatn, en úr Skipavatni Baugsstaðaá austur í Baugsstaðasíki og þar til sjávar. En svo hafa eigi ávallt vötn fallið á þessum slóðum, og eru bæði lækurinn og áin skorin fram á síðari tímum, eftir að hin fornu afrennsli vatnanna fylltust upp. Hér hafa tvær ár horfið af sjónarsviðinu, Grímsá, sem getið er í íslenzkum fornritum, og Skipaá, sem var enn á foldu eftir miðja 19. öld.
Grímsá hefir runnið úr Traðarholtsvatni eftir svonefndri Grímsdæl fyrir ofan Skipa og ofan við sjávarbakkann austur undir Fornu-Baugsstaði og þar til sjávar. Þar, sem hún beygði til sjávar, féll í hana afrennsli Skipavatns. Hét hvorttveggja þá Grímsárós, og féll hann út í Knarrarsund, sem nú heitir Knarrarós, en þar var skipahöfn á landnáms- og söguöld.  Síðar á tímum var Grímsá kölluð Skipaá, og eftir að hinn gamli farvegur hennar um Grímsárós fylltist, fekk hún aðra útrás nokkru vestar og nær Skipum, á móts við svonefndar Árhellur. Brynjúlfur Jónsson frá Minna-Núpi segir ána hafa runnið úr austurenda Grímsdælar. ,,Rann þaðan dálítil á til sjávar í mínu minni. Var hún kennd við bæinn og kölluð Skipá. Man eg glöggt eftir henni, því á yngri árum mínum lá leið mín oft yfir hana í lestaferðum. En skömmu eftir 1860 bar sjávarflóð eitt sinn svo mikinn sand í framanverðan farveg hennar, að hún stíflaðist og hefir ekki náð framrás aftur.”[note] Árb. fornl. 1905, 6. – Sjá annars einkum grein Páls Sigurðssonar læknis, Nokkrar staðfræðilegar athuganir í landnámi Hallsteins Atlasonar í Lesbók Morgunbl. 1942, 81-84. [/note] Af öðrum vötnum í hreppnum má nefna Tóftavatn og Hólavatn. Í hið síðarnefnda rennur Hróarsholtslækur að ofan, en úr því Baugsstaðasíki niður til sjávar.

Augljóst er af því, sem nú hefir verið sagt, að ýmsar breytingar hafa orðið á afstöðu vatns og þurrlendis innan við sjávarbakkann á þessum slóðum á liðnum tímum. Sennilega hefir vatnsaginn aldrei verið meiri en á síðastliðinni öld og á fyrstu áratugum þessarar aldar, er afrennsli voru stífluð, en framræsla lítt byrjuð. Mikið land og gott lá þannig nytjalaust undir vatni. Hér þurfti mannshöndin að taka í taumana. En áður en vikið er nánara að þeim framkvæmdum, er rétt að svipast um á öðrum vettvangi, staðnæmast við sjávarsíðuna um hríð og fylgjast með þeim átökum, sem þar hafa farið fram.

Leave a Reply

Close Menu