036-Vatnsleiðslur og skolpræsi

Frá alda öðli hafa vatnsból Stokkseyringa verið brunnar, sem voru við öll hin gömlu grasbýli og einnig við flestar þurrabúðir. Ekki er vatn í brunnum þessum alls kostar gott. Borið hefir á, að flóðs og fjöru hafi gætt í þeim, sem næstir eru sjó, og finna þeir, sem vatninu eru óvanir, gjarnan saltbragð að því. Þá vill og þrjóta meira og minna í brunnunum í langvarandi þurrkatíð, og fór einkum að bera á því, eftir að Flóaáveitan kom, sérstaklega á bæjum fjær sjó, svo sem á Efra-Seli, Syðra-Seli og Hoftúni. Fyrir nokkrum árum var vatn úr nokkrum brunnum efnagreint, og reyndist það ekki gott neyzluvatn. Eru þó gömlu brunnarnir enn í notkun með þeim mismun frá því, sem áður var, að nú er vatnið úr þeim leitt í húsin. Mun hafa verið byrjað á því skömmu fyrir 1930, og nú eru vatnsleiðslur í næstum öllum íbúðarhúsum og fénaðarhúsum í hreppnum.

Horfur eru nú á, að ekki líði á löngu, unz Stokkseyringar fái betra neyzluvatn en þeir hafa hingað til átt að venjast, og víst er um það að þess er ekki langt að leita. Vorið 1958 fekk Hraðfrystihús Stokkseyrar jarðbor frá Jarðborunum ríkisins til þess að leita eftir vatni, því að frystihúsinu hafði verið bannað að nota gamla vatnsbólið, sem var brunnur niðri í flæðarmáli, er fór í kaf um flóð. Boruð var hola fyrir neðan sjógarð rétt fyrir vestan bryggjuna, litlu ofar í sandinum, 18,5 m. á dýpt. Fekkst þar nóg vatn til frystihússins og næstu húsa þar í kring. Vatnið var rannsakað í rannsóknarstofu Atvinnudeildar háskólans og reyndist gott og hreint. Hreppurinn fekk síðan lánaðan borinn, og voru boraðar þrjár holur fyrir hann: ein hjá Helgastöðum, ætluð til afnota fyrir kauptúnið, 10,4 m. á dýpt, önnur í túninu nálægt Bjarnahúsi, ætluð fyrir slökkvidæluna, 20.2 m. á dýpt, og sú þriðja í Stíghústúni rétt austan við Móakot, 9.7 m. á dýpt, ætluð fyrir austurhluta þorpsins. Enn fremur var borinn lánaður að Skipum til þess að leita eftir vatni þar. Á öllum stöðunum bar borunin góðan árangur, og fekkst nóg af sæmilega góðu neyzluvatni samkvæmt úrskurði atvinnudeildar. Engin af borholum þessum hefir enn verið virkjuð nema borhola frystihússins, sem hefir nú verið notuð í tvö ár. En allir þorpsbúar bíða þess með óþreyju, að hið heilnæma vatn streymi inn í hús þeirra til aukinnar hollustu. Þess skal getið, að kostnaður hreppsins við boranirnar nam kr. 29.186.23.

Á síðustu árum hefir verið unnið að því að leggja skolpræsi miðsvæðis um þorpið, og nær það nú austan frá Strönd og vestur í holræsið hjá Grímsfjósum. Eru öll hús á því svæði komin í samband við aðalræsið, vatnssalerni komin í húsin, en útikamrar horfnir. Sum hús á öðrum stöðum hafa frárennsli niður í sjó og enn önnur hafa safnþrær. Í heild sinni hafa orðið miklar framfarir í þessum efnum á skömmum tíma. Á árunum 1955-1958 varði hreppurinn kr. 177.527.45 til skolpræsa- og holræsagerðar.

Leave a Reply