Þegar komið er austan úr Austursýslunum, Skaftafellsog Rangárvallasýslum eða farið austur þangað, liggja leiðirnar yfir Þjórsá á ýmsum stöðum, ýmist á löggiltum ferjustöðum eða á vöðum, sem að vísu voru fá og torveld mjög yfirferðar. Leiðirnar lágu þá vestur yfir Hreppana, aðallega Gnúpverjahrepp, yfir Skeiðin, niður í Flóann og yfir hann, og síðan, ef lengra var farið, vestur yfir fjallið á ýmsum stöðum.
Vil ég nú lýsa því, hvar leiðir þessar lágu, .og byrja þá efst við Þjórsá í byggð.
l. Gaukshöfðavað var við Gaukshöfða, sem er á milli Ásólfsstaða og Haga.
2. Hagavað, hjá Haga í Gnúpverjahreppi. Bæði voru vöð þessi góð í botninn.
3.Hrosshylur hjá Þjórsárholti.
4. Nautavað þar nokkru neðar og í raun og veru neðsta vaðið á Þjórsá. [note]Vað var og til fyrir ofan Búða- og Eyjavað niður undan Þrándarholti, sjaldan farið. Er þá farið um Árnes, upp á Þrándarholtsbakka eða Murneyrar. [/note]
Árið 1891, hinn 22. september, reið ég vað þetta á leið minni austan frá Skarði í Landsveit vestur í Hrepparéttir og Tungna. Árni Jónsson í Látalæti, faðir Guðmundar í Múla, var leiðsögumaður minn yfir vaðið; það var eigi dýpra en svo, að vatnið náði hestinum, sem ég reið, á miðjar síður, en svo staksteinótt var það, að hesturinn rak oft höfuðið niður í vatnið, og blóðrisa var hann á fótum, er upp úr ánni kom.
Á Hrosshyli hjá Þjórsárholti var ferjustaður.
Væri farið yfir Þjórsá þessar leiðir, var eiginlega ekki nema um eina leið að fara: niður Gnúpverjahreppinn meðfram ánni, framhjá Þrándarholti og niður á Murneyri, yfir Húsatóftaholt, niður hjá Votumýri, Hlemmiskeiði, Skeiðaháholti, Kílhrauni og Brjámsstöðum yfir Merkurhraun, en þar gátu skipzt leiðir: Önnur var sú að fara frá holtinu, sem liggur að Merkurhrauni sunnan frá Kampholti og Hnausi, og þaðan vestur hjá Bitru, Skeggjastöðum, norðan Sölvholts, vestur að Laugardælum og ferjustaðmun þar, en hin leiðin var sú, að fara austan með áðurnefndu holti, niður hjá Kampholti og Hnausi, unz komið var á Ásaveginn hjá Skotmannshóli, og þaðan í Orrustudal og á Harðavöll.
5. Krókur. Þar var ferjustaður, og þangað lá leiðin ofan af Landi, efrihluta Holtanna og Rangárvalla, svo niður með Þjórsá að vestan, að Skiphóli og Þjótanda og síðan yfir Kampholtsmýri, eitt hið illræmdasta forarfen yfir að fara, að Skotmannshóli niður Ásaveg.
Áningarstaðir á leið þessari voru: Kampholtsmýri, Harðivöllur, Rútsstaðarimar og Hólavöllur. Er víðast stutt leið milli staða þessara og góður hagi nema á Harðavelli, en þar er tjaldstaður ágætur og tært lindarvatn.
Það var á leið þessari, frá Skotmannshóli niður í Orrustudal, sem er með háum moldarbökkum að sunnanverðu og krókótt mjög, að Gestur gamli á Hæli mætti Lárusi E. Sveinbjörnson, er var að koma úr þingaferðum ofan úr Hreppum, en Gestur með skyrhattinn í hendinni og fyrir framan sig á hnakkkúlunni og lét hattinn á höfuð sér, svo að eigi þyrfti hann að ríða berhöfðaður fram hjá sýslumanninum! (Sbr. það, sem ég hef skrifað um Gest gamla á Hæli).
Úr Orrustudali, um Harðavöll og Múlann liggur leiðin niður fyrir vestan Sviðugarða, Seljatungu og Gegnishólahverfi að Arnarhólsvaði, niður Hólavöll, yfir Baugsstaðaá út á Bakkann. Súluholtsmúli (,,Múlinn“) er holtið milli Súluholtshverfis og Önundarholts hjá Harðavelli. Ásavegurinn var fjölfarinn mjög, allgóður víðast hvar að undanskilinni Kampholtsmýri. Veg þennan fóru auk þeirra, er áður getur, menn þeir, er fóru yfir ána í Þjórsárholti (Hrosshyl), svo og þeir, er fóru með fjárrekstra sína úr Skaftholtsréttum og síðar Reykjaréttum á haustum og lambarekstra á vorum, er reknir voru til fjalls eftir fráfærurnar, og loks fjöldi gangandi manna, er fóru til sjóróðra á Bakkann, í Þorlákshöfn og Grindavík og þaðan aftur með skreiðarlestir sínar um lokin eða Jónsmessuleytið. Lestaferðirnar fóru því fram og aftur þessa leið nætur sem daga allan ársins hring milli uppsveitanna og Bakkans.
6. Egilsstaðir í Villingaholtshreppi. Þar var stundum ferjað yfir Þjórsá, þótt eigi væri þar löggiltur ferjustaður, og þá helzt með gangandi menn.
7. Sandhólaferja var einn hinn fjölfarnasti ferjustaður. Þar er svo grunnt á eyrum beggja vegna, að bera varð farangur allan út í ferjubátana eða skipin, svo að þau flyti, enda voru þar ávallt hinir daglegustu ferjumenn, sem oft komust í hann krappan við að ferja langar lestir, fjölda fjár og ríðandi menn.
8. Ferjunes er nokkru neðar með ánni og var oft ferjað þar yfir hana.
92. Selpartur er neðsti ferjustaðurinn, og var hann fjölfarinn mjög. Það var nefnt að fara yfir Þjórsá „í Pörtunum“.
Leiðir manna og lesta frá öllum þessum stöðum lágu niður með ánni, niður í Partana, hjá Fljótshólum og Ragnheiðarstöðum, vestur hjá Loftsstöðum og út á Loftsstaðaklöpp, sunnan Tungu, þaðan hjá Baugsstöðum og yfir vaðið á Baugsstaðaá og síðan eftir alfaraveginum út með sjónum til Stokkseyrar og Eyrarbakka. Eru það beinharðir valllendisbakkar, sem vegur þessi liggur um, spölkorn fyrir ofan sjávarbakkann, en hversu mikil umferðin hefur verið um þessar slóðir, má sjá af því, að telja má yfir eitt hundrað götur hverja við annarrar hlið og margar þeirra svo gamlar og grasi grónar, að þær sjást nú naumast. Þar hefur því margur maðurinn sprett úr spori á góðhesti sínum, mörg lestin, stór og smá með þyngslaklyfjar farið fram og aftur til kaupstaðarins og verstöðvanna og þaðan aftur.
Frá Stokkseyri og vestur að Gamla-Hrauni sáust lestirnar oft þokast vestur með sjónum á vorlestunum, þegar maður að morgni dags leit þangað frá Syðra-Seli. Mátti þá segja, að „aldrei slitnaði lestin“ svo, að einum hesti væri hægt að koma fyrir á milli þeirra, svo þéttar voru þær, og voru 5-7 hestar í lest hverri, auk lestamannsins, sem á undan reið, og teymdi hver sína lest. Að haustinu til mátti einnig oft sjá margar og langar lestir fara þessa leið, og voru þó oftast einn eða tveir hestar aftast í lestinni, berbakaðir, það voru „húðarklárarnir“ eða hestar þeir, er ætlaðir voru til slátrunar, en Stokkseyringar létu sleppa úr greipum sér og fengu eigi keypta, enda margir þessara hesta fyrirfram ætlaðir „viðskiptamönnum“ austanmanna á Bakkanum og því engum öðrum falir, hvað sem í boði var.
*
Þá er að geta ferjustaðanna og leiðanna í efri hluta Árnessýslu til „Suðurkaupstaðanna“, eins og Einar heitinn Loftsson í Útgörðum nefndi þá, og leiðanna austur þaðan aftur.
Einar þessi var fátækur maður mjög, en montinn vel. Eru hér þrjár smásögur um hann:
Einhverju sinni fór Einar út á Eyrarbakka og teymdi hinn eina færleik, sem hann átti, með einhverjum baggaskjöttum á. Mætir honum þá maður nokkur og segir við hann: ,,Hún er ekki löng núna hjá þér lestin þín, Einar minn“. ,,Ónei“, sagði Einar, ,,ég hramsaði ekki nema þessa einu bikkju úr öllu stóðinu mínu í morgun!“
Öðru sinni var talað um mismunandi verðlag á innlendri og erlendri vöru á Bakkanum og það borið saman við verðlagið í Hafnarfirði, sem þá var helzti viðskiptastaður manna austan Hellisheiðar. Sagði þá Einar: ,,Mér kemur ekki til hugar að verzla við þá hér eystra. Ég fer með allar mínar land- og sjávarvörur til Suðurkaupstaðanna“.
Loks var það á vetrarvertíð einni, að Einar var formaður og hlutir manna lágir. Dag einn vildi þó svo til, að Einar fékk 6 í hlut, en enginn var þó hærri. Sveitamaður einn hittir þá Einar og spyr: ,,Hver var nú hæstur hér í dag?“
„Maðurinn, sem við þig talar!“ svaraði Einar, ,,en það er nú engin nýjung!“
1. Kópsvatnseyrar eru sá staðurinn efst í Hvítá, sem mér er kunnugt um, að notaður hafi verið sem vað á ánni. Er það djúpt og breitt, og því var það sjaldan farið, og þá aðeins vestur í Tungurnar eða ef fara þurfti niður í Flóann. Var þá farið suður hjá Kópsvatni og sem leið lá niður Álfaskeið og Langholtsfjall og síðan yfir Stóru-Laxá hjá Birtingaholti eða á Sóleyjarbakkavaði og þaðan fyrir vestan Sandlæk, niður á Húsatóftaholt og eftir því, sem leið lá niður eftir.
2. Auðsholt í Biskupstungum er austan Hvítár og Laugaráss. Var það stutt leið og ferjað yfir, einkum gangandi menn.
3. Iða er sunnan Hvítár og gagnvart Skálholti. Er þar löggiltur ferjustaður, fjölfarinn áður fyrrum, en nú miklu sjaldnar. Var það nefnt að fara yfir Hvítá á Iðuhamri, og er þar nú á síðari árum komin dragferja eða kláfur. Áin er ekki breið hjá Iðuhamri, en afar ströng og ber nafn með rentu, að vera nefnd Iða.
4. Bótin er austan undir Hestsfjalli sunnarlega.
5. Árhraun er sunnan undir Hestsfjalli.
6. Kiðjaberg nokkru vestar, þá
7. Arnarbæli í Grímsnesi 0g
8. Oddgeirshólar þar suður af, sunnan árinnar, en
9. Öndverðarnes niður undan Snæfoksstöðum og loks
10. Ármót, áður en komið er að Soginu, sem rennur úr Þingvallavatni niður í ána austur undan Laugarbökkum, enda skiptir áin þá um nafn og nefnist Ölfusá upp frá því, unz hún rennur í sjó fram fyrir vestan Óseyrarnes.
Yfir ána var farið á öllum þessum stöðum án þess, að þeir væri löggiltir ferjustaðir, nema e. t. v. hjá Kiðjabergi og Öndverðarnesi, en þó eigi fyrr en síðar (1880-1890 og eftir það).
Það voru Biskupstungnamenn og Grímsnesingar, einkum þeir, er byggðu neðri hluta sveita þessara, sem fóru yfir Hvítá á smáferjustöðum þessum niður í Flóann eða á Bakkann, Þorlákshöfn og Selvog, og lá þá leið þeirra ýmist niður á Ásaveg og þaðan niður eftir að Baugsstöðum (þeir, sem austast bjuggu, t. d. Tungnamenn), eða þá niður yfir Flóann nokkru vestar, og urðu þeir þá að fara yfir Breiðumýri, illa mjög yfirferðar, því að hún var eins og þétt riðið net með forarkeldum og keldudrögum, fúnum mjög og öllum óbrúuðum.
11. Laugardælir voru efsti löggilti ferjustaðurinn yfir Ölfusá. Leið þessa fóru einkum þeir, er bjuggu ofarlega í Flóanum eða komu austan yfir Þjórsá hjá Króki eða ofar, og er yfir ána kom hjá Laugardælum, fóru þeir meðfram Ingólfsfjalli að sunnanverðu og vestan, að Hvammi í Ölfusi og þaðan, út í Kamba, yfir Hellisheiði, hjá Kolviðarhóli, Lækjarbotnum, Hólmi og Árbæ, síðan yfir Elliðaár og til Reykjavíkur eða þá, er að Lækjarbotnum kom, niður yfir Hólmshraun að Silungapolli og Hraunsnefi, þaðan suður að Elliðavatni, yfir Kjóavelli og Hafnarfjarðarhraun hjá Urriðakoti og Setbergi. Áningastaðir á þessari leið voru Laugardæla völlur, Torfeyri, norðurundan Krossi í Ölfusi og austan Varmár, Bolavellir hjá Kolviðarhóli, Fóelluvötn hjá Sandskeiði og sunnan Lyklafells og loks í Fossvogi, sunnan Öskjuhlíðar.
12. Kotferja. Þeir, sem fóru þar yfir ána, en þar var fjölfarinn og löggiltur ferjustaður, voru einkum úr efri hluta Flóans, frá Stokkseyri eða Eyrarbakka og fóru þá beina leið upp í Sandvíkur eða Kaldaðarneshverfi og þaðan að Kotferju. Þegar yfir ána þar var komið, lá leiðin að Kirkjuferju, yfir vonda mýri og þýfða mjög út að Bakkárholtsog Gljúfurárholtsám og þaðan út í Kamba.
13. Milli hverfa var stundum farið, en það er á milli Kaldaðarness og Arnarbælis og þá ávallt á ísi, er áin var fær gangandi mönnum eða mannheld. Var þá farið yfir Arnarbælisforir upp í Bæjarþorp og þaðan upp í Kamba.
Það mun hafa verið nálægt 1880-1881, að Eiríkur Ásmundsson í Grjóta hér í Reykjavík lagði steinilagðan veg um Kamba, yfir allar hæðir og lautir, svo að hann yrði þráðbeinn. Vegna brattans víðasthvar og þess, að ekkert var borið ofan í veg þennan, var hann sjaldan eða aldrei farinn, en sumarið 1894 var upphleypti vegurinn yfir Kamba lagður, og var hann krókóttur mjög og aðeins ætlaður gangandi mönnum og ríðandi, svo og vagnhestum, því að bílar komu eigi fyrri en 20 árum síðar (1913). Eystri hluti vegarins yfir Hellisheiði var lagður sama árið sem Kambavegurinn, og vann ég í þeim síðarnefnda það sumar, en vegurinn yfir vestari hluta heiðarinnar var lagður árið áður, og síðan er það, að Smiðjulautin fékk nafn sitt, því að vegamenn þar höfðu smiðju sína í lautu þessari. Verkstjóri þar við lagningu vegarins yfir allt fjallið eða Hellisheiði hét Páll Jónsson; en Erlendur Zachariasson var verkstjóri í Kömbum.
Vegurinn frá Reykjavík upp í Svínahraun var lagður 1887, og um sama leyti var brúin á Hólmsá byggð, en yfir Elliðaárnar eigi fyrri en seinna, svo og Svínahraunsvegurinn, en sennilega nokkru áður.
14. Óseyrarnes var aðalferjustaðurinn yfir Ölfusá. Þaðan var haldið, ef farið var út í Þorlákshöfn, meðfram sjónum yfir Háamel, Miðöldu, Skerðingahólma og Hafnarskeið, vestur í Skötubót. Um fjöru er oftast farið niður undir flæðarmáli, úr því að Skerðingahólma sleppir, og eru það beinharðar sandgljár, sem verða brátt sæúrgar, ef sólskin er á. Ofar og austar liggja þarna uppi margir selir, sem svartbakurinn vekur með óhljóðum miklum, ef hann verður þess var, að þarna sé mannaferð, er selirnir sofa eða eru að flatmaga sig á móti sólinni. Er svartbakurinn þá að endurgjalda þessum vinum sínum, selunum, greiða þann, er hann hefur oft sýnt þeim áður með því að „draga“ hrognkelsi á land eða dauðar flyðrur, sem hann hefur höggvið um hausamótin og látið rífa af sér bakið, allt frá hausi að sporði, enda fylgir þá oft annað góðmeti með, allt slógið úr flyðrunum, en það getur svartbakurinn einnig notað, eigi síður en hrognkelsaslógið með lifrartægjum þeim, er þessu fylgja hvoru um sig.
Einhverju sinni bar svo við, að gangandi menn, sem fóru um Hafnarskeið, fundu tófu þar á sandinum, eigi fjarri ferjustaðnum. Tófan virtist steindauð og sperrti allar lappir í loft upp. Þeir tóku tófuna og báru hana með sér austur í Eyri – svo er ferjustaðurinn oftast nefndur-, létu dýrið upp í barka bátsins og reru svo yfir ána, en er að landi kom að austanverðu, hljóp tófan á land, og höfðu þeir ekki meira af henni.
Saga þessi er að vísu ótrúleg, en þó eigi frekar en svo sem menn þekkja til kænsku og klókinda þessa vitra dýrs (sbr. söguna af refnum og Ólafi Ketilssyni, eða réttara sagt: hrafninum og tófunni, er Ólafur komst í tæri við).
Sé ferðinni frá ferjustaðnum heitið yfir Lágaskarð eða Ólafsskarð, er farið vestur með Ölfusá, yfir gljámar og út að Hamarendum og síðan upp í Hraunshverfi. Þaðan er farið upp Selstíg, og liggja götuslóðarnir þaðan upp að Lönguhlíð. Má þá fara bæði neðan undir hlíðinni eða uppi á henni. Sé farið hið efra, er komið niður í Sanddalinn, austan undir Syðri-Meitlinum, en sé neðri leiðin valin, og svo var ávallt, ef menn voru ríðandi eða með lestir, þá er farið undir hlíðinni og meðfram henni, unz komið er norður í Sanddalinn. Þar geta leiðirnar skipzt þannig – og aðeins fyrir gangandi menn – að farið er yfir Brunann, sunnanundir Syðri-Meitlinum, vestur yfir Lambafellshraun, sunnan Fjallsins eina, vestur í Ólafsskarð og Jósepsdal, þaðan norður úr skarðinu utan í brattri og hárri brekku, sem er að austanverðu við Jósepsdal og niður á Sandskeið.
Venjulega leiðin á Ólafsskarðsveginum (sem reyndar er enginn „vegur“), er farin frá Vindheimum, þar upp á fjallið, vestan að Bláfjöllum og meðfram þeim, unz komið er í Ólafsskarð.
Aðalvegurinn yfir Lágaskarð liggur, eins og áður segir, norður í Sanddalinn, upp Lákastíg og síðan sléttar götur og greiðfærar meðfram Nyrðri-Meitlinum, unz ofan af fjallinu kemur, og er þá skammt til Kolviðarhóls. Sér þar enn mjög greinilega til vegarins, þar sem hann nemur við Hellisheiðarveginn, þegar beygt er norður að Kolviðarhóli, við suðvesturhornið á Sandhalahnúki, sem er eitt hið merkasta fiskimið Seltirninga eða var það áður fyrrum. Miðin á Sandhalanum, sunnarlega á Sviðinu voru þau, að Skólavarðan gamla, sem því miður er nú horfin, átti að bera í hnúk þennan, en ef norðar var á Sviðinu, átti hún að bera á Sauðadalahnúkinn, en það er hnúkur sá, sem næstur er Ólafsskarði að austanverðu við Vífilsfell, sem var aðalmiðið á þessa hlið, og ýmist var miðað við Skólavörðuna, Valhúsið eða Nesstofu (Læknisnesshúsið).
Annars var gamli vegurinn yfir Hellisheiði litlu norðar en nú er hann, og sést víða til hans, þegar upp fyrir Kamba kemur, en einkum þó norðurundan Hurðarásvötnum (ég hygg, að þetta sé rangnefni og að það heiti Urðarás og Urðarásvötn), austan Hengilár og ,,loftanna“ yfir henni, nál. 40 km. frá Reykjavík. Þessi gamli vegur lá svo þaðan vestur yfir fjallið, og var sæluhús þar, byggt úr eintómu grjóti, sem heiðin er hæst, síðan fyrir norðan Reykjafell og niður í Skarðið fyrir ofan Kolviðarhól, og er Búasteinn norðan skarðsins í miðri fjallshlíðinni gegnt Hólnum.
Frá Kolviðarhóli lá gamli vegurinn vestur með fjallinu, fyrir norðan Bolavelli, að Húsmúlanum, en þar var einnig sæluhús, síðan yfir Svínahraun, niður á Sandskeið eða einnig norðan Lyklafells og þá komið niður á syðsta hluta Mosfellsheiðar hjá Miðdal og Geithálsi.
Grindaskörð eru helzt farin milli Selvogs og Hafnarfjarðar, en voru oft áður talin beinasti vegurinn úr vestasta hluta Ölfussins, Hlíðarbæjunum og af Bakkanum. Sagt var, að Einar Jónsson borgari, faðir Sigfúsar, sem var léttur mjög á fæti, hafi farið af Eyrarbakka um Grindaskörð til Hafnarfjarðar á sex klukkutímum fótgangandi, og má það teljast með afbrigðum fljót ferð.
Sumarið 1883 á Jónsmessunótt fór ég fótgangandi um Grindaskörð; voru þeir með mér Jón sál., bróðir minn, og Jón Vernharðsson frá Efra-Seli. Vorum við allir að koma frá vorróðrum af Seltjarnarnesi. Fórum við fyrst til Hafnarfjarðar, síðan upp hjá Setbergi og upp með hlíðunum norðan Helgafells, alla leið upp í Grindaskörð, sem eru á aðra hlið við hinn svonefnda Bolla (fiskimið Álftnesinga: „Bollann ofanyfir“. Grindaskörð eru ekki löng, og þegar upp úr þeim er komið, liggur vegurinn milli Selvogsheiðar að austan og Lönguhlíðarfjalls að vestan niður í Selvog, en við héldum beina leið yfir Selvogsheiði, þar sem hún er hæst, og þá nefnd Heiðin há. Er þar engan veg að finna og jafnvel engar götur, en þegar komið er þarna hæst á heiðina, er alveg nauðsynlegt að taka stefnuna nógu sunnarlega vegna hinna mörgu gjáa og gljúfra, sem eru vestur undan Geitafelli og allt í kringum það. Kvennagönguhólar sjást miklu sunnar á heiðinni, en eigi þarf að fara svo sunnarlega eða nálægt þeim, heldur fyrir sunnan hnúk þann eða lágt fell, sem er nokkru sunnar en Geitafell. Þar hallar vel undan fæti á austurleið, og er þá komið niður að Hlíðarenda í Ölfusi.
Af þessu sést, að Grindaskörð eru varúðarverð nema í björtu og heiðskíru veðri. Á suðurleið er vegur þessi erfiður, en jafnvel hættuminni en á austurleið vegna gjánna, sem áður eru nefndar. Af Heiðinni há er hið fegursta útsýni, sem hugsast getur, ef gott er skyggni og góðs útsýnis nýtur. Frá Hlíðarenda er haldið beina leið austur að ferjustaðnum í Óseyrarnesi, yfir gljárnar og norðan Hafnarskeiðs.
*
Ferðamenn úr efri hluta Árnessýslu, einkum úr Grímsnesi, fóru yfir Lyngdalsheiði, Álftavatn á vaði austur undan Tungu í Grafningi og yfir Grafningsháls, frá Litla-Hálsi að Hvammi í Ölfusi, og þaðan vestur með fjallinu út í Kamba. Grímsnesmenn og Laugdælingar fóru einnig hjá Laugarvatni, vestur um Laugarvatnsvelli og Hrafnagjá á Þingvöll. Þaðan fóru þeir svo niður Mosfellsheiði fyrir vestan Gullhringur og til bæja þar neðar í sveitinni, oftast hjá Miðdal, Geithálsi og Árbæ. Tungnamenn, þeir, er efst bjuggu, fóru einnig leiðir þessar og yfir Brúará, fyrir austan Efstadal og þaðan út eftir Laugardalnum, aðra hvora leiðina, neðan Lyngdalsheiðar eða ofan.
Brúin yfir Brúará var ófullkomin mjög: Borð eða plankar lagðir yfir gljúfur nokkurt, og flaut vatnið yfir brúna, svo að það náði upp fyrir hófskegg hestanna, þótt lítið væri í ánni. Síðar var ný brú og stærri byggð yfir aðalgljúfrið nokkru neðar, en hún kvað vera svo ónýt orðin, að varasamt mjög er að fara yfir hana á bílum.
*
Enginn þeirra vega, er áður voru nefndir, voru ruddir eða nokkur steinvala úr þeim tekin fyrr en um 1880 eða jafnvel síðar. Þeir voru því ógreiðir mjög og seinfærir, nema um sanda væri að fara eða valllendisgrundir, en flestir sandarnir voru gljúpir mjög og litlu betri en sumir mýraflóarnir með öllum forarkeldunum og fenjunum, þar sem allt lá á kviði í bleytu og vatni, enda engin fjöl yfir þau lögð, hvað þá nokkur brú.
Verst af öllu þessu voru þó árnar og vötnin stóru, t.d. í Skaftafells- og Rangárvallasýslum, en hvar leiðir lágu um þær slóðir, er mér eigi svo kunnugt, að ég geti lýst því, að öðru leyti en því, sem sjá má af því, sem ég hef skrifað um áningastaðina í sýslum þessum.
Það, sem ég hef skrifað um leiðirnar í Árnessýslu, vona ég, að sé í aðalatriðum rétt, þótt skeika kunni lítið eitt um einstaka bæi eða önnur kennileiti, er að vegunum lágu.
Það var áreiðanlega meira „bragð“ að ferðalögum manna áður fyrrum en nú. Á ég þá m. a. við það, að „þægindi“ ferðamanna eru nú á tímum orðin svo mikil, að þau eru að verða varasöm mjög fyrir menningarlíf vort. Nú þarf enginn að leggja út ár, ekkert andþóf að þreyta; enginn þarf að lýja sig á því að sækja sér hest til reiðar, leggja á hann hnakk eða að honum beizli; enginn að líta til lofts eða sjávar, skýjafars eða veðurs, né heldur að vita, ,,á hvaða átt hann er“. Veðurstofan segir til um þetta allt, svo og það hvort „hann verður þurr í dag eða rigning í nótt“. Menn þurfa ekki að leitast eftir neinu þessu, þeim er sagt það, og þeir trúa því, en naumast verður sagt, að það skerpi athyglisgáfuna eða auki þrekið. Það linar menn og sljóvgar þá, en herðir eigi. Makindin eru mönnum engu hollari en áreynslan, sem vitanlega verður að vera svo, að hún ofreyni engan, hvorki krafta þeirra né svefn eða langvarandi hungur. Þótt áður fyrrum væri helzti um of aðþrengt unglingum, varð þetta þó til þess, að þeir voru færari í allan sjó en ella. Í þessu sem öðru er vandratað meðalhófið, en menn verða að gæta sín, því að hér er um svo snöggar breytingar að ræða á mörgum sviðum, og alvarlegasta sú, ef hugarfarið, vinnugleðin og athyglisgáfan breytist mjög til hins lakara eða hverfur með öllu við svefninn á værðarvoðum nútíma þægindanna.
Fátt annað en samgöngurnar hefur tekið jafnstórfelldum breytingum á síðastliðnum 50 árum. Í þessum efnum má segja, að núlifandi kynslóð, sem komin er á efri ár, hafi lifað tvenna tímana, ótrúlegustu framfaratíma til ómetanlegra hagsbóta og þæginda fyrir menn og málleysingja. Eitt hið fyrsta, sem gjört var og til þess varð, að framfarirnar á þessu sviði gátu eigi né máttu stöðvast, var það, að Ölfusárbrúin hjá Selfossi var byggð árið 1891 og vígð 8. september það ár. Var það eins og fleira fyrir atorku og ósérplægni hins mikla menningarfrömuðar, Tryggva Gunnarssonar. Hét sá Mr. Waghan, er fyrir brúarsmíðinni stóð af erlendra manna hálfu. Sorglegt slys eitt vildi þar til, er ungur Englendingur fór einn á báti yfir ána 15. júní það ár, og fórst hann með bátnum, er hlaðinn var með járni og sökk í straumiðuna undir brúarstæðinu, áður en búið var að koma strengjunum yfir. Þessu næst var það, að byggð var Þjórsárbrúin hjá Þjótanda árið 1895 og vígð 28. júlí það ár. Var það á sunnudegi og mikill mannfjöldi saman kominn við vígsluna, en að henni lokinni þyrptist svo mikil mergð manna út á brúna, að hún tók að svigna og annar endi hennar að bresta svo, að við lá, að hún sigi niður í ána með öllu því, er á henni var.
Það var að vísu engin brú yfir neina á, heldur yfir mjög torfarið mýrarfen, að Nesbrúin svonefnda var byggð á þessum árum. Átti hún að verða ein hin mesta samgangnabót milli Eyrarbakka og Selfoss eða að Ölfusárbrúnni, en það varð hún ekki sökum þess, að enginn ofaníburður var í hana látinn og því óð þar allt í kviði eftir sem áður. Forstöðumaðurinn fyrir verki þessu var Þorvarður Guðmundsson í Litlu-Sandvík, að vísu duglegur maður, en lítt kunnandi til þvílíkra verka, enda óreglusamur og ölkær nokkuð.
Einn meðal vinnumanna Þorvarðar var Guðmundur Ólafsson, kallaður Gvendur putti, því að hann var smávaxinn mjög, en kvikur nokkuð og trúr í störfum sínum. Þorvarður sendi Gvend putta á hverjum morgni niður á Bakka og lét hann ávallt hafa næg ílát með sér undir vínföng. Einhverju sinni spurðum við, búðarmennirnir, Gvend spurningar þessarar:
,,Fyrir hvern ertu að kaupa brennivín á hverjum degi?“ ,,Ég kaupi það allt fyrir hann Þorvarð!“ svaraði Gvendur. ,,Hvað gerir hann við svona mikið brennivín?“
„Hann hefur það allt í brúna!“ sagði Gvendur og brosti við.
Þótti okkur þá, sem til heyrðum og þekktum brúarstæðið og vinnubrögðin þar, ,,eigi kyn, þótt keraldið læki“, eða m. ö. o., þótt þar væri „deigt í rót“, er allt það brennivín, sem Gvendur fór með, væri „haft í brúna“ auk hins mikla elgs og óhemju vatns, er þar var. En hins vegar vissum við, að Gvendur tók svo til orða, án þess að það hefði bókstaflega þýðingu, heldur svo að skilja, að Þorvarður ætlaði að gæða sér á lögginni, meðan hann væri að vinna að brúarlagningunni. En að henni unnu Bakkamenn og vinnumenn bændanna í Óseyrarnesi, sem fengu 4 kr. dagkaup hver, en Bakkamennirnir fengu aðeins 3 kr. dagkaup. Mismunurinn lá í því, að hinir fyrrnefndu voru „vinnumenn frá Nesi“! Þeir voru að vísu duglegir vel, en vart, að þeir hafi afkastað þriðjungi meiri vinnu en hver hinna. Þótti þar eigi gæta jafnréttis, en var þó látið kyrrt liggja. Bakkamenn og aðrir urðu fegnir að fá eitthvað að gera, og stóð þá enginn lengi hvorki við vinnu þessa né aðra fram á skófluna, reykjandi vindlinga og skrafandi um alla heima og geima án þess að hreyfa hönd né fót að því, sem vinna átti og fyrir hendi var, því að þá var unnið af iðni mikilli og oft af kappi, en engri augnaþjónustu eða vinnusvikum.
Bárðarbrú var ein hin minni brúa, er lágu upp af Bakkanum til þess að komast upp í Flóagafls- og Kaldaðarneshverfi og jafnvel upp í Sandvíkur og þaðan að ferjustaðnum á Kotferju, því að oft var Breiðamýri ill og næstum ófær yfirferðar. Því var brú þessi Bárðarbrú nefnd, að Bárður Nikulásson í Garðbæ – hann fór til Ameríku 1886 með Hallfríði, konu sinni, Oddsdóttur, systur Hérónýmusar í Smádalakoti; með þeim fór Ásgrímur Adólfsson, fósturbarn þeirra; þau eru nú öll dáin – átti frumkvæðið að því, að brúin var byggð, og stóð fyrir verkinu. Þá má og nefna Hraunsárbrú, sem er sunnan Borgar; voru þar aðeins plankar yfir eða rekatré, en þau fóru oft af eða flutu á brott í stórflóðunum. Það var á trjám þessum, sem Skerflóðs-Móri fékk sér sæti snemma dags, er hann vildi varna Hraunshverfingum þeim, er stunduðu sjó á Stokkseyri, en sváfu heima hjá sér á nóttum, að komast í tæka tíð til skips síns, og hafði hann því af þeim margan róðurinn. Áin rennur úr Skerflóði, og er brúin þar, sem hún rennur úr flóðinu til sjávar. Nokkru neðar er Hraunsárvað, að vísu grunnt, en þarahrönn mikla yfir að fara. Er vafasamt, hvort meira veldur, þarabrúk þetta eða hestaþvagan, sem á beit stendur þar nætur sem daga.
Þarna var það og áður en brúin kom yfir Hraunsá 1876, að Markús gamli á Hellum (eða Jón skotti) átti „tal við“ jaðrakarnið og naut leiðbeiningar þess um að leita vaðs og vaða ána. (Sjá Austantórur I, bls. 115).
Menn þurftu sjaldan að komast í vandræði, þótt þeir kæmi gangandi að Hraunsá og vildu fara yfir hana, ef Skerflóðs-Móri eða hestaþvagan í þarabrúkinu var þeim eigi til torveldunar, því að það þótti sjálfsagt og enginn hestastuldur að taka einhvern klárinn, hnýta snæri upp í hann og ríða yfir, bara ef maður hafði þá snæri með sér, en þá mátti nota sokkaböndin sín, ef það vantaði eða jafnvel mjóan trefil, sem maður hafði um hálsinn.
Framundan Hraunsá er sker eitt, nokkuð hátt, er Setberg heitir og suðvestur af því hið mikla maðkasvæði, er Leira heitir, en úr henni renna árósarnir, eitt hið bezta sölvapláss þar um slóðir.
Nú er öflugur sjógarður kominn beggja vegna við Hraunsármynnið austur að Bjarnavörðu og Stokkseyri, en áður en garður þessi kom, sáu menn oft einkennilegar skepnur og þær ærið stórar, skríða upp yfir bakkana, bylta sér á Flötinni þar fyrir ofan og við Sæmundarflóðin og Hrakvöðin. Þannig sagðist Einar sál. Guðmundsson, sem þá átti heima á Stóra-Hrauni og gekk að morgni dags til sjávar austur að Stokkseyri, hafa séð ferlíki eitt koma þarna upp frá sjónum og özla í tjörnunum fyrir austan Hraunsá, unz það hvarf til sjávar aftur.
Einar sagðist hafa verið viss um, að þetta hefði verið skrímsli á stærð við meðal húskofa, með tveim hnúðum á baki. Hann sagðist hafa verið á að gizka 200 metra frá því, er það kom yfir bakkana og alveg þar norður undan, en er það kom á þær slóðir sem Einar var á, þegar hann sá það fyrst, sagði hann, að fjarlægðin milli þess og hans hefði eigi verið meiri en 50 metra, ,,og fór ég þá að taka til fótanna“. sagði Einar. – Hann var óskrumgjarn maður mjög, athugull og sannorður, og þekkti ég hann vel.
Ýmsar aðrar skrímslissögur gengu um þessar slóðir, og bentu þær flestar á, að þvílíkar sýnir og viðburðir væri undanfari vondra veðra, er af hafi stóðu, og einnig meðan fárviðrin stóðu yfir og sjávargangurinn var ægilegastur. Er naumast hægt að rengja alla þá mörgu menn, t. d. Pál sál. Eyjólfsson í Íragerði, Guðmund gamla Þorgilsson og Gamla-Hraunsmenn, er oft gengu þarna á rekana að næturlagi og sáu ýmislegt það eða heyrðu, er aðrir, sem í húsum voru, urðu eigi varir við, enda voru þeir „rammskyggnir“, sem kallað var, einkum Páll í Íragerði, þótt lítið vildi hann láta á því bera.
*
Gjöra má ráð fyrir, að ýmislegt sé undanfellt í lýsingum þessum um leiðirnar og vegina austur þar, en sumt af því má e. t. v. finna í sambandi við ýmislegt annað, er ég hef hripað upp, jafnvel um fjarskyld efni. En eins og áður er sagt, vona ég, að það, sem hér er tilgreint, þótt lauslegt sé, megi teljast satt og rétt, það sem það nær. Læt ég því athuganir þessar niður falla að sinni.