Eftir að alþingi fekk löggjafarvald og fjárforræði með stjórnarskránni 1874, tekur það að snúa sér meira en áður að almennum framfaramálum innanlands, þótt hægt miðaði fyrstu áratugina. Meðal annars fylgdi alþingi þeirri stefnu að greiða fyrir verzlun og viðskiptum manna eftir föngum. Í því skyni voru á fyrstu löggjafarþingunum á hverju þingi löggiltir nýir verzlunarstaðir, Blönduós og Vestdalseyri 1875, Þorlákshöfn og Geirseyri 1877, Jökulsá á Sólheimasandi, Hornafjörður og Kópasker 1879 og Hesteyri og Kolbeinsárós 1881. Á þinginu 1883 voru svo löggiltir hvorki meira né minna en 10 nýir verzlunarstaðir, og meðal þeirra var Stokkseyri.
Heimildum ber saman um, að aðalforgöngumenn þess, að Stokkseyri varð verzlunarstaður, hafi verið þeir frændurnir Bjarni Pálsson í Götu og Grímur Gíslason í Óseyrarnesi.[note]Suðurland, 21. marz 1914; Óðinn X, 47 (1914).[/note] Af umræðum um málið á alþingi er ljóst, að það hefir verið undirbúið eftir föngum heima í héraði. Þorlákur Guðmundsson alþingismaður getur þess, að hann beri fram löggildingu Stokkseyrar eftir ósk fundarmanna í Árnessýslu og þingmenn héraðsins hafi meðferðis bænarskrá þessa efnis frá kjósendum sínum.[note]Alþingistíðindi 1883, B, 286 og 229.[/note] Verður að gera ráð fyrir, að þeir Bjarni og Grímur hafi gengizt fyrir fundi eða fundum um málið á Stokkseyri og ef til vill víðar, en því miður höfum vér ekki séð nánari heimildir um það. Einnig fengu þeir danskan skipstjóra af Eyrarbakkaskipi til þess að athuga hafnarskilyrði á Stokkseyri, skoða og mæla höfnina og innsiglinguna þar. Samkvæmt ummælum Sighvats Árnasonar alþingismanns var álit skipstjórans á þá lund, að Stokkseyri væri fullt eins hæf, ef ekki betur til verzlunar en Eyrarbakki, bæði hvað höfn og innsiglingu snerti. Þó hefði hann sérstaklega tekið innsiglinguna að Stokkseyri fram yfir innsiglinguna að Eyrarbakka og höfnina að því leyti, að skip á henni þyrftu eigi að liggja flöt fyrir hafinu eins og á Eyrarbakka. Á Stokkseyri geti skipin aftur á móti legið út og inn og innsiglingin sé nokkurn veginn bein frá hafi til hafnar. En hvað höfnina snerti að öðru leyti, bæði hvað botn og djúp snertir, hefði skipstjórinn talið hana líka Eyrarbakkahöfn.[note]Alþingistíðindi 1883, A, 378.[/note] Þessi undirbúningur málsins heima fyrir, fundahöld og athugun á hafnarskilyrðum, hefir sennilega farið fram snemma sumars 1883 eða að minnsta kosti fyrir þingtíma það ár.
Það voru þingmenn Árnesinga og Rangæinga, sem mæltu einkum með löggildingu Stokkseyrar sem verzlunarstaðar í umræðum á þinginu. Skúli Þorvarðsson alþingismaður á Berghyl dregur fram aðalrökin, sem með því mæla, á þessa leið: ,,Vegalengdin að Stokkseyri og Eyrarbakka er svo að segja hin sama úr fjarlægari héruðum. En þó skal eg leyfa mér að taka fram aðrar ástæður, ekki svo þýðingarlitlar, sem mér þykja mæla með því, að Stokkseyri verði löggiltur verzlunarstaður, úr því hún eftir skýrslum þeim, sem liggja hér í lestrarsalnum, verður að álítast tiltækileg til þess, bæði hvað höfn og kaupstaðarstæði snertir. Það er margra ára reynsla, að þær tvær verzlanir, sem nú eru á Eyrarbakka, hvergi nærri eru færar um að birgja sig því korni, sem nægi þeim sveitum, er nú reka verzlun á Eyrarbakka, sem að eru jafnaðarlega Vestur-Skaftafellssýsla, Rangárvallasýsla og meiri hluti Árnessýslu. Þá eru ekki önnur úrræði en að flýja hingað til Reykjavíkur eða Hafnarfjarðar, sem eru örðugar ferðir að haustinu og vetrinum til og afar kostnaðarsamar. Aðalhugsunin með því að löggilda Stokkseyri til verzlunar er sú að auka vörubirgðir á Eyrarbakka með því að stofna þriðja verzlunarstaðinn. Síðan verzlanirnar urðu tvær á Eyrarbakka, hefir verzlunin batnað að mun, og ef nú kæmi þriðji verzlunarstaðurinn þar í grenndinni, þá mundi verzlunarkeppnin verða enn meiri og verzlun færast enn betur í lag.”[note]Sama rit 1883, A, 377-78.[/note]
Þegar frumvarpið um löggildingu nýrra verzlunarstaða hóf göngu sína í þinginu, náði það aðeins til 5 nýrra staða, en þingmenn bættu smám saman við, þar til staðirnir voru orðnir 10. Við síðustu umræðu málsins í efri deild var skipuð í það þriggja manna nefnd, og skilaði hún svohljóðandi áliti: ,,Vér erum allir á einu máli um það, að rétt sé að greiða fyrir verzlunarviðskiptum manna með því að fjölga verzlunarstöðum. Með því sparast hinar miklu féreiður, tímatafir og hrakningar á mönnum, hestum og varningi, sem langar verzlunarferðir hafa í för með sér. Að hinu leytinu sjáum vér ekki svo brýna ástæðu til að halda óröskuðum þeim mismun réttinda, sem lög gjöra á lausakaupmönnum og fastakaupmönnum, þeim sem aðeins hafa verzlunarstjóra hér á landi, en búa erlendis. Þessi mismunur réttindanna minnkar að sama skapi sem verzlunarstaðirnir fjölga.”[note]Alþingistíðindi 1883, C, 319.[/note] Frumvarpið var síðan samþykkt og afgreitt sem lög frá alþingi, og skyldu þau taka gildi hinn 1. dag aprílmánaðar 1884.[note]Sama rit 1883, C, 338-339; Stjórnartíðindi 1883, A, 118. (Lög nr. 30, 8. nóv. 1883).[/note]
Löggilding sem verzlunarstaður er án efa einhver merkasti viðburður í sögu Stokkseyrar. Með henni voru sköpuð skilyrði til athafnalífs, sem áður var óþekkt í byggðarlaginu, grundvöllur lagður að vexti og viðgangi þorpsins á næstu áratugum. Skylt er því, að Stokkseyringar muni og heiðri nöfn þeirra manna, er forgöngu höfðu um málið bæði heima fyrir og á alþingi.
En þótt staðurinn hefði fengið réttindi til verzlunar, liðu svo 5 ár, að engin verzlun var sett þar á fót. Talið er, að þeir Bjarni í Götu og Grímur í Nesi hafi haft í hyggju að setja upp verzlun á Stokkseyri, en það dróst þó um sinn.[note]Óðinn X, 47 (1914).[/note] Má vera, að til framkvæmda hefði komið, ef Bjarna hefði notið lengur við, en hann drukknaði í lendingu í Þorlákshöfn 24. febr. 1887, og var að honum hinn mesti mannskaði fyrir margra hluta sakir. Mun Grímur þá hafa orðið afhuga því að setja upp verzlun sjálfur, en hins vegar gerði hann á næstu árum meira til þess en nokkur annar að skapa skilyrði til þess að gera Stokkseyri að lífvænlegum verzlunarstað með stórhuga framkvæmdum á staðnum. En áður en frá þeim verður skýrt, skal hér, svo að réttri tímaröð sé haldið, segja frá fyrstu verzluninni á Stokkseyri.
Sá maður, sem varð til þess fyrstur að setja á stofn verzlun á Stokkseyri, var Ívar Sigurðsson frá Gegnishólaparti. Hann var greindur maður, vel að sér og fjölhæfur og hafði aflað sér nokkurrar menntunar af sjálfsdáðum, verið sýsluskrifari í þrjú ár og síðan um þriggja ára skeið verzlunarmaður við Lefoliisverzlun á sumrum, en farkennari á vetrum. Hann réðst nú í það að setja upp verzlun á Stokkseyri. Keypti hann sér borgarabréf 8. febr. 1889 og opnaði verzlun með sitthvað smávegis snemma á vertíðinni það ár. Búðin var í dálitlu geymsluhúsi, sem Grímur í Nesi átti á Stokkseyri og stóð þar, sem síðar voru byggð verzlunarhúsin. Þar innréttaði Ívar fyrir búð niðri, en hafði lítið herbergi á lofti sem skrifstofu og svefnherbergi. Hann verzlaði aðallega með tóbak, brennivín, kaffi, sykur og ýmsar smávörur. Mest var verzlun hans á vetrarvertíð, og keypti hann mikið af blautum fiski, en svo var nefndur nýr fiskur. Fiskinn greiddi hann aðeins með vörum, og einnig hafði hann nokkra vöruskiptaverzlun á öðrum tímum árs, en ávallt var verzlun hans lítil. Gísli Jónsson hreppstjóri á Stóru-Reykjum, sem var við beitningar á Stokkseyri á vertíðinni 1892, segir svo frá verzlun Í vars: ,,Hann verzlaði þennan vetur í hjalli á Stokkseyrarhlaði og hafði á boðstólum kaffi, sykur, tóbak og romm. Hann mun fyrstur manna hafa keypt óslægðan fisk af sjómönnum; verðið var 9 aurar fyrir stykkið af ýsunni. Hann gerði svo sjálfur að fiskinum og saltaði hann. Saltið geymdi hann í stíu innst í sjóbúðinni okkar, og var það eitt klakastykki lengi fram eftir vertíð; svona var kalt í búðinni.“[note]Suðurland, 7. sept. 1957; sbr. enn fremur ummæli Bjarna Guðmundssonar ættfræðings um verzlun Ívars í Lbs. 2722 4to, bls. 1758.[/note] Frumbýlingsleg hefir verzlun Ívars verið, en þó hagnaðist hann allvel á henni og eignaðist upp úr því talsverða útgerð á Stokkseyri. Voru formenn fyrir hann Þorkell Magnússon í Eystri-Móhúsum, mikill aflamaður, og Jón Ólafsson frá Sumarliðabæ, síðar bankastjóri í Reykjavík. Naumast mun Ívar hafa rekið verzlun sína lengur en þrjú ár. Síðast er hann talinn á skrá yfir verzlun í Árnessýslu 1894, en víst er, að hann var þá fyrir nokkrum árum hættur verzlun fyrir eigin reikning. Þegar Stokkseyrarfélagið hóf starfsemi sína, sem síðar segir, gerðist f var fyrsti afgreiðslumaður þess.[note]Sjá að öðru leyti um Ívar: Óðinn XII, 61 -62 (1916); Íslenzkar æviskrár II, 407; Bólstaðir o. s. frv., 230.[/note]
Um þessar mundir var vaknaður mikill áhugi á því meðal bænda á Suðurlandsundirlendinu að efna til víðtækra verzlunarsamtaka, og var það álit flestra, að hentugasta aðalból slíks félagsskapar væri Stokkseyri. En þar vantaði enn allt, sem verzlunarstaður þurfti að hafa. Staðurinn var óvarinn fyrir sjávarflóðum, sem gátu, þegar minnst varði, gert mikinn usla; menn báru kvíðboga fyrir því, að enginn skipaeigandi mundi vilja hætta þangað skipum . sínum vegna þess, hve höfnin væri ótrygg, og loks vantaði algerlega húsnæði f)1rir meiri háttar verzlunarrekstur, vörugeymslur og því um líkt. Þau verkefni, sem hér þurfti að vinna að, voru allsendis ofviða eignalausu félagi, sem var að rísa á legg. En til allrar hamingju var maðurinn til, sem brast hvorki getu né áræði til þess að ráðast í nokkur stórvirki með óvenjulegum dugnaði og framsýni. Sá maður var Grímur Gíslason í Óseyrarnesi. Hann hafði mikinn áhuga á verzlunarsamtökum þeim, er nú sást hilla undir, og hann var eigandi meiri hluta Stokkseyrar. Hér gat hann gert tvennt í einu, að bæta jörð sína og búa í haginn fyrir framtíðina.Fyrsta stórvirkið, sem Grímur réðst í, var bygging afar öflugs sjógarðs fyrir landi Stokkseyrar. Verkið var hafið haustið 1890, og var unnið að því þá um veturinn og á næstu árum. Er þessu mannvirki rækilega lýst hér á öðrum stað.
Annað mannvirki, sem Grímur framkvæmdi á sinn kostnað, var að koma fyrir skipsfestum á legunni á Stokkseyri, svo að skip gætu legið þar, meðan þau væru afgreidd. Skipsfestarnar pantaði hann og fekk með „Spes”, fyrsta vöruskipinu, sem kom til Stokkseyrar vorið 1891. Um sumarið var unnið að því að setja festarnar niður á Blöndu. Voru öll skip síðan afgreidd þar, en ella hefði orðið að afgreiða þau fyrir utan brimgarð.
Þriðja mannvirkið, sem Grímur réðst í, var að reisa vörugeymsluhús mikið á Stokkseyri. Vorið 1893 keypti hann timburfarm af norskum lausakaupmanni í Reykjavík. Flutti hann farminn á skipi sínu „Íslandi” til Stokkseyrar og kom þangað 28. maí. Var unnið við smíði hússins um sumarið, unz fullgert var. Hús þetta var mikið stórhýsi, eftir því sem hér gerðist, 36Xl2 álnir að stærð, þrjár hæðir, sterklega viðað og þiljað í hólf og gólf. Það var seinna nefnt Félagshús og brann í brunanum mikla 1926. Stórhýsi þetta setti staðarsvip á þorpið. Mörgum þótti bygging þessi í fyrstunni mesta ráðleysa, en það kom fljótt í ljós, að Grímur hafði séð betur. Slíkt hús var eitt af skilyrðum þess, að meiri háttar verzlunarstarfsemi gæti vaxið upp á Stokkseyri.
Með framkvæmdum þessum gerðist Grímur í Nesi brautryðjandi verzlunar og athafnalífs á Stokkseyri. Hér var nú orðinn verzlunarstaður meira en að nafninu til. Sú þróun var mjög að þakka stórhug Gríms í Nesi. Má hann með réttu kallast öðrum fremur faðir verzlunarstaðarins á Stokkseyri.[note]Sjá að öðru leyti rit mitt: Grímur Gíslason í Óseyrarnesi. Ævi hans og niðjar, Rvík 1961.[/note]