10-Veðurspárnar og dýrin

„Landsynningsgrallarinn“

Fisktegund ein, sem efalaust lifir hér við allar strendur landsins og er algeng mjög í Eyrarbakkabugðunni, er hinn svonefndi skarkoli, en því nafni er hann þó eigi nefndur austur þar, heldur landsynningsgrallari. Grallaranafnið er sennilega til komið af því, að fiskurinn er flennistór og flatur eins og stór opin bók, en hinir módökku dílar gætu einnig minnt á „nótur“, a. m. k. á bakhlið hans. En að hann er kenndur við landsynning, kemur af því, að þegar hann veiðist mikið á lóðir, er þegar á skollið hvassviðri mikið af landsuðri. Annars var hann fágætur, aðeins einn eða tveir í róðri, en svo kom það fyrir, að bátar fengu nærri fulla hleðslu í róðri, og brást þá ekki, að innan tveggja eða þriggja stunda var komið landsynningsrok. Sjómenn þar eystra sögðu því: ,,Hann er að skella á með landsynning !“ Var þá aldrei farið á sjó oftar daginn þann.

Það virðist svo með fisktegund þessa eins og um háfinn, er menn komust í asfiski og ályktuðu sem svo, að annar fiskur kæmist eigi að beitunni fyrir honum vegna mergðarinnar.

Landsynningsgrallarinn var ávallt sannspár um það, að þegar hann gaf sig til, var landsynningurinn og regnið eigi langt undan og hvorttveggja mikið. Annars hef ég eigi séð fisktegund þessa hér syðra. Meðan ég stundaði sjó á Seltjarnarnesi, vorin 1882-1884, minnist ég þess eigi, að hafa séð hann, og hjá fisksölum hér eigi heldur, og hef ég þó gert mér far um að ná í hann, því að hann er mata beztur. Þetta er afarstór skarkoli, með dökkbrúnum dílum á bakinu, tígul- eða laufmynduðum. Hann var oftast magur – og megurri en skarkoli sá, er hér veiðist. Annaðhvort er þetta önnur fisktegund, eða hann er þá eldri að áratölu, ef til vill fiskur, sem lifir í dýpri sjó en hér er. Fiskifræðingarnir mega bezt um þetta vita, en þegar ég talaði um fisktegund þessa við Bjarna Sæmundsson, yppti hann aðeins öxlum og lét á sér sjá og heyra, að ég færi með einhverja vitleysu, er ég héldi, að þetta væri annað en venjulegur skarkoli.

Leikmannshugmyndin um landsynningsgrallarann er sú í sambandi við veðurspárnar, að hann finni á sér hreyfinguna, sem verður á undan veðrabreytingunni, áður og öllu fremur en vér mennirnir, enda virðist svo vera um fleiri fiska og önnur dýr.

Hnísur, höfrungar og selir

Undir heiftar-landsynninga og einkum í norðanátt og kælu, má oft sjá hnísulestir ofansjávar stinga sér hver á eftir annarri, eins og séu þær í eltingaleik. Eru þær þá svo aðsúgsmiklar og æstar, að þær gæta sín eigi fyrir árablöðum róandi manna, en sé komið við eina þeirra, hverfa þær allar í einu og sjást eigi framar, fyrr en þær koma allar upp á yfirborðið aftur, fjarri bátnum eða skipinu, sem þær voru svo nærgöngular við áður.

Þessir leikir þeirra virtust benda á það, að ef ein þeirra var snert, fyndu þær allar til þess; en leikirnir bentu einnig á annað, sem óðara kom í ljós: Að nokkrum tíma liðnum var kominn roga-landsynningur og kælan horfin.

Höfrungar, öðru nafni nefndir hnýðingar, voru að vísu sjaldgæf sjón, en virtust að eðlisfari hafa tilhneigingu til þess, eða skemmtun af því, að færa allt það í kaf, sem á floti var, eltast við að hlaupa á það og sökkva því. Vitanlega skaut belgnum eða bátnum jafnskjótt upp aftur, en við það óx áfergja þeirra í því að koma því fyrir kattarnef. Smærri bátar og skip máttu gæta sín, að verða ekki fyrir þessum skepnum, því að þær eru allstórar, enda vissara fyrir þá að fara að landi sem fyrst, því að sjór varð oft ólendandi, sökum brims og brimkviku.

Þegar selurinn teygir hausinn hátt, en það gerir hann oft án þess að hann virðist gæta að neinu sérstaklega, er von á roki.

Krossfiskar og hvalambur

Krossfiskar margir hringuðu sig oft svo um lóðarás og öngla, að sá, sem lóðina dró, varð að hafa sig allan við til að hrista þá af henni, svo að bjóðið, laupurinn eða hvert annað ílát, sem lóðin var lögð í (stömpuð), fylltist eigi af krossfiski. Oftast var þetta í fiskitregðu og kom því eigi svo mjög að sök, því að ella hefði fiskurinn eigi komizt að agninu á önglinum. Krossfiskurinn var þá búinn að vefja sig um agnið.

Ávallt vissi þetta á ógæftir og ördeyðu fiskjar þá er næst var róið. Krossfiskurinn var því enginn aufúsugestur fiskimönnum, og til einskis var hann nýtur.

Hvalambur eru hvítgráir þræðir, margar álnir að lengd, og leggjast þeir með lóðum og öngultaumum, eins og þeir séu tvinnaðir saman við þau. Þótti þetta óþverri hinn mesti, og það sem verra var, að þá voru stórfiskavaðir eigi langt undan, en af þeim gat stundum hætta stafað, ef þeir voru nálægt skipi, ekki svo mjög af því, að þeir réðust á það, sem þó vildi til, heldur af sporðaköstum þeim, er komu af viðureign þeirra sín í millum, og voru dæmi til þess, m. a. 13. marz 1867, er Sigurður Ólafsson frá Flatey í Breiðafirði varð fyrir sporði reyðarfisks, er bægði illhveli frá skipi hans, en sló um leið svo fast á skut skipsins, að skuturinn muldist að ofanverðu og menn allir hrukku fram í skipið. Sá, er við stýrið sat, Þórarinn Andrésson úr Látrum, hrökk fram í austurrúm og meiddist við. Að öðru leyti sakaði engan þeirra. Hvalambur vissi á, að fiskiganga var í nánd, og einnig á austanhvassviðri.

Kuðungar, marflær og krabbar

Kuðungar: Bláir kuðungar og smáir sjást stundum á fjörugrjóti fyrir ofan venjulegt flæðarmál, á nöktum steinum, er sjór gengur eigi yfir, jafnvel í stórstraumsflóðum, þar sem þang eða annar sjávargróður hefur engar rætur fest. Eru þeir þar í torfum, eins og mý á mykjuskán, en hafa þar þó sjaldan langt viðnám, aðeins um eitt eða tvö flæði, og skríða svo til sjávar aftur, annars mundu þeir þorna upp og drepast. Ferðalag þeirra þangað upp frá sjónum er órækur vottur þess, að þá er fiskur genginn á grunnmið.

Marflær: Undir smáum steinvölum og steinum má oft sjá mergð mikla af marflóm, sé steinunum velt við, en þær má einnig sjá synda í sendnum lónum, margar saman, kvikar mjög og hraðsyndar. Verður þess þá eigi langt að bíða, að brimrót er í vændum eða mikil hreyfing í sjó.

Krabbar: Þeir geta lifað tvö eða þrjú dægur á þurru landi, án þess að þá saki svo, að þeir fari eigi á kreik, ef látnir eru í sjó aftur. Reynslan hefur sýnt, að þeir lifa því skemur ofansjávar, sem sjór er kyrrari, jafnvel hversu fjarri sem þeir eru frá honum, og því lengur, sem hann er úfnari og æstari.

Krabbar á kreiki í þangi og þurrlendum flæðiskerjum, þeim er sjaldan flæðir yfir nema í stórstraumsflóðum, flytja mönnum oft þær fregnir, að þá sé fiskur í göngu og góð sjóveður í vændum.

Fjörumaðkurinn

Fjörumaðkur var mikið notaður til beitu á Stokkseyri og Eyrarbakka, einkum vor og haust. Daglega var farið í maðkasand. Var hans mest leitað á Leirunni, sem er stórt lón framundan Hraunsá. Þar urðu menn að púla í maðkasandi daga og nætur, margir tugir manna í einu, og fundu þá sumir, þar á meðal ég, ekki á stokkinn sinn, en það voru 200 önglar til beitu í hvern róður. Leiran var því uppurin, og enginn fann nokkurn hala.

En allt í einu brá svo við, að hver maður fyllti ílát sitt á hálfri fjöru. Hvað stóð til fyrir maðkinum? Hann óð uppi, skreið frá dýpra sjónum inn á hinn grynnra og gaf sig til. Það mun þó ekki hafa verið eins um hann og landsynningsgrallarann, að báðir hafi þeir fundið á sér, að veður breyting var þegar á komin?

Eitt er víst, að aldrei urðu nein not að maðki þeim, er þannig var ör, því að áður en fullbeitt var lóðin, var stórbrim komið og öskrandi hafrót. Þannig spáði hann, þótt sjóndaufur væri, linur í fótum til hlaups og vit hans sennilega eigi á marga fiska.

Þetta var nú samt bara fjörumaðkur, sem vissi sínu viti, og var eigi um að villast, hvað hann vissi: ,,Ykkur verða engin not að mér!“ Óveðrið var á skollið, án þess að nokkurn grunaði neitt um það.

Sama máli var að gegna um háfinn sem fjörumaðkinn, landsynningsgrallarann og fleiri, og áhrif þau, er þeir virtust verða fyrir af veðráttunni: Væri óvenjulega mikið af háfi í lóðinni, svo að naumast sæist neinn annar fiskur, var hafátt í vændum, einkum suðaustanátt og brimhroði, og tók þá með öllu frá um lengri tíma. Svo var að sjá sem sjávardýr þessi fyndu á sér veðurbreytinguna, jafnvel 2-3 dægrum áður en hennar varð verulega vart.

Brunnklukkur og vatnskettir

Gengi maður meðfram lygnum tjörnum, fergins- og sefflóðum, sem slegin höfðu verið og voru auð og graslaus, sáust þar oft smábólur og hringir í vatninu. Var þá veðrabreyting í vændum, hvassviðri og úrkoma. Mun þetta hafa stafað af því, að brunnklukkur, vatnskettir og aðrar pöddur, er falizt höfðu niðri í for og leðju vatnsins, hafa komizt á kreik og valdið vindbólum þessum og sennilega fundið á sér, að veðurbreyting var í vændum, eins og t. d. fjörumaðkurinn undir brim og hafrót.

Fiskitorfur og fuglager

Þar sem fuglager, súla, máfar, teistur og lundi, safnast saman, er það eins og snjódrífa sé þar og fenni ákaft. Þetta er,öruggt merki um það, að þar undir og eigi fjarri yfirborði sjávar séu fiskitorfur miklar og síli, sem fuglagerið er að gramsa í. Sé þangað leitað með lóðir eða færi, fæst þar oft asfiski mikið á skömmum tíma, en þá er og ástæða til að líta til loftsins, því að oft segir þetta til um það, hvaða veður er í vændum, en jafnframt um það, hver áhrif veðrið hefur á fiskitorfur þessar og fuglager: Líti maður til austurfjallanna, Heklu, Tindfjallajökuls, Goðalands, Þórsmerkur og Eyjafjallajökuls, eru þau öll tandurhrein, svo og fjöll öll norður og vestur frá Heklu, nema Eyjafjallajökull eða syðsta tá hans. Þar er skýjakúfur skjannahvítur að ofan, en dökkur að neðan. Hvergi annars staðar er ský að sjá og logn er á öllu þessu svæði, aðeins andvari og vart finnanlegur af norðaustri. Skýjakúfurinn á Eyjafjallajökli þokast upp á við og færist í aukana, en fiskitorfurnar og fuglagerið hverfur með öllu mjög bráðlega og leitar til djúpmiða eða lengra á haf. Vonum bráðar hverfur fiskurinn einnig frá yfirborðinu og fuglarnir tvístrast, setjast á sjóinn og snúa nefi í áttina, sem vindurinn stafar frá.

Á sama dægri eða hinu næsta er á skollið ofviðri, fannfergja og frost á vetrum, en óhemju hrakviðrisregn á sumrum. – Fuglarnir tvístrast í allar áttir og leita skjóls, en fiskitorfurnar hverfa niður í sævardýpið, og er þeirra þá helzt að leita á hraunmiðum eða undir hraunbrúnum. Sé leitað þar, fæst að vísu reitings fiskur, en tregur mjög, þótt veðrinu sé slotað.

Hrafninn

Hann er enginn eftirbátur annarra fugla eða dýra með veðurspár sínar og annan vísdóm. Þegar hann flýgur hátt í lofti, steypir sér eða hvolfir, sem kallað er, veit það á fárviðri. Þannig hegðaði hann sér morguninn 29. marz 1883, er mannskaðinn mikli varð í Þorlákshöfn og manndrápsbylinn mikla gerði, er stóð dag þann allan og næstu nótt.

Svo mikil er trú manna á hrafninum, að sjómenn snúa oft aftur með skipshöfn sína á göngu til skips, þegar þeir mæta hrafni á leið þeirra, eða hann flýgur á móti þeim. Hafa þeir þá séð, að eigi er heppilegt að halda lengra. Illviðri eða óhöpp hafa mætt þeim, ef þeir tóku þetta eigi til greina, heldur héldu ferð sinni áfram. Aftur á móti er það góðs viti, ef hrafn flaug með manni, settist niður við og við, flaug síðan upp aftur og fylgdist lengra með honum í sömu átt sem hann fór, gangandi eða ríðandi. Dæmi eru til þess, að hrafnar hafa þannig, einn eða fleiri, fylgt manni allt að 40 kílómetra veg ( úr Reykjavík austur á Hellisheiði), en snúið þar aftur.

Hrafnar hafa oft sagt það fyrir, að nú færu menn að fiska og veður að batna. Hafa þeir þá verið kátir mjög, eins og krakkar, og hið alkunna gorhljóð þeirra verið ofarlega í þeim.

Eftirfarandi sönn saga sýnir forvizku hrafnanna:

Fjöldi nautgripa var á beit. Meðal þeirra var naut eitt. Fólk vann að heyvinnu þar nærri, en húsbóndinn fór í kaupstað daginn þann og bjóst við að verða mestan hluta dagsins í þeirri ferð, enda dvaldist honum oft alllengi í þeim ferðum sínum, því að hann var ölkær í meira lagi. Um hádegisbilið sér engjafólkið, að margir hrafnar safnast saman að kúahjörðinni. Ráðast hrafnarnir mjög að nautinu einu, en kýrnar létu þeir með öllu afskiptalausar. Engjafólkinu fór að þykja nóg um atfarir hrafnanna gagnvart tuddagreyinu og reyndi hvað eftir annað að stugga þeim frá, en það kom eigi að haldi: Hrafnarnir voru margir, og þeir ólmuðust að nautinu allir í senn, hvar sem það fór og hvernig sem það reyndi að verja sig. Þeir settust á höfuð þess og hrygg, bitu það og stungu. Engjafólkið skildi ekkert í þessu, en síðar um daginn sá það, hvers kyns var. Að nóni liðnu kom sendimaður kaupmanns með þau skilaboð frá húsbóndanum, að hann hefði selt kaupmanni nautið þá um daginn til slátrunar í skip eitt, er á höfninni lægi, og fara ætti til útlanda þá um nóttina. Maðurinn fór með nautið, og var því slátrað um daginn. Hvað höfðu svo hrafnarnir fyrir snúð sinn?

Bóndinn hirti slátrið og fór af stað heim með það, varð drukkinn og týndi því á leiðinni. Meðan maðurinn svaf og hestar hans veltu ofan af sér, söfnuðust allir hrafnarnir, sem til sáu, saman hjá slátrinu og átu það.

Þegar hrafninn flýgur lágt með miklu gargi og hvolfir sér á fluginu, veit það ávallt á illviðri. Í góðviðratíð, eða sé hún í vændum, flýgur hann hátt og er hljóður.

Jaðrakan

Fugl þessi hinn fagri mun óvíða finnast nema í Árness- og Rangárvallasýslum. Einkum er hann alkunnur í Flóanum, Grímsnesinu og Holtunum. Áður fyrrum var Breiðamýri illfær mjög yfirferðar mönnum og fénaði, áður en áveitan kom til sögunnar, því að þar var hver keldan annarri verri, fenin og flóðin víða mjög og æði mörg. Lægi leið manna yfir ár eða læki, voru þeir oft lengi að leita að vaði til að vaða yfir eða ríða, en fundu engin.

Þannig var maður nokkur, Markús gamli á Hellum, einu sinni að leita að vaði á Hraunsá. Brú var þar enn engin, en plankar, sem þar höfðu verið, höfðu flotið af í vorleysingunum um vorið eða sjávarflóði um veturinn.

Meðan Markús var að ganga fram og aftur með ánni og leitast við að komast yfir hana á vaði, kemur til hans fugl einn fljúgandi, og segir fuglinn: ,,Viddi-ví? viddiví?“ Þetta skildi Markús svo sem hann væri að segja: ,,Viltu yfir?“, og kvað Markús já við því. Sagði þá fuglinn· ,,Vadd´údí, vadd´údí !“ Markús lét sér það að kenningu verða, óð út í, en hakaði naumast vatnið, varð reiður við fuglinn og sagði : ,,Hafðu skömm fyrir ! Þú ert að narra mig, ófétið þitt!“ Sagði þá fuglinn: ,, Vaddu vodu? Vaddu vodu?“ ,,Ójá“, sagði Markús, ,,en það er ekki þér að þakka, þótt ég hefði það af“. Sagði þá fuglinn: ,,Vidduði ! Vidduði !“, og tók þá Markús til að vinda sig, og flaug þá fuglinn í brott og sagði: ,,ó hæ! ó hæ! ó hæ!“

Oft þóttust menn hafa himin höndum tekið, er þeir hittu fugl þennan á leið sinni yfir Flóann, því að þeir voru sannfærðir um, að þvílíkur leiðtogi greiddi þeim veg yfir torfærur allar, enda höfðu þeir sannreynt hann að þeirri góðsemi við sig. Jaðrakan er oft uppi um öll tún að tína maðk, en aðeins þá, er regn er í vændum. Segir fugl þessi þannig til um veðrið, og mun óhætt að trúa honum til að segja satt.

Um þessa spádómsgáfu jaðrakansins og málfæri hans vil ég segja þetta: Spádómsgáfa hans er hliðstæð því, sem um önnur dýr má segja, eigi síður fugla en annarra.

Þau eru oft nærfærin um þá hluti og finna það á sér, ef veðrabreyting er nærri, og má finna þess ótal dæmi, sum þeirra má jafnvel finna í því, er hér verður sagt um þau efni.

Málfæri fugls þessa er og hliðstætt því, sem vér mennirnir þykjumst geta ráðið af ýmsu „tali“ annarra fugla, er líkist ýmsum orðum í máli voru. Má þar benda á heiðalóuna, er segir: ,,dýrðin, dýrðin“, svo og lóminn, er segir: ,,ugga-tra, ugga-tra“ (óræktmerki um þurrk), og fleiri „orð“, og enn má benda á hávelluna, er segir: ,,áv-ra, áv-ra“, þegar gott er sjóveður að morgni dags. Vill hún þá, að menn ári báta sína, taki til áranna – og rói!

Á uppvaxtarárum mínum var jaðrakaninn daglegur gestur á æskuheimili mínu. Heyrði ég hann þá oft segja „orð“ þau, er hér eru eftir honum höfð. Hann var svo mannelskur, að við krakkarnir gátum stundum nærri handsamað hann, en við hundana var hann svo ertinn og spaugsamur, að hann lét þá elta sig um öll tún og stundum út í mýrar. Ávallt þá, er hann flögraði undan , sagði hann: „ó-hæ, ó-hæ, ó hæ!“ „Orðin“ viddi-ví, vadd-údí, vaddu vodu, víddu-ði og vídd-údí, voru svo lík því, sem vér sögðum: Viltu yfir, vaddu út í, varðstu votur, vittu þig og viltu út í, að þetta hefur ef til vill verið sett saman til þess að gera frásögnina sögulegri, en auk þess, sem ég kannaðist vel við orðin og þýðingu þeirra, skrifaði P. Nielsen mér söguna, eins og hún er skráð hér, aðeins lét hann eigi getið nafns Markúsar á Hellum, heldur Jóns skotta (Jónssonar frá Sýrlæk, Gottsvinssonar), en ég hafði löngu áður heyrt Markús sjálfan segja söguna eins og P. Nielsen skrifaði mér hana, nú fyrir 15 árum (1922).

Endur, æðar og hænsni

Tamdar endur halda sig oftast inni við í votviðratíð og rigningu, en jafnvel áður en upp styttir og oft degi fyrr, eru þær komnar út á hlaðvarpann, húsagarðinn og haugana, róta þar öllu um og rífa. – Hið sama má segja um hænsni.

Viltar endur, einkum fiskiendur, hamast og ólmast mjög undir illviðri, fljúgast á og eltast með busli miklu og bægslagangi. Verður þess þá eigi lengi að bíða, að ofsaveður skelli á, innan eins eða tveggja dægra, þótt lygnt veður hafi verið og stillt áður.

Æðarfuglinn. Við lendingarstaðinn á Stokkseyri er lón eitt allstórt, er Blanda heitir. Vestan til í lóninu er sker nokkurt, er Bóndi nefnist. Kringum sker þetta og inn af því má oftast sjá mergð fugla, einkum æðarfugl, endur, máfa, veiðibjöllur og svartfugl, en aðeins þá, er brim er komið og hafhroðar í sjó og lofti. Hverfi þeir þaðan, er þeirra hvergi annars staðar að leita en frammi á brimgarði, innan hans eða utan. Næstu nótt eða daginn á eftir er komin rakin norðanátt, og halda fuglar þessir sér þar úti, meðan sú veðrátta varir, en bregði til hinnar sömu hafáttar, eru þeir komnir inn að landi einu eða tveim dægrum áður en veðurbreyting þessi verður.

Sama máli er að gegna á Eyrarbakka. Þar eru fuglar þessir inni á innstu lónum í illviðrum af hafi, en undir norðanáttina eru þeir komnir vestur í mynni Ölfusár, Hásteinafjörur og Hafnarleir.

Hátterni fugla þessara er ein hin áreiðanlegasta bending um það, hvernig viðra muni næstu daga eða lengur austur þar. Einkum er það eftirtektarvert, að sé æðarfuglinn nærri landi, boðar það hafátt og hroðaveður, en sé hann fjarri landi og þá helzt frammi í brimgarði, er hreinviðri og kæla í vændum.

Krían, mávar og svartbakur

Komudagar kríunnar hingað eru taldir að vera ákveðnir mjög: frá og með 11. til 16. maí, en „sjaldan bregður mær vana sínum“ um það, að hún komi á sjálfan krossmessudaginn, 14. maí, a. m. k. hingað á Tjörnina. Sveimar hún þá snemma morguns, 3-4 kríur í einu, yfir Tjörninni og hólmanum þar. Er þar áreiðanlega um könnunarflug að ræða: Athuga, hvort enn sé allt eins og árið áður, en einkum þó, hvort hólminn sé á sömu slóðum, enda verður hann alhvítur að áliðnum degi sama dag, sem eigendur hans, þessir svartkollóttu, hvítu vinir, telja sig viðbúna til þess að taka þar heima ásamt nokkrum öndum, er þar eru fyrir.

Brátt fer að bera á því, að krían leiti upp um túnin eftir maðki og öðru góðgæti, er hún sækir svo mjög eftir að afla sér. Þegar langvarandi norðanátt hefur staðið, og enginn lætur· sér til hugar koma, að nein breyting verði á veðráttunni, má sjá kríuna koma upp um öll tún, sitja þar eða sveima. Er hún þá að bíða þess, að ánamaðkarnir og aðrar pöddur komi upp undir svörðinn, svo að hún sé þá til taks og geti gripið þá strax, er færi gefst, enda bregzt það sjaldan eða aldrei, að hellirigning er komin næsta dægur, því að þá gefur maðkurinn sig til og skríður upp á gangstígana og grasið, en þar sitja kríurnar í hópum og bíða þess, að makar þeirra, sem þá eru að veiðum – því að þeir skiptast um atvinnu þessa – færi sér maðk í gogginn.

– Hvers vegna sækir krían svo í tún, sem hún gerir, þegar þurrt er veður og engra maðka er von?

Hún finnur það á sér, að regn er nærri. Hún veit, að þá hlýtur maðkurinn að leita upp undir svörðinn, og þá vill hún vera viðbúin til að veiða hann.

Mávarnir eru oft í fylgd með fuglum þeim, er næst verða nefndir, og eiga því flest sameiginlegt með þeim, er að veðurspám lýtur, en· það er:

Svartbakurinn (veiðibjallan). Sennilega hef ég sagt sögu þá, er hér fer á eftir, annaðhvort í blaðagrein eða útvarpi, en hún sýnir, að fuglar þessir vita oft jafnlangt nefi sínu, þegar jafnvel um smávegis veðurbreytingu er að ræða.

Sumardag einn, í heiðskíru lofti og björtu veðri, fór ég í bíl austur yfir fjall. Það var um dagmálabil. Ekkert skýskaf sást á fjöllum eða í lofti.

Þegar við komum upp fyrir Skjöldu, í miðju Svínahrauni, var öll flatneskja hraunsins snjóhvít yfir að líta, alla leið að Kolviðarhóli, upp að Húsmúla og um alla Bolavöllu. Hvað var þetta? Hafði nokkur snjór fallið þarna á þennan eina blett? Nei, það var hvítfugl, svartbakur, hvítmávar og grámávar, sem þarna sátu, sennilega mörg þúsund talsins. Þeir sáust ekki vera að hafast neitt að, tína maðk eða annað. Við héldum áfram okkar leið, og enn stóð þurrkurin allan daginn. Að vísu sáum við austan að, að skýflóka dró upp á Hengilinn um miðmundabilið. Um’kl. 5 vorum við svo aftur á suðurleið á Kolviðarhóli, og er við komum niður í Svínahraun, voru þar allar götur fullar af vatni: Það hafði gert helliskúr um daginn, en hún hafði naumast náð upp að Hólnum og eigi lengra niðureftir en í mitt Svínahraun, m. ö. o. aðeins á það svæði, sem fuglarnir fylktu sér um fyrr um daginn. Við gátum ekki ályktað öðruvísi en svo:

Fuglarnir hafa vitað það fyrir fram, að þarna og hvergi annars staðar mundi rigna um daginn, og að þar væri veiði að leita. Nú var þar engan fugl að sjá, allir farnir fyrir svo sem einni stundu.

Svartbakur, mávar, ritur og hrafnar sveima hátt í lofti, án þess að sjáanlegt sé, að þeir hreyfi vængina. Er flug þeirra þá líkast svif- eða renniflugi, og veit það ávallt á meira veður og verra, oftast hvassviðri, rok og rigningu af norðaustri eða suðaustri og hafrót.

Lómurinn, hávellan og hegrinn

Þegar lómurinn situr á tjörn eða vötnum í votviðratíð: má oft heyra vanþóknunar-,,álit“ hans á tíðarfarinu, því að þá veinar hann aumkunarlega mjög og segir: ,,O-hú ! – o-hú !“ og situr við þennan söng sinn æðilengi án þess að fljúga upp. Aftur á móti verður hann léttari í bragði nokkrum dögum áður en upp styttir. Flýgur hann þá hátt í loft upp og segir : ,, Ugga-tra ! ugga-tra!“ Sökum þess, að menn hafa tekið eftir því, að lómurinn hefur spádómsgáfu mikla, hafa þeir þýtt þessi orð hans svo sem hann væri að segja þeim: ,,Þurrka traf! Þurrka traf!“ og að bráðum mættu konurnar á bæjunum fara að láta út þvott sinn, enda hefur þetta reynzt þeim óbrigðult. Eiga þurrkdagarnir að verða jafnmargir sem hann segir þetta mörgum sinnum.

Undir óþerri mikinn segir lómurinn mönnum einnig, hvers þeir megi vænta, með því að segja þeim, – oftast sitja þeir þá á vatni og teygja fram álkuna, – að nú breyti bráðum um veður, og segir þá lómurinn: ,,Marvott, marvott!“ Hefur það og jafnan reynzt svo, að veðrið hafi orðið vott sem mar.

Um þá, sem kvarta mjög undan hag sínum og kjörum, er sagt, að þeir séu að lemja lóminn.

Eins og kunnugt er, skipti merkisprestur einn, séra Eggert Sigfússon að Vogsósum, landsmönnum öllum, þeim er hann talaði við eða kynntist á annan veg, í tvo flokka og nefndi þá lóma, er honum gazt betur að, en hina skúma. Sýnir þetta, hversu miklar mætur hann hafði á fugli þessum. Var þetta nokkurs konar heiðursviðurkenning séra Eggerts Sigfússonar til ýmissa manna, en eigi var hún öllum veitt, heldur jafnvel torfengnari en krossar, og hef ég látið þess getið í skrifum mínum um þennan ágæta mann og merkilega, hvaða mælikvarða hann hafði við útdeilingu heiðursviðurkenninga sinna. Eftir margra ára vináttusambönd mín við séra Eggert Sigfússon hlotnaðist mér eigi heiður þessi og vegsemd fyrr en árið 1902, og á ég heiðursskjal það, er séra Eggert sendi mér þá, enn í fórum mínum, með nokkrum orðum hans um það, hvers vegna mér beri sá heiður, að vera hafinn upp í lómatignina.

Hávellan eða fóellan er einkennilegur, fallegur fugl, sem heldur sig helzt á tjörnum, flóðum og innfjörðum sjávar og oftast nærri landi. Heyrist þá oft til hans á nóttum og árla dags, og er hann’ auðþekktur á ,1málrómnum“, því að hann er nefmæltur mjög og nokkuð hávær. Í regnviðrum segir hann: ,,a-á-a, a-á-a, a-á-a, en er að því kemur, að upp stytti til betra veðurs og lygnara, segir hann: ,,áv-ra, áv-ra, áv-ra“, og hafa menn skilið það svo, að nú sé þeim óhætt að fara að ára báta sína, taka til áranna og róa, eins og áður er sagt. Norðan Sandskeiðs og sunnan Lyklafells voru grunnar tjarnir áður fyrrum og nú þurr moldar- eða sandflög. Hétu það Fóelluvötn, sem sýnir, að þar hafi fugl þessi haft aðsetur sitt frekar en á öðrum nærliggjandi stöðum.

Fóellan var oftast í stórhópum hér í Fossvogi á vorin, en nú heyrir maður aldrei til hennar þar, né heldur á ám, lækjum eða tjörnum hér nálægt bænum eða í nálægum sveitum.-

„Þegar hegrarnir fljúga til fjalla, fljóta vötn jörð yfir alla“, segir í vísu einni. Að áliðnu sumri, um höfuðdag eða eftir hann, sjást hegrar stundum í stórum hópum fljúga hátt mjög í lofti yfir láglendi frá sævarströndum til fjalla, og er það segin saga, að þá er hann brugðinn, og það til svo stórfelldra rigninga, að láglendi allt sekkur í vatni, ár og lækir flæða yfir, og má þá oftast telja, að heyverkum sé lokið með öllu.

Örsjaldan mun þetta þó verða á gagnstæðan veg: Að þá bregði til norðanáttar, öfugs útsynnings, kulda og fannkomu í stað rigningar.

Rjúpur, kjóar

Rjúpur. Þegar rjúpur fljúga af heiðum ofan niður á láglendi, er það oftast í harðindum og hagbönnum fyrir þær og fénað allan, en þá er eigi þess að vænta, að  harðviðrin linni. Í hægviðri og stillum drítur rjúpan aflöngum, hörðum spörðum, en flytji hún sig til hálendis, hlíða og fjalla, má af slóð hennar sjá, að hún hefur þá þunnlífi mikið, og er það talið órækt merki um linviðri og vætu. Fyrir harða vorið 1881 komu rjúpur snemma vetrar heim á fjallabæi.

Kjóinn. Hann er nefndur vætukjói og segir þá: ,,Mígá, mí-gá !“ og er þá regn í vændum. En sé hann í vígahug, segir hann: ,,Gný, gný!“ og lemur vængjunum títt mjög, snýr sér við í loftinu og steypir stömpum. Er þetta engu síður vottur um það, að regn sé í vændum en hitt, er hann segir: ,,mí-gá !“

Þegar smáfuglar, óðinshanar, lóuþrælar o. fl., verpa neðarlega við læki eða tjarnir, þykir það órækt vitni um, að þá sé þurrviðri í vændum, er vari lengi.

Fara þeir þá nærri um það, hversu vatnið í læknum eða tjörninni muni verða mikið eða lítið og nái eigi þangað, sem þeir hafa búið um sig vorið það. ·

Svanir, snjótittlingar, þrestir o. fl.

Búi smáfuglar um varp sitt hátt á rimum eða á þúfum, þar sem ólíklegt er, að vatn flæði upp í, er það merki um óþurrkatíð.

Þegar svanir halda sig mjög á heiðum uppi og sitja fjarri vötnum eða synda þar skamma stund í einu, boðar það úrkomu.

Þegar snjótittlingar og þrestir koma heim á hlað eða halda sig nærri hýbýlum manna, veit það á harðindi og hríðarveður.

Séu lóur og þrestir tíðir gestir á túnum, veit það á verra veður. Safnist lóur saman á túnum og harðvelli snemma sumars, t. d. í júlí og fyrra hluta ágústs, veit það á kuldaþræsing og þurrviðri.

Kýr, kettir, hundar

Kýrnar. Það er oftast helzt síðari hluta dagsins, en þó einkum á kvöldin, að kýrnar baula í sífellu og reka upp öskur. Menn hafa tekið eftir því og telja það nokkurn veginn sannreynt, að jafnmargir verði þerridagarnir sem kýrin rekur upp mörg öskur í röð.

Undir þurrviðri og í langvarandi þurrkatíð selja kýr verr en ella, og er þá gott- eins og reyndar ávallt endranær – að gefa þeim söl til átu, enda drekka þær þá meira en venjulegt er, og mjólka allt að þriðjungi meira en ella.

Kötturinn. Þegar kisa vill leggja sig eða kemur inn í þeim erindum, sér maður, að hún snýr sér marga hringi, áður en hún þykist hafa komið sér svo vel fyrir sem henni líkar. Loks hefur hún komið sér í stellingarnar, og sér maður þá, að hún snýr þjói sínu ávallt í þá átt, sem vindstaðan verður, þótt það verði í allt aðra átt en hún var, þegar kisa bjó þannig um sig. Dæmi:

Kisa lagðist niður, þegar hvöss vindstaða var af suðvestri. Nokkrum tímum síðar er komið hvassviðri af norðri, enda hafði hún snúið þjói sínu í þá átt, þegar hún lagðist niður, og bælt höfuð sitt inn á milli fóta sér og kreppt sig vel. Sleiki kisa sig upp fyrir eyrun, er betra veður í vændum. Sitji hún lengi úti í görðum eða túni, jafnvel þótt þá sé regn, verður þess eigi langt að bíða, að þurrkur komi og betra veður. Á vetrum boðar hún, að frostinu linni og að hláka eða þeyvindi komi innan skamms. Þvoi kisa sér um háls og bóga, frá höku og fram á lappir, veit það einnig á þeyviðri. Setji kisa upp gestaspjót, líður eigi á löngu, að gest beri að garði. Sjaldan malar kisa mikið undir vont veður eða meðan það varir. Menn tala um, ,,að koma einhverju fyrir kattarnef“, og að það tákni algera eyðileggingu, því sé bráður bani búinn og tortíming, sem nærri komi munni kattarins.Þegar kisa er með fyrirgang mikinn, hleypur um og er óróleg, er rok í vændum.

Hundar spá sjaldan veðri. Er það ef til vill vegna samvista þeirra við mennina og þeir því oftast inni við. Fundvísi þeirra og lyktnæmi er við brugðið: Leita þeir oft uppi fé í fönn og leggjast þar, unz að er komið, og gjöra vart við fund sinn með því að spangóla hátt, en með því vekja þeir oft athygli manna á því, hvar þess er að leita, sem týnt er og leitað er að. Í leitum sínum snuðra þeir um allt, þefa af öllu, sem á vegi þeirra er, en einkum af sporum manna og dýra. Hundar spangóla oftar undir þurrt veður en vott. Fjármenn og smalar vita það bezt, hversu brosmildir þeir eru, er þeir fara til vinnu sinnar í góðu veðri, og hvern kjark þeir setja í sig, ef vont veður er í vændum. Þegar út er komið, sýna þeir hetjulund sína.

Leave a Reply