017-Skipting Stokkseyrarhrepps

Stokkseyrarhreppur var öldum saman einn fjölmennasti hreppur landsins. Stóð þó mannfjöldi þar mjög í stað þar til á síðustu áratugum 19. aldar. En þá hefst þar mikill uppgangstími samfara örri fólksfjölgun, og olli því m. a. vaxandi sjávarútvegur og stóraukin verzlun bæði á Eyrarbakka og einkum á Stokkseyri, sem hófst þá upp sem fjölsóttur verzlunarstaður. Þessi blómlegu þorp urðu sjálfkrafa að miðstöðvum, hvort í sínum hluta hreppsins, hvort um sig með sínar stofnanir, kirkju, skóla, verzlun og margs konar félagssamtök. Þessar aðstæður voru með þeim hætti, að þær buðu svo að kalla þeirri hugmynd heim að skipta hinum stóra og mannmarga hreppi í tvö sveitarfélög. Þess verður ekki heldur vart, að um það hafi staðið neinar deilur, er til framkvæmdanna kom, heldur farið fram með fullu samkomulagi allra aðilja.

Hinn 15. marz 1897 ritaði hreppsnefnd Stokkseyrarhrepps, þeir síra Ólafur Helgason oddviti, Jón Jónsson, Holti, Benedikt Benediktsson í Íragerði, Júníus Pálsson, Syðra-Seli, og Einar Jónsson borgari í Eyvakoti, amtmanni erindi og tillögu um skiptingu hreppsins, en hinn 18. maí sama ár var gefið út landshöfðingjabréf um skiptinguna. Aðalinntak þess er sem hér segir:

Stokkseyrarhreppi í Árnessýslu skal skipt í tvö sveitarfélög, er nefnist Eyrarbakkahreppur og Stokkseyrarhreppur. Skal Eyrarbakkahreppur talinn frá Óseyrarnesi austur að Hraunsá, en á Stokkseyrarhreppi skal Hraunsá ráða mörkum að vestan, en takmörk hins fyrrveranda Stokkseyrarhrepps að austan og ofan.

2) Barnaskólahúsum þeim, sem eru í hinum núverandi Stokkseyrarhreppi, skal skipt þannig milli hinna nýju hreppa, að hvor um sig skuli eignast þann skóla, er í honum lendir, og Eyrarbakkahreppur greiða til hins nýja Stokkseyrarhrepps í uppbót einu sinni fyrir allt 133 kr. 33 au. Gjöf Þorleifs dannebrogsmanns Kolbeinssonar, sem er fólgin í jarðeigninni Vallarhjáleigu í Gaulverjabæjarhreppi í nefndri sýslu og í sjóði, skal vera óskipt eign beggja hinna nýju hreppa. Öllum öðrum eignum hins núveranda Stokkseyrarhrepps, hinum árlega arði af nýnefndri gjöf, öllum skuldum, sem á honum hvíla, þegar skiptingin fer fram, og enn fremur öllum meðlögum með ómögum og fjárstyrk til þurfamanna, er sveitfesti hafa eignazt í hreppnum, meðan hann var óskiptur, svo og ómagaframfærslu eða þurfamanna, er síðar kynni að koma til og ætti rót sína í félagsskap þeim, sem hingað til hefir átt sér stað milli hinna nýju hreppa, skal skipt milli hreppa þessara þannig, að í hlut Eyrarbakkahrepps komi 2/3, en í hlut hins nýja Stokkseyrarhrepps 1/3.

3) Aðskilnaður hreppanna skal fram fara, er amtið hefir ákveðið tölu hreppsnefndarmanna í hvorum hreppi samkvæmt 2. gr. sveitarstjórnartilskipunarinnar og hinar nýju hreppsnefndir þar eftir hafa verið kosnar, en þær skulu síðan framkvæma skiptinguna á eignum, skuldum og sveitarþyngslum, en verði ágreiningur út af skiptingunni, skal úr honum skorið af hlutaðeigandi sýslunefnd, er einnig skal ákveða um fjallskil og réttir. Hreppsnefndarkosningar fóru fram í báðum hinum nýju hreppum í júnímánuði 1897, og var skiptingin þar með formlega komin í framkvæmd.

Leave a Reply