090-Reykvísku útibúin

Í ársbyrjun 1896 stofnuðu fjórir menn í Reykjavík til félagsskapar með sér um verzlunarrekstur á Stokkseyri. Menn þessir voru Björn Kristjánsson kaupmaður, síðar bankastjóri og ráðherra, er ættaður var frá Hreiðurborg í Flóa, bræðurnir Jóhannes og Sigurður Einarssynir fá Eyvík í Grímsnesi og Jón kaupmaður Þórðarson frá Leirubakka á Landi. Forgöngumaður þessa félagsskapar mun hafa verið Björn Kristjánsson. Hann hafði nokkrum árum áður, 1892, haft milligöngu um sauðasölu til Englands fyrir bændur í Árnessýslu og útvegað þaðan vörur með mjög hagstæðu verði, einnig selt hross til Englands fyrir hærra verð en tíðkaðist hjá öðrum.[note]Sbr. Ágúst Helgason, Endurminningar, bls. 155-56.[/note] Um sömu mundir hafði hann og farið fram á styrk frá sýslunefnd Árnessýslu til gufubátsferða til að greiða fyrir flutningum og samgöngum við héraðið og stungið upp á að nota Ölfusá sem höfn, en ekki sinnti sýslunefnd þeirri málaleitun. f viðskiptum við bændur hafði Björn jafnan reynzt vel. Hugðist hann nú ná betur til þeirra með því að setja á fót verzlun á Stokkseyri.

Fyrsta verk þeirra fjórmenninganna var að tryggja sér verzlunaraðstöðu á Stokkseyri, og 18. jan. 1896 keyptu þeir hafnarréttindi og skipalægi á Stokkseyrarhöfn af Grími Gíslasyni í Óseyrarnesi fyrir 4700 kr. og hálft vörugeymsluhús hans, austurhlutann, fyrir 3000 kr. Voru samningar um kaup þessi þinglesnir 30. maí um vorið. Jafnframt fekk Jón Þórðarson 21. febrúar verzlunarleyfi á Stokkseyri fyrir hönd þeirra félaga undir firmanafninu Jón Þórðarson & Co. Hófu þeir verzlun um vorið. Verzlunarstjóri fyrir þá var Jón Jónasson frá Keldnakoti, síðar kaupmaður og hreppstjóri á Stokkseyri. Hann hafði áður verið víð verzlunarstörf hjá Birni Kristjánssyni í Reykjavík, traustur maður og áreiðanlegur. Honum til aðstoðar var Sigurgeir Jónsson verzlunarmaður frá Hólakoti í Ytrihrepp.

Verzlun Jóns Þórðarsonar og félaga hans á Stokkseyri stóð aðeins í tvö ár. Þeir höfðu að vísu allmikla verzlun, en stofnkostnaður var mikill og erfiðleikar með rekstrarfé á þeim tímum. Mun það einkum hafa valdið því, að þeir seldu verzlunina vorið 1898, og var kaupandinn Edinborgarverzlun í Reykjavík eða Ásgeir Sigurðsson forstöðumaður hennar fyrir hönd Copland & Berrie í Leith. Fekk Ásgeir borgarabréf til þess að verzla á Stokkseyri 28. maí 1898. Keypti Edinborgarverzlun hafnarréttindi og húseignir Jóns Þórðarsonar og félaga hans á Stokkseyri fyrir 11500 kr. Fór afhending fram 1. maí, en kaupin fullgerð 1. júní 1898 og verzlunin opnuð.

Edinborgarverzlun var um þessar mundir í miklum uppgangi, stofnaði útbú víða um land og var að ýmsu leyti rekin með nýtízkulegra sniði en þá tíðkaðist hér á landi, notaði t. d. mikið auglýsingar. Um það leyti sem útbúið tók til starfa, setti Ásgeir Sigurðsson stóra auglýsingu í Ísafold um það, að með skipunum „Orlando“, ,,Solid“ og „Ingólfi“ hafi komið til Edinborgarverzlunar á Stokkseyri margs konar vörur, sem þar eru upp taldar.[note]Ísafold, 11. og 18. júní 1898.[/note]

Það þóttu góð tíðindi, er Edinborgarverzlun hóf starfsemi austanfjalls, því að hún seldi vörur með góðu verði og jafnvel lægra en aðrir og greiddi saltfisk í gulli bæði í Reykjavík og á útbúunum, en slíkt var þá nýjung. Jókst verzlun á Stokkseyri til muna við tilkomu Edinborgarverzlunar, og voru þá góð ár. Fekk verzlunin marga skipsfarma árlega. Fjölgaði enn fólki í þorpinu, og var því haldið fram af sumum, að enska gullið hefði byggt Stokkseyri. Það var þó raunar orðum aukið, enda bjuggu menn skamma stund að því gulli. Þrátt fyrir mikil viðskipti varð halli á rekstri útbúsins á Stokkseyri og eftir fimm ár hætti það störfum. Hinn 1. maí 1903 seldi Ásgeir Sigurðsson Ólafi kaupmanni Árnasyni hús og aðrar eignir verzlunarinnar þar á staðnum fyrir 16500 kr. að undanskildum vörum. Þær voru seldar á útsölu næstu daga á undan með niðursettu verði, og gerðu þar margir góð kaup.

Verzlunarstjóri Edinborgarverzlunar á Stokkseyri var Jón Jónasson, sem áður er nefndur, en aðrir helztu starfsmenn voru Sigurgeir Jónsson, Tómas Gíslason, síðar kaupmaður á Sauðárkróki, Helgi Jónsson, síðar verzlunarstjóri Ingólfs, Ingvar Jónsson frá Stokkseyri og Þórður Jónsson, síðar bóksali.

Geta skal hér aðeins tveggja skipa, sem sigldu til Edinborgarverzlunar á þessum árum. ,,Orlando“, sem áður var minnzt á, var norskt skip og sigldi hingað til lands fyrir og um aldamótin. Skipstjóri á því hét Simonsen, fullorðinn maður, kom hingað sem lausakaupmaður með timbur og var svo í flutningum milli hafna. Til Stokkseyrar kom hann á árunum 1896-98 og ef til vill lengur. Það er í frásögur fært um hann að sögn háseta hans, að hann keypti helzt kjöt af gömlum kúm til skipsins, og gamalkú keypti hann einu sinni á Stokkseyri og lét háseta sína annast slátrun. Voru þeir allt annað en ánægðir með þann starfa og sögðu fæðið eftir þessu, en út yfir tæki þó, að hann léti þá fara tvisvar á hverjum degi niður í káetu til sín til þess að hlýða á húslestur og sálmasöng.

Ekki fara sögur af tjóni á skipum Edinborgarverzlunar eystra nema ,.Kamp“ frá Mandal, sem strandaði á Þykkvabæjarfjörum 18. apríl 1900. Skipið var á leið frá Leith til Stokkseyrar, hreppti hvassviðri þennan dag og lagðist við akkeri undan Þykkvabæ, en slitnaði upp og rak á land að aflíðandi nóni. Drukknuðu þrír menn, stýrimaður meiddist nokkuð á höfði og skipstjóri lærbrotnaði mjög illa.[note] Þjóðólfur, 27. apríl (sbr. 4. maí) 1900; Ísafold, 28. apríl 1900.[/note] Hann hét Hansen, ungur og glæsilegur maður. Sóttir voru til hans tveir læknar, og lá hann lengi sumars í húsi Guðmundar Guðmundssonar læknis á Stokkseyri, greri um síðir, en gekk haltur. Einu eða tveimur árum síðar kom hann sem skipstjóri til Reykjavíkur og fór þá austur á Stokkseyri til að heilsa upp á kunningja sína þar. Uppboð mikið var haldið á strandstaðnum á vörum úr skipinu. Þar var hestburðurinn af kornmat seldur á 1.50 kr. til jafnaðar. Skipsskrokkurinn mastralaus fór á 21 krónu.

Leave a Reply