Flóinn í Árnessýslu liggur milli stóránna Þjórsár að austan og Hvítár-Ölfusár að vestan og nær upp að Merkurhrauni, þar sem Skeiðin taka við, og þaðan allt niður til sjávar. Hann er landfræðileg heild, víð og gróðursæl lágslétta með einstökum holtum og hæðum, sem verða samfelld austan og ofan til og mynda hryggi og ása. Á stórum svæðum, svo sem á hinni víðáttumiklu Breiðamýri, eru kennileiti nær engin. Vegna hins mikla landsmegins þessa héraðs er því skipt í mörg sveitarstjórnarumdæmi eða hreppa.
Frá fornu fari skiptist Flóinn í 5 sveitarfélög. Að austanverðu er Villingaholtshreppur ofan til, en Gaulverjabæjarhreppur neðan til allt að sjó milli Þjórsár og Baugsstaðasíkis; en að utanverðu er efst Hraungerðishreppur, þá Sandvíkurhreppur og þar fyrir neðan Stokkseyrarhreppur allt til sjávar milli Baugsstaðasíkis og Ölfusár. Á síðari tímum hafa nokkrar breytingar verið gerðar á þessari skiptingu og hreppum fjölgað, svo að nú eru þeir orðnir 7 að tölu. Árið 1897 var Stokkseyrarhreppi skipt í tvö sveitarfélög, og ber eystri hlutinn hið gamla hreppsnafn, en ytri hlutinn heitir Eyrarbakkahreppur og eru mörkin skammt fyrir austan Hraunsá, nálægt því sem talið er, að áin hafi runnið fyrr á tímum.
Loks var nýr hreppur myndaður árið 1947 umhverfis kauptúnið að Selfossi. Hann heitir Selfosshreppur og er orðinn til úr landi þriggja hreppa, þ. e. Hraungerðis-, Sandvíkur- og Ölfushreppa. Flóahrepparnir hafa jafnan átt mikið saman að sælda vegna legu sinnar og samstöðu í ýmsum greinum, og má þar nefna t. d. afrétt og fjallskil. Á síðari tímum hefir samvinna þeirra orðið enn víðtækari, svo sem í ræktunarmálum, verzlun og fleira, sem almenning þar í héraði varðar.