Stokkseyri var landnámsjörð og stærsta höfuðbólið í Stokkseyrarhreppi, og er hreppurinn við hana kenndur. Jörðin var 60 hndr. eftir fornu mati og ávallt bændaeign á fyrri öldum. Þar hefir verið kirkjustaður síðan í fornöld og þingstaður hreppsins. Einnig hefir þar verið löggiltur verzlunarstaður síðan 1884, og allfjölmennt kauptún óx þar upp fyrir síðustu aldamót.
Stokkseyrar er getið fyrst í Landnámabók og eftir henni í Flóamanna sögu ( Íslendinga sögur I, 219-20; XII, 7). Gerðum Landnámabókar ber ekki saman um fyrstu byggð á Stokkseyri. Sturlubók segir, að Hásteinn Atlason hafi búið að Stjörnusteinum, en Hauksbók og Þórðarbók segja, að hann hafi búið á Stokkseyri. Úr þessu verður ekki skorið með vissu, en miklu teljum vér líklegra, að Stokkseyri sé sjálf landnámsjörðin.
Hinir fyrstu eigendur Stokkseyrar voru þeir feðgar Hásteinn Atlason landnámsmaður og synir hans, Ölvir og Atli. Eins og kunnugt er, nam Hásteinn allan Stokkseyrarhrepp hinn forna, en gaf Hallsteini í Framnesi hinn ytra hlut, sem svarar til núverandi Eyrarbakkahrepps. Hið eiginlega landnám Hásteins var því hið sama sem núverandi Stokkseyrarhreppur. Eftir að Hásteinn lézt, skiptu synir hans landnámi föður síns þannig á milli sín, að Atli eignaðist allt milli Grímsár ( síðar Skipaár) og Rauðár (þ. e. Baugsstaðasíkis), sem sé austurhluta hreppsins, og bjó í Traðarholti, en Ölvir eignaðist allt fyrir utan Grímsá, Stokkseyri og Ásgautsstaði. Þar eð Ölvir andaðist barnlaus, erfði Atli, bróðir hans, allar eignir hans, þar á meðal Stokkseyri. Eftir daga Atla Hásteinssonar, sem mun hafa dáið um 925, verður að ætla, að niðjar hans, Traðarholtsmenn, hafi átt Stokkseyri og byggt hana frændum sínum eða venzlamönnum. En það er sannast að segja, að allt frá landnámsöld og fram á 13. öld er ekki kunnugt um neinn ábúanda á Stokkseyri og engan eiganda með vissu fyrr en seint á 14. öld, þá bændur Jón Jónsson og Jón Brandsson á Stokkseyri, sem nefndir eru í Vilkinsmáldaga 1397.
Um og eftir miðja 15. öld bjuggu á Stokkseyri Sæmundur bóndi Jónsson og Sigríður Árnadóttir, kona hans, og áttu þau jörðina alla. Synir þeirra voru Jón og Árni. Eftir lát Sæmundar seldi Sigríður hálfa Stokkseyri í nóvember 1464 Jóni sýslumanni Ólafssyni í Klofa á Landi, föður Torfa ríka í Klofa, fyrir Eskiholt á Landi og þar til 15 hndr. Hinn 27. sept. árið eftir samþykkti Jón Sæmundsson þessi kaup móður sinnar og lofaði að tala þar aldrei upp á (Ísl. fornbrs. V, 451), og hinn 20. nóv. lét Oddur lögmaður Ásmundsson ganga tólf manna dóm í Skarði á Landi um kaup Jóns Ólafssonar og Sigríðar á Stokkseyri, og dæmdu þeir kaupið löglegt ( Ísl. fornbrs. V, 455-56). Loks sór Sigríður Árnadóttir í viðurvist lögmanns að Stóru-Völlum á Landi hinn 17. júní 1466, að hún hefði engum selt né gefið hálfa Stokkseyri nema Jóni Ólafssyni og ekki gefið Árna, syni sínum, 15 hndr. í þeim helmingi, er hún seldi Jóni, og engum fjörufar selt í greindum jarðarparti (Ísl. fornbrs. V, 463-64). Það virðist auðsætt af þessu, að mótmæli hafa komið fram gegn sölu Stokkseyrar, sennilega af hálfu Árna Sæmundssonar, og því hefir Jón Ólafsson þótzt þurfa að búa svo um hnútana, að kaupunum yrði ekki riftað síðar.
Svo er að sjá sem Jóni Ólafssyni hafi verið mikið í mun að ná kaupum á Stokkseyri, því að hann lét ekki hér við sitja. Hinn 24. júní 1471 keypti hann hinn helming jarðarinnar ásamt Ásgautsstöðum af Árna bónda Sæmundssyni fyrir Belgsstaði í Biskupstungum og 20 hndr. í Drumboddsstöðum. Auk þess skyldi Jón kaupa 10 hndr. í Drumboddsstöðum og fá Árna, en ef hann gæti eigi fengið þann part keyptan, þá skyldi hann fá Árna 10 hndr. í annarri jörðu og þar til 3 hndr. og leyfa honum fjörufar, svo lengi sem Árni lifði heima á Stokkseyri, með fleiri skilorðum, sem kaupbréfið greinir. Jafnframt samþykkti Árni að fullu og öllu kaup þeirra Jóns Ólafssonar og Sigríðar, móður sinnar, á hinum helmingi jarðarinnar fyrir sína hönd og sinna eftirkomenda ( Ísl. fornbrs. V, 618-20). Með kaupum Jóns sýslumanns Ólafssonar á Stokkseyrinni hefst merkur þáttur í sögu jarðarinnar. Eftir það var Stokkseyri öll í eigu sömu ættar þar til á síðara hluta 18. aldar, en hálf jörðin allt til ársins 1924 eða í samfleytt 460 ár. Nefnist þessi ætt í fyrstu Klofaætt, en sú grein hennar, sem átti Stokkseyri og sat þar öldum saman, nefnist Stokkseyrarætt.
Jón sýslumaður Ólafsson í Klofa kemur síðast við bréf árið 1471, sama ár og hann varð eigandi allrar Stokkseyrar, og mun hann ekki hafa lifað mörg ár eftir það. Jón var maður stórættaður, sonur Ólafs í Reykjahlíð Loftssonar hins ríka, Guttormssonar, og auðugur að jarðeignum og lausafé. Einkasonur hans var Torfi sýslumaður hinn ríki í Klofa á Landi, stórbrotinn veraldarhöfðingi og auðmaður. Hann er kunnastur fyrir deilur sínar við Stefán biskup og aftöku Lénharðs fógeta. Torfi andaðist árið 1504. Kona hans var Helga Guðnadóttir sýslumanns í Ögri, Jónssonar. Hún dó í Klofa um eða eftir 1544 áttræð að aldri. Þau Torfi og hún áttu mörg börn, sem erfðu öll miklar eignir. Einn sona þeirra var Bjarni, er átti Ingibjörgu Sigurðardóttur sýslumanns í Hegranesþingi, Finnbogasonar lögmanns, Jónssonar. Bjarni hefir dáið um 1540, því að tveim árum seinna giftist Ingibjörg í annað sinn. Sonur Bjarna og hennar var Sigurður lögréttumaður á Stokkseyri. Hann átti jörðina alla og hóf þar búskap árið 1558, fyrstur sinna ættmanna, svo að fullvíst sé. Hann hafði jörðina til kvánarmundar sér og hefir vafalaust tekið hana að erfðum og Stokkseyri gengið þannig í ætt Klofamanna, sem nú var talið, en bændur þeir, sem þekkjast á jörðinni á þessu tímabili, verið leiguliðar. Hugsanlegt er þó, að Bjarni Torfason hafi búið á Stokkseyri, en engar heimildir eru fyrir því; bústaðar hans er hvergi getið. Vér teljum því, að Stokkseyrarætt hefjist með Sigurði lögréttumanni Bjarnasyni, fyrsta eigandanum af Klofaætt, sem bjó með vissu á Stokkseyri.
Einkasonur Sigurðar var Bjarni lögréttumaður og Skálholtsráðsmaður, er bjó á Stokkseyri fulla hálfa öld (um 1601-1653) og erfði einn alla jörðina. Gekk um það dómur á alþingi 1605, að jörðin Stokkseyri með öllum reka væri lögleg eign Bjarna Sigurðssonar (Alþb. Ísl. Ill, 394). Bjarni var mestur auðmaður og virðingamaður sinna ættmenna, þeirra er á Stokkseyri hafa búið. Hann átti margt barna, en eftir því, sem næst verður komizt, erfði elzti sonur hans, síra Þorlákur prófastur á Helgafelli, hálfa jörðina, en bræður hans tveir, Gísli og Markús, hinn helminginn. Síra Þorlákur átti engin arfborin börn, og eftir lát hans 1673 gekk eignarhelmingur hans í Stokkseyri til áðurnefndra bræðra hans, sem skiptu þá allri jörðinni að jöfnu milli sín.
Eftir þessa skiptingu gekk hvor helmingur Stokkseyrar um sig að erfðum eða kaupum sem tvær sjálfstæðar jarðir væru í meira en tvær aldir. Náði skipting þessi til heimalands og hjáleigna, þannig að tilteknar hjáleigur fylgdu hvorum helmingi, en sameiginleg voru eftir sem áður ýmis hlunnindi jarðarinnar, svo sem hagar, torfrista, fjörugögn og reki. Jarðarhelmingarnir voru venjulega aðgreindir þannig, að þeir voru kallaðir vesturpartar og austurpartur. Hélzt vesturparturinn miklu lengur í ættinni, og skal greina fyrst frá eigendum hans.
Eftir lát Markúsar Bjarnasonar á Stokkseyri 1687 erfði Þórdís, dóttir hans, og sumpart keypti af systrum sínum allan vesturpartinn. Bjó hún og maður hennar, Guðmundur West, á Stokkseyri allan sinn búskap. Þórdís mun vera nafnkenndust allra ábúanda á Stokkseyri og er alkunn enn í dag undir nafninu Stokkseyrar-Dísa. Hún dó 1728. Dóttir hennar, er Guðrún hét, átti Jón Sveinsson á Stokkseyri, og erfði hún jörðina eftir móður sína. Einkadóttir þeirra var Þórdís, kona síra Einars Jónssonar prests á Ólafsvöllum, og erfði hún Stokkseyri og átti til dauðadags 1805. Ein dætra þeirra var Guðrún, kona Jóns hreppstjóra Ingimundarsonar á Stokkseyri, og erfði hún jörðina ásamt systrum sínum. Á uppboði, sem haldið var á dánarbúi mad. Þórdísar 30. maí 1806, keypti Jón Ingimundarson, tengdasonur hennar, vesturpart Stokkseyrar fyrir 400 ríkisdali. Fasteign þessi kom í hlut tveggja barna Jóns og Guðrúnar, þeirra Elínar, konu Hannesar Árnasonar á Baugsstöðum, og Þórðar bónda á Stokkseyri. Hinn 1. apríl 1823 afhenti Jón Ingimundarson Hannesi, dótturmanni sínum, hálfa eignarjörð sína, vesturpart Stokkseyrar, meðan hann hafi umráð yfir henni. Jón dó tveim árum síðar, og hélt Hannes þá sínum helmingi, en Þórður hlaut hinn helminginn. Eftir lát Hannesar og Elínar erfði sonur þeirra, Bjarni hreppstjóri í Óseyrarnesi, part foreldra sinna í Stokkseyri. En eftir lát Bjarna 1879 erfði þennan part einkadóttir hans, Elín, kona Gríms bónda Gíslasonar í Óseyrarnesi. Af helmingi Þórðar á Stokkseyri er það að segja, að hann átti hann enn óskertan árið 1852 (sbr. samning í Veðmálabók Árnessýslu, dags. 13. maí það ár). Þórður dó árið 1867, en þá átti hann ekki eftir nema % af sínum parti. Var partur sá seldur á uppboði 29. okt. 1867, og keypti Þorleifur Kolbeinsson á Háeyri hann „eftir mörg boð og yfirboð“ fyrir 282 ríkisdali. Ekki höfum vér fundið heimildir fyrir því, hver eignaðist sjöttung þann úr vesturpartinum, er Þórður hafði lógað. Hitt er víst, að Grímur í Nesi varð seinna eigandi að honum, og part Þorleifs á Háeyri keypti hann eftir fráfall Þorleifs yngra ( d. 1884), sem hafði erft hann eftir föður sinn. Fyrir 1890 var Grímur þannig orðinn eigandi að öllum vesturparti Stokkseyrar.
Áður en lengra er haldið fram, skal nú greina nokkuð frá eigendum austurpartsins, eftir því sem kostur er á. Eins og áður er getið, kom þessi helmingur í hlut Gísla Bjarnasonar í Skarði á Landi, bróður Markúsar á Stokkseyri. Gísli andaðist 1676. Sonur hans var Bjarni lögréttumaður í Ási í Holtum, er erfði hálfa Stokkseyri eftir föður sinn. Var hann eigandi hennar 1708, er jarðabókin var ger (Jarðab. ÁM. Il, 66). Kristín, dóttir hans, er var kona Einars lögréttumanns Ísleifssonar á Suður-Reykjum í Mosfellssveit, mun hafa fengið Stokkseyri í sinn erfðahlut. Þau áttu þrjár dætur, og var ein þeirra Ingibjörg, kona Brynjólfs sýslumanns Sigurðssonar í Hjálmholti. Var Kristín hjá þeim hjónum í elli sinni, og tók Brynjólfur Stokkseyrina í meðgjöf með henni. Út af meðgjöf þessari reis óánægja meðal annarra erfingja Kristínar, og fór af þeim sökum fram skoðun og mat á jörðinni að beiðni sýslumanns 19. apríl 1749, en ekki breytti það eignarhaldi Brynjólfs. Brynjólfur sýslumaður andaðist 1771, og kom Stokkseyri þá í hlut sonar hans, Einars lögsagnara eldra, er bjó síðast á Barkarstöðum og Hlíðarenda í Fljótshlíð. Er hann skráður eigandi hálfrar Stokkseyrar í Þingbók Árnessýslu 18. maí 1773. Einar Brynjólfsson lézt árið 1785, og gekk austurparturinn þá úr hinni gömlu Stokkseyrarætt, er Guðmundur dbrm. Jónsson í Skildinganesi, síðar á Lágafelli, keypti hann af erfingjum Einars. Var þessi hluti Stokkseyrar síðan í eigu Guðmundar, Péturs í Engey, sonar hans, og Sigurðar Ingjaldssonar í Hrólfsskála, tengdasonar Péturs, unz þeir mágar seldu hann 31. ágúst 1848 Jóni Þórðarsyni hinum ríka í Vestri-Móhúsum. Afsalsbréf þeirra fyrir jörðinni er að ýmsu leyti fróðlegt, og fer það hér á eftir:
,,Við, eg Pétur Guðmundsson í Engey, og eg, Sigurður Ingjaldsson hreppstjóri frá Hrólfsskála innan Gullbringusýslu, bæði fyrir hönd sjálfs míns og ómyndugs sonar míns, lngjaldar, gjörum heyrum kunnugt, að við höfum selt og seljum nú fyrrum hreppstjóra, Sgr. Jóni Þórðarsyni í Móhúsum, óðals og erfða eign okkar, hálfa Stokkseyri innan Árnessýslu, 30 hndr. að dýrleika, nefnil. 15 hndr. í heimajörðinni og hjáleigurnar Kalastaði, Grímsfjós, Ranakot, Móhús, Stargarðshús, Roðgúl, Símonarhús, Íragerði bæði og Stokkseyrarsel, hverjar hjáleigur teljast til samans önnur 15 hndr., enn fremur kirkjuna að Stokkseyri með öllum hennar inntektum og réttindum og svo með því skilyrði, að kaupandi leysi af hendi allar þær skyldur, sem eigu á henni er bundin, ásamt með kirkjujörðunum Seli efra og Seli neðra og Austur-Meðalholtum, allt til samans fyrir það verð 3000 r. S.
Og þar eð velnefndur kaupandi nú hefir greitt af hendi kaupverð þetta
1) með framsali 2ggja skuldabréfa a) frá Dr. theol. P. Péturssyni, dags. 24. apríl þ. árs, að upphæð 2000 rd. b) frá mér, Pétri Guðmundssyni, dags. 9. okt. 1845, nú að upphæð 200 rd.
2) með peningum út í hönd 800 rd., þá seljum við nú, afsölum og afhendum með öllu úr okkar eign og erfingja okkar velnefndum Sgr. Jóni Þórðarsyni og hans erfingjum hina áminnztu eign með fylgjandi kúgildum og leiguhúsum öllum, með öllum réttindum, hlunnindum og ítökum, að engu undanskildu, með óðals- og öðrum rétti til ótakmarkaðrar eignar upp frá þessum degi. Tekur kaupandi kirkjutíundir allar og landskuldir, sem áfalla í næsta árs fardögum. Þar í móti tökum við seljendur leigur þær, er áfalla í haust, og þessa árs ljóstolla án nokkurs endurgjalds.
Bæði eignina sjálfa yfir höfuð og svo kirkjuna afhendum við og afsölum í því ástandi, sem hvorttveggja er nú í, án nokkurrar úttektar, frekari afhendingar eður nokkurs ofanálags, kirkjuportionar eður áhvílandi kirkjuskuldar, en skuldbindum okkur aðeins til að láta í ár lagfæra og endurbæta alla þá galla á kirkjunni og hennar orna- og instrumenta, sem áskilið er, að bæta þurfi um, í hinni síðustu prófastsskoðun.
Þessu afsalsbréfi til staðfestu höfum við, eg, alþingismaður Jón Guðmundsson, í krafti hér víð festrar fullmaktar, og eg, Sigurður Ingjaldsson, fyrir mína hönd og svo sonar míns eftir áteiknun ennar sömu fullmaktar, undirskrifað í viðurvist óviðriðinna manna, og má kaupandi láta því þinglýsa á sinn kostnað án þess seljendur séu tilkvaddir.
Staddir á Stóra-Hrauni í Flóa, 31. d. Aug. 1848. Jón Guðmundsson. Sigurður Ingjaldsson (handsalaði). Viðstaddir vottar: S. Sigurðsson. Bjarni Magnússon. Lesið á manntalsþingi að Hróarsholti þann 19. maí 1849. Vitnar P. Melsted, settur sm.“ (Veðmálabók Árnessýslu).
Jón Þórðarson ríki naut að vísu ekki lengi þessara síðustu jarðakaupa sinna. En engu að síður má líta á kaup hans á austurparti Stokkseyrar sem kórónuna á hinum miklu jarðakaupum hans, þar sem hann færði eignar- og umráðaréttinn yfir hinu gamla höfuðbóli heim í hreppinn aftur. Tæpu ári síðar andaðist Jón, og kom Stokkseyri þá í erfðahlut Sigríðar yngstu, dóttur hans, og manns hennar, Adólfs hreppstjóra Petersens á Stokkseyri. Eftir þeirra dag skiptist austurparturinn þannig milli sona þeirra, að Adólf Adólfsson fekk helminginn, en Jón Adólfsson og Jóhann Adólfsson eða öllu heldur Sigríður, dóttir hans, sinn fjórðunginn hvort. Bræðurnir Adólf og Jón áttu við erfiðan fjárhag að stríða og urðu að selja fasteignir sínar. Árið 1889 seldi Adólf sinn helming í austurpartinum þeim Grími í Nesi og Einari borgara á Eyrarbakka fyrir 2000 kr., og sama ár seldi Jón Adólfsson einnig sinn fjórða part Grími í Nesi fyrir 700 kr. Árið 1891 gengu lánardrottnar í Kaupmannahöfn svo hart að Einari borgara, að hann neyddist til að selja part sinn í Stokkseyri, og keypti þá Grímur í Nesi hann fyrir 600 kr. Var Grímur þá orðinn eigandi að ¾ af austurpartinum. Sá fjórðungur, sem þá var eftir, var í eigu Sigríðar Jóhannsdóttur og Hannesar Magnússonar í Stóru-Sandvík, unz þau seldu hann 12. des. 1906 Jóni Pálssyni bankaféhirði í Reykjavík.
Eins og áður var sagt, hafði Grímur Gíslason í Óseyrarnesi eignazt allan vesturpart Stokkseyrar með erfðum og kaupi, og þar að auki náði hann kaupum á ¾ hlutum austurpartsins. Þar með var hann orðinn eigandi að 7/8 hlutum allrar Stokkseyrartorfunnar. Var honum mjög í mun að hefja hið forna ættaróðal til vegs og virðingar og gekkst þar fyrir margs konar framkvæmdum, sem segir í þætti hans. Grímur í Nesi andaðist 1898. Keypti Bjarni eldri, soriur hans, þá allan eignarhlut föður síns í Stokkseyrinni af samörfum sínum fyrir 25250 kr., reisti síðan bú á jörðinni og bjó þar síðastur bænda af hinni gömlu Stokkseyrarætt. Skömmu eftir aldamótin, líklega 1903 eða 1904 seldi Bjarni Grímsson Jóni hreppstjóra Jónassyni helminginn af eign sinni í Stokkseyri, þ. e. 7/16 hluta jarðarinnar. Þennan sama hluta seldi Jón aftur Hjálmtý kaupmanni Sigurðssyni 11. okt. 1913 fyrir kr. 37707,67. Árið 1924 seldi Bjarni Grímsson eignarhlut sinn í Stokkseyri, sem var ½o allrar jarðarinnar. Var heimajörðin seld hinn 26. marz 1924, en hjáleigurnar, sem fylgdu, hinn 28. desember 1925. Kaupandi að öllu saman varð Guðmundur bóndi Erlendsson í Skipholti. Hinn 10. febr. 1927 seldi Guðmundur eign þessa Hjálmtý kaupmanni Sigurðssyni. Hafði Hjálmtýr þá eignazt 1/s allrar torfunnar, hið sama sem Grímur í Nesi hafði átt. Hins vegar átti Jón Pálsson enn 1/8, sem hann hafði keypt af Hannesi bónda í StóruSandvík. Það varð loks að kaupum með þeim Jóni og Hjálmtý, að hinn 12. febr. 1929 seldi Hjálmtýr Jóni Vestra-Stokkseyrarsel, en Jón honum aftur á móti hluta sinn í Stokkseyri. Varð Hjálmtýr þannig eigandi allrar Stokkseyrar, hinn eini, sem það hefir orðið síðan á 17. öld. Hinn 28. ágúst 1933 seldi Hjálmtýr Landsbankanum 9/16 úr Stokkseyri og 1. nóv. 1935 ríkissjóði hina 7/16. Sama dag keypti ríkissjóður hluta bankans í jörðinni, og hefir hún síðan verið ríkiseign. Afnot jarðarinnar hafa verið leigð ýmsum hreppsbúum, en umboðsmaður jarðarinnar fyrir hönd ríkissjóðs er Árni hreppstjóri Tómasson.
Þess var getið í upphafi og sést á því, sem að framan er ritað, að Stokkseyri hefir jafnan verið bændaeign þar til nú. Þó hefir dómkirkjan í Skálholti náð undir sig rekarétti fyrir landi jarðarinnar snemma á öldum. Í rekaskrá Skálholtsstaðar frá því um 1270 er kirkjan í Skálholti talin eiga reka „þann, sem liggur fyrir Stokkseyri á Eyrarbakka í millum Dyralóns og Stjörnusteins og sjónhending fram í Öldurif, að undanteknum svo stórum hval sem allir heimamenn af einföldu búi á Stokkseyri með einum eyk gæti af stað hrært, og allan við tveggja álna langan millum sniða og þaðan af stærra“ ( Ísl. fornbrs. Il, 75).
Ókunnugt er nú með öllu, hvenær eða hvernig kirkjan hefir komizt yfir rekarétt þennan, en hitt má ljóst vera, að eigendum Stokkseyrar hefir þótt súrt í broti að láta óviðkomandi aðila hirða allan stórreka rétt við bæjardyrnar hjá sér. Í dómi um Stokkseyrarreka frá 1605, sem brátt verður getið, er vitnað í fimmtarstefnudóm, þar sem kaup (þ. e. samningur) þeirra Árna biskups hins milda Ólafssonar og Jóns Brandssonar á Stokkseyri er dæmt nýtt og myndugt. Þessi samningur, sem gerður hefir verið á árunum 1415- 1419, er Árni biskup var hér á landi, þekkist nú ekki, en auðsætt er, að með honum hefir biskup afhent Jóni bónda rekann fyrir Stokkseyri, hvað sem í móti hefir komið. Eftirmenn Árna biskups hafa þó eigi viljað una við að missa þennan spón úr askinum sínum. Hinn 18. júlí 1439 lét Goðsvin biskup ganga dóm 6 presta í Skálholti um eignarrétt kirkjunnar til reka milli Dyralóns og Stjörnusteins. Sóru tveir menn, ,,að umboðsmenn kirkjunnar í Skálholti hefði haft áður greindan reka og eignað kirkjunni og staðnum í Skálholti um 30 ára, svo þeir vissu til, og þeirra foreldrar hefði þeim sagt, að þessi sami reki hefði verið hafður og eignaður kirkjunni í Skálholti um 60 ára eða lengur ákærulaust í alla staði.“ Var rekinn dæmdur vera og verið hafa eign kirkjunnar og staðarins í Skálholti ( Ísl. fornbrs. IV, 590-92).
Þannig mun hafa staðið allt til þess, er Bjarni lögréttumaður Sigurðsson fór að búa á Stokkseyri, en hann var, sem fyrr segir, eigandi allrar jarðarinnar. Vorið 1605 gekk dómur um mál þetta á Stokkseyri, og var hann á þá leið, að Stefán Gunnarsson ráðsmaður í Skálholti var dæmdur skyldugur að leiða tvö lögleg vitni innan 14 nátta frá uppsögn dómsins um það, hvar þetta Dyralónsörnefni hefði verið kallað fyrir Stokkseyrarlandi og vinna eið að. Bauðst sýslumaður til að taka eiða þessa. Í annan stað gekk fimmtarstefnudómur sá, sem áður var nefndur, í máli þessu, og dæmdi hann samning Árna biskups og Jóns bónda Brandssonar í fullu gildi og jörðina Stokkseyri með landi og öllum reka löglega eign Bjarna Sigurðssonar vera og verið hafa. Þriðji dómurinn um þetta mál var dæmdur af sex mönnum á alþingi um sumarið samkvæmt skipun höfuðsmanns og tilnefningu beggja lögmannanna í dóminn. Dæmdu þeir í fyrsta lagi eiðana fallna, þar eð þeir hefðu eigi enn verið unnir, og í öðru lagi dæmdu þeir fimmtarstefnudóminn nýtan og myndugan og rekann fyrir öllu Stokkseyrarlandi löglega eign Bjarna Sigurðssonar vera og verið hafa (Alþb. Ísl. III, 394-95). Með dómum þessum vann Bjarni rekann aftur óskertan undir Stokkseyri.
Hjáleigur frá Stokkseyri voru á seinni öldum 20 alls auk fáeinna þurrabúða. Um 1700 voru allar þessar hjáleigur myndaðar og vafalaust löngu fyrr. Í vitnisburði frá því um 1560 ert. d. talað um kotungana frá Stokkseyri (Ísl. fornbrs. XIII, 562). Eftir að heimajörðinni var skipt í tvö býli, fylgdu ákveðnar hjáleigur hvorum helmingi. Skiptingin var þannig:
Vesturpartinum fylgdu: Hóll, Eystri-Móhús ( áður Litlu-Móhús), Dvergasteinar, Gata, Gerðar, Hellukot, Kumbaravogur, Vestri-Rauðarhóll (áður Litli-Rauðarhóll), Eystri-Rauðarhóll (áður Rauðarhóll) og Vestra-Stokkseyrarsel. Hér með fylgdi og þurrabúð, er Töpp nefndist.
Austurpartinum fylgdu: Kalastaðir, Gríms/jós, Ranakot, Vestri-Móhús (áður Stóru-Móhús), Starkaðarhús, Símonarhús, Roðgúll (áður Litla-Gata), V estra-Íragerði, Eystra-Í ragerði og Eystra-Stokkseyrarsel. Hér með voru og taldar þrjár þurrabúðir: Beinateigur, Hvíld og Hviða.
Um landamerki milli Stokkseyrar og Hrauns er getið í fornum skjölum, en ekki milli Stokkseyrar og annarra jarða. Í rekaskrá Skálholtsstaðar frá því um 1270, sem fyrr var getið, er talinn svarinn vitnisburður um þessi rekamörk milli Stokkseyrar og Hrauns: „Selalónsklett og Hraunsmörk og sjónhending úr Selaklettum upp í Arnarhól og Grænhól“ (Ísl. fornbrs. II, 75).
Um 1560 gaf Oddur Grímsson, er búið hafði m. a. 16 ár á Hrauni, svo felldan vitnisburð um landamerki jarðanna: ,,Þá vissa eg ei Önnur landamerki vera og verið hafa í millum Stokkseyrar og Hrauns, heldur en að sá garður ætti að ráða, sem gengur af sjáarbökkunum og upp að mýrinni í millum Stokkseyrarsels og Hrauns og svo sjónhending á Breiðamýri. Var Eyjólfur heitinn Þorvaldsson á Stokkseyri og gjörði sel frá Stokkseyri fyrir austan hólana, þar sem kotungarnir frá Stokkseyri nú hafa sín sel. Hafði og Gunnar heitinn Þórðarson, þá hann bjó á Stokkseyri, sín sel í sama stað, en aldrei voru þeir hólar eignaðir Stokkseyri, heldur Hrauni. Item í fjörunni fyrir framan garðsendann fyrrnefndan stendur ein hella, og er kringlótt ker ofan í. Svo hefur og verið haldið, að hún skal ráða landamerkjum í fjörunni í millum Stokkseyrar og Hrauns.“ (Ísl. fornbrs. XIII, 562).
Núverandi landamerki Stokkseyrar eru á þessa leið: ,,Milli Stokkseyrartorfunnar og Traðarholtstorfunnar eru merkin frá Markavörðunni, sem er á sjóarbakkanum fyrir austan Rauðarhól, liggja þar austan á Langarifi beint fram í brimgarð, eins og sjónhending ræður. Frá nefndri Markavörðu ræður aftur sjónhending um bæinn Kotleysu eða eldhúsið þar upp undir eða á móts við Andatjarnir, en þar um er hornmark Traðarholtstorfu og Brattsholtstorfunnar. Milli Stokkseyrartorfunnar og Brattsholtstorfunnar ræður frá því á móts við Andatjarnir sjónhending frá áðurnefndri Markavörðu í Brandhól, en frá honum liggja merkin beint í Ívarshól, en hann er hornmark milli Brattsholtstorfunnar og Holtstorfunnar.
Milli Stokkseyrartorfunnar og Holtstorfunnar ræður sjónhending frá Ívarshól í Gölt, en hann er hornmark 5 jarða, nefnil. Stokkseyrar, Holts, Byggðarhorns, Votmúla og Jórvíkur. Milli Stokkseyrartorfunnar og Byggðarhorns ræður sjónhending frá Gölt í Grástein. Milli Stokkseyrartorfunnar og Sandvíkurtorfunnar ræður sjónhending frá Grásteini í Trévörðu, og aftur frá henni ræður sjónhending í Markavörðuna við Blakktjarnir.
Milli Stokkseyrartorfunnar og Stóra-Hraunstorfunnar ræður sjónhending frá vörðunni í Hraunsflóð og aftur úr því sjónhending í vörðu, sem aðskilur engjar Hafliðakots og Syðra-Sels, en frá téðri vörðu ræður nýhlaðinn Markagarður allt suður að flóðunum, sem falla að austan í Skerflóð, en sunnan við þessi flóð ráða garðlög, sem öll vita í sömu stefnu, og aðskilja þau engjar Foks og Stokkseyrar. Frá garðlögunum ræður sjónhending í Markastein, sem er vestanvert við Ferðamannagötu, og aftur frá honum í Markaklöpp, sem stendur í flæðarmáli, þaðan í Leirker fremst í fjörunni og svo fram í Markahlein.
Á Stokkseyrarmýri á Traðarholt selstöðu. Inn fyrir ofannefnd landamerki liggur nokkuð af landeign jarðarinnar Kotleysu, sem virðist vera byggð í landamerkjum Stokkseyrar og Traðarholtstorfunnar. Sama er um nokkuð af Keldnakotsengjum, og helzt það eins og áður hefur verið.“ (Landamerkjabók Árnessýslu. Þinglesið 17. júní 1885).
Landskostum á Stokkseyri er lýst þannig í Jarðabók ÁM. 1708, að fóðrast kunni þrjár kýr á hvorum helmingi, en kvikfé því, sem meira er, sé komið fyrir í fóður á öðrum jörðum eða fóðrist á tilfengnum heyjum. ,,Sumarhagar eru nægir fyrir kvikféð, sem er á jörðinni. – Torfrista og stunga næg, þó erfið til að sækja. Móskurður til eldiviðar hefur verið, meinast vera, en brúkast ei. Elt er taði og þangi mestan part. Selveiðivon hefur áður brúkazt og þótti þá mjög erfið, er því ekki brúkuð í margt ár. Rekavon í betra lagi, og hefur leiguliði það eina af rekanum, sem landsdrottinn eftir góðri sannsýni tilleggur til húsabyggingar. Sölvafjara næg verið, þver nú mjög, en þó oftast bjargleg heimamönnum. Fjörugrös ut supra á Skipum. Hrognkelsatekja hefur verið, brúkast enn, er þó mjög erfið og bregzt stundum. Ætiþöngla, kjarna og kerlingareyru má hér finna í fjörunni, hafa áður brúkazt, en í margt ár almennilega ei. Reiðingsristu segjast menn heyrt hafa, að jörðin eigi í Traðarholtslandi mót fjörufari á Stokkseyrarfjöru, vide Traðarholt.
Skógarhögg á jörðin í takmörkuðu plátsi í Búrfelli fyrir ofan Eystrihrepp, sem kallast Stokkseyringur. Var þar áður nægur skógur til kolgjörðar og nokkur til raftviðar, er nú nærri gjöreyddur, síðan Hekla brann síðast og spillti honum, brúkast því sjaldan.[note] Þessi grein um skógarhöggið var þinglesin á manntalsþingi á Eyrarbakka 16. júní 1890. Ítaksins er getið í skrá um Þjórsárdalsskóga um 1556 (Ísl. fornbrs. XIII, 167, 168) og í Bréfab. Brynjólfs biskups 29. júlí 1660 (XII, 1113). [/note]
Túninu grandar til stórskaða sjóargangur með landbroti og grjóts og sands áburði, og ganga þar á stórflæður allt í kringum bæinn og yfir allt plátsið, svo að ekki kunna menn í burt að komast hættulaust frá bænum, þó vildu, þegar svo ber til, og hefur það við borið í manna minni, að sjórinn hefur gengið inn í bæinn, og altítt í meðalflóðum, að inn gangi í kirkjugarðinn, stundum í kirkjuna. Engjunum grandar sjávargangur með grjóti og sandi. Hætt er kvikfé fyrir sjávarflæðum, nema smalar vaki. Vatnsbólin fordjarfast oft um vetur fyrir sjávargangi, þegar sjór ber sand yfir og fyllir brunna af söltu vatni. Brúargjörðir þarf árlega með stórerfiði yfir stór foröð jafnan til haga og torfskurðar og oft til þess heyskapar, sem nýttur er á hagmýrum.
Kostir og ókostir á öllum hjáleigunum sem segir um heimajörðina, nema hvað hjáleigurnar mega ei njóta rekans eður sölvafjörunnar, nema landsdrottinn sér í lagi leyfi, sumum fyrir vissan toll eður annan góðvilja eftir samkomulagi. Ekki er Litlu-Móhúsum, Rauðarhólum, Hellukoti og Kumbaravog svo hætt fyrir sjóargangi sem heimajörðinni. Ekki er heldur svo erfitt að afla heyja á hagmýrinni frá Stokkseyrarseljum sem á heimajörðinni.
Verstaða er hér sæmileg um vertíð, sem byrjast um kyndilmessu og varir til Hallvarðsmessu eftir nýja stíl. Ekki er hér venja að brúka sjóróðra að jafnaði sumar né haust, og hefur lítið aflazt, þó til hafi reynt verið. Skerjaklasi liggur fyrir lendingunni, og hættusöm mjög fyrir boðum, þegar ádámar, því leiðin er krókótt mjög, en sjálf heimalendingin góð, þá inn af brimgarðinum kemur.
Skip ganga hér, sem landsdrottnar eiga, ýmist 3 eður 4 og fleiri, ef þeir fá svo við komið, og taka landsdrottnar jafnan tvo skiphluti á hverju, en skipleigu enga, leggja og ekkert til skipanna nema nauðsynlegan farvið. Ekki hefur leiguliði, sem nú hefur hálfa jörðina, leyfi af landsdrottni að hafa hér neina skipaútgerð, og rær hann á skipum landsdrottins ókeypis svo sem aðrir hjáleigumenn. Inntökuskip segja menn hér hafi áður gengið, sjaldan fleiri en eitt, og kunna nálægir ekki að undirrétta, hvað há var undirgiftin eður hafi það verið gert fyrir góðvilja. Ekki hafa þau inntökuskip verið í næstliðin 30 ár eður lengur.“ (Jarðab. ÁM. Il, 60-61, 68).
Fram á fyrra hluta 16. aldar er fátt kunnugt um ábúendur á Stokkseyri, aðeins nöfn fárra manna, en frá því um 1520 er ábúendaröðin nokkurn veginn óslitin. Frá því seint á 17. öld var nærri alltaf tvíbýli á Stokkseyri, en engar beinar heimildir eru til um það fyrr á öldum. Til tvíbýlis kynni það að benda, að Selin eru tvö, en þau voru í öndverðu selstöður frá heimajörðinni Stokkseyri, og sama er að segja um Stokkseyrarselin tvö, sem tekin voru upp snemma á 16. öld. Í rekaskrá Skálholtsstaðar frá því um 1270 er talað um heimamenn á einföldu búi á Stokkseyri, og eru þau ummæli endurtekin í dómi um rekaréttinn frá 1439, sem áður er getið. Virðast þau gefa til kynna, að um fleiri en eitt bú á Stokkseyri hafi verið að ræða. Einbýli hefir þó með vissu verið þar í fornöld og eins á dögum nokkurra stóreignamanna, sem áttu alla jörðina, svo sem Sigurðar Bjarnasonar og Bjarna, sonar hans, og sjálfsagt fleiri, sem nú er ókunnugt um, fyrir þeirra tíma. Þá er og helzt svo að sjá sem Þórdís Markúsdóttir hafi búið ein á allri jörðinni eftir lát manns hennar.