11-Ýmis veðurmerki

Blómin, frostrósirnar og hrímið

Loka blómin eigi „bæ“ sínum undir nóttina og svefninn og opna hann árla morguns, er sólin skín á hauður og haf? Blikna þau eigi fyrr og fölna á haustum, þótt góð tíð sé, en stundum ella í skakviðrum og stormum? Það mun þó væntanlega eigi vera vegna þess, að þau séu að vænta betra veðurs, er þau standa af sér veðrin? Eitt er víst, að blómin eru áhrifagjörn og viðkvæm, þau finna til birtunnar, hlýjunnar og þess, er vel er við þau gjört. Það er eins og þau eigi – eins og allt annað lifandi – eitthvað „skylt“ við oss mennina!

Frostrósirnar segja oss einnig, hvort veður fer batnandi eða versnandi. Rósir þessar mynda oft langar og reglulegar hríslur á stofnum sínum. Snúi hríslurnar upp á við, fer ekki hjá því, að betra veður er í vændum, en séu þær óreglulegar og snúi niður á við, verður veðrið óstöðugra en áður var og oft verra.

Loðhrím á gluggum boðar lin á frosti. Svo er einnig, ef jörð og ísa leggur hrími, oft svo, að sporrækt er, þá má vænta þykkviðris í lofti og þeys á jörðu. Hrím, er leggur snemma að hausti, bendir á harða vetrarveðráttu, jafnvel þótt eigi verði fyrr en á útmánuðum.

Móða á gluggum, vetrarkvíði, sjávarfroða o. fl.

Móða á gluggum veit á regn og drungalegt veður. Móðan stafar vitanlega af því, að mismunur er á hita inni í húsum og kulda utan frá, en ef þetta eitt væri nægilegt til þess, að hún sést oft svo áberandi og jafnvel þykk, svo að hún heldur sér eigi, heldur rennur í lækjum, ætti hennar ávallt að gæta, því að mismunur hita og kulda er oftast fyrir hendi. Hitt er annað mál, að hann getur stundum verið óeðlilega mikill eða óvenjulegur, og það er þá, að móðan boðar regn. Í þurrviðrum mun hennar sjaldan gæta, nema þá undir veðurbreytingar. Áhrifin munu oft að einhverju leyti stafa frá fjarlægari stöðum, því, hvernig loftið er í háloftunum, þurrt, rakt, kalt eða heitt.

Hrossapuntur mikill veit á snjóavetur. Sama er að segja, ef vetrarkvíði sést að miklum mun, og er þessa getið í sérstakri grein minni um hann, frá árinu 1935 eða löngu áður en farið var að bollaleggja mikið um hann í blöðum og útvarpi nú fyrir skemmstu.

Reki græna froðu að sandi eða skerjum við innstu lón, er það órækur vottur um langvarandi rosa og brim. Froða þessi er smágjört slý, ofan til líkast jastri úr munni hesta. Hrönnin er lág, fyrirferðarlítil og þunn.

Hafís. Auk hinna miklu og venjulegu áhrifa hafíssins á veðráttufar landsins um land allt, má geta þess, að sé mikið um hafís fyrir Horni (vestra) á vorum, án þess að um mikinn hafís sé að ræða annars staðar eða reglulegt hafísár, þá veit það á vætusamt sumar á Suðurlandi.

Hverir

Dimmviðri og regn er ávallt yfirstandandi eða í vændum, þegar hverir rjúka meira en venjulega, en mest rjúka þeir í hægum og langvarandi rosa. Austan til í Henglinum er hver einn, Óþerrihverinn, er var oft einn um hituna. Hann liggur niðri, þótt allir aðrir hverir rjúki, og í þurrkatíð er hann ávallt á undan öðrum hverum að láta á sér bera. Boðar hann þá óþerri mikinn og langan. Hverirnir á Reykjum og í Reykjakvosinni, eru eigi ávallt jafnákveðnir í því að segja til um veðurbreytinguna, en Óþerrihverinn gefur þeim ávallt tóninn.

Hverirnir í Ölfusinu, einkum í Henglinum, voru sannspárri flestu öðru um veðráttuna, en vegna þoku og dimmviðris sást eigi ávallt til þeirra. Þegar upp stytti í rosatíð, litu margir í þá spádómsbók og sáu, hvað þeir ,,meintu“, svo og „Tröllkonutrogin“, ef út voru látin, þótt rosatíð hefði lengi staðið:Væru þau látin út, eins og mjólkurtrogin áður fyrrum, mátti sjá þau hrein og skjannahvít, enda bezti þurrkur þann daginn, ef svo var útlit þeirra og til þeirra sást.

Nokkru fyrir austan „Tröllkonutrogin“ í Henglinum er hver nokkur, er aldrei sést rjúka, nema þegar langvarandi þurrkur er í vændum. Allir aðrir hverir liggja þá niðri. Reykurinn úr hveri þessum er hár mjög og mjór. Hann er með réttu nefndur Þerrihverinn í Henglinum.

Enn er þar hver einn, sem sjaldan sést rjúka nema þá, er engir aðrir hverir eru uppi. Þá rýkur hann við og við, en er breiður um sig og lágur í lofti. Hann var nefndur Hverakarl og boðaði ávallt kulda, frost og snjó, enda. rauk þá oft úr honum, meðan sú var tíðin, en þá lágu allir aðrir hverir niðri á haustin og vetrum. Á sumrum bar aldrei neitt á hveri þessum.

Reykurinn Úr eldhússtrompunum og við grútarbræðslu

Eldhússtromparnir. Það var áður fyrrum talið órækt vitni um það) hverju viðra mundi næsta dag eða lengur, einkum að sumri til, ef reykinn lagði t. d. frá norðri til suðurs, eins og áberandi blær réði því, þótt annars virtist blæjalogn. Og legði hann niður með þekjunni og í húsasundin til annarrar hvorrar hliðar, þá varð þurrt veður, ef reykinn lagði til austurs, en sunnanátt og rigning, ef hann lagði til vesturs. Það leit þá út, eins og reykurinn leitaði skjóls undan áttinni, sem koma átti.

Reykurinn við grútarbræðsluna. Væri verið að bræða grút úti við í logni, lagði stundum lyktina af honum undan þeirri áttinni, sem vindstaðan varð næsta dag eða dægur, þrátt fyrir það, þótt einhvers andvara gætti frá gagnstæðri átt. Hlóðin voru mynduð af þrem steinum, sínum á hverri hlið, og lagðist reykurinn oft niður í hlóðirnar, utan með þeim og að jörð niður í suðurátt, ef til norðanáttar dró, en í norðurátt, ef sunnanátt var í vændum. Stæði bræðslumaðurinn framan undir hlóðunum og reykinn legði í móti honum, vildi honum oft súrna svo í augum, að hann varð að hætta grútarbræðslunni daginn þann.

Ég kom oft til Jóns gamla á Hæringsstöðum. Hann var nefndur Jón skalli og stundum Skakki-Jón, því að hann var bæði sköllóttur og haltur. Hann bræddi grútinn nætur sem daga fyrir flesta þá sjómenn, er róðra stunduðu á vetrarvertíðinni á Stokkseyri, en þar voru þá 40-50 skip. Grútarbræðslu sína byrjaði Jón oftast nokkru fyrir lokin (11. maí), og var hann við hana allt vorið fram yfir Jónsmessu, en sjaldan þó nema í þurrviðri og aldrei í roki.

Sá ég þá oft, að þessu var svo háttað með reykinn, sem sagt er hér áður, en um reykinn úr eldhússtrompunum á ég smásögu eina eftir P. Nielsen gamla, er hann segir af ferð sinni snemma morguns og aftur síðar um kvöld, er hann var á leið frá Kaldárhöfða til silungsveiða, en þangað fór hann næstum um hverja helgi, vor og sumar. Segist hann hafa tekið eftir þessu á þrem bæjum, er hann fór framhjá: Ásgarði í Grímsnesi, Alviðru og Tannastöðum í Ölvesi. Hann lætur þess og getið, að vindstaðan hafi orðið eins og áður segir: Frá austri að morgninum til, og reykinn þá lagt til vesturs undan morgunandvaranum daginn eftir, en frá vestri að kveldinu til, og reykinn þá lagt til austurs undan næturgolunni af norðri, enda hafi þá verið sólfarsvindur þessa daga og þerrir góður.

Fossaniðir og fjallahvinir

Því er á líkalund farið með fossaniðinn og fjallahvinina sem sjávarhljóðið. Öll eru þau boðberar veðráttu og vinda, ef ekki þá, er veðráttan varir, en við það er vitanlega fátt einkennilegt, heldur hitt, að þau segja oft til um það fyrirfram, hverju viðra muni næstu daga, sérstaklega ef um snögga veðurbreytingu er að ræða, gagnstæða við þá, er verið hefur.

Niðurinn í smálækjarsprænum er og sömu lögum háður, sem hvinurinn í fjallshnúkunum, hamrabeltinu og háu klettunum. Sé einhver þeirra í austri, en frá þeim heyrist venjulega hljóðið (niðurinn) og hvinurinn, og færist það til vesturs, veit það á þurrviðri. Sé þetta að heyra frá fossi eða fjallshnúki í vestri, og það færist austur á bóginn, má vænta þess, að vindur snúist í sömu átt, og að þá bregði, a. m. k. hér sunnanlands, til rigningatíðar og rosa.

Svo sterkt er sjávarhljóðið stundum, að það heyrist upp að Ingólfsfjalli, alla leið neðan frá suðurströndinni, en það er um 15 kílómetra löng leið. Á sömu lund má og oft heyra fossanið ofan frá Ölfusá, t. d. frá Kiðjabergi, Oddgeirshólum og víðar niður á Bakka, og er það þó nokkru lengri leið en sú, er ég áður nefndi, líklega um 20 kílómetrar eða lengra. Heyrist þá oft, hvernig og á hvern veg, niðurinn færist til, ýmist vestur á við eða jafnvel til austurs, allt eftir því, hvort þurrviðri er í vændum eða vætutíð. Sjaldan er þetta þó heyranlegt nema að sumri til og einkum ef austanátt snýst til norðanáttar.

Hvinir þessir og niðir heyrast einkum glögglega í lygnu veðri og þungbúnu lofti, engu síður á móti andvara eða vindblæ en undan honum, og er það bending um léttara veður sem og það, að vindurinn snúist til áttar þeirrar, er hljóðið berst frá.

Þess má geta í sambandi við það, sem áður er sagt, svo að aðeins eitt dæmi sé nefnt af ótal mörgum, að nokkru áður en ofsaveðrið 29. marz 1883 skall á, er skipskaðinn varð í Þorlákshöfn og fleiri skaðar urðu, hvein mikið í Ingólfsfjalli austanverðu og í Núpahnúki í Ölfusi, en þótt vindur stæði þá af suðaustri, heyrðust hvinirnir ekki til bæja vestan hnúka þessara, heldur glögglega á móti vindinum, t. d. á Laugarbökkum, Tannastöðum (austan Ingólfsfjalls) og í Reykjahverfinu, Reykjum, Núpum og í Bæjaþorpi, enda gekk vindurinn eða ofsaveðrið nokkru síðar til vesturs og í norður, nær áttinni, sem hvinirnir heyrðust frá. Þannig hafði þetta og orðið undir Eyjafjöllum, að í Drangshlíðardal og Skógum, sem eru inni í kvosinni austan Drangshlíðarfjalls, heyrðust hvinir þessir óvenjulega skýrt, en ekki að Raufarfelli og öðrum bæjum í kvosinni vestan fjallsins. Sama máli var að gegna vestar með flestum þeim hnúkum, er þar eru, einkum Seljalandsmúla, að austan hans heyrðust þeir vel, en alls eigi að vestanverðu, t. d. í Eyvindarholti, Stóradal og víðar.

Lægðirnar og stormsveipirnir

Lægðir þær, er útvarpið segir oss, að séu á ferðinni hér eða þar, eru svo dularfull fyrirbrigði, að mér ætti eigi að farast að segja mikið um þær, en leyfast mætti mér þó að hafa mínar getgátur og hugsanir um þær án þess þó, að ég ætlist til, að það séu nokkurar vísindalegar ályktanir og rökfastar um leið.

Mér hefur skilizt, að í lægðunum myndist stormsveipir, líkt og skýstrókarnir í Vesturheimi og víðar eða þrumuskýin þar og hér: Loftstraumarnir dragist saman, rekist hver á annan og saman í hnykla, unz allt springur. Þeir vindlast saman innan um skýin og lægðirnar og leynast mönnum og athugunum þeirra, þangað til allt brýzt út. Sjaldan mun unnt að varast þetta, en dýrin, fiskarnir o. fl. geta oft veitt mönnum ýmsar bendingar um það. Dæmin eru svo mörg til þessa, að erfitt verður að rengja þau öll eða hrekja með rökum. Er það þá einskis nýtt og að engu hafandi, að menn séu að brjóta heilann um annað en veðurfregnirnar, þegar um veðurútlitið er að ræða? Spyrjið sjómennina gömlu, bændurna, smalana og fjárhirðana!

Sérhver bára á sjó og í vatni, sérhver straumsveipur, súgur og sog, hefur sína tillögu um þetta og sögu að segja, að vísu eigi ávallt óbrigðula, en oft furðu nærfærnislega þó. En athyglin ætti engan að skaða.

Kornél, hagl og ísing

Smá kornél boða kulda og norðanþráviðri, en stór kornél mildara veður og breytilegt.

Hagl. Stundum eru kornélin svo stórvaxin, að þau líkjast kúlum allstórum. Er þau oft að sjá í vondum útsynningséljum, þótt fannfergja sé eigi mikil. Verður þess þá eigi lengi að bíða, að útsynningsgarrinn setji upp tærnar og til betra veðurs dragi.

Stærðarmunurinn á milli hagla og kornélja er þannig, að haglið er oft á stærð við matbaunir eða

enn stærra, kornélin oft svo smá, að þau líkjast smæstu grjónum.

Ísing eða frostregn.

Flugvélarnar eða þeir, sem þeim stýra, þekkja hversu þægileg ísingin er: Hún þyngir þær svo, þegar upp í háloftin kemur, að þær verða að leita neðar og til hlýrra lofts og oft að lenda.

Ísingin hefur m. a. tvenns konar fyrirboða um væntanlega veðráttu. Ef upp úr henni þiðnar, veit hún á betra veður, logn, stillur og þíðu, en ef hún frýs, gerir oft verstu harðindi og vonda tíð. Ísing getur stundum orðið svo mikil, að ómögulegt er að taka á neinu eða komast áfram. Allt verður það, sem fyrir manni er, að glerhálku, svo að naumast er hægt að skríða áfram, handsama neitt eða fóta sig. Hæstu steinnibbur verða eins og glerflöskur eða glerkúlur, hvað þá annað, sem maður snertir hönd eða fæti við.

Fölvi á málmi, gulli og silfri o. fl.

Fölvi, sem fellur á járn eða aðra málma, eir, kopar, silfur og gull, er órækt merki þess, að bráðlega þykknar í lofti og að úrkoma er í nánd. Þetta sést m. a. á borðbúnaði, vasahnífum og peningum: Þeir eru eigi ávallt jafnfagrir. Séu hlutir þessir fægðir, verða þeir því fegurri, sem meira bjartviðri er í vændum, ella verður fægingin ávallt móðukennd og varir stutt.

Bláa röndin á ljánum. Dengdir ljáir, skozku ljáirnir og spíkurnar gömlu, sögðu oft til um það, hvort regn var í vændum eða þurrkur. Í vætutíð voru áhöld þessi með móðu og ryðhúð smágjörri mjög, og var ryðið þá oft á þau komið, svo að áberandi var, eftir nokkra daga, ef þau voru eigi notuð daglega, en ef blá rönd ofan við eggina sást á þeim, var þerrir í vændum næsta dag eða dægur. Röndin var oft dimmblá, en því ljósblárri, sem þurrkurinn, er í vændum var, varð betri. Hefði rosatíðin staðið lengi, urðu sláttumenn því fegnir mjög, er þeir sáu bláu röndina koma á ljáinn. Einkum bar mest á röndinni á ljáblöðunum skozku. Þannig var það og um flest þau áhöld úr járni, er notuð voru, að þau voru miklu hreinni og skírari á að líta undir þurrviðri en vætu, jafnvel skóflublöð, pálar og rekuvör. Þó voru eigi síður vasahnífarnir meðal hinna stærri spámanna vor strákanna fyrrum.

Ískur og urg

Meðan illviðri eru í vexti, má oft um þau segja, að ,,sama þýtur í þeim skjá, þótt ekkert sé gatið á“, eða, „sem þúsund eru götin á“, og hvín þá og ískrar svo í hurðagættum öllum og gluggum, að þetta óþolandi ýlfur sker innan hlustir þeirra, er á heyra. Jafnvel þótt allar gættir séu vel byrgðar og engin smuga finnanleg, fer ískrið ekki eftir því. Það ýlfrar samt, en það er fyrirboði þess, að enn verra veður, fárviðri hið mesta, sé í vændum og vari lengi.

Þá er það misjafnt mjög, hversu mikið urg heyrist í hörðum ólum, sem áfastar eru um tré, járn og harða hluti aðra, einnig eggjárni í brunaskorpu á brauði, en sé það skerandi mjög, bendir það á harðara veður og verra, oftast þó þurrviðri. Sé gengið á ísi í þurru veðri, m. a. á mannbroddum eða skautum, má einnig þá heyra urg, sem annars heyrist ekki venjulega. Þá er og urg í gjósandi hverum (goshverum) undir gos æði misjafnt, en mjög títt, og er hvorttveggja urgið, í ísunum og hverunum, vottur um kaldara veður og verri tíð en þá, er yfir stendur, er það heyrist.

Skóhálka og skrof

Afar mismunandi er það, hversu skóhált er á túnum, mosaþembum og hraunum: Stundum er naumast hægt að ganga svo fet fyrir fet, að eigi sé hætt við hrösun í hverju spori. Er þetta að vísu oftast svo í þurrviðri á sumrum, og líður þá eigi á löngu, að raki verði í lofti og regn á jörðu.

Þá er og oft athugandi á vetrum, er frost hafa staðið lengi og ár allar og lækjarsprænur virðast skálheldar, að þær belgja sig mjög upp, renna á glæður og hlaða svellbólstrunum hverjum ofan yfir annan, einkum á útmánuðum. Héldu þeir þá, er komnir voru í heyþröng, að þetta vissi á lin, en það var þvert á móti fyrirboði þess, að enn væri ekkert lát á harðindunum, heldur hörðnuðu þau.

Aftur á móti rann vatn svo niður í farvegum þessum, þótt frost væri, að mikið skrof myndaðist undir ísunum. Mátti þá oft sjá margar fallegar myndir ískrofinu, sem börnum þótti gaman að sjá, leika sér að, og byggja sér hallir og hús af.

Mikið skrof sást sjaldan lengi, og voru því „borgirnar hrundar og löndin auð“, áður en nokkurn varði. Hláka og regn komið að nokkrum dögum liðnum.

Uppbelgdir Ósar, lækir og dý

Læki og ósa belgir, eins og fyrr segir, oft upp í langvarandi harðindum og undir lok þeirra, þannig, að sífellt þykknar á þeim svellskánin, svo að hvert íslagið hleðst ofan á annað, unz það brestur og fær útrás þegar hlákan kemur.

Svo er það einnig með dýin, þótt þau virðist engin aðrennsli hafa: Þau bólgna upp eins og lækirnir og ósarnir, og oftast miklu hærra en umhverfið í kring eða bakkar þeirra, jafnvel þótt hörkufrost hafi lengi staðið og standi enn.

Uppbelgingur þessi bendir á það, að þá sé hláka í vændum og hún því betri og varanlegri, sem belgingurinn var orðinn hærri. Er þá segin saga, að frostleysa er komin í lofti og lin á jörðu niðri.

Grunnstingull mikill og ísalög niðri í vatni eða tvískinnungur með miklu vatnsrennsli á milli laga, veit einnig á lin.

Lykt af þangi og þara finnst oft í logni, jafnvel þótt langt sé frá sjó, og veit það á miklar rigningar. En þótt vindur standi af hafi, finnst lykt þessi þó eigi, einkum ef illviðri er, t. d. vond og hvöss suðvestanátt með frosti. Lognlykt þessi frá sjónum bendir því á þá staðreynd, að hún leitar hlýrra lofts á landi uppi, jafnvel þótt logn sé eða vindur hliðstæður af suðaustri. Þíðvindi er þá komið og fyrr en varir og regnskýin hætt að þola mátið lengur, kuldann og þurra loftið.

Norðurljósin, loftið stjörnubert og vetrarbrautin

Mikil norðurljós og stjörnubert loft vita oftast nær á mildara veður, einkum hið síðarnefnda. Þegar talað var um, að nú væri loftið stjörnubert, var við það átt, að þá sáust stjörnurnar miklu betur _en endranær, m. a. vetrarbrautin, en hún var öruggur leiðarvísir um það, hvernig veturinn yrði, harður eða mildur. Væri stóra kafla að sjá, boðuðu þeir harðindi, eyðurnar eða kaflarnir, sem lítið bar á, boðuðu mildan vetur. Stundum voru þéttu kaflarnir ýmist meiri um miðjuna eða mestir til annars enda vetrarbrautarinnar. Væru þeir mestir í efri endann, áttu menn von á hörðum vetri framan af, o. s. frv.

Oft var sagt: ,,Hann er hvass á norðurljósin“. Voru þau þá hvikul mjög og bragandi, og væru þau mest á suðurloftinu, var von á linari veðráttu, en væru þau í norðri, máttu menn vænta meiri frosta og mikils hvassviðris. Sæjust mikil norðurljós að hausti til í norðvestri, norðri og norðaustri, vissi það á mildan vetur og stillt veður.

Vitanlega var stjörnumergðin hin sama í vetrarbrautinni, sem ávallt endranær, en kaflarnir sáust eigi ávallt jafnskírt, og hvernig sem því var farið, sögðu menn oft fyrir um það á haustum, hvernig veturinn yrði, eins og áður er sagt, og sögðust þeir sjá það á vetrarbrautinni. Fóru þeir margir mjög nærri um þetta, a. m. k. Ísólfur, bróðir minn o. fl., en hann sagði oftast um það á haustin, hvernig veturinn yrði, og vissi ég aldrei til þess, að honum skeikaði í því né neinu öðru, er hann sagði um veðrið, oft ótrúlega langt fram í tímann, enda var hann veðurglöggur með afbrigðum og athugull um margt það, er aðrir veittu litla eða enga athygli.

Skyrsáir, potthrím

Áður fyrrum var skyri safnað í skyrsái á sumrum til vetrarforða. Stóðu sáir þessir ýmist í bæjargöngum eða búri. Væri litið í sái þessa, mátti oft sjá mikinn hæðarmun á súrnum í sánum, og var hann bending um það, hverju viðra mundi næstu daga. Í þurrkatíð og einnig áður en hún hófst, lækkaði í skyrsánum, en undir rigningar og í rosatíð hækkaði svo í honum, að við lá, að skyrið flóði eða ólgaði út yfir barma sásins.

Potthrímið. Órækt merki þess, að þurrkur væri í vændum, var það, að hrímið utan á pottunum varð því hvítara, sem þurrkurinn varð betri og lengri. Þegar þangi var brennt, var potthrímið græn- eða gulleitt, en það hvítnaði eða lýstist mjög á stundum, og mátti þá ganga að því vísu, að þurrviðri væri í nánd.

Hausthiti boðar harðindi

Haustið er hlýtt, hitinn jafnvel undir frostmarki og sjaldan nema 1-3 stiga frost, þótt nærri vetrarnóttum sé komið eða jafnvel að jólum. Menn segja þá oft: Veturinn ætlar að verða mildur í ár, og svona verður hann fram að jafndægrum. En sólstöður eru ekki enn komnar, en upp úr þeim getur oft til beggja vona brugðið um veðráttuna, og hafi hún verið á þá lund, er að ofan getur allt haustið, blíð og mild, mega menn reiða sig á, að veturinn verður harður allan síðari hlutann, og a. m. k. fram að páskum, hvenær sem þeir eru. Breyti þá eigi til lins, má búast við áframhaldandi harðindum og því meiri, ef eitthvert lát verður á þeim um bænadagana, eins og að er vikið á öðrum stað. Sé páskavikan, og einkum bænadagarnir, með mikilli grimmd, frosti og kólgu, er þess að vænta, að hann batni upp úr páskunum.

Sé páskavikan mild og bænadagarnir blíðir eða nokkurs konar góðviðriskafli í harðindaþræsingum, bregður oft til meiri kulda upp úr páskunum, jafnvel enn harðari en nokkru sinni áður.

Frjósi saman vetur og sumar þannig, að síðasta nótt vetrarins og nóttin fyrir sumardaginn fyrsta séu frostnætur, er talið, að þá verði málnyta búpenings betri og kostameiri.

Um dagana með og eftir fyrstu sumarhelgi hef ég skrifað á öðrum stað.

Heilsufar manna o. fl.

Þá var það enn einkennilegt, en algengt þó, að menn tóku eftir því, þegar þeir köstuðu af sér vatni, að sprænan var ýmist gild eða mjó. Væri hún digur eða gild, vissi það á gott veður, en væri hún aftur á móti mjó eða þunn, vissi það á verra veður, kulda og harðindi.

Sönnun fyrir þessu veit ég þá, að séra Björn Jónsson, sem síðast var prestur á Stokkseyri, d. 1866, hafði sagt við menn, er hann hitti og voru að koma af sjó : ,,Erfið hefur hún verið ykkur veðráttan, piltar, en nú fer hún að batna, því að ég tók eftir því í morgun, að bunan var óvenjulega digur, og það veit alltaf á betra veður“. Sjómennirnir brostu að, en sáu síðar, að klerkur, sem var búmaður góður, hafði spáð alveg rétt.

Heilsufar manna stóð oft í sambandi við veðráttuna:
Undir ill veður og vond hljóp gigtin í handlegginn eða lærið, í bakið og fyrir brjóstið. Sögðu þá margir, og oftast hinir eldri menn: ,,Já, já – það er þá þetta, sem að honum er núna (þ. e. veðrinu), að hann ætlar að rjúka upp með eitthvert illviðrið! Það bregzt mér ekki, því að gigtarfjandinn er hlaupinn í bakið á mér“, o. s. frv. Og þeir höfðu oftast eitthvað fyrir sér í þessu. Þeim varð illt í höfði, fengu sting fyrir brjóstið eða kvöl í mjaðmirnar, handleggina eða fæturna. Væntanleg veðrabreyting, bæði til ills og góðs, hafði hin ótrúlegustu áhrif á heilsufar þeirra. Þetta voru „lægðir“ þær, er þeir urðu varir við, og vissu þeir þá, hvað í vændum var.

Atti þetta eigi eitthvað skylt við það, sem dýrin verða vör við? Hestarnir hlupu heim að bæ, sauðfénu varð eigi komið frá húsunum, kýr og kálfar bauluðu því ákafar og oftar, sem væntanleg veðrabrigði sögðu þeim fyrirfram, hvað í vændum væri. Fuglarnir voru þó ef til vill einna næmastir á þetta. Hrafnarnir veltu sér t. d. í háloftunum undir stórviðrin, flugu marga hringi og steyptu sér, endurnar og æðarfuglinn, mávar, skúmar og veiðibjöllur færðu sig að eða frá landi einu eða tveim dægrum áður en veðrabreytingin varð, nær, ef það varð vont, en fjær, ef það varð gott. Eða þá krían. Var hún ekki komin upp um öll tún í brakandi þurrkinum og farin að tína maðk, áður en rigningin skall á, tveim eða þrem dægrum síðar? Allt var þetta lærdómsríkt og leiðbeinandi fyrir alla þá, er vildu veita því eftirtekt, og það voru flestir hugsandi menn, því að lífsafkoma þeirra var svo mjög háð hinum duttlungasömu veðrabrigðum. Þeim var það lífsnauðsyn, og þeir höfðu margra ára reynslu fyrir sér í þessu sem öðru.

Merkisdagar og tunglkomur

Merkisdaqar, er segja fyrir um veðráttuna á ýmsum tímum ársins, eru margir. Einkum eru það sólstöðurnar, jafndægrin, sæluvikurnar, stórhátíðarnar þrjár: jólin, páskarnir og hvítasunnan, svo og höfuðdagurinn, ýmsir dagar vikunnar o. m. fl. – Sólstöðurnar um 21. desember og 21. júní hafa ávallt verið taldar meðal hinna áhrifamestu tímamóta um breytingar á veðráttunni, ýmist til hins betra eða lakara, og er talið, að breyting sú, er þá verður, standi alllengi og veðurreyndin a. m. k. til næstu jafndægra, enda munu stórstraumar og vaxandi tungl eða lítið eitt minnkandi vera um þær mundir. Svo er og um höfuðdag og páska, að þá er eins ástatt með fyllingu tunglsins, nálægt stórstraumunum.

Oft er um það talað, að nú herði hann upp úr páskunum, og einnig hitt, að nú bregði hann með höfuðdeginum. Þetta eru og sannreyndir, en hann batnar líka stundum upp úr páskunum. Það þykir þó fara frekar öðru eftir því, hverju viðrar um páskavikuna og einkum bænadagana. Viðri illa alla þá viku, þykir batinn vís eftir páskana, einkum ef veðrið er vont, frost og kuldi um sjálfa bænadagana. En séu þeir mildir og þeysamir, eiga menn það víst, að veðrið breytist til hins verra upp úr páskunum. Sérstaklega þykir þó mest um vert að veita því athygli, hvað hann gerir upp úr fimmtunni, þ. e. upp úr fimmtudegi næstum eftir páska og aðrar stórhátíðir. Sumarmálapáskar, og einkum sumarpáskar, munu oftast hafa hart vor í eftirdragi.

Tunglkomurnar. Það þykir oft hafa mikla þýðingu fyrir veðráttuna, í hvaða átt tunglið springur út, hvenær og í hvaða átt það kviknar, og verði það höfuðáttin, sem þá ræður mestu um veðrið, að m. k. til kvartilaskiptanna næstu eða jafnvel til næstu tunglkomu. Springi tunglið út í landsuðri kl. 9 að morgni, verður áttin austsuðlæg, en springi það út í gagnstæðri átt kl. 10-12 að kvöldi, verður kuldi og norðanátt o. s. frv. Um tunglið er þessi vísa :

Tunglið eigna maður má
mánuði, sem það endar á,
en hinum ei, sem upphaf tók.
Ég sá þetta skráð á bók.

Sæluvikur (eða imbrudagarnir) eru fjórar á ári hverju: 1. seint í febrúar eða snemma í marz, 2. seint í maí eða snemma í júní, 3. um miðjan september, og 4. snemma í desember. Oftast eru þeir, þegar tungl er á 1. og 2. fjórðungi eða hinum 3., þó sjaldnar, og enn ótíðara er, að þá sé tungl á síðasta kvartili (fjórðungi).

Í harðindatíð á vetrum var oft sagt: ,,Ætli hann lini ekki með imbrunni ?“ – ,,Hann breytir vonandi með imbrudögunum“, o. s. frv. Fór þetta oft eftir vonum manna, en ósjaldan beið batinn páskanna, sérstaklega ef bænadagarnir voru nógu grimmir. Það var jafnvel ósk manna, að þeir væru það. Svo sannfærðir voru þeir um páskabatann.

Þá var og oft talað um páskahret, ef góð tíð hafði gengið áður. Illviðrin 1882 byrjuðu, sem kunnugt er, laugardaginn fyrir páska og stóðu lengi.

Einkennilegt er, að slys þau, er orðið hafa í veiðistöðvunum á Bakkanum, skuli flest hafa skeð í stórstrauma og nálægt páskum, sérstaklega síðari hluta marzmánaðar og í apríl, snemma eða um hann miðjan.

Þykir mér rétt að geta þess hér, hvaða slys skeðu helzt á þessum mánuðum, en þau voru þó fleiri en hér eru nefnd:

8. apríl 1828: Jón Jónsson, Gamla-Hrauni (tungl nýtt).

20. marz 1863, 15 d. f. páska: Tyrfingur Snorrason, Efra-Seli, aðf. (tungl nýtt).

13. apríl 1870, 4. d. f. páska: Sveinn Arason, Simbakoti ( tungl nærri fullt) .

26. marz 1881, 20 d. f. páska: (af) Ísleifi Vernharðssyni ( tungl nærri fullt).

29. marz 1883, 4 d. e. páska: Ólafur Jóhannesson, Dísastöðum ( tungl fullt).

21. apríl 1886, 4 d. f. páska: Sæmundur Bárðarson, Eyrar bakka ( tungl fullt) .

25. marz 1891, 4 d. f. páska: Sigurður Grímsson, Borg ( tungl fullt) .

12. apríl 1890, 5 d. e. páska: (af) Jóni Jónssyni frá Fit ( tungl síðasta kvart.).

7. apríl 1894, 12 d. e. páska: (af) Eiríki í Þórðarkoti (Árnasyni) ( tungl nýtt).

11. apríl 1894, 16 d. e. páska: Páll Andrésson, Nýjabæ ( tungl á 1. kvart.) .

20. marz 1897, 30 d. f. páska: Torfi Nikulásson, Söndu, aðf. (tungl fullt).

2. apríl 1908, 14 d. f. páska: Ingvar Karelsson, Hvíld, aðf. (tungl nýtt).

13 .. 30. apríl 1909, 20 d. e. páska: Hinrik Sigurðsson, Ranakoti ( tungl á 4. kvart.).

17. apríl 1922 (2. í páskum) : Bjarni Sturlaugsson, Hof túni ( tungl fullt) .

5. apríl 1927, 11 d. f. páska: Guðfinnur Þórarinsson, Nýjabæ ( tungl á 1. kvart.) .

Hér eru talin aðeins 15 slys eða skipskaðar. Hafa 10 þeirra verið í apríl og 5 í marz, og næstum ávallt stórstraumar verið í sjó, og ennfremur hafa þau flest orðið nálægt páskum, og flest í byrjun aðfalls eða með hálfföllnum sjó. – Jafnframt sést, að þessir 15 skipskaðar verða:

Með nýju tungli . . . . . . . . . . 4
– fyllingu tungls . . . . . . . . . 8

– 1. kvartili tungls . . . . . . . 2

– 4. kvartili tungls . . . . . . . .1

eða 12 í stórstrauma, og 3 á næsta kvartili við þá.

Þetta sýnir m. a., að oft eru miklar veðrabreytingar í lofti og sjó um páskana. –

Þótt slys þau, er urðu 7. janúar 1884 og 16. september 1936 (hið fyrra á Álftanesi, hitt Pour-qoui-pas-strandið, sem beggja er getið hér áður) beri til á öðrum tímum árs, má einnig geta þess, að þau urðu bæði nálægt stórstreymi, a. m. k. hið síðarnefnda, í blásandi stórstraumi, sem kallað er, en það er þá, er hann er stærstur, með nýju eða fullu tungli.

Vikudagarnir

Sunnudagur (,,til sælu“). Sagt var: Hann glaðnar til um helgina, eða hann styttir upp um helgina. Var þá oftast um langvarandi rosa að ræða, en þá varð oft aðeins glýja á sunnudögum. Þá mátti eigi fara í hey, breiða fisk eða yfirleitt vinna annað en allra nauðsynlegustu störf sökum helginnar, t. d. hirðingu fénaðar, heimilisstörf önnur o. s. frv. Kölluðu menn því, og aðeins sökum þessa, þvílíka sunnudaga bagadaga. Enda hélzt sama veðráttan áfram, a. m. k. til næsta fimmtudags (,,fimmtunnar“). ,,Hann þotar upp um helgina“, var oft sagt í þerritíð, ef í lofti þykknaði síðari hluta vikunnar.

Mánudagur (,,til mæðu“). Á þeim degi rauk hann upp á norðan, einkum ef hann ætlaði að breyta til með helginni, og stóð þá norðanstórviðrið a. m. k. fram á fimmtudag – þriggja daga norðanbál – eða alla vikuna, og var það nefnt vikuveður. Mánudagurinn fyrsti í sumri var meðal merkustu daga ársins, og er hans getið að því leyti á öðrum stað. Á mánudegi máttu menn gæta þess að byrja eigi langferðir sínar né heldur taka sér neitt þýðingarmikið starf eða óvenjulegt fyrir hendur, því að það varð þeim þá oft „til mæðu“.

Með mánudegi byrjar sjöviknafastan, aðfangadagur sprengidagsins. Þótti þá eigi heppilegt að hafa neinn undirbúning undir næsta dag, heldur hefja hann eigi fyrr en sjálfan sprengidaginn. Væri það eigi að síður gert, varð það einnig „til mæðu“. Lummurnar skemmdust, hangikjötið soðnaði seint og illa, og sprengidagsgrauturinn sangnaði. Bæri aðfangadag jóla upp á mánudag, varð að gæta sín fyrir því, að undirbúningur allur undir jólin færi ekki út um þúfur og á sömu leið og áður er getið um sprengidaginn. Það þótti vissara, að búa sig þá heldur undir jólin á Þorláksmessu, þótt hún væri á sunnudegi.

Þriðjudagur (,,til þrautar“). Byrjaði norðangarðurinn á mánudegi, var þetta annar dagur hans, sem segja mætti, að væri „annar í norðangarði“, eins og annar í jólum o. s. frv., en þá var oft auðséð, hvort veðrið yrði þriggja daga norðanbál eða vikuveður. Væri um hið fyrra að ræða, var hann farinn að ganga niður, lækka vindbólstrana á fjöllunum, draga úr frostinu o. s. frv., ella herti hann á hvorutveggja. Sáu menn þá, hvort hann ætlaði að halda veðrinu til þrautar eða eigi.

Væri í einhverju fyrirtæki byrjað á þýðingarmiklu starfi þann dag, þótti sjálfsagt að halda því til þrautar, hætta eigi við það fyrr en því væri lokið, enda þótti þá heppilegt að hefja bónorðsför sína og sjálfsagt að hætta eigi við það mál fyrri en til þrautar væri reynt. Þriðjudagurinn var frekar talinn til happadaga en hins gagnstæða, og þótti það oft vel reynast, er þá var byrjað, engu síður en á laugardögum væri.

Miðvikudagur (,,til moldar“). Öskudagurinn, einn hinn merkasti dagur ársins, er á miðvikudegi. Um hann er það sagt, að hann eigi átján bræður sér líka, þ. e., að líkt muni viðra um næstu átján daga sem á honum sjálfum, og þykir það oftast hafa rætzt. Þá er alloftast nýtt tungl eða mjög nálægt því, og þar af leiðandi um stórstraum að ræða, og þarf eigi að lýsa því, hver áhrif það hefur á veðráttufarið, enda er það og svo, að þá breytir oft um veður, sem varir alllengi. Svo var t. d. 1859, en þá var hin svo nefnda harðafasta, og miklu oftar verður þá um meira en smábreytingu að ræða. Þá kveðja menn einnig veturinn á miðvikudegi, því að þá er hann borinn „ til moldar“, en það er einnig trú manna, að fleira en hann sé til moldar borið á árinu, og einkum börn þau, er fæðast á miðvikudegi, og flest mikilvæg störf og fyrirtæki þykir eigi heppilegt að hefja þann dag. Þau muni eigi lánast vel, heldur verða til moldar borin á einhvern veg, áður en varir. Hvernig sem á því stendur, mun eigi auðvelt að benda á marga menn, sem kvænzt hafa á miðvikudegi. Er það tilviljun, eða hvað hafa þeir þá óttast?

Fimmtudagur (,,til fjár“). Eins og víðar er að vikið, hefur dagur þessi allmikla þýðingu, hvað veðráttuna áhrærir: Það er fimmtan, sem oft hefur sýnt, að þá breytir algjörlega um veður, stundum langtímum saman, einkum fimmtan eftir stórhátíðir, en svo er einnig um margar aðrar fimmtur. Reynslan hefur í þessu sem mörgu öðru sýnt það, að hann þornar oft upp úr fimmtudeginum í langvarandi þerritíð. Hann bregður til lins með fimmtudegi í hörkum og harðviðrum. Fimmtudagur er á skírdag. Það er ef til vill bænadagur sá, sem mest er að marka um hinar stórfelldu veðurbreytingar um það leyti ársins. –

Sumardagurinn fyrsti er og á fimmtudegi. Sagt er, að mjöll sú, er á jörð fellur aðfaranótt hans, eigi sér sjaldan langan aldur. Þá er og sagt, að nótt þessi hafi mikla þýðingu fyrir málnytu sumarsins, því að ef frost sé þá nótt, svo að „vetur og sumar frjósi saman“, verði málnytan góð. Mun það m. a. vera af þessu dregið, að fimmtudagurinn sé „til fjár“, og einnig er sagt, að börn, sem fæðist á þeim degi, verði efnuð vel. Fimmtudagurinn er annars talinn einn hinn mesti happadagur. Þá er gott að leita sér kvonfangs, fara í ferðalög, en einkum þó til vers. En komi illt veður upp á fimmtudegi, mega menn vara sig, einkum á sjó.

Föstudagur (,,til frægðar“). Páskahretið er oft harðast á föstudaginn langa og oft öllu verra en daginn áður, á skírdag, en sjaldan stendur það harðasta lengur en til annars eða þriðja dags páska. Talið er, að þeir menn verði frægir, sem fæðast á föstudegi, en „frægð“ þeirra mun þó geta orðið á ýmsa lund, oftast þó af því, að þeir hafi varið lífi sínu frekar til góðs en ills. Þeir hafa e. t. v. verið ástundunarsamir námsmenn, iðjusamir atorkumenn og öðrum fremri í trú og siðgæði, en sennilega er þetta þó ágizkun ein og órannsakað með öllu.

Laugardagur (,,til lukku“). ,,Sjaldan stendur laugardagsregn til sunnudagshádegis“. Sagt er og, að laugardagur sé „til lukku“. Hvort sem menn hafa almennt mikla trú á því, að vikudagarnir, hver um sig, hafi mikla þýðingu fyrir kjör manna og velferð, þá mun það þó oft bera við, að menn velji laugardaga fremur til giftingar en aðra daga eða til þess að stofnsetja eitt eða annað á þeim degi fremur en öðrum í þeirri trú, að það verði þeim til hamingju, gagns og gleði. Hvað sem um þetta er, þá munu menn síður forðast að byrja fyrirtæki sín á þeim degi en öðrum, miklu heldur haga því svo, að þeir geti notað þann dag frekar en aðra. Getur þetta vitanlega að einhverju leyti staðið í sambandi við sunnudaginn, sem á eftir fer.

Eitt er nokkurn veginn víst, að ef mikið regn er á laugardegi fram að hádegi eða miðmunda, styttir upp úr hádeginu, og verður oft bezta veður síðari hluta dagsins og fram yfir helgina.

Vikudagarnir allir hafa eitthvað til síns ágætis hver um sig, og svo er um ýmsa einstaka daga ársins.

Aðrir einstakir dagar

Þrettándanótt. Væri hvassviðri af suðvestri (,,útsynningsgarri“) á þrettándanótt og vindur stæði í kirkjudyr, sem jafnan snúa í vestur, þótti sýnt um álíka eða sömu veðráttu meiri hluta vetrarins, sem eftir var, en sjaldnast þó lengur en til páska. Imbruvikan um jafndægrin í marz hafði þó oft breytingar á þessu í för með sér, en einkum þó með ný-útsprungnu góutungli í gagnstæðri átt, austri eða landsuðri. En um áhrif nýrra tungla og fyllingu þeirra er áður talað. Þess má geta, að sundtré voru valin úr rekaviði, er að landi rak milli hátíða, jóla og þrettánda. Þau voru bezt, – og einnig þau, sem rak í páskaviku, og milli páska og hvítasunnu. Var þá síður hætt við slysum í sundinu.

Pálsmessa, 25. janúar, er talin einn meðal hinna merkustu daga ársins um það, hverju viðra muni næstu vikur, mánuði eða jafnvel lengur. Fösturnar, níuviknafastan og sjöviknafastan, voru á næstu grösum, en á þeim, og einkum á hinni síðari, þótti veðurreyndin oft vera söm við sig.

Alkunna er, að áður fyrrum byggðu menn spádóma sína mjög á messudegi þessum.

Kyndilmessa, 2. febrúar, var og er enn talin jafnvel ennþá merkari. Þá hófst vetrarvertíð sjómanna á Suðurlandi. Þá átti hver sá, er ráðinn var til sjóróðra yfir alla vetrarvertíðina, að vera kominn að sínum há. í raun og veru byrjaði vertíðin þó eigi fyrr en síðar eða þá, er aðeins ein vika lifði þorra.

Sjósofendadagur, 27. júní, er talinn merkisdagur um

það, hverju viðra muni á sumrinu að honum liðnum, a. m. k. til höfuðdags, jafnvel þótt hundadagarnir (frá 22. júlí til 23. ágúst, nú frá 13. júlí til 23. ágúst) hafi áhrif á það. Þótt hundadagarnir verði vætusamir, verða þeir eigi eins rosafengnir, ef bjart er veður á sjösofendadegi.

Þykkviðri og úrkoma á Marteinsmessu, 11. nóv., boðaði frost og snjóa síðari hluta vetrar og jafnvel harðan vetur, einkum á útmánuðum.

Vorið eftir fardaga verður· líkt því, er viðrar fyrsta sunnudag í sumri.

Túnaslátturinn verður líkur því, sem viðrar fyrsta mánudag í sumri.

Engjaslátturinn verður líkur því, sem viðrar fyrsta þriðjudag í sumri.

Haustið verður eins og veðrið er fyrsta dag haustmánaðar.

Í Flóanum var það reynsla manna, að haustveðurlagið færi mjög nærri því, sem það var á Flóaréttadaginn og réttadag Landmanna, sem ber upp á sama dag. Því sögðu menn: ,,Haustið verður eins og veðrið var á Flóaréttadaginn“, og sögðu gamlir menn, að út af þessu hefði aldrei brugðið, en réttadagur þessi er í byrjun 23. viku sumars. Þá er og hvorttveggja í senn um þetta leyti jafndægur og sæluvika (imbrudagar), eins og áður er að vikið.

„Grimmur skyldi góudagur hinn fyrsti, annar og hinn þriðji“, segir gamalt orðtæki og veðurspá. Er það í samræmi við veðurspárnar fyrir sumarið allt, þær er nú var getið, fyrstu þrír dagarnir í fyrstu viku sumars, að meðtöldum fyrsta sunnudegi í sumri.

Veðurbreyting „upp úr fimmtunni“

Allvenjulegt dæmi:

8. ágúst 1941 var fullt tungl, er hafði sprungið út kl. 6,39 f. m. 24. júlí, og hafði þá staðið hægviðri og þerrileysi, þoka á hæstu fjöllum, niður undir miðjar hlíðar, en til þessa var ávallt að létta til, a. m. k. öðru hverju, helzt síðari hluta dags, og sunnudaginn 3. ágúst var þurrt veður eða rigningarlítið.

Hvernig leit nú loftið út 8. ágúst hér í Reykjavík? Suðvestur: Reykský neðst við hafsbrún, eins og lágur jóreykur væri.

Vestur: Hvergi neitt skýskaf að sjá né heldur í háloftinu.

Norður: Góðveðursskýjaþykkni, eins og nærliggjandi blika væri, með stórgerðri netþykknisslæðu efst.

Austur: Algjörlega heiðríkt loft. Vindur:

Kl. 9 að morgni : Aðeins finnanlegur vindblær af suðaustri.

12 á hádegi: Andvari af suð-suðvestri, nokkru harðari en áður.

3 e. h.: Talsverð gola af vestri. 5 e. h. : Golan farin að minnka. 7 e. h.: Blæjalogn.

9 e. h. : Andvari af norðvestri. 11 e. h.: Norðangola, hæg. Glaðasólskin allan daginn. Þetta var því hinn reglulegi sólfarsvindur.

ágúst: Skýjað loft, en úrkomulaust. Vestangola.

ágúst: Bjartara, en þerrilaust. Skýjað, birtir til með kvöldinu.

11. ágúst: Skýjað, bólstrar í austnorðri, hreinn í vestri.

12. ágúst: Mikið þykkni í norðri, norðvestan kaldi.

Feikna miklir bólstrar í austri, enda stórrigning eystra, undir Eyjafjöllum. Í Reykjavík var hraglandarigning af norðvestri. ·

13. ágúst: Norðanvindur um morguninn, fremur kalt í veðri, þykknaði í lofti síðari hluta dags og gerði nokkra rigningu hér og norðantil við Faxaflóa. Létti nokkuð til með kvöldinu, hvass af norðri.

14. ágúst: Hlýrra. Nú kominn skarpaþerrir. Oddaský um allt loftið, sól oftast í heiði og stinningsvindur af norðri. Vesturloftið að mestu skýjalaust, en víðast annars staðar með fjarlægum blikubólstrum, er ná niður að sjóndeildarhring og hér og þar um loft allt.

Um þetta veðurlag allt þennan vikutíma hefðu gamlir menn sagt, að „hann hefði verið að berjast við að ná norðanáttinni“. Þess má geta, að allan þennan vikutíma voru ógreinilegir klósigar mjög hvarflandi frá suðvestri til suðurs og gagnstætt. Hinn 14. ágúst eru þeir dreifðir svo, að þeir virðast vera alls staðar og hvergi eða jafnvel horfnir, orðnir að smáum og stórum bólstrum, enda var allhvass norðanvindur og talsverður kuldi. Síðari hluta dagsins lægði vindinn og skýjabólstrarnir smækkuðu, einkum í suðri og vestri, í austri voru þeir mestir norðan Hengils, en þaðan vestur að Mýrafjöllum, Fagradalsfjalli og Kolbeinsstaðafjalli, var að sjá þykka fyrirstöðu í norðri: Blikudrög, er lágu lárétt ofan sjóndeildarhringsins. Á Esju voru svartir skýjabólstrar, en ekki hvítir, og benti það á, að norðanáttin væri væg, enda voru hvítu bólstrarnir norðan Hafnarfjalls fremur lágir. Að kvöldi þessa dags var komið logn. Heiðskír himinn frá suðri til vesturs.

Þannig var veðráttan einnig 15. ágúst 1886, og 19., 20. og 21. ágúst 1888, en meiri norðanátt þá í bæði skiptin en nú, einkum í síðara skiptið. Þá var Þingvallafundur, og man ég þetta enn svo glöggt, sem hefði það verið í gær .. – Um þetta leyti var og fullt tungl í bæði skiptin-, og veðurreyndin stóð þá lengi eins og undirbúningurinn. Árin 1888 og 1891 voru þerrisumur hin mestu. Síðara árið brá hann eigi fyrr en 8. september. Þann dag allan var hin mesta úrhellisrigning og ekkert hátíðarveður, en Ölvesbrúin var vígð þann dag. Því miður hafði ég eigi tækifæri til þess að vera viðstaddur þá athöfn, því að ég stóð þá að slætti í Skarðshólma á Landi allan daginn til kvölds, og var það svo að segja eini dagurinn á því sumri, að slegið væri svo, að rakt væri í rót, m. k. í Landsveit.

15. ágúst: Háarok á norðan, norðurfjöllin með háum, hvítum skýjabólstrum, einkum Esjan og Skarðsheiði, heiðríkt suður- og vesturloft með þykkum múgaskýjum á loft upp í austri og norðri. Norðanáttin því í algleymingi. Himinhvolfið í vestri og norðri var að kvöldi þessa dags næstum því eins töfrandi fagurt sem það var 19. ágúst 1888, og einnig sama mánaðardag tveim árum síðar, 1890: Himinninn líkastur eldhafi, skýin ýmist eldrauð að lit eða sem gulli drifin, logn á jörðu, en vindský mikil í vestri og í norðri.

16. ágúst: Veðrið eitt hið allra bezta og fegursta, sem menn hafa lifað hér á landi: Hægur andvari af suðvestri, síðan af norðri, heiðskír himinn allan daginn, aðeins smá skýjadrög í suðaustri, blæjalogn um kvöldið og dalalæða. – Þennan dag var Churchill forsætisráðherra Breta staddur í Reykjavík.

Nú mætti spyrja: Hvaða fimmtu er hér um að ræða? Svar: 7. og 14. ágúst eru á fimmtudegi. Á þeim dögum og á milli þeirra fer veðurbreytingin fram, og 16. ágúst er hún orðin að staðviðri, sem stóð um langan tíma, góðviðri hin mestu, en áður var veðráttan hvarflandi mjög. Annars eru það fimmturnar eftir stórhátíðir ársins, hvítasunnu, jól og páska, sem mesta þýðingu hafa, einkum hinar síðast nefndu.

Leave a Reply

Close Menu