You are currently viewing 088-Stokkseyrarfélagið
Stokkseyri eftir aldamótin [1900]. Húsin talin frá vinstri eru: Kirkjan, verzlunarhús Kaupfélagsins Ingólfs (með flaggstönginni), byggt af Grími í Nesi; stóra pakkhúsið og við enda þess ber Helgahús; fram við stóra pakkhúsið er fyrst Adólfshús og þá Pálmarshús; næst er Sigurðarhús og verzlun Magnúsar Gunnarssonar (sambyggð); næst ber verzlunar- og íbúðarhús Jóns Jónassonar og lengst til hús Bjarna Jónssonar.

088-Stokkseyrarfélagið

Árið 1888 gerðist merkisatburður í verzlunarsögu Suðurlands. Snemma á því ári var stofnað fyrsta samvinnukaupfélag á Suðurlandi, og voru þeir síra Magnús Helgason á Torfastöðum og Gunnlaugur Þorsteinsson bóndi á Kiðjabergi aðalforgöngumenn þess. Í stjórn félagsins voru kosnir þessir tveir menn og hinn þriðji Skúli Þorvarðsson alþingismaður og bóndi á Berghyl. Skipuðu þessir sömu menn stjórnina alla tíð, meðan félagið starfaði. Það nefndist Kaupfélag Árnesinga og starfaði sem pöntunarfélag. Viðskipti sín öll hafði það við Louis Zöllner stórkaupmann í Newcastle. Bændur pöntuðu á vetrum vörurnar, sem þeir óskuðu að fá, og lofuðu á móti sauðum til útflutnings að haustinu til, hrossum og stundum einhverju af ull. Áherzla var lögð á að verzla skuldlaust, þótt eigi tækist það alltaf. Var miðað að því, að útflutta varan væri meiri að verðmæti en sú innflutta, og fengu viðskiptamenn þá eitthvað af peningum í lok reikningsársins. Félagið hafði vöruafhendingu í Reykjavík öll árin, sem það starfaði, og var Jón Ól. Þorsteinsson kaupmaður, bróðir Gunnlaugs á Kiðjabergi, afgreiðslumaður þess. Félagsmenn voru flestir úr Árnessýslu vestan Hvítár og Ölfusár, einnig nokkrir bændur úr Holtum og af Landi.

Viðskipti félagsins líkuðu yfirleitt vel, enda voru þau miklu hagkvæmari en menn áttu að venjast. Þannig segir t. d. í greinargerð frá félaginu um annað starfsár þess ( 1889): ,,Mikinn hag hefir félagið haft á verzlun sinni í samanburði við að verzla við kaupmenn. Til dæmis má geta, að neftóbak (1541 pd.) og munntóbak (1324 pd.) það, er félagið fekk, hefði orðið 1424 kr. dýrara, hefði það allt verið keypt hjá þeirri verzlun austanfjalls, sem þessar vörur voru ódýrastar hjá. Og þó er langtum meiri munur á verði kaupmanna og félagsins á ýmsum öðrum vörum, svo sem öllu til sjávarútvegs ( önglum, línum o. s. frv.), þar sem þær vörur hjá kaupmönnum eru allt að því helmingi dýrari en félagið fekk þær í innkaupsverði. Þar næst munar mestu á annarri tóvöru og járnvöru (tvistgarni, ljáum 60%) og steinolíu (46%).“[note] Þjóðólfur, 14. marz 1890 [/note] Það háði félaginu þegar í upphafi að hafa alla vöruafhendingu sína í Reykjavík vegna þess, hve langsótt var þangað úr austursveitum Suðurlands. Á fyrstu árum félagsins komu því fram raddir um það, að félagið hefði afgreiðslu austanfjalls, einkum á Stokkseyri. ,,Ef það heppnast, að félagið fái vöruskip á Stokkseyri, þá mun fyrst mega búast við, að félagið eflist,“ segir í greinargerð frá félaginu í Þjóðólfi 14. marz 1890. Á fundi kaupfélagsins á Húsatóftum á Skeiðum 17. júní sama ár „var samþykkt með meginþorra allra atkvæða að reyna að koma því á, að kaupfélagið hefði eftirleiðis verustað sinn á Eyrarbakka, helzt Stokkseyri. Það var álit fundarmanna, að með því móti mundi kaupfélagið fyrst vaxa að miklum mun, þar sem þá mundi verða hægt að taka fisk í félagið, sem margir neyddust nú til að leggja inn í verzlanirnar á Eyrarbakka sér til stórskaða. Enn fremur er það og álit fundarins, að þá mundi mikill hluti Rangárvallasýslu ganga í félagið, en nú er ekki í því nema tveir vestustu hrepparnir (Landm. og Holtahr.), og það þó miklu færri menn þar en ella mundu ver;, ef félagið kæmi upp á Stokkseyri.“[note]Þjóðólfur, 18. júlí 1890.[/note]

Kaupskip í Stokkseyrarhöfn

Á fundi, sem Kaupfélag Árnesinga hélt 14. okt. 1890, komst mál þetta það langt, að samþykkt var að biðja Zöllner að senda skip á Stokkseyri í miðjum júní næsta ár. Skyldi skipið vera um 70 smálestir og leigt fyrir tvær ferðir.[note]Sama rit, 31. okt. 1890.[/note] Á aðalfundi kaupfélagsins á Húsatóftum 5. marz 1891 var loks samþykkt, að Kaupfélag Árnesinga skyldi skiptast í tvennt með tilliti til uppskipunarstöðvanna, þar eð vesturhlutinn vildi hafa Reykjavík fyrir uppskipunarstöð, en austurhlutinn Stokkseyri. Höfðu við þann hlutann bætzt margir Rangæingar, sem ekki höfðu fyrr verið í kaupfélaginu, og deildir verið stofnaðar í Fljótshlíð, á Rangárvöllum, í Austur- og Vestur-Landeyjum og gömlu deildirnar í Holtum og á Landi einnig bætzt við, enn fremur meiri hluti Flóans, Skeið og Eystrihreppur. Var félag þetta nefnt Stokkseyrarfélag, og mun stofnfundur þess hafa verið haldinn 15. maí um vorið, lög þess samþykkt og stjórn kosin. Af móðurfélaginu, hinu fyrsta Kaupfélagi Árnesinga, er það að segja, að það hélt áfram starfsemi sinni enn um skeið. En þegar tók fyrir útflutning sauða til Englands 1896, dróst verzlunin mjög saman og félagið lagðist niður og var gert upp nokkrum árum eftir aldamótin. Eignum, sem félagið átti þá, var skipt milli félagsmanna í réttu hlutfalli við viðskiptamagn þeirra öll árin.[note]Sama rit, 20. marz 1891; Ágúst Helgason, Endurminningar, 154.[/note]

Helztu forgöngumenn Stokkseyrarfélagsins voru þeir Þórður Guðmundsson alþingismaður í Hala, Páll Briem sýslumaður í Rangárvallasýslu, síra Jón Steingrímsson í Gaulverjabæ, Þorsteinn Thorarensen á Móeiðarhvoli, Grímur Gíslason í Óseyrarnesi o. fl. Það var í fyrstu talsverðum erfiðleikum bundið að fá almenna þátttöku í félaginu. Menn voru yfirleitt óvanir félagsstarfsemi og viðbragðsseinir, þegar um nýbreytni var að ræða. Áhugamenn unnu að útbreiðslu félagsins hver á sínum stað, eftir því sem við varð komið. En það bar einnig mikinn árangur, að þeir síra Jón Steingrímsson og Grímur í Nesi fengu Ívar Sigurðsson kaupmann á Stokkseyri til þess að ferðast um Árnes- og Rangárvallasýslu til þess að vinna að stofnun og framgangi félagsins. Þegar félagið hafði náð fullum vexti, náði það yfir allar sveitir Rangárvallasýslu, mikinn hluta Árnessýslu og alla Vestur-Skaftafellssýslu.

Eins og ráð var fyrir gert, hafði Stokkseyrarfélagið öll viðskipti sín við Zöllner í Newcastle, og var það því oft nefnt Zöllnersfélagið manna á milli. Talið er, að Zöllner hafi í fyrstu verið tregur til að senda skip til Stokkseyrar sökum hafnleysis þar, en þó varð það ofan á, að hann lét það ekki aftra sér.

Segja má, að starfsemi félagsins hæfist, þegar fyrsta vöruskipið“ kom til Stokkseyrar, en sá merkisatburður gerðist laugardaginn 30. maí 1891. Það var norskt seglskip að nafni „Spes“, 70,92 rúmlestir, hlaðið alls konar vörum frá Zöllner. Segir svo í samtímafréttapistli: ,,Var þá uppi fótur og fit á Stokkseyri, og kepptust allir í óða önn við að afferma skipið og uppskipun ekki hætt fyrr en sunnudagsnóttina kl. L Sunnudaginn rak á ofviðri, og hélt það því burtu með talsvert af kolum í sér, en í morgun (5. júní) kom það aftur, og mun uppskipun verða lokið í dag. Félagsmenn hafa drifið að úr öllum áttum til að sækja vörur sínar, og eru menn mjög ánægðir yfir hinni góðu byrjun.“[note]Þjóðólfur, 12. júní 1891.[/note] Með skipinu komu skipsfestar á vegum Gríms í Nesi, og voru þær settar niður á Blöndu um sumarið“, en sjálft var skipið afgreitt fyrir utan brimgarðinn. Það fór aftur með rúmlega 34 þús. pund af saltfiski. Þrátt fyrir þessa góðu byrjun varð fyrsta árið félaginu heldur óhagstætt, enda um margs konar byrjunarörðugleika að ræða. Engu að síður fengu þeir félagsmenn, sem lögðu sauði og hross inn í félagið“, allt að því 16% fram yfir það, sem kaupmenn greiddu á Eyrarbakka.[note]Sjá grein Þórðar Guðmundssonar í Hala um Stokkseyrarfélagið í Þjóðólfi, 17. júní 1892.[/note]

Næsta ár var félaginu sýnu hagstæðara, meiri útflutningur af fiski og ull og uppskipun ódýrari og auðveldari, er hægt var að afgreiða skipin inni á höfninni. Hinn 11. júní 1892 kom til Stokkseyrar fyrsta skipið, sem lagðist við hinar nýju festar á Blöndu og var afgreitt þar. Það var seglskipið „Tonkea“, 91 ½ rúmlest og risti 8 3/4, fet. Hafnsögumaður var Jón Jónsson í Norðurkoti á Eyrarbakka, því að þá var enn enginn hafnsögumaður skipaður á Stokkseyri. Allir sem vettlingi gátu valdið, komu til að horfa á, er skipinu var siglt inn á höfnina, en það tókst prýðilega. Meðal áhorfenda var Grímur í Nesi. Þótti honum sem öðrum vel við eiga að fagna þessum atburði á sýnilegan hátt, en flagg var ekkert til á staðnum. Brá hann þá við, lét sækja stranga af mislitu lérefti og reif af honum bút í hæfilega flaggstærð, en spíra var höfð fyrir stöng.

Þess skal getið, að næsta ár, 1893, voru skipaðir sérstakir hafnsögumenn á Stokkseyri. Það voru þeir Jón Grímsson bóndi á Stokkseyri og Jón Sturlaugsson frá Starkaðarhúsum, báðir nafnkunnir formenn og sjógarpar. Eftir að Jón Grímsson lézt (1902), gegndi Jón Sturlaugsson því starfi einn um langan aldur. Áður en fastir hafnsögumenn voru skipaðir, mun Benedikt Benediktsson í Íragerði stundum hafa gegnt því starfi.

Árin, sem nú fóru í hönd, voru mesta blómaskeið Stokkseyrarfélagsins.

Fekk félagið árlega þrjá skipsfarma af vörum frá útlöndum og fermdi þau í staðinn íslenzkum vörum. Árið 1895 keypti félagið vesturhelminginn af hinu mikla vörugeymsluhúsi Gríms í Nesi fyrir 3800 kr., og var húsið síðan kennt við félagið. Sama ár var verzlunarvelta þess milli 80 og 90 þús. kr., en skuldlaus eign talin um 4000 kr., en 1896 var verzlunarmagnið um 100 þús. kr.

Var það mikið fé á þeim tíma, enda mun það hafa verið mesta veltiár félagsins. Þó stóð félagið þá í árslok í talsverðri skuld við Zöllner, og olli því algert aflaleysi á félagssvæðinu á vertíðinni, svo og mistök af hálfu bænda á fjársölunni. Árið 1896 var lagt innflutningsbann á sauðfé á fæti í Englandi, og dró það mjög úr viðskiptum félagsins; auk þess þótti nokkuð á skorta um samheldni félagsmanna. Eftir þetta fekk félagið sjaldnast nema einn skipsfarm á ári, en hélt þó áfram starfsemi sinni nokkurn veginn óslitið til 1914. Skall þá heimsstyrjöldin fyrri yfir og raskaði öllum viðskiptum. Eftir styrjöldina ætlaði félagið að taka þráðinn upp aftur, en þá voru tímarnir breyttir, verðlag allt úr skorðum gengið og aðstæður aðrar en fyrr. Um 1920 gafst félagið upp að fullu og var þá eignalaust.

Fyrsti afgreiðslumaður félagsins var Ívar Sigurðsson kaupmaður og gegndi því starfi í þrjú ár (1891-93). Á þeim árum bauð Jón Vídalín, umboðsmaður Zöllners hér á landi, honum til Newcastle, og kostaði Zöllner ferð hans báðar leiðir. Af Ívari tók við Ólafur Árnason kaupmaður í eitt eða tvö ár, en síðan hafði Guðmundur Sæmundsson kennari afgreiðslunna á hendi allt fram að styrjaldarárunum. Pöntunarstjóri var lengi Eggert Benediktsson bóndi í Laugardælum. Hann var um langt skeið einn af forustumönnum sunnlenzkra bænda, maður vel menntaður og áhugasamur um framfarir á ýmsum sviðum, ekki sízt í verzlunarmálum, sem hann var gagnkunnugur. Vann hann mikið starf fyrir Stokkseyrarfélagið, fyrst í mörg ár sem pöntunarstjóri og síðast einnig sem formaður þess.

Skipulag Stokkseyrarfélagsins var þannig, að félaginu var skipt í deildir, eina fyrir hvern hrepp. Árið 1896 voru þær 23 að tölu. Fyrir hverri deild var sérstakur deildarstjóri, er hafði 2% í umboðslaun, en einhverjir bændur tóku ábyrgð á skilvísri greiðslu deildarinnar. Deildarstjórar tóku á móti pöntunum á prentuð eyðublöð. Pöntuð var alls konar nauðsynjavara og nýlenduvörur, svo sem kornvara í sekkjum, timbur, þakjárn, ljáblöð, kaffi, sykur, export og margt fleira, svo og vínföng, er þá voru talin með nauðsynjum. Margir pöntuðu 20 potta, og átti það að vera nægilegur ársforði handa gestum, um hátíðir og um réttir o. s. frv. Það var talin óregla, ef ekki var eftir svo sem hálf flaska til að hafa í nestið í kaupstaðinn árið eftir. Þess má geta, að á fyrstu árum félagsins kom fram tillaga um það á aðalfundi að leggja 20 aura aukagjald á hvern pott af vínanda til að efla varasjóð félagsins. Var sú tillaga felld með miklum meiri hluta eftir harðar deilur.

Félagsmenn greiddu vörur sínar með sauðfé á fæti, meðan innflutningur á því var leyfður í Englandi, með hrossum, saltfiski, smjöri, eftir að rjómabúin komu til sögunnar, og einnig í peningum. Stefna félagsins var að verzla skuldlaust, og greiddu menn því venjulega að fullu úttekt sína sama árið. Lítið kom þess vegna til kasta ábyrgðarmanna að borga.

Í stjórn Stokkseyrarfélagsins voru þrír menn, formaður og tveir meðstjórnendur, sem formaður valdi sjálfur. Fyrsti formaður félagsins var Páll Briem sýslumaður í Rangárvallasýslu og gegndi því starfi í þrjú ár (1891-94) eða þangað til hann var skipaður amtmaður og fluttist burt úr sýslunni. Þá var síra Skúli Skúlason í Odda formaður í eitt ár ( 1894-95) og sagði þá af sér formennskunni, en við tók Þórður Guðmundsson alþingismaður í Hala. Hann var formaður félagsins í 17 ár (1895-1912), og voru aðalfundir alla jafna haldnir á heimili hans. Þórður var frá upphafi einn af helztu stuðningsmönnum félagsins, lét sér jafnan mjög annt um hag þess, vann mikið fyrir það og var einn aðalmálsvari þess á opinberum vettvangi. Ritaði hann á fyrstu árum þess allmargar greinar um það í Þjóðólf, birti skýrslur um verðlag, frásagnir af starfsemi þess og því um líkt. Má af öllu því marka, að hann hefir borið hag og heill félagsins mjög fyrir brjósti. Síðasti formaður félagsins, frá 1912 og þar til er það hætti störfum, var Eggert Benediktsson í Laugardælum, sem lengi hafði starfað í þjónustu þess. Af meðstjórnendum skulu hér aðeins nefndir merkisbændurnir Þorsteinn Thorarensen á Móeiðarhvoli og Eyjólfur Guðmundsson í Hvammi á Landi, er lengst af höfðu þann starfa á hendi.

Stokkseyrarfélagið hafði mikla sögulega þýðingu á sínum tíma. Það var brautryðjandi félagslegra samtaka á Suðurlandi, opnaði augu manna fyrir nytsemi slíkra samtaka og glæddi félagsþroska. Það stórbætti verzlunina og stuðlaði þannig að vaxandi velmegun landsmanna svo langt sem það náði til.

Fyrir Stokkseyri sérstaklega hafði félagið ómetanlega þýðingu. Með tilkomu félagsins er sem nýtt líf færist í hið gamla byggðarlag. Atvinna vex, afkoman batnar, og fólkinu fjölgar um 380 manns á einum áratug (1890-1901). Gömlu torfkofarnir smáhverfa, menn taka að byggja þorpið upp. Andblær nýrra tíma berst hressandi með kaupskipunum á hverju vori utan úr hinum stóra heimi og kallar á starf og athafnir. Gamli tíminn var kvaddur. Öld viðreisnar og bjartra framtíðarvona var gengin í garð.

Leave a Reply