Á Eyrarbakka voru húslestrar um hönd hafðir á helgum dögum og virkum allan ársins hring nema að sumrinu til, en þó á helgidögum öllum. Kirkjusókn var þar svo góð, að allir þeir, er eigi höfðu nauðsynlegum störfum að gegna, gengu til kirkju eða fóru ríðandi austur að Stokkseyri fram að árinu 1891, því Eyrarbakkakirkja var ekki reist fyrr en árið 1890 og vígð hinn 14. desember sama ár. Eyrbekkingar sýndu mikinn áhuga fyrir því máli með hinn ágæta prest sinn, séra Jón Björnsson, í broddi fylkingar og voru ósparir á fé. Orgelið í kirkjuna var fengið fyrir atbeina forstjóra verzlunarinnar, og eigandi hennar, Andreas Lefolii, gaf þangað stundaklukku, sem upp var sett í turni kirkjunnar.
Söngfélag kirkjunnar var gott og öflugt og studdi mjög að góðum nýjungum á sínu sviði. Meðal annars varð: það tveim árum fyrra til en nokkurt annað kirkjufélag landsins, meira að segja langt á undan kirkjusöfnuðinum í Reykjavík, að læra og æfa hverja einustu nótu í hátíðasöngvum séra Bjarna Þorsteinssonar, enda studdi hinn nýi ágætisprestur, séra Ólafur Helgason, mjög að því.
Í kirkjunni á Stokkseyri og Eyrarbakka voru kvöldsöngvar haldnir á jólum og um áramót. Var þá tónuð hin svonefnda „skólabæn“, ný sálmalög sungin og voru kvöldsöngvar þessir hinir hátíðlegustu.
Þjóðhátíðardaginn, 2. ágúst 1874, var hátíðleg guðsþjónusta haldin í Stokkseyrarkirkju. Séra Gísli Thorarensen var fyrir altari og flutti hátíðaræðu sína, skörulega mjög. Hann andaðist snögglega á Stokkseyri hinn 25. desember sama ár, og hef ég ritað um þann atburð á öðrum stað. [note]Jóladagurinn 1874[/note]
Hinn 11. nóvember 1883 var hátíðleg minningarguðsþjónusta haldin í Stokkseyrarkirkju í tilefni af því, að þá voru 400 ár liðin frá fæðingu Martin Luthers (f. 10. nóv. 1483). Þegar Eyrarbakkakirkja var vígð, 14. desember 1890, eins og áður segir, fór fram óvenjulega mikil vígsluhátíð, og aldamótanóttina, 31. desember 1900, var mikil og hátíðleg kirkjuathöfn framkvæmd í Eyrarbakkakirkju. Síðasta stund þeirrar aldar, kl. 11 til 12, mun aldrei fyrnast þeim, er þá voru staddir þar eystra, svo björt, fögur og hátíðleg var hún, þótt rétt áður geisaði ofviðri hið mesta og steypiregn.
Vígsla kirkjugarðsins á Eyrarbakka fór fram með mikilli viðhöfn hinn 17. nóvember 1894, og hét sá Jón Jónsson (sterki), er þar var grafinn fyrstur manna.
Það var hvort tveggja, að prestar Stokkseyrarprestakalls voru hinir ágætustu kennimenn hver eftir annan, sem og hitt, að söfnuðir þeirra sóttu kirkju sína vel. Þeir húsvitjuðu hvert heimili í sóknum sínum og nutu almennrar vináttu og virðingar sóknarbarna sinna. Þeir höfðu yfirumsjón með fræðslu og skólakennslu í barnaskólunum og ræktu þau sem önnur störf sín með prýði.