Guðni Jónsson prófessor
Guðni Jónsson Prófessor

Guðni Jónsson prófessor

Grein þessi eftir Björn Þorsteinsson um Guðna er rituð í tímaritið Saga, 1. tölublað, 12. árgang 1974, bls. 5-11.

Guðni Jónsson, prófessor,
1901-1974

In memoriam

„Mildir, fræknir
menn best lifa”,

segir í Hávamálum, og mildur og frækinn maður andaðist 4. mars 1974. Guðni Jónsson var einna afkastamestur og hugprúðastur íslenskra fræðimanna í 40 ár og aðalmeistari þeirra, sem hlutu menntun sína í íslenskum fræðum við háskóla vorn fyrir síðari heimsstyrjöld. Hann samdi, þýddi, bjó til prentunar og sá um útgáfu á miklum fjölda bóka, sem prýða heimilisbókasöfn um allt land. Enginn núlifandi Íslendingur annar en Halldór Laxness mun jafnfyrirferðarmikill í íslenskum bókahillum og Guðni Jónsson. Ég tel hjá mér 47 bækur, sem hann hefur gefið út, frumsamið og safnað til, og á ég þó ekkert af ættfræðiritum hans. Elja hans, vinnugleði og atorka var frábær. Magisterstitillinn var tengdur nafni Guðna Jónssonar á annan hátt en annarra manna með sömu menntun. Hann var meistari okkar Íslendinga um alla aðra menn fram, íslensk-menntaður í íslenskum fræðum; í því lá styrkur hans og veikleiki í senn. Hann var af sjósóknurum kominn, reri sjálfur tvær vertíðir á Suðurnesjum á árum fyrri heimsstyrjaldar, og var hinn mikli formaður alþýðlegra fræðimanna. Ég þekkti marga, sem nefndu Guðna Jónsson aldrei annað en Guðna sinn eða hann Guðna okkar.

Æviatriði

Guðni Jónsson var fæddur á Gamla-Hrauni á Eyrarbakka 22. júlí 1901, einn 17 barna Jóns Guðmundssonar bónda þar og sjósóknara og konu hans Ingibjargar Gíslínu Jónsdóttur. Guðni ólst upp til 12 ára aldurs á Leirubakka á Landi hjá Sigurði bónda Magnússyni og Önnu konu hans Magnúsdóttur. Jón, faðir Guðna, veiktist 1899, og átti lengi í höfuðmeini, og var bærinn seldur ofan af þeim hjónum árið sem Guðni fæddist og fjölskyldunni dreift. Þá fór Ingibjörg með svein sinn 12 vikna í vinnumennsku að Leirubakka og var þar næstu tvö árin, en fluttist þá í nágrenni manns síns. Þeim tókst að setja saman bú að nýju, en hjónin á Leirubakka töldu sig ekkert muna um að fæða drenginn Guðna, svo að hann dvaldist hjá Landmönnum, uns hann fór að vinna fyrir sér 12 ára, og unglingur reri hann í tvær vertíðir eins og áður sagði.

Á unglingsárum eignaðist vinnupilturinn Guðni Jónsson
Sæmundar-Eddu og lá yfir Edduskýringum vetrarlangt öllum frjálsum stundum. „Ég komst að vísu að raun um það síðar, að ég hafði misskilið ýmsa staði, sem ég hafði verið að glíma við að skilja hjálparlaust. En það gerði ekki svo mikið til. Hreinn andvari norrænnar heiðni og hetjualdar hafði leikið um hug minn og feykt burt öðrum og hættulegra misskilningi. Þennan vetur fann ég sjálfan mig”, segir Guðni í formála að Eddulyklum, sem hann samdi rúmlega 30 árum síðar. Af óskýrgreinanlegum fræðaþorsta braust öreiginn Guðni Jónsson til náms. Enginn hvatti hann, en hann var hraustur og duglegur að hverju sem hann gekk, og ágætur námsmaður. Systir hans, Dagmar, gift Valgeiri Jónssyni síðar trésmíðameistara bjó bjargálna í Reykjavík, og skutu þau hjón skjólshúsi yfir námsmanninn. Með styrk þeirra komst Guðni til mennta. Hann lauk magistersprófi í íslenskum fræðum við Háskóla Íslands 1930, og var kennari við ýmsa skóla, en við Gagnfræðaskóla Reykvíkinga frá 1928—45, og síðan skólastjóri þar frá 1945—57, en þá hét skólinn reyndar Gagnfræðaskóli Vesturbæjar. Hann varð doktor við háskólann 1953, var prófessor í sögu Íslands 1958—67, en þraut þá heilsu, fékk heilablóðfall og náði sér aldrei aftur. Hann starfaði í ýmsum fræðafélögum, var heiðursfélagi Árnesingafélagsins í Reykjavík, forseti Sögufélagsins 1960—65, formaður Ættfræðifélagsins 1946—67, í stjórn Hins ísl. þjóðvinafélags 1943—56, forseti heimspekideildar háskólans 1959—61 og kjörinn í Vísindafélag íslendinga 1959.

Helstu útgáfur

Eitt af stórvirkjum Guðna Jónssonar var að gera íslenskar fornbókmenntir aðgengilegar alþýðu manna og þar með að kjarna í flestum heimilisbókasöfnum hér á landi. Hann var að rækja skyldur sínar við vinnupiltinn Guðna Jónsson, sem rýndi í gamla daga í fornar bækur austur í Rangárþingi. Hann vann mikið starf við elstu alþýðlegu heildarútgáfu íslendingasagna, sem venjulega er kennd við Sigurð Kristjánsson og Valdimar Ásmundsson en hefði að lokum átt að kennast við Guðna Jónsson. Þá stofnaði hann til nýrrar stórútgáfu íslenskra fornrita 1946, — Íslendingasagnaútgáfunnar, sem nú telur 42 bindi, en sjálfur sá hann um útgáfu 32 binda. Nafnaskrá hans við íslendingasögurnar, 441 tvídálkasíða er gríðarlegt verk, sem ég held að enginn einn íslenskur fræðimaður hefði ráðist í annar en Guðni Jónsson. Guðni vann einnig að útgáfu Íslendingasagna á vegum Hins ísl. fornritafélags, gaf út fyrir það Grettis sögu, Bandamannasögu og Odds þátt Ófeigssonar. —

Hann tók saman nafna- og atriðisorðaskrár við Þjóðsögur Jóns Árnasonar, mikið þarfaverk á sínum tíma. Nafnaskrár hans eru ómetanlegt tæki hverjum þeim, sem fæst við íslensk fræði, og Íslendingasagnaútgáfan var áfangi í útgáfu íslenskra fornrita. Að baki henni liggur mikið starf, en Guðni var óverkkvíðinn fullhugi, sem sást ekki fyrir, en vann öll störf sín í þágu íslenskra fræða af ást á viðfangsefninu og því fólki sem naut fræða hans og um var fjallað. Ég vissi aldrei til þess, að hann væri að vinna sér til lofs eða lærdómsfrægðar, heldur var hann að þjóna fræðum og fólki, sem hann unni. Hann var af þeirri kynslóð, sem við höfum átt einna fræknasta og kennd er við aldamótin og átti sér hugsjónir. Íslensk menning og fullveldi var honum hjartans mál. Annars bar hann aldrei tilfinningar sínar á torg, var sterklundað ljúfmenni. Eftir Guðna liggur m.a. um 2.500 blaðsíðna þáttasafn: Íslenskir sagnaþættir og þjóðsögur, 12 hefti og Skyggnir, safn íslenskra alþýðufræða, 2 hefti. Þar munu menn kynnast einna best forsendunum að lýðhylli fræðimannsins Guðna Jónssonar. Þættirnir eru margir misjafnlega vel skrifaðar hetjusögur af hversdagslegu fólki, fjalla um basl og baráttu einstaklinga eða drauga, en ekki félagshópa. Það voru frændur hans Björns í Brekkukoti, sem
áttu hug Guðna allan. Það er mikið um fagurt mannlíf í
þáttasöfnum hans eins og í bókinni um torfbæinn við tjörnina. Úr þeim akri var Guðni sprottinn. Kjör þessa fólks þekkti hann til hlítar og því helgaði hann starfsdag sinn.

Ég ætla mér ekki þá dul að gera hér grein fyrir öllum ritum Guðna Jónssonar. Hann var mannblendinn og stóð traustum fótum meðal samtíðarmanna sinna, og þeir vissu, að hann var boðinn og búinn að leggja hverjum lið, sem lúrði á fróðleik, og betri liðsmaður var torfenginn. Hann var gæddur næmum málsmekk, var hagmæltur vel og ósérhlífinn samstarfsmaður. Hann var hægri hönd Valgerðar Benediktsson, er hún tók saman minningar sínar, blés Austantórum Jóns Pálssonar út til okkar og efldi þá Þórð á Tannastöðum, Sigurð föðurbróður sinn og marga aðra ágæta sögumenn til frásagna. Sagnasafn Guðna er stórmerkt, en bíður úrvinnslu eins og flest annað í íslenskum fræðum. Guðni segir í formála fyrir fyrsta sagnakveri sínu 1940, að enn sé sagnagarður alþýðumanna svo auðugur, „að hann mun bera ríkulegan ávöxt hverjum þeim, sem rækt vill við hann leggja”, og Guðni Jónsson var ríkur af ræktarsemi.

Hafsjór af fróðleik

Enginn íslenskur fræðimaður hefur gert fæðingarsveit sinni önnur eins skil og Guðni Jónsson. Eyrarbakki, fæðingarstaður hans, var samhrepptur Stokkseyri til 1897, en um eyrina samdi hann eins konar trilógíu, þriggja binda verk, 1085 bls. samtals.

Stokkseyringasaga Guðna hefst á ættfræðiriti: Bólstaðir og búendur í Stokkseyrarhreppi, 462 síður, doktorsritgerð, þar af er nafnaskrá 66 tvídálkasíður, og mun ritið greina frá um 2.500 manns eða viðlíka mörgu fólki og Sturlunga. Síðari bindin tvö, Stokkseyringasaga I. og II., eru 623 síður, þar af 30 síðna tvídálka nafnaskrá. Ritið greinir frá tæplega 1000 mönnum og geymir myndir af 360 eða rúmlega þriðju hverri söguhetju. Stokkseyringasaga þykir mér merkust bóka, sem Guðni Jónsson samdi, en þar er ekki einungis sögð saga fólks, atvinnuhátta og menningar í litlu þorpi við brimsollna strönd, heldur er þar skyggnst rækilega inn í sögu þjóðarinnar einkum á breytingatímunum miklu á 19. og 20. öld. — Þá hefur Guðni samið Sögu Hraunshverfis á Eyrarbakka og Gríms Gíslasonar á Óseyrarnesi og rakið niðjatal hans, en í þeim fræðum er fjallað um sögu sama byggðarlags og Stokkseyringasaga greinir frá. Um þá Stokkseyringa hefur hann samið um 2.000 Skírnissíður, en auk þess hefur hann gefið út um þá ýmis þáttasöfn og Söguna af Þuríði formanni eftir Brynjólf frá Minnanúpi.

Dr. Björn Karel Þórólfsson sagði um Bólstaði og búendur við doktorsvörn Guðna, að þar væri „dreginn saman svo mikill fróðleikur, að ekki verður jafnað við annað en hafsjó. Það verða vafalaust margar sveitir hér á landi, sem öfunda Stokkseyringa af því fræðasafni, sem þeir eignast hér um sveit sína að fornu og nýju, forfeður sína, sjálfa sig og ættfólk sitt. — Aðdrættir til bókarinnar eru stórvirki, enda hefur þess orðið vart fyrr, að doktorsefni er vel sýnt um að draga saman efni úr mörgum þáttum”. Og ennfremur sagði Björn: „Ég hef prófað ábúendatölin á víð og dreif. Ekki hef ég fundið villur í því, sem ég hef athugað, en síst mundi ég kalla það tiltökumál, þó að villur fyndust í svo umfangsmiklum upptalningum sem ábúendatölin eru”. Hér mælti sá, sem gerst þekkti. Guðni komst næst því allra manna að gera byggðarsögu eins hrepps tæmandi skil. — Þá liggur eftir hann saga Apavatns í Grímsnesi, jarðar og ábúenda, og saga Háskóla Íslands fyrstu 50 árin; hvort tveggja hin traustustu rit.

Ritskrá Guðna Jónssonar fyllir rúmlega 12 síður í stóru broti, svo að hér er fátt eitt talið. Hann var mikilvirkur ættfræðingur. Bergsætt, niðjatal Bergs hreppsstjóra Sturlaugssonar í Brattsholti, er 3 bindi, rúmlega 1500 bls. og nafnaskráin ein 337 tvídálkasíður, heill hafsjór af nöfnum. Hann skilaði furðulega miklu og vel unnu dagsverki, var hraustmenni, en sleit sér fyrir aldur fram. Hann var með öllu óskyldur sýndarvitringum, reyndi aldrei að leika goð á fræðastalli heldur vann hann hverjum, sem hann veitti lið, allt hvað hann mátti. Sjálfur barðist hann löngum í bökkum sem aðrir með stóra fjölskyldu.

Aðalstarf

Fræðistörf voru Guðna löngum tómstundagaman en ekki atvinna nema síðustu 10 árin, áður en hann veiktist. Hann var líklega sá maður, sem átti hér oft lengstan starfsdag, meðan heilsa entist. Hann var kennari að atvinnu, og gekk aldrei um garða með brauki og bramli, var manna jafnlyndastur, en glaður á góðri stund. Hann kenndi löngum við Gagnfræðaskóla Vesturbæjar, ljúfmannlegur fræðari, fullur velvildar til nemenda sinna og gladdist innilega, þegar þeim farnaðist vel.

Við skólann starfaði sérstakur og samheldinn en mjög sundurleitur hópur kennara frá dögum Ágústs H. Bjarnasonar og samþýddist aldrei kerfi nýrra fræðslulaga, Björn Bjarnason (Bjúsi) og Jakobína Thoroddsen (Bína), Sverrir Kristjánsson, Ingólfur Davíðsson, Jóhann Bríem og nokkrir aðrir ógleymanlegir einstaklingar fylgdu sinni eigin pedagogik undir forystu Guðna.

Það var erfitt að halda skólanum í horfinu eftir reiðarslagið á jólum 1945, er Knútur Arngrímsson lést af slysförum. Þá var Guðni eini maðurinn í hópi okkar, sem gat bjargað því sem bjargað varð, og það gerði hann. Eitt sinn höfðum við Guðni setið saman næturstund að vorlagi. Skólanum okkar var að ljúka. Það var fagurt í morgunsárið, og Guðni sagði að nú skyldum við ganga upp á Öskjuhlíð og fagna rísandi sól. Þegar þangað kom, hljóp hann upp á einn hitaveitugeyminn, en ég staðnæmdist fyrir neðan sökum lofthræðslu. Þaðan að ofan með morgunroðann í baksýn flutti hann ræðustúf um fegurð mannlífsins og lyfti glasi fyrir nýjum degi og bjartari framtíð. Þá á ég ógleymanlegasta mynd af fullhuganum Guðna Jónssyni.

Guðni var tvíkvæntur. Fyrri kona hans var Jónína Margrét Pálsdóttir frá Nesi í Selvogi. Hún andaðist 1936. Þau áttu 5 börn: Gerði, Jón, Bjarna, Þóru og Margréti, sem lést ung. Síðari kona Guðna, Sigríður Hjördís Einarsdóttir frá Miðdal í Mosfellssveit, lifir mann sinn. Þau áttu 4 börn: Einar, Berg, Jónínu Margréti og Elínu. Guðni eignaðist fyrsta barn sitt 4. mars 1926, varð afi 4. mars 24 árum síðar. Enn liðu 24 ár. Þá var það hinn 4. mars sl. að hann hvarf eða endurfæddist til þeirra heima, sem liggja handan við gröf og dauða. —

Björn Þorsteinsson.

Close Menu