Miðvikudaginn 23. júlí 1913 var lagt af stað í aðra bílferðina, sem farin hefur verið austur yfir Hellisheiði héðan úr Reykjavík austur að Stokkseyri, og er þar með átt við hinar reglulegu bílferðir þessa leið, án þess að telja ferð Thomsensbílsins. Fyrsta bílferðin hafði verið farin nokkru áður þá um sumarið, en ekki kann ég frá henni að segja að öðru leyti en því, að hún mun hafa gengið nokkuð skrykkjótt, enda rigningatíð mikil mikinn hluta vorsins og vegir því vondir mjög. Mun Jón Sigmundsson frá Ameríku einnig hafa stjórnað bílnum í þeirri ferð eins og hinni næstu, sem hér verður skýrt frá. Hann var hér um skeið og hafði félag við Svein Oddsson, mág sinn, og áttu þeir hér sinn Ford-bílinn hvor til að byrja með, en alls munu þeir hafa eignazt og haft hér í notkun 8 bíla alls og stofnað upp úr því Bifreiðafélag Reykjavíkur. Síðar kom Jónatan Þorsteinsson hingað með 2 Overlandbíla, og eftir það mun báðum þessum bílategundum og ýmsum öðrum hafa fjölgað svo, einkum eftir heimsstyrjöldina fyrri, að ekki er lengur hægt að henda reiður á fjölgun þeirra án sérstakrar athugunar.
Sveinn Oddsson var hér um tveggja ára skeið og Jón Sigmundsson fram á árið 1918, unz þeir hurfu báðir aftur til Ameríku.
Fyrsta bifreiðafélagið, Bifreiðafélag Reykjavíkur, hafði bækistöðvar sínar hér við Tjörnina og síðan á Laugavegi, þar sem „Fálkinn“ er nú, eða þar til Jón Sigmundsson fluttist héðan árið 1918, eins og áður segir. Var Jón vel að sér í sinni iðn og hjá honum og Sveini lærðu margir beztu og elztu bílstjórarnir, sem nú eru hér, að fara með bíla og gera við þá.
Nú var þessi ágæti bílstjórnari, Jón Sigmundsson, bílstjóri þessa áður umgetnu ferð, og lögðum við af stað héðan úr Reykjavík upp úr dagmálunum. Auk bílstjórans voru þessir farþegar:
Frú Valborg Einarsson, kona Sigfúsar Einarssonar dómkirkjuorganista, Johan Nilsson fiðluleikari og ég. Ætluðu þau frú Einarsson og hr. Nilsson austur að Kaldaðarnesi, en ég austur að Stokkseyri til þess að sjá móður mína og kveðja hana síðasta sinni, því hún var nærri 84 ára að aldri og lögzt banaleguna.
Ég ætla að skjóta hér inn nokkrum orðum um þennan Johan Nilsson. Hann var sænskur að ætterni, framúrskarandi lipur fiðluleikari og fór héðan til Danmerkur. Í Árósum stofnaði hann hljómlistarskóla, en giftist síðan sterkríkri konu einni, er átti jarðeignir miklar á Jótlandi, og yfirgaf því Johan Nilsson hljómlistarstarfsemi sína og fór á búgarð sinn.
Skal svo vikið að ferðasögunni aftur.
Vegurinn var afskaplega erfiður og illur yfirferðar, einkum þá er að Kolviðarhóli kom, því þar fór bíllinn á kaf niður í aur og bleytu. Að vísu var nokkurn veginn þurrt veður, en allar götur voru fullar af vatni og mjög djúpar undan hjólförum vagna, sem þá voru helztu farartækin, en moldin á milli hjólfaranna var margtroðin og mjög hál. Hún var á köflum eins og gildar pípur lægi á veginum, svo hál og slétt eins og væri þær steyptar úr kopar. Þegar því bílhjólin fóru eftir þessum háu og hálu hryggjum, skrikuðu ofan af þeim niður í bakkafull hjólförin á báðar hliðar, spýttist aurinn og vatnið svo hátt í loft upp, að ekki sá til vegar á löngum köflum né upp í heiðan himininn. Má því nærri geta, hvernig ferðin hafi sótzt, enda vorum við hátt á sjötta klukkutíma austur á Kambabrún án þess að staldra við, svo næmi, enda var varla hægt að segja um ferðina yfir Hellisheiði það sama og maðurinn, sem í dýinu lá, sagði: „Það mjakast!“ Ég held, að gangandi maður hefði haft við bílnum, þótt hægt færi, á eigin fótum.
Vegna þess að frú Einarsson og hr. Nilsson ætluðu að Kaldaðarnesi, eins og áður er sagt, fórum við ekki lengra en að Kotströnd og stigum þar úr bílnum og gengum yfir að Arnarbæli, fengum þar ferju yfir ána og komum að Kaldaðarnesi eftir 8 klukkustunda ferð. Var þá farið að rigna og syrta að í lofti.
Ég fékk lánaðan hest í Ka1daðarnesi og ætlaði að ríða honum austur á veginn fyrir austan Sandvíkurnar, en klárinn var þá svo þver og húðlatur, að ég komst ekki á honum hálfa leið og skildi hann því við mig og gekk það, sem eftir var. En er austur á veginn kom, vildi mér það til, að þrír piltar úr Stokkseyrarhverfi voru þar á ferð með stóðhross mörg, og buðu þeir mér að setjast á bak einum þessara gæðinga, berbökuðum og með snærisspotta í munni í stað beizlis. En er á bak var komið, hljóp ótemjan með mig niður allan veg og staðnæmdist ekki fyrri en í hinni svonefndu Skítmýri fyrir austan Litla-Hraun. Að vísu átti einhver brúarnefna að vera yfir díki þetta, en hún var nú flotin af vegna stórfelldra rigninga, er gengið höfðu þá um hríð. Þarna sat nú reiðskjótinn fastur í feninu, yfirkominn af mæði eftir allan sprettinn, á að gizka 8 rasta veg án nokkurrar hvíldar, en ég hrökk af baki hans út í ófæruna og mátti þakka mínum sæla, að ég ekki hlaut slys af. Reiðskjótinn varð að bíða þess, að piltarnir þrír, sem nú voru orðnir langt á eftir, kæmu til að draga hann upp úr díkinu. Vitanlega þorði ég ekki að stíga á bak aftur þvílíkri óhemju.
Þegar við skildum við bílstjórann að Kotströnd, var svo um talað, að hann kæmi austur að Ölfusárbrú næsta föstudag, 25. sama mánaðar, og að við skyldum öll vera mætt þar þann dag kl. 11 fyrir hádegi.
Ég fór akandi á hestvagni neðan að kl. 9, og var Júníus, bróðir minn, með mér til þess að fara með hestinn heim aftur.
Þau frú Einarsson og hr. Nilsson komu um líkt leyti flengríðandi sitt á hvorum gæðingi sýslumannsins í Kaldaðarnesi austur að Selfossi, og stóð því ekki á neinu okkar að stíga í bílinn, þegar hann kæmi. En á því varð nokkur bið, og skal nú sagt nokkuð frá því.
Þegar okkur var fyrir löngu farið að leiðast eftir að bíða þess, að bíllinn kæmi, og enginn hafði orðið hans var, þótt klukkan væri orðin eitt, hringdi ég í síma til Reykjavíkur og spurðist fyrir um það, hvort bíllinn væri lagður af stað eða hvað menn vissu til ferða hans, – um annan bíl var þá ekki að ræða í öllum bænum, því að hinn bíllinn var þá ekki enn kominn til landsins. Svarið, sem ég fékk, var á þessa leið:
„Bíllinn var kominn upp í Bakarabrekkuna, en þar bilaði hann, og stendur hann þar enn!“
Klukkan þrjú hringdi ég aftur og spurði hins sama. Var svarið þá þetta:
„Þeir komu bílnum að vísu af stað, en nú er hann bilaður aftur og stendur hreyfingarlaus inn á Barónsstíg!“
Enn hringdi ég kl. 5, og þá var sagt, að bíllinn væri farinn austur. Nú vonuðumst við eftir honum á hverri stundu, en kl. 7 og kl. 9 um kvöldið, þegar ég hringdi síðast, vissi enginn um ferðir hans, og nú var síminn lokaður daginn þann.
Við settumst því öll ásamt fleira fólki út að öllum gluggum á Tryggvaskála til þess að líta eftir, hvort við sæjum ekki bílinn koma yfir brúna. Við vissum, að hann hafði engin ljós, því að þau voru víst ekki komin í notkun þá. En þótt við vissum einnig, að ferð bílsins var farin til þess eins að sækja okkur, var forvitnin og eftirþreyjan orðin svo mikil, að við vildum sjá hann, þegar hann renndi sér yfir brúna, og ætluðum að taka mannlega á móti og ekki láta á okkur standa að stíga upp í hann til þess að komast eitthvað áleiðis, að minnsta kosti suður á Kolviðarhól, því að þótt veðrið væri nú drungalegt mjög, suddarigning og landsynnings-gola, var enn svo bjart af degi, – rúmum mánuði eftir sólstöður, – að vel mátti aka ljóslaust um veginn.
,,Hana nú! Þarna kemur bíllinn!“ hrópuðu allir í einu hljóði, og þaut hver fram fyrir annan til þess að komast út. En á leiðinni út úr húsinu, féll kona ein á gólfið og lá þar kylliflöt, meðan aðrir ruddust út, og lá við, að þeir meiddu hana.
Er út kom, urðu allir forviða. Bíllinn hélt áfram og þaut austur veg! Vitanlega hafði það engan árangur, þótt við hrópuðum á eftir honum. Hann hélt sínu striki og hvarf út í þokusúldina og goluna.
En við? Hvað varð um okkur? Við urðum orðlaus af gremju og fórum inn aftur til þess að ráða þá torskildu gátu, hvers vegna bílstjórinn hefði ekki staldrað svo mikið að tala við okkur, og var nú margs til getið.
,,Hann fer austur í Rangárvallasýslu, skýzt svo fram hjá okkur í nótt og fer til Reykjavíkur, lætur okkur svo dúsa hér í einn eða tvo daga án þess að virða okkur viðtals. Hann, sem beinlínis átti að sækja okkur! Tarna er ljóti maðurinn!“
Fyrirbænir okkar fyrir bílstjóranum og orðbragðið um hann þarf ég ekki að endurtaka hér, enda er það, sem betur fer, gleymt.
Var nú setzt á ráðstefnu um, hvað gera skyldi um nóttina.
Sjálfsagt þótti að vaka að minnsta kosti til miðnættis, en ég fyrir mitt leyti hét því við háls minn og höfuð, að ég skyldi vaka alla nóttina og það meira að segja úti á veginum! Ég safnaði því öllum hestvögnum, hjólbörum, tunnum og kössum, sem finnanlegir voru við Tryggvaskála, og raðaði þeim öllum á veginn við brúarendann. Var þetta vitanlega frekar af gremju gert en skynsemi. Og svo byrjaði vakan.
Samferðamenn mínir vöktu til kl. 1 um nóttina, en Einar frá Miðdal til kl. 5, og var ég eftir það, einn á vaktinni, sannkallaðri „hundavakt“! Gekk ég alla nóttina fram og aftur eftir veginum. Fékk mér lánaða skósíða regnkápu, sjóhatt á höfuðið og svellþykka, þaulróna sjóvettlinga á hendurnar og vænan trefil um hálsinn og lét þannig fyrirberast, eins og áður er sagt, úti á veginum alla nóttina. Mér finnst enn í dag, að mig svíði í augun af því að rýna út í goluna og regnsúldina, og mér hefur sjaldan verið sárari hefnd íhuga til neins manns heldur en Jóns Sigmundssonar þessa löngu og ömurlegu nótt. Var ég búinn að semja heillanga skammarræðu, er halda skyldi yfir honum, ef hann gerðist svo djarfur að láta mig sjá sig oftar, en vitanlega var ég þó alltaf að bíða eftir honum!
Kl. 8 1/2 um morguninn var síminn opnaður aftur. Var það þá mitt fyrsta verk að hringja austur að Þjórsárbrú og spyrja: ,,Hafið þið ekki orðið vör við bílinn þarna hjá ykkur í gærkvöldi eða í nótt?“
„Jú, hann kom hérna í gærkvöldi um kl. 10 til 11 og sneri þegar við aftur áleiðis suður!“
,,Hvað var hann að fara? Var nokkur farþegi með honum?“ ,,.Já, hann var að flytja hingað gamla konu, sem ætlaði austur á Rangárvelli. Hann vildi ekki fara lengra með hana, svo að hún var hér í nótt“.
,,Já, hann stendur hérna úti á veginum norður undan Dælaréttum. Hann hefur staðið þar, síðan til sást í morgun, og hefur víst bilað. Það hlýtur að vera eitthvað að honum“.
,,Ó já“, sagði ég, ,,það er ekki ótrúlegt, að eitthvað sé að honum, að minnsta kosti eitthvað að bílstjóranum!“
„Nú! – Haldið þér, að hann hafi verið lasinn? Hann var frískur hérna í gærkvöldi og ófullur að sjá! Ætli við ættum að fara vestur eftir og aðgæta það?“
„Það væri sjálfsagt gott, en lasleika bílstjórans sjálfs þarf ekki að athuga, því ég veit, að hann er útúr-augafullur – af svikum“ Svo hringdi ég af, en sá, er við mig talaði, skildi hvorki upp né niður í neinu, og lét ég það svo vera.
Hálfum klukkutíma síðar eða kl. 9 hringdi ég og spurði: ,,Er bíllinn enn á sama stað?“
,,Nei, nú er hann farinn vestur úr!“ var svarið.
Og svo kom kauði kl. hálftíu. Engin orð! Allir í bílinn og umsvifalaust lagt af stað suður!
En þegar kom á hæðina næst brúnni að norðanverðu, stanzar bíllinn! :Ég spyr: ,,Hvað er að?“
,,Vantar benzín!“ sagði bílstjórinn rólega, en angurvær á svip. ,,Komumst við þá ekki lengra?“
,,Jú, við getum kannske komizt upp í miðja Kamba!“ Og nú sannaðist, að „sætt er sameiginlegt skipbrot“, sem og hitt, að „fögur er sjóhröktum fold“, því nú rann mér að minnsta kosti öll reiði. Ég aumkaðist yfir aumingjaskap bílstjórans, leit til hans og spurði:
,,Hvaða leið sjáið þér til þess, að við komumst heim í dag?“ ,,Þá“, sagði hann, ,,að fara niður á símastöðina á Tryggvaskála, hringja suður í Iðnó og biðja Hjört Fjeldsted að koma á báðum hestum sínum á móti okkur með benzín. Hann er nefnilega í Iðnó núna í matmálstíma, og ef í hann næst og þessu er skilað til hans frá mér, er ég viss um, að hann kemur með 4-5 potta af benzíni á móti okkur“.
Ég þaut niður á stöðina, næ í Hjört og skilaði orðsendingu bílstjórans. Hjörtur lofaði að koma þegar í stað og flýta sér, sem mest hann mætti.
Lögðum við síðan af stað í hægðum okkar, því nú ,lá ekkert á, komum við á Kotströnd og fengum mat, en svo var enn þykkt í okkur, að við kröfðumst þess, að bílstjórinn fengi mat í öðru herbergi, svo fjarri okkur, að við sæjum hann ekki, á meðan við gerðum okkur gott af matnum, annars mundum við missa alla matarlyst!
En „Í þörf er þræll þekkur“. Við komumst ekkert án þessa manns og urðum, nauðug viljug, að sætta okkur við hans dýrmætu hjálp. Var svo enn lagt af stað og hugsað um þetta tvennt:
Að komast upp í miðja Kamba og bíða svo rólega komu Hjartar Fjeldsted með: benzínbrúsann!
Þá er að Kömbum kom, stakk ég upp á því, að við farþegarnir færum úr bílnum og gengjum upp Kamba. Féllst bílstjórinn á þá uppástungu og sagði það þjóðráð vera.
Við lötruðum upp Kamba, og bíllinn dróst einnig með. Og er upp var komið, vék bílstjórinn sér að okkur og sagði með gleðibrosi á vörum:
„Þetta var ágætt! Nú kemst ég yfir fjallið, þótt benzínið sé að mestu þrotið, því að nú er nóg að hafa það í dropatali, þar eð veginum hallar og engar brekkur upp að fara!“
Þetta reyndist rétt. Þegar við komum vestur úr Hveradölum, þar sem Lágaskarðsvegurinn gamli liggur til suðurs og Hellisheiðarvegurinn, sem við vorum á, beygist norður til Kolviðarhóls, sjáum við mann á veginum með tvo hesta standa þar og bíða okkar með benzínbrúsann margþráða milli fóta sér, og var það Hjörtur Fjeldsted!
Kann ég svo ekki þessa sögu lengri.