23-Sæluhúsin á suðurleið

Norður af Bolavöllum vestarlega mun enn sjást votta fyrir hústóft einni. Var þar húskofi nokkur eða sæluhús, hið eina skýli, er til var vestan Hellisheiðar þar efra, og er hæð sú, er sæluhús þetta stóð á, hinn svonefndi Húsmúli, er virðist hafa hlotið nafn þetta vegna sæluhúss þessa. En það sýnir, að það hefur staðið þarna langan tíma áður, og hef ég eigi séð þess neins staðar getið.

Árið 1865 var húskofi byggður á Kolviðarhóli, og hefur þá sæluhúsið við Húsmúlann lagzt niður, enda var kofi þessi á hólnum nær fjallinu og veginum ofan af því.

Nálægt sjö árum síðar eða 1872 varð Ebenezer gullsmiður Guðmundsson frá Hofi á Rangárvöllum fyrsti gestgjafinn á Kolviðarhóli, síðan Ólafur Árnason bókbindari, ættaður úr Landeyjum, er síðan fór til Ameríku, þá Jón Jónsson og kona hans, Kristín Daníelsdóttir. Jón var frá Hömrum í Grímsnesi og Kristín úr þeirri sveit einnig. Eftir þau varð tengdasonur þeirra, Guðni Þorbergsson frá Arnarstöðum í Flóa, gestgjafi þar, en fluttist þaðan að Leirá í Borgarfirði og loks til Akraness. Þegar Guðni fluttist frá Kolviðarhóli, komu þangað Sigurður Daníelsson, Þorsteinssonar frá Kaldárholti í Holtum, og kona hans, Valgerður Þórðardóttir frá Traðarholti og býr hún þar nú (1942), en eigendur Kolviðarhóls eru Íþróttafélag Reykjavíkur eða nokkrir menn úr því félagi.

Þetta, hið ofansagða, held ég, að sé nokkurn veginn rétt. Um líkt leyti eða tveim árum síðar (1867) en sæluhúsið á Kolviðarhóli var byggt, má nefna tvö hús önnur, sem byggð voru í sama skyni. Var annað þeirra vestanvert við ferjustaðinn í Óseyrarnesi, en hitt vestanvert við Sandskeið. Hús þessi og sennilega einnig á Kolviðarhóli lét Gísli bóndi Eyjólfsson á Vötnum í Ölfusi byggja, öll á sinn eigin kostnað. Húsið við Sandskeið er enn við líði, en aldrei notað, en það sýnir, hvernig hús þessi hafi verið byggð í fyrstu, úr grjóti og torfí, með torfþaki yfir, og grjótbálkum til hliða og fyrir gafli, klæddum torfi. Þóttu þau góð á þeim tímum og komu sér oft vel fyrir lúna ferðamenn að leita sér skjóls í vondum veðrum. Farangur sinn hafa þeir getað geymt þar, en færleika ekki, heldur hafa þeir orðið að ganga úti á Bolavöllum (Kolviðarhóli) og í Fóelluvötnum (við Sandskeið). Annars tjölduðu menn áður fyrrum á báðum þessum stöðum.

Verk þessi, er Gísli Eyjólfsson á Vötnum vann, eru svo mikilsverð og óvenjuleg á þeim tímum, að þess er vert, að þau séu höfð í minni og nafn hans einnig, því að hús þessi, þótt hrörleg væri, hafa áreiðanlega bjargað mörgum mannslífum. Það voru verkin, sem töluðu þá, og má óhætt fullyrða, að þeir sem nú láta „verk sín tala“ hafi eigi kostað eins miklu fé og fyrirhöfn úr eigin vasa fyrir þau og Gísli gerði á sínum tíma og tilgangur hans með þeim eigi verið síður af góðum toga spunninn, óeigingirni, hjartagæzku og framsýni. Þannig er það og um öll góðverk, að þau fæða önnur af sér, og þá oft betri og fullkomnari, t. d. byggingu þá, er nú er á Kolviðarhóli.

Enn má geta þess, að vestarlega á Hellisheiði var byggt grjótbyrgi nokkurt í sama skyni sem sæluhús þessi, og mun enn til þess sjást. Varð ég þar eitt sinn veðurtepptur 1884 ásamt 5 mönnum öðrum í hörku frosti og fannfergi miklu og leið vel.

(Þess skal getið, að í Lýsingu Ölfushrepps 1703 eftir Hálfdan Jónsson lögréttumann á Reykjum í Ölfusi (d. 1707) nefnir hann bæði örnefnið Húsmúla og getur um sæluhús þar á þessa leið: ,,Á norðanverðum Hvarmavöllum, er strax taka til fyrir neðan skarðið (Hellisskarð), stendur sæluhús (ei langt frá veginum) svo kallað, hverju allt til þessa líma Ölves innbyggjarar hafa uppi haldið, vegfarandi fólki harla nauðsynlegt á vetrartímanum til innvistar. Er og lofsvert, að þetta sælhús ei niður falli“. (Landnám Ingólfs III, 7). – Í frásögninni um sæluhúsbyggingarnar hér að framan hlýtur annaðhvort að vera missögn, að sæluhúsin hafi verið byggð 1867 eða að Gísli Eyjólfsson (sem bjó reyndar ekki á Vötnum, heldur á Kröggólfsstöðum) hafi látið reisa þau. Gísli dó áttræður 26. maí 1866 og hafði búið alla sína búskapartíð á Kröggólfsstöðum, mikill merkisbóndi, lengi hreppstjóri Ölfusmanna og stórauðugur. Er hann mjög líklegur til að hafa haft forgöngu um þetta verk. En sé ártalið rétt, mun hér helzt um að ræða son Gísla, Eyjólf hreppstjóra á Vötnum. – G. J.).

Leave a Reply

Close Menu