You are currently viewing 054-Skip og bátar
Teinæringur undir seglum (Skip Jóns hreppstjóra á Hlíðarenda)

054-Skip og bátar

Frá upphafi vega stunduðu Íslendingar fiskveiðar á opnum róðrarskipum. Stærð þeirra og tegundir voru að mestu leyti hinar sömu um allt land, en þó var ákveðin skipastærð hentugri í einni veiðistöð en annarri, og fór það eftir aðstæðum á hverjum stað. Þannig tíðkuðust að jafnaði stærri skip í Þorlákshöfn og Selvogi en á Stokkseyri og Eyrarbakka. Á hinum síðarnefndu stöðum hentuðu minni skipin betur, bæði vegna þess að skammt var á miðin að sækja og ekki sízt fyrir það, að þau voru auðveldari viðfangs í hinum þröngu brimsundum.

Skip þau, er róið var til fiskjar á vetrarvertíðum, greindust eftir ræðafjölda eða því, hve mörgum árum þeim var róið, í tólfæringa, teinæringa,[note]Orðmyndin tein- er mjög forn og er hliðstæð orðunum ten á ensku og zehn á þýzku, sem þýðir tíu. Teinæringur merkir því: skip með tíu árum.[/note]  áttæringa og sexæringa. Voru þau samkvæmt málvenju austanfjalls og víðar kölluð einu nafni skip eða vertíðarskip, þar eð minni fleytum var yfirleitt ekki haldið út á vetrarvertíðum. Hins vegar voru áttæringar og stærri skip nefnd einu nafni stórskip til aðgreiningar frá sexæringum. Allar minni fleytur nefndust bátar, og skiptust þeir eftir sömu reglu sem skipin í fjögramannaför og tveggjamannaför. Eru þau stundum kölluð feræringar og tvíæringar í ritum á síðari tímum til samræmis við skipanöfnin, en ekki voru bátarnir nefndir svo í daglegu tali. Þó er getið um „ferærðan bát“ á Drepstokki á Eyrarbakka um 1300, og er annars staðar á það minnzt.

Hér skal vikið nokkuð að hverri tegund skipa fyrir sig og reynt að gera nokkra grein fyrir þeim. En sá hængur er á því, að sýnilega gætir talsverðs ósamræmis í skýrslum um flokkun skipa eftir stærð. Áður er á það hent, að 1879 er farið að telja áttæringa með sexæringum og 1901 eru fjögramannaförin flokkuð með þeim. Þetta stafar af því, að áhöfn á skipum var venjulega mannfleiri en nöfnin benda til. Á vertíðarskipum voru oft svo nefndir yfirskipsmenn, svo að á tólfæringum var oft 14—16 manna áhöfn, á teinæringum 13-15, á áttæringum 11-13 og á sexæringum 9-10 menn. Yfirskipsmennirnir voru oft og tíðum aldraðir sjómenn, er töldust ekki lengur fullgildir hásetar, eða unglingar, sem voru að læra sjó. Öll voru vertíðarskipin útbúin með aukaræðum, svo að þar gátu róið að minnsta kosti tveir menn auk þeirra, sem nafn skipsins benti til. Oft var talað um stóra sexæringa og stóra áttæringa, og þýðir hið fyrra nokkurn veginn sama sem áttæringur, en hið síðara sama sem teinæringur. Það var því ekki nema von, að flokkun þessara skipa væri nokkuð á reiki.

Tólfæringar munu aldrei hafa verið notaðir á Stokkseyri og Eyrarbakka; til þess voru þeir of stórir og þungir í vöfum á brimsundunum. Á þeim gátu 14 menn verið undir árum, ef aukaræðin voru notuð, og áhöfnin var 14-16 manns. Slík skip voru algeng í Þorlákshöfn á 19. öld.[note] Sig. Þorsteinsson, Þorlákshöfn II, 59.[/note] Líklega hafa þau þó aldrei verið kölluð tólfæringar þar um slóðir, heldur tólfrónir teinæringar eða stórir teinæringar. Þannig eru t. d. nefnd skip þeirra Halldórs Magnússonar í Þorlákshöfn, sem fórst 25. apríl 1840, og Ólafs Jóhannessonar á Dísastöðum, sem fórst 29. marz 1883, hvort um sig með 15 manna áhöfn.[note]Ísl. sagnaþ. og þjóðs. VII, 107; Rauðskinna II, 151.[/note]

Teinæringur undir seglum. (Skip Jóns Hreppstjóra á Hlíðarenda)

Teinæringar munu nokkuð hafa verið notaðir á Stokkseyri, einkum á fyrra hluta 19. aldar, en aldrei verið almennir þar. Á þeim voru 12 menn undir árum, ef aukaræðin voru notuð, og áhöfnin 13 menn hið fæsta. Á Arnarbælisskipinu, sem fórst 1706, voru 13 menn, og tekið er fram í heimildum, að skipið hafi verið teinæringur.[note]Ísl. sagnaþ. og þjóðs. VII, 97.[/note]1 Sama manntal var á skipum þeirra Jóns stromps, er hann hrakti til Þorlákshafnar 1812, og Jóns Jónssonar á Ásgautsstöðum, sem fórst 1815; mætti því ætla, að skip þeirra hafi verið teinæringar. Hins vegar er sagt um skip Tyrfings Snorrasonar, sem fórst 20. marz 1863, einnig með 13 mönnum, að það hafi verið stór áttæringur.[note] Sama rit, VI, 13.[/note] Í þessum dæmum virðist án efa um sams konar skip að ræða, þótt þau séu ekki flokkuð á sama veg. Kringum 1880 eru taldir tveir teinæringar í Stokkseyrarhreppi, en 1887 enginn. Síðasti teinæringsformaður á Stokkseyri, sem mér er kunnugt um, var Jón Guðmundsson á Gamla-Hrauni á árunum 1889-1897. Hann hafði áður verið með skipið í Þorlákshöfn, og það var smíðað fyrir þá veiðistöð. Það var tólfróinn teinæringur, sem „Farsæll“ hét, með 13-14 manna áhöfn.

Áttæringar voru venjulega tírónir, og því er þeim blandað saman við teinæringana. Áhöfn þeirra var 11 menn hið fæsta. Áttæringar voru algengustu róðrarskipin á Stokkseyri á fyrra hluta 19. aldar og allt fram um 1870, en upp úr því fór þeim óðum fækkandi, enda var nokkru síðar tekið að flokka þá með sexæringum, að því er bezt verður séð. Árið 1887 er t. d. enginn áttæringur talinn vera til í Stokkseyrarhreppi. Á síðasta tug aldarinnar komu þeir þó lítils háttar við sögu aftur samfara auknum skipafjölda og kappi um sjósókn.

Sexæringar voru minnstu vertíðarskipin. Um þá gegndi sama máli sem stórskipin, að þeir höfðu tvö aukaræði og urðu þá, sem kallað var, áttrónir. Áhöfnin á þeim var 9 menn hið minnsta, og sú tala var á skipum þeirra Sigurðar Grímssonar í Borg, er fórst 25. marz 1891, Torfa Nikulássonar í Söndu, sem fórst 20. marz 1897, og Ingvars Karelssonar í Hvíld, sem fórst 2. apríl 1908. Eftir 1870 urðu sexæringar algengustu róðrarskipin á Stokkseyri, og 1887 ganga engin önnur vertíðarskip í hreppnum, að því er skýrslur herma. Fáein stærri skip komu þó til síðar. Ætla verður, að sexæringar muni hafa reynzt hentugustu skipin, miðað við staðhætti á Stokkseyri.

Fjögramannaför voru notuð til sjóróðra á vor- og haustvertíðum og þá venjulega skipuð heimamönnum einum. Full áhöfn á þeim var 5 menn hið fæsta, eins og var t. d. á bátum þeirra Einars Einarssonar í Garðhúsum, er honum hlekktist á á Stokkseyrarsundi 28. maí 1881, og Þorkels Magnússonar í Sandprýði, þá er hann drukknaði 4. des. 1899. Stundum vanræktu menn að hafa fulla tölu á bátunum, eins og t. d. Bjarni Einarsson á Stéttum 1808, Jón Jónsson í Kumbaravogi 1823 og Jóhann Bergsson á Stokkseyri 1852, sem drukknuðu nefnd ár, hver um sig við 4. mann í róðri. Hins vegar var áhöfnin á þessum bátum stundum 6 menn; svo var t. d. á báti Jóns Guðmundssonar á Gamla-Hrauni, er hann hélt út þaðan að heiman í mörg ár, enda var kallað, að sá bátur væri stórt fjögramannafar. Má af því marka, að bátar þessir hafa verið nokkuð misjafnir að stærð líkt og vertíðarskipin hvert í sínum flokki. Því er það, að fjögramannaförin eru stundum í skýrslum talin í flokki með sexæringunum.

Loks er að minnast á tveggjamanna/örin. Þeim var stundum róið til fiskjar vor og haust, þegar veður var einsýnt og skammt að fara, en annars voru þau notuð í ýmiss konar skottuferðir, svo sem við hrognkelsaveiði, sölvatekju og því um líkt, enda voru þau stundum kölluð fjörubátar. Algengt var, að einu stórskipi fylgdi einn slíkur bátur til snattferða.

Forðum daga voru höfð taumastýri á róðrarskipum. Voru taumar festir báðum megin á stýrið, en formaður lét þá liggja sinn til hvorrar hliðar við sig og varð að nota báðar hendur til að stýra. Það var því talsverð umbót, er menn tóku að nota stýrissveif í stað taumanna. Svo sagði mér Jón Jónsson hreppstjóri á Hlíðarenda, að fyrsta skipið á Stokkseyri, sem hafði sveifarstýri, hafi verið áttæringurinn „Fortúna“, sem Jón Gíslason á Syðra-Seli, síðar í Meðalholtum, smíðaði handa Grími, bróður sínum, árið 1859. Skipið smíðaði Jón heima á Syðra-Seli, og var Grímur fyrst formaður á því í 5 ár, en þá tók Sigurður Eyjólfsson á Kalastöðum við því. Upp úr þessu fóru sveifarstýrin að ryðja sér til rúms, og útrýmdu þau á næsta áratug (1860-70) taumastýrunum gömlu. Svo sagði Jón á Hlíðarenda, að hann hefði róið, þangað til hann var 18 ára (þ. e. til 1868) hjá Páli Eyjólfssyni í Íragerðí. Hafði Páll allan þann tíma taumastýri, en þá voru flestir búnir að taka upp sveif.

Eigi voru segl notuð á skipum á Stokkseyri á fyrra hluta 19. aldar. Það sagði mér Daníel Arnbjarnarson frá Björgvin á Stokkseyri, sem langt mundi fram, að Stokkseyringar hefðu almennt notað segl á áttunda tug aldarinnar, en hins vegar hefðu þau ekki verið tekin upp á Loftsstöðum fyrr en síðar, og bendir það til, að þá hafi ekki verið langt um liðið, síðan þau fóru að tíðkast eystra. Seglin voru klýfír, staffokka, stórsegl og aftursegl, og kvað Daníel seglaútbúnað hafa verið alveg hinn sama sem tíðkaðist á Álftanesi. Virðist af því mega ráða, að Stokkseyringar hafi mjög fljótlega tekið upp hinn endurbætta seglabúnað, sem Kristinn Magnússon í Engey kom fram með árið 1870 og almennur varð við Faxaflóa síðan í tíð áraskipanna.[note]Sbr. Þættir úr sögu Reykjavíkur, 52-53.[/note]

Leave a Reply