47-Skemmtanir

Þótt skemmtanir væri eigi „daglegt brauð“ Bakkamanna eða „Flóafíflanna“, var það eigi á þeim að sjá eða heyra, að þeir liðu tilfinnanlega vegna slíks skemmtanaleysis. Þeir höfðu aðrar og betri skemmtanir, – og þær daglega, – en dans og önnur fíflalæti, sem nú má segja, að sé ekki einungis daglegt brauð fjölda hinna yngri manna, heldur og, eins og Danskurinn mundi segja: ,,Livets Element!“

Skemmtanir þessar voru vinnan og daglegu störfin, sjósóknin við sjávarsíðuna og ferðalögin í sveitunum, að fara á fjall, ,,ríða út“ á sunnudögum og renna sér á skautum á kvöldin. Leikritasýningar voru við og við, eins og áður hefur verið vikið að, samsöngvar og samræðufundir hér og þar, en þó eigi að neinu ráði fyrr en eftir 1880.

Á Stokkseyri var það svo, eftir að barnaskólinn tók þar til starfa, að Bjarni Pálsson í Götu safnaði að sér ungum mönnum og hafði samræður við þá um ýmiss konar efni og einkum bindindi, en aldrei nokkru sinni um stjórnmál eða flokkadrætti. Hann æfði þá í söng, lét þá hafa leiklist með höndum og samdi eigi svo fá leikrit sjálfur í því skyni, er þóttu bæði gagnleg og skemmtandi. Starfsemi þessi mætti góðum skilningi Eyrbekkinga, og þar var það einkum frú Eugenia Nielsen, sem var hrókur alls fagnaðar og studdi Bjarna og aðra unga menn með ráðum og dáð í því að gjöra skemmtanir þessar sem bezt úr garði, halda þeim við og örva menn til þátttöku. Þess vegna var eigi að undra, að bindindishreyfingin austur þar væri hin fyrsta í þá átt hér á landi og henni tekið með almennum fögnuði.

Síðan þetta var, hefur margt breytzt. Útvarpið segir frá því daglega, að nú sé íþrótta-ungmennamót, afmælisfagnaður, messugjörð með dansi á eftir austur í Fljótshlíð, undir Eyjafjöllum, suður í Grindavík eða Stafnesi, á Þingvöllum eða vestur á Snæfellsnesi. Hvar sem þessi „gæði“ er að finna, hvort heldur er um helgar eða aðra daga, er húsfyllir þar á hverju kvöldi af fólki héðan úr Reykjavík, – og skemmtanirnar þar þó á ótal stöðum, því alls staðar er það að finna, sem flestir sækjast mest eftir: ,,dans á eftir!“ – og drykkjuskapurinn víðast hvar óhóflegur.

Þetta er einkenni 20. aldarinnar. En hvað er um vinnuna? Hún er orðin sannkallað neyðarbrauð fyrir flesta, jafnvel hina eldri sem hina yngri. Heimtufrekjan að njóta alls sjálfur, en láta aðra hafa fyrir því að kosta það og láta það í té.

Er þetta satt? Er það ekki svartsýni afturhalds og einstrengingsháttar aldraðs manns, sem ekki skilur framfarir hins nýja tíma?

Það getur verið. En lítum á vinnubrögð manna, hlustum á útvarpið, lesum blöðin, fylgjumst með hátterni barnanna, unglinganna, hinnar „vinnandi stéttar“, embættismannanna, nefndanna og Alþingis! Sé þetta og ýmislegt annað athugað án allrar hlutdrægni og með nokkurri dómgreind, mætti sjá þess nokkurn vott, hvernig ástandið er. Það er frá mínum bæjardyrum séð líkt því, sem Jón gamli sagði:

,,Þetta er sjálfsagt gott, en ekki líkar mér það!“

Sannleikurinn er sagður góður, og hann er það. Íþróttirnar einnig, frelsið og önnur gæði þessa heims. Með öðrum orðum:

Gæði lífsins eru mikil, geta verið það og eiga að vera til þess að hefja menn á æðra stig fullkomnunar og þroska í hinu góða. En gæði þessi má misnota, og þau eru því miður oft misnotuð. Hin íslenzka þjóð er á gelgjuskeiði. Hún kann ekki að nota sér þessi framfaragæði og því fara þau út í öfgar. Hana vantar gott og hollt uppeldi. Heimiliskennslan er undir lok liðin, en skólarnir teknir við. Bæta þeir úr öllu þessu? Eða blöðin og flokkarnir? Kunnáttuna, tæknina, umbótaviðleitnina á mörgum sviðum vantar ekki. En hvað er það þá, sem að er? Gelgjuskeiðið, lausungin, alvöruleysið og óheilindin!

„Þetta eru nú sleggjudómar!“ heyri ég, að sagt er og að þá er spurt: ,,Var þetta ekki svona og þessu líkt áður fyrrum og á þeim stöðum, sem þú ert að tala um, þarna eystra?“ Nei! Menn höfðu þá eigi í svo mörgu að vasast þá sem nú. Þeir þekktu ekki öll þessi „gæði“ þá, og þó leið þeim ekki verr, heldur betur en mörgum nú. ,,Ættu menn þá að hverfa til fortíðarinnar aftur?“

Nei, en þeir gætu notað nútímaþægindin betur, skemmt sér hóflegar, látið meira gott af sér leiða, lagt flokkadrættina niður og lifað eins og mönnum sæmir!

Skemmtiferðir á hestum og skautum

Um flestar helgar var farið í hina svonefndu „útreiðartúra“, ýmist austur að Loftsstaðahóli, Skiphólum eða upp á Kaldaðarnesbakka.

Þátttakendur í ferðalögum þessum voru verzlunarstjórarnir, konur þeirra og börn, svo og verzlunarþjónarnir, skipstjórar, stýrimenn og hásetar af dönsku skipunum, er í höfninni lágu, og loks margt ungra kvenna og karla. Var það oft álitlegur hópur manna. og gæðingshesta, sem sjá mátti þeysa um hina fögru velli fram og aftur á sólbjörtum sumardegi, unz komið var á hinn ákveðna áningarstað, þar sem góður hagi var fyrir hestana og rennislétt valllendisflöt eða víðsýnishóll, t. d. Kögunarhóll, var fyrir, til þess að hvílast, fá sér ljúffengan málsverð og hressandi drykk. Að því loknu hófu menn raustir sínar og „tóku undir“ hver með öðrum og héldu síðan heim á leið eftir 2 til 3 klukkustunda viðstöðu eða lengri, ef veður var gott.

Stokkseyrarkirkja var á miðri austurleið, og gekk reiðmannahópurinn oftast til kirkju, áður en lengra væri haldið.

Á vetrum voru skautaferðir tíðar mjög. Átti þá jafnvel hver krakkinn tréskauta sína, smíðaða og vel sorfna eftir Hallgrím Jóhannesson eða Jóhannes Árnason á Stéttum, er báðir voru ágætir og alkunnir smiðir austur þar.

Naumast var hægt að stíga svo fæti út fyrir hússins dyr, að þar væri eigi einhver tjörnin, áin, lækurinn eða stöðuvatnið til þess að renna sér á.

Svo víðáttumikið flæmi var þar, að menn gátu rennt sér alla leið vestan frá Hrauni í Ölfusi austur undir Jökulsá á Sólheimasandi, án þess að nokkuru sinni þyrfti að leysa af sér skautana, alla þá löngu leið. Á hinn bóginn var svo öll Breiðamýri ísi þakin upp undir Ingólfsfjall og Ása (Hróarsholt og Önundarholt).

Skíði þekktust naumast þarna eystra á þessum tímum, enda hvergi skíðafæri nær að finna en vestur á Reykjanesfjallgarði, á Heiðinni há og austan Kvennagönguhóla.

Skautamenn voru margir ágætir, sem komu saman á tjörnunum í kring, Steinskotshópi, Litla-Hraunsvatni og Löngudæl. Væri færið gott, voru langar leiðir allar farnar á skautum, jafnvel þótt um meir en dagleið væri að ræða.

Leave a Reply