29-Formáli (3. bindi)

Eftir alllanga hvíld leggja „Austantórur“ enn land undir fót og heilsa gömlum kunningjum, sem á leið þeirra verða. Þær hafa enn margt að flytja til fróðleiks og skemmtunar, engu síður en fyrr. Það er alkunna, að höfundurinn var alvörumaður gagnvart þeim viðfangsefnum, sem lífið fékk honum til meðferðar. En hitt vissu og margir, að hann var undir niðri „húmoristi“ og hafði glöggt auga fyrir gamni og kýmni. Þetta kemur víða fram í ritum hans, en kannske hvergi betur en í hinni bráðfyndnu frásögn hans um „Orgelið í Strandarkirkju“. Í líkum anda eru og frásagnir hans „Fyrsta bílferð mín austur yfir fjallið“ og „Kennslustundin“, en allar þessar greinar eru hér í heftinu. Höfundurinn lagði mikla rækt við minningu góðvinar síns, séra, Eggerts á Vogsósum, og safnaði um hann ýmsum fróðleik og fjölda gamansagna, er lýsa vel hinum einkennilega manni og klerki. Birtist hér nú í heild allt, sem höfundurinn safnaði af því tagi. Annars er í hefti þessu margt af þjóðlegum fróðleik og lýsingar á ýmsum, þjóðarháttum sunnanlands bæði austan fjalls og vestan til lands og sjávar um daga höfundar.

Í ráði er, að gefið verði enn út af „Austantórum“ álíka mikið og það, sem þegar er komið, og er ákveðið að hraða því verki, unz lokið er.

Haraldur Hannesson hagfræðingur hefur verið önnur hönd mín og meira þó við undirbúning og útgáfu þessa heftis og meðal annars tekið saman nafnaskrána. Kann ég honum alúðarþakkir fyrir hans miklu hjálp.

Leave a Reply

Close Menu