34-Sýnishorn af tveim pöntunarseðlum

„Bevis“, séra Eggerts Sigfússonar til Eyrarbakkaverzlunar

1.

Hérmeð umbiðst:

1 ° . . . . . . Niðurhöggvinn melis í þetta sívala blikkílát. En ef hann er ekki til, þá umbiðst höggvið með öxinni: hvítasykur í þetta ílát. (Hann lét oft öxi fylgja með utan úr Selvogi!)

2° . . . . . . Tvö pund af neftóbaki og eitt pund af munntóbaki (Skraa).

3° . . . . . . Eldspýtur í þennan tréstokk með dragloki.

4° . . . . . . Kringlur í skjóðuna.

Athugasemd:

Ég fékk melis í haust úr Hafnarfirði á 29 aura pundið. Simplari og óhrjálegri melis fyrirfinnst ekki undir sólinni. Tveir molar fylgja hérmeð til sýnis í dálítilli dós. Ég treysti því, að þessi fjandi fyrirfinnist ekki í Lefoliiverzlun. Dósin umbiðst fyllt með púðursykur. Hún tekur kannske allt að því 1 pd. En bölvuðum molunum umbiðst fleygt fjandans til. Kandís-sykur nota ég aldrei. E. S.

2.

Umbiðst:

1 ° . . . . . . Eitt pund af reyktóbaki.

2 ° . . . . . . Eitt pund af neftóbaki ( = Ról).

3 ° . . . . . . Kvart pund ( = ¼) af munntóbaki.

4° . . . . . . Kringlur í þessa skjóðu.

5° . . . . . . Melis í sívala kassann, niðurhöggvinn. En ef niður höggvinn hvítasykur er ekki til, þá umbiðst sá, sem lætur í ílát þetta, að höggva sykurinn með öxinni, þannig að sem mest komist í hann.

6° . . . . . . Vínarbrauð í ferkantaða kassann. En ef það er ekki til núna, þá: tvíbökur, og umbiðst þá kassinn hristur, svo að sem mest komist í hann.

Biscuits vil ég alls ekki. En vínarbrauð er það bezta brauð, sem fyrirfinnst í veröldu.

Romm á þennan 4 pt. kút. Þess skal getið, að ég 12. desember fékk romm á þennan kút, en það var svo dauft, að það var alls ekki brúkandi. Maðurinn, sem ég sendi núna, getur borið um það. Ó …. í Þ …. fór þá fyrir mig. Ég ætlaði að hafa gott toddy um jólin, en það fór á annan veg. Ég skil ekki neitt í þessu!!

Leave a Reply