Pálsmessa (25. janúar)
Heiðskírt veður og himinn klár
á helga Pálusmessu,
mun það boða mjög gott ár,
marka eg það af þessu.
En ef þokan Óðins-kvon
á þeim degi byrgir,
fénaðardauða og fellisvon
forsjáll bóndinn syrgir.
Febrúarmánuður
Febris ei ef færir fjúk
forst né hörku neina
kuldi sár þá kemur á búk. –
karlmenn þetta reyna.
Ef þig fýsir gefa að gætur
gátum fyrri þjóða,
páskafrostið fölna lætur
febrúari gróða.
Kyndilmessa (2. febrúar)
Ef í heiði sólin sést (eða: sezt)
á sjálfa kyndilmessu,
vænta snjóa máttu mest,
maður, upp frá þessu.
Matthíasarmessa
(24. febr., en 25. febr. í hlaupári, og er þá nefnd hlaupársmessa):
Matthías þíðir oftast ís, –
er það greint í versum, –
annars kæla verður vís,
ef vana bregður þessum.
Matthías ef mjúkur er,
máttugt frost þá vorið ber,
vindur, hríð og veðrið hart
verður fram á sumarið bjart.
Jónsmessa (24. júní)
A Jónsmessu ef viðrar vott, –
við því flestir kvíða, –
þá mun verða þeygi gott
að þurrka heyin víða.
Þingmaríumessa
(2. júlí)
Hverfi af skýjum höstugt regn
á helgum Maríu-degi,
lengi síðan líður megn
loft í votum vegi.
Nema, ef áður væta var,
varla skal upp halda.
Því dagar og veður dyljast þar,
sem dýr vill guð veraldar.
Marteinsmessa
(11. nóvember)
Marteinsmessu merki eg þó,
myrkvast nóttin langa,
ef fer þá koma frost með snjó,
frá’ eg það lengi ganga.
Þá ef hylur þykknið loft,
þíða, en frostið eigi,
veðradimmur verður oft
veturinn frá þeim degi.
Sé þá úti sólskin glatt
og sýnist frostum gegni,
Marteinn segir það merki hratt
meira af frosti en regni.
Jól
(24. desember)
Hátíð jóla hygg þú að,
hljóðar svo gamall texti,
ársins gróða þýðir það,
ef þá er tungl í vexti.
En ef máninn er þá skerðr,
önnur fylgir gáta:
Arið nýja oftast verðr
í harðasta máta.
Framanskráðar vísur um áhrif veðráttunnar á ýmsum merkisdögum og messum ársins eða þeirra á hana hef ég tekið úr Þjóðvinafélagsalmanaki (bls. 62-63) fyrir árið 1900. – Voru nokkrar þeirra ritaðar áður hér að framan, en þar eð þær eru hér fleiri, virtist mér rétt að rita þær hér allar saman í einu lagi.